Biblían og framtíð þín
HVERS vegna getur höfundur Biblíunnar, Jehóva Guð, sagt framtíðina nákvæmlega fyrir en maðurinn ekki? Til þess eru tvær ástæður. Önnur er sú að Jehóva er almáttugur og hin að hann er alvitur. Maðurinn er það ekki.
„Ég er Almáttugur Guð,“ sagði Jehóva Abram (Abraham) fyrir nálega 4000 árum.a „Gakk þú fyrir mínu augliti og ver grandvar, þá vil ég gjöra sáttmála milli mín og þín, og margfalda þig mikillega.“ Þegar Abraham var 99 ára og kona hans, Sara, tíu árum yngri, komin úr barneign, sagði Jehóva fyrir að Abraham myndi verða faðir „margra þjóða.“ (1. Mósebók 17:1-4) Með því að Jehóva er almáttugur, alvaldur, notaði hann mátt sinn til að yfirstíga sérhverja hindrun í vegi þess að loforð hans við Abraham rættist, svo að honum fæddist Ísak. Með tíð og tíma urðu afkomendur ættföðurins Abrahams fjölmargir, bæði Ísraelsþjóðin og fleiri. — 1. Mósebók 21:1-3; 25:1-4.
Jehóva er líka alvitur — hann veit allt. Hann getur séð fyrir hvaðeina sem hann vill sjá fyrir. Um hann er sagt: „Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.“ — Hebreabréfið 4:13.
Að Guð skuli vera alvaldur og alvitur veldur því að honum getur aldrei skjátlast. Hann segir framtíðina alltaf nákvæmlega fyrir. Því gat hann sagt: „Sannlega, það, sem ég hefi fyrirhugað, það skal verða, og það, sem ég hefi ályktað, skal framgang fá.“ (Jesaja 14:24) Við skulum athuga nokkra af þeim mörgu biblíuspádómum sem hafa ræst.
Spádómar sem uppfylltust í fortíðinni
Babýlon var einu sinni leppríki assýrska heimsveldisins. Á sjöundu öld var borgin orðin að því er virtist ósigrandi höfuðborg babýlonska heimsveldisins. En hvernig átti að fara fyrir henni? „Svo skal fara fyrir Babýlon . . . sem þá er Guð umturnaði Sódómu og Gómorru. Hún skal aldrei framar af mönnum byggð vera, kynslóð eftir kynslóð skal þar enginn búa.“ Þannig spáði orð Guðs nálega hundrað árum áður en Babýlon varð voldugt heimsveldi, og um 200 árum áður en hún féll fyrir Medum og Persum. Enginn nútímamaður getur neitað því að þessi orð hafi ræst. Um margar aldir hefur borgin Babýlon ekki verið annað en grjóthrúga. Babýlon er ekki til lengur. — Jesaja 13:19, 20.
Á fyrstu öldinni stóð í Jerúsalem hið dýrlega musteri helgað tilbeiðslunni á Jehóva. En Biblían geymir þessi orð Jesú Krists um Jerúsalem og þá kynslóð sem heyrði orð hans: „Þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér.“ (Lúkas 19:43, 44) Jesús mælti þessi orð árið 33, en það var ekki fyrr en árið 66 að rómverskur her settist um borgina. Þótt sigur virtist auðsær hurfu Rómverjar á brott svo undarlegt sem það er. En árið 70 settist rómverskur her aftur um borgina, sem þá var yfirfull fólki er þangað hafði komið til páskahalds, og reisti um hana stauragirðingu. Um fimm mánuðum síðar lá Jerúsalem í rústum. Menn ætla að 1,1 milljón þegna hennar hafi legið í valnum.
Spádómar sem nú eru að uppfyllast
Langar þig til að fá nútímadæmi um uppfyllta biblíuspádóma? Það er auðvelt því að Jesús sagði fyrir atburði er einkenna skyldu tíma sem nefndir eru ‚síðustu dagar.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þessir spádómar mynda til samans „tákn“ — tákn þess að síðustu dagar hinnar núverandi illu heimsskipanar séu gengnir í garð. (Matteus 24:3) Sönnunargögnin fyrir því að spádómur Jesús sé að uppfyllast hafa vaxið jafnt og þétt frá árinu 1914. Raunar hefur þú sjálfur séð hann rætast. Hér á eftir eru taldir upp nokkrir áberandi þættir ‚táknsins.‘
Framtíð jarðarinnar — færð þú að sjá hana?
