Vinnum drottinholl með Jehóva
„Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.“ — SÁLMUR 71:17.
1. Hvers vegna getum við sagt að vinna sé gjöf Jehóva?
VINNA er ein af gjöfum Guðs til manna. Jehóva sagði fyrstu foreldrum okkar, Adam og Evu: „Uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna.“ Það var verkefni sem kallaði á framtak og áræði en þó vel á færi þeirra. Sú áreynsla líkama og huga, sem það útheimti, myndi gera þeim lífið ánægjulegt umfram það er nokkurt dýr fékk notið. — 1. Mósebók 1:28.
2, 3. (a) Hvernig líta margir á vinnu og hvers vegna? (b) Hvaða sérstakt starf er íhugunarvert fyrir okkur?
2 Jafnvel í ófullkomleika okkar er ‚strit,‘ sem veitir okkur ‚fögnuð,‘ „Guðs gjöf“ eins og spekingurinn Salómon skrifaði. (Prédikarinn 3:13) Maðurinn þarf eftir sem áður að beita hæfni huga og líkama. Honum líður illa ef hann hefur ekkert fyrir stafni. Þó er ekki öll vinna heilnæm eða uppbyggjandi. Fyrir margan manninn er vinnan lýjandi strit sem er nauðsynlegt til þess eins að draga fram lífið.
3 Til er umbunarríkt starf sem öllum er boðið að taka þátt í. Þeir sem gera það þurfa þó að sigrast á ýmsum erfiðleikum og andstæðingum. Hvers vegna er þýðingarmikið að við séum hæf til þátttöku í þessu starfi? Hvernig gerum við það? Áður en við svörum þessum spurningum skulum við spyrja:
Fyrir hvern vinnum við?
4. Hvers konar starf veitti Jesú gleði og lífsfyllingu?
4 Jesús Kristur sagði: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“ (Jóhannes 4:34) Það veitti Jesú mikla gleði og lífsfyllingu að vinna drottinhollur fyrir Jehóva. Það veitti honum tilgang í lífinu og við lok þriggja og hálfs árs þjónustu gat hann með sanni sagt við himneskan föður sinn: „Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna.“ (Jóhannes 17:4) Andleg störf eru eins og næring fyrir okkur, líkt og bókstaflegur matur. Jesús lagði á það áherslu við annað tækifæri er hann hvatti: „Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs.“ (Jóhannes 6:27) Vinna, sem er andlega ófrjó, leiðir aftur á móti til vonbrigða og dauða.
5. Hverjir stóðu gegn hinu góða starfi Jesú og hvers vegna?
5 „Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig.“ Jesús beindi þessum orðum til Gyðinga sem fundu að því að hann skyldi á hvíldardegi hafa læknað mann er hafði verið sjúkur í 38 ár. (Jóhannes 5:5-17) Þótt Jesús ynni verk Jehóva neituðu trúarlegir andstæðingar að viðurkenna það og gerðu allt sem þeir gátu til að stöðva hann. Hvers vegna? Vegna þess að þeir voru frá föður sínum, Satan djöflinum, honum sem hefur alltaf verið á móti starfi Jehóva. (Jóhannes 8:44) Með því að Satan getur ‚tekið á sig ljósengilsmynd‘ og beitt „alls konar ranglætisvélum“ þurfum við að hafa andlega dómgreind og skýra hugsun til að sjá verk hans í réttu ljósi. Að öðrum kosti eigum við á hættu að vinna gegn Jehóva. — 2. Korintubréf 11:14; 2. Þessaloníkubréf 2:9, 10.
Andstæðingar að verki
6. Hvers vegna eru fráhvarfsmenn „svikulir verkamenn“? Lýstu með dæmi.
6 Sumir, líkt og vissir fráhvarfsmenn nú á dögum, vinna sem útsendarar Satans að því að grafa undan trú nýlegra meðlima kristna safnaðarins. (2. Korintubréf 11:13) Í stað þess að nota einungis Biblíuna sem grundvöll sannra kenninga einbeita þeir sér að því að gera Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar tortryggilega, rétt eins og vottar Jehóva væru algjörlega háðir henni. En svo er ekki. Í nálega heila öld notuðu vottar Jehóva fyrst og fremst King James-þýðinguna, hina kaþólsku Douay-þýðingu eða hverja þá þýðingu aðra sem til var á þeirra máli, til að kynnast sannleikanum um Jehóva og tilgang hans. Og þeir notuðu þessar gömlu biblíuþýðingar til að boða sannleikann um ástand hinna dánu, segja frá sambandi Guðs og sonar hans og sýna fram á hvers vegna einungis lítil hjörð færi til himna. Vel upplýst fólk veit líka að vottar Jehóva halda áfram að nota margar þýðingar Biblíunnar í kristniboðsstarfi sínu um víða veröld. Frá 1961 hafa þeir auk þess getað notað Nýheimsþýðinguna sem er bæði auðlesin, nákvæm og byggir á nýjustu þekkingu.
7. (a) Hvers vegna afneitar Jesús mörgum sem játa trú á hann? (b) Hvers vegna er þýðingarmikið að fara eftir leiðbeiningunni í 1. Jóhannesarbréfi 4:1?
7 Jesús sagðist myndu afneita mörgum sem játuðu trú á hann. Hann viðurkenndi að þeir gætu kannski spáð, rekið út illa anda og ‚gert mörg kraftaverk‘ í nafni hans. Samt sem áður kallar hann þá „illgjörðamenn.“ (Matteus 7:21-23) Hvers vegna? Vegna þess að þeir gera ekki vilja föður hans á himnum og eru því einskis nýtir í augum Jehóva Guðs. Óvenjuleg verk, sem jafnvel virðast kraftaverk, geta eftir sem áður verið verk blekkingameistarans mikla, Satans. Jóhannes postuli, sem skrifaði hið fyrsta almenna bréf sitt liðlega 60 árum eftir dauða og upprisu Jesú, ráðlagði kristnum mönnum að ‚trúa ekki sérhverjum anda, heldur reyna andana, hvort þeir væru frá Guði.‘ Við þurfum að gera það líka. — 1. Jóhannesarbréf 4:1.
Verk sem ekki hafa umbun í för með sér
8. Hvað ættum við að láta okkur finnast um verk holdsins?
8 Jafnvel þótt við vinnum ekki verk sem stríða gegn andlegum markmiðum er erfiði okkar til einskis ef það heldur áfram að þjóna löngunum hins fallna holds. Pétur postuli sagði að við hefðum nógu lengi „gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun.“ (1. Pétursbréf 4:3, 4) Þessi orð merkja auðvitað ekki að allir, sem eru núna vígðir, kristnir menn, hafi stundað slíkt, en það merkir að viðhorf þeirra sem hafa gert það ættu að hafa breyst hratt jafnhliða því að andleg sjón þeirra hefur skerpst. Heimurinn talar illa um þá fyrir vikið, en það kemur ekki á óvart. Hvað sem því líður verða þeir að breyta sér ef þeir eiga að verða drottinhollir verkamenn í þjónustu Jehóva. — 1. Korintubréf 6:9-11.
9. Hvað lærum við af lífsreynslu votts sem hóf nám í óperusöng?
9 Jehóva hefur gefið okkur margar gjafir til yndisauka, meðal annars tónlistargáfu. En „allur heimurinn er á valdi hins vonda,“ Satans djöfulsins, og því hlýtur tónlistarheimurinn vera meðtalinn. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Já, tónlist getur verið varhugarverð snara eins og Sylvana uppgötvaði. Henni stóð til boða nám í óperusöng í Frakklandi. „Mig langaði enn ákaft til að þjóna Jehóva,“ segir hún. „Ég var aðstoðarbrautryðjandi og vonaðist til að geta sameinað þetta tvennt. En fyrsta vandamálið, sem ég stóð frammi fyrir á tónlistarbrautinni, var siðleysi. Í byrjun litu félagar mínir á mig sem barnalega er ég vildi ekki líkja eftir siðlausu tali þeirra og fordæmi. Hið spillta umhverfi gerði mig smám saman ónæmari fyrir því þannig að ég varð umburðarlyndari gagnvart því sem Jehóva hatar. Einn af kennurum mínum hvatti mig stöðugt til að gera mér sönginn að trúarbrögðum og mér var kennt að vera ágeng á sviðinu og álíta sjálfa mig öllum öðrum fremri. Mér fannst þetta allt fremur óþægilegt. Loks kom að því að ég þurfti að búa mig undir sérstakt hæfnispróf. Ég bað Jehóva að hjálpa mér að sjá skýrt hvaða lífsveg ég ætti að velja. Þótt ég hafi sungið ágætlega og verið örugg með mig var ég ekki meðal hinna útvöldu. Ég komst síðar að raun um ástæðuna — það var búið að ákveða úrslitin fyrirfram með leynd löngu fyrir prófið. En ég hafði fengið skýrt svar við bæn minni og ákvað að kveðja óperusviðið og snúa mér að einkakennslu í söng.“ Þessi systir giftist síðar öldungi í kristna söfnuðinum þar sem þau þjóna nú bæði trúföst að því að efla hag Guðsríkis.
10. Hvað ályktar þú út af orðum Jesú í Jóhannesi 3:19-21?
10 Jesús sagði: „Hver sem illt gjörir, hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís. En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð.“ (Jóhannes 3:19-21) Hvílík blessun að vinna í samræmi við vilja Jehóva og tilgang! En til að gera það með góðum árangri verðum við stöðugt að rannsaka verk okkar í ljósi orðs Guðs. Við erum aldrei of gömul til að breyta líferni okkar og það er aldrei of seint að gera það og þiggja boðið um að þjóna Jehóva.
Unnin „góðverk“ á okkar dögum
11. Hvaða ‚góðverkum‘ eru margir uppteknir af og hvers vegna geta þau valdið vonbrigðum?
11 Við lifum á alvarlegum tímum og það þarf að endurspeglast í verkum okkar. Margt réttsinnað fólk er sama sinnis og er önnum kafið af því sem oft er kallað „góðgerðarstarf“ eða „líknarstarf,“ annaðhvort í þágu mannkyns í heild eða einhvers afmarkaðs málefnis. En árangurinn af slíku starfi er oft grátlega lítill. Þróunarsjóður kaþólskra á Bretlandseyjum, sem hefur það hlutverk að veita aðstoð erlendis (CAFOD), segir í skýrslu um hjálparstarf sem veitt var: „Fyrir þrem