Kafli 130
Við Galíleuvatn
POSTULARNIR halda nú aftur til Galíleu eins og Jesús hafði sagt þeim, en vita ekki almennilega hvað þeir eiga að gera þar. Skömmu síðar segir Pétur þeim Tómasi, Natanael, bræðrunum Jakobi og Jóhannesi og tveim öðrum postulum: „Ég fer að fiska.“
„Vér komum líka með þér,“ segja sexmenningarnir.
Þeir eru að alla nóttina en fá ekkert. Í dagrenningu birtist Jesús á ströndinni en postularnir átta sig ekki á að það sé hann. Hann kallar: „Drengir, hafið þér nokkurn fisk?“
„Nei,“ kalla þeir til baka yfir vatnið.
„Kastið netinu hægra megin við bátinn, og þér munuð verða varir,“ segir hann. Og þegar þeir gera það kemur svo mikill fiskur í netið að þeir geta ekki dregið það inn.
„Þetta er Drottinn,“ hrópar Jóhannes.
Þegar Pétur heyrir það bregður hann yfir sig flík, því að hann var fáklæddur, og stekkur út í vatnið. Síðan syndir hann um 90 metra til strandar. Hinir postularnir elta á bátnum og draga með sér fullt netið af fiski.
Þegar þeir stíga á land sjá þeir fisk lagðan á glóðir og brauð. „Komið með nokkuð af fiskinum, sem þér voruð að veiða,“ segir Jesús. Pétur fer í bátinn og dregur netið á land, en í því eru 153 stórir fiskar!
„Komið og matist,“ segir Jesús.
Enginn þeirra þorir að spyrja: „Hver ert þú?“ enda vita þeir allir að það er Jesús. Þetta er í sjöunda sinn sem Jesús birtist eftir upprisuna og í þriðja sinn sem hann birtist hópi postula. Hann ber nú fram morgunverð og gefur hverjum þeirra brauð og fisk.
Þegar þeir hafa matast spyr Jesús Pétur og horfir líklega á allan fiskaflann: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessa?“ Eflaust á hann við hvort Pétur vilji frekar vera fiskimaður en vinna það verk sem Jesús hefur búið hann undir.
„Þú veist, að ég elska þig,“ svarar Pétur.
„Gæt þú lamba minna,“ svarar Jesús.
Aftur spyr hann: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“
„Já, Drottinn, þú veist, að ég elska þig,“ svarar Pétur einlæglega.
„Ver hirðir sauða minna,“ segir Jesús aftur.
Síðan spyr hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“
Pétur hryggist við. Kannski spyr hann sig hvort Jesús efist um hollustu hans. Pétur hafði svo sem neitað þrívegis að þekkja Jesú þegar Jesús var fyrir rétti skömmu áður. Hann segir því: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist, að ég elska þig.“
„Gæt þú sauða minna,“ segir Jesús í þriðja sinn.
Jesús notar Pétur þannig sem dæmi til að leggja áherslu á það við hina hvaða verk hann vilji að þeir vinni. Bráðlega yfirgefur hann jörðina og hann vill að þeir taki forystuna í að þjóna þeim sem verða leiddir inn í sauðabyrgi Guðs.
Eins og Jesús var bundinn og líflátinn fyrir að vinna það verk sem Guð fól honum, eins opinberar hann nú að Pétur verði fyrir einhverju svipuðu. „Þegar þú varst ungur, bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir,“ segir hann, „en þegar þú ert orðinn gamall, munt þú rétta út hendurnar, og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Enda þótt píslarvættisdauði bíði Péturs hvetur Jesús hann: „Fylg þú mér.“
Pétur snýr sér við, sér Jóhannes og spyr: „Drottinn, hvað um þennan?“
„Ef ég vil, að hann lifi, þangað til ég kem, hverju skiptir það þig?“ svarar Jesús. „Fylg þú mér.“ Margir lærisveinanna skildu þessi orð Jesú svo að Jóhannes postuli myndi aldrei deyja. En eins og Jóhannes postuli útskýrði síðar sagði Jesús ekki að hann myndi ekki deyja heldur einfaldlega: „Ef ég vil, að hann lifi, þangað til ég kem, hverju skiptir það þig?“
Síðar sagði Jóhannes annað sem er athyglisvert: „Margt er það annað, sem Jesús gjörði, og yrði það hvað eina upp skrifað, ætla ég, að öll veröldin mundi ekki rúma þær bækur, sem þá yrðu ritaðar.“ Jóhannes 21:1-25 vers 15a samkvæmt NW; Matteus 26:32; 28:7, 10.
▪ Hvað sýnir að postularnir eru í vafa um hvað þeir eigi að gera í Galíleu?
▪ Hvernig þekkja postularnir Jesú við Galíleuvatn?
▪ Hve oft hefur Jesús nú birst frá upprisu sinni?
▪ Hvernig leggur Jesús áherslu á hvað hann vilji að postularnir geri?
▪ Hvernig segir Jesús til um með hvaða hætti Pétur deyi?
▪ Hvaða orð Jesú um Jóhannes misskilja margir lærisveinanna?