Hvað er framundan? Biblían geymir fleiri spádóma sem enn eiga eftir að rætast. Meðal þeirra eru spádómar sem fjalla um að jörðin verði hreinsuð af allri illsku og réttlæti eigi að ríkja hvarvetna á byggðu bóli. Höfðar sú framtíð til þín? Trúir þú að Jehóva búi yfir visku og mætti til að breyta til batnaðar því sem aflaga hefur farið á jörðinni? Ef svo er langar þig eflaust til að vita hverju Biblían spáir um framtíð jarðarinnar.
Láttu þetta vera þína framtíð
Til að þetta geti orðið þín framtíð þarft þú að gera eitthvað núna. Innan tíðar, áður en spádómarnir hér á undan rætast, mun Jehóva „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18) Í Sefanía 2:3 ráðleggur Biblían: „Leitið [Jehóva], allir þér hinir auðmjúku í landinu, þér sem breytið eftir hans boðorðum. Ástundið réttlæti, ástundið auðmýkt, vera má að þér verðið faldir á reiðidegi [Jehóva].“ Notaðu tímann því viturlega til að afla þér nákvæmrar þekkingar á Biblíunni og spádómum hennar, svo að breytni þín verði sjálfum þér og ástvinum þínum til gagns. Vottar Jehóva eru reiðubúnir að hjálpa þér að afla nákvæmari vitneskju um framtíðina eins og orð Guðs, Biblían, opinberar hana.
[Neðanmáls]
a Í Hebresku ritningunum er Jehóva nefndur „almáttugur“ eða „hinn almáttki“ (shaddai) 48 sinnum, þar á meðal sjö sinnum „Guð almáttugur“ (el shaddai), og í Grísku ritningunum er hann tíu sinnum nefndur „Hinn alvaldi“ (pantokrator).
[Rammi/myndir á blaðsíðu 5]
„Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki.“ (Matteus 24:7) Fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 og náði áður en yfir lauk til 93 af hundraði jarðarbúa að því er talið er. Í herjum þjóðanna eru nú 106 milljónir manna eða einn hermaður á hverja 43 jarðarbúa. Í skýrslu segir: „Ekkert í sögu liðinna alda er á nokkurn hátt líkt núverandi uppbyggingu eyðingarmáttarins í heiminum eða þeirri ógn sem mannkyninu stafar af honum.“ — World Military and Social Expenditures 1985.
[Credit line]
Ljósmynd: Bandaríski herinn.
„Þá verður hungur . . . á ýmsum stöðum.“ (Matteus 24:7) Sjálfstæð nefnd sem fjallar um mannréttindamál á alþjóðavettvangi segir í skýrslu fyrir 1985 um hungursneyð: „Þegar síðasta, stóra hungursneyðin reið yfir Afríku snemma á áttunda áratugnum var talið að 80 milljónir Afríkubúa byggju við varanlegt hungur og vannæringu. Sú tala er nú komin upp í 100 milljónir.“
[Credit line]
Ljósmynd: FAO/B. Imevbore
„Þá verða landskjálftar miklir.“ (Lúkas 21:11) Reynslan hefur sannarlega verið sú frá 1914. Til dæmis fórust 142.800 manns í jarðskálfta í Kanto í Japan árið 1923. Um 60.000 týndu lífi í jarðskálfta í Quetta í Pakistan árið 1935. 66.700 fórust í norðurhluta Perú árið 1970. Árið 1976 létust um 800.000 af völdum jarðskálfta í Tanshan í Kína.
„En fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ (Markús 13:10) Árið 1985 vörðu vottar Jehóva yfir 590 milljónum klukkustunda í að prédika fagnaðarerindið um ríki Guðs í 205 löndum og eyjaklösum. Þeir héldu 2.379.000 heimabiblíunám og dreifðu yfir 350 milljónum biblía og rita til skýringar á Biblíunni meðal áhugasamra.
[Rammi/myndir á blaðsíðu 6]
„Þær [þjóðirnar] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ (Jesaja 2:4) Himneskt ríki Guðs mun skapa grundvöll algerrar afvopnunar á jörðinni. Friður mun ríkja!
„[Jehóva] allsherjar mun á þessu fjalli búa öllum þjóðum veislu með krásum, veislu með dreggjavíni, mergjuðum krásum og skírðu dreggjavíni.“ (Jesaja 25:6) Undir réttlátri stjórn og blessun Guðs mun jörðin gefa ríkulega af sér. Hungur verður ekki til framar!
„Hann mun afmá dauðann að eilífu, og hinn alvaldi [Jehóva] mun þerra tárin af hverri ásjónu.“ „Og engin borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘ “ (Jesaja 25:8; 33:24) Enginn sjúkdómur eða veikindi munu standast lækningu Guðs. Hann ætlar jafnvel að tæma gröfina af fórnarlömbum sínum. Verður ekki unaðslegt að geta tekið á móti upprisnum ástvinum?