NÁLÆGÐU ÞIG GUÐI
Hann er Guð lifenda
Er dauðinn máttugri en Guð? Nei, alls ekki. Hvernig gæti dauðinn eða nokkur annar ,óvinur‘ verið máttugri en „almáttugur Guð“? (1. Korintubréf 15:26; 2. Mósebók 6:3) Guð hefur vald til að afmá dauðann með upprisunni og hann hefur lofað að gera það í nýjum heimi sínum.a Hversu öruggt er þetta loforð? Orð Jesú, sonar Guðs, sannfæra okkur um að þetta loforð rætist. – Lestu Matteus 22:31, 32.
Þegar Jesús talaði við saddúkeana, sem trúðu ekki á upprisu, sagði hann: „En um upprisu dauðra ættuð þið að hafa lesið það sem Guð segir við ykkur: Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs. Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda.“ Jesús er að vísa í samtal sem Guð átti við Móse hjá runnanum logandi árið 1514 f. Kr. (2. Mósebók 3:1-6) Jesús bendir á að það sem Jehóva sagði við Móse, „ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs“, bendi til þess að upprisuvonin rætist örugglega. Hvernig má það vera?
Skoðum málið betur. Þegar Jehóva talaði við Móse voru ættfeðurnir Abraham, Ísak og Jakob löngu dánir. Það voru 329 ár liðin frá dauða Abrahams, 224 ár frá dauða Ísaks og 197 ár frá dauða Jakobs. Engu að síður sagði Jehóva: „Ég er“ – en ekki „ég var“ – Guð þeirra. Af hverju talaði Guð um þessa þrjá látnu ættfeður eins og þeir væru enn á lífi?
Jesús útskýrði það nánar þegar hann sagði: „Ekki er hann [Jehóva] Guð dauðra heldur lifenda.“ Hugleiddu hvað þetta merkir. Ef Abraham, Ísak og Jakob fengju aldrei upprisu væri Jehóva í raun Guð dauðra manna. Það myndi þýða að dauðinn væri máttugri en Jehóva og hann hefði ekki kraft til að frelsa trúfasta þjóna sína úr greipum dauðans.
Að hvaða niðurstöðu komumst við þá um Abraham, Ísak, Jakob og alla trúfasta þjóna Jehóva sem hafa dáið? Jesús sagði þessi áhrifamiklu orð: „Því að honum lifa allir.“ (Lúkas 20:38) Fyrirætlun Jehóva um að reisa trúfasta þjóna sína upp frá dauðum er svo örugg að fyrir honum er eins og þeir séu lifandi. (Rómverjabréfið 4:16, 17) Jehóva geymir þá alla í takmarkalausu minni sínu þar til hann reisir þá upp til lífs í fyllingu tímans.
Jehóva er langtum máttugri en dauðinn.
Myndi þig langa til að hitta látinn ástvin á nýjan leik? Hafðu þá í huga að Jehóva er langtum máttugri en dauðinn. Ekkert mun standa í vegi fyrir því að hann uppfylli loforð sitt um að reisa fólk upp frá dauðum. Viltu vita meira um upprisuvonina og um Guð sem hefur máttinn til að láta hana rætast? Ef þú gerir það eignastu nánara samband við Jehóva, sem er „Guð . . . lifenda“.
Tillaga að biblíulestri í mars og apríl
Markús 9-16 Lúkas 1-21
a Í 7. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? er að finna fleiri upplýsingar um loforð Guðs um upprisu til lífs í réttlátum nýjum heimi. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.