Drepsóttir — tákn endalokanna?
ERU drepsóttir okkar tíma vísbending um að heimsendir sé í nánd? Áður en við svörum þeirri spurningu skulum við kanna hvað átt er við með orðinu „heimsendir.“
Margir álíta að heimsendir sé fólginn í því að Guð eyði jörðinni og öllu lífi á henni. En orð Guðs segir að hann hafi „myndað hana svo, að hún væri byggileg.“ (Jesaja 45:18) Það er ætlun hans að fylla jörðina heilbrigðu, hamingjusömu fólki sem þráir að fylgja réttlátum kröfum hans. Heimsendir er því ekki það að jörðin líði undir lok ásamt öllum íbúum sínum heldur að núverandi heimskerfi líði undir lok ásamt þeim sem neita að gera vilja Guðs.
Það má sjá af orðum Péturs postula sem skrifaði: „Gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var [á dögum Nóa], svo að hann fórst.“ Þegar heiminum var eytt á dögum Nóa voru það óguðlegir menn sem fórust. Jörðin stóð ásamt hinum réttláta Nóa og fjölskyldu hans. Eins og Pétur segir síðan ætlar Guð að láta til sín taka aftur í framtíðinni og ‚tortíma óguðlegum mönnum.‘ — 2. Pétursbréf 3:6, 7.
Aðrar ritningargreinar ítreka þetta hvað eftir annað. Til dæmis segja Orðskviðirnir 2:21, 22: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið [eða jörðina], og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ — Sjá einnig Sálm 37:9-11.
Drepsóttir og heimsendir
En hvenær gerist þetta? Fjórir af lærisveinum Jesú lögðu þessa spurningu fyrir hann. Þeir spurðu: „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ Jesús svaraði: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.“ (Matteus 24:3, 7) Samkvæmt samstofna frásögu Lúkasar 21:10, 11 bætti Jesús við: „Þá verða . . . drepsóttir . . . á ýmsum stöðum, en ógnir og tákn mikil á himni.“
Taktu eftir að Jesús sagði ekki að drepsóttir einar sér yrðu tákn þess að endirinn væri í nánd. Hann taldi líka upp miklar styrjaldir, jarðskjálfta og hallæri. Í ítarlegum spádómi sínum í Matteusi 24. og 25. kafla, Markúsi 13. kafla og Lúkasi 21. kafla spáði Jesús mörgu öðru sem gerast átti. Allt þurfti það að gerast á sama tímabili áður en Guð léti til skarar skríða og byndi enda á illskuna á jörðinni. Það eru sterk rök fyrir því að við lifum núna á því tímabili.
Paradísin framundan
Mannkyninu verður ekki útrýmt, hvorki af völdum drepsótta né af hendi Guðs. Jehóva Guð lofar að breyta jörðinni í paradís. (Lúkas 23:43) Meðal annars upprætir hann þá sjúkdóma sem hrjá mannkynið.
Við fáum vissu fyrir því þegar við virðum fyrir okkur þjónustu Jesú Krists sem endurspeglaði eiginleika föður síns fullkomlega. Með krafti frá himneskum föður sínum læknaði Jesús halta, fatlaða, blinda og mállausa. (Matteus 15:30, 31) Hann læknaði holdsveika. (Lúkas 17:12-14) Hann læknaði konu með langvinnar blæðingar, mann með visna hönd og vatnssjúkan mann. (Markús 3:3-5; 5:25-29; Lúkas 14:2-4) Hann læknaði „tunglsjúka [flogaveika] menn og lama.“ (Matteus 4:24) Þrívegis reisti hann upp dána! — Lúkas 7:11-15; 8:49-56; Jóhannes 11:38-44.
Þessar kraftaverkalækningar eru staðfesting á því loforði Guðs að í framtíðinni, sem hann skapar, muni ‚enginn borgarbúi segja: „Ég er sjúkur.“‘ (Jesaja 33:24) Aldrei framar fá farsóttir og drepsóttir að ræna fólk heilsu og lífi. Við megum vera innilega þakklát fyrir að kærleiksríkur skapari okkar sé bæði fær um og fús til að uppræta sjúkdóma manna og mein algerlega og að eilífu. — Opinberunarbókin 21:3, 4.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Jesús fékk kraft frá Guði til að lækna sjúka.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Í paradís framtíðarinnar hér á jörð upprætir Jehóva alla sjúkdóma og öll mein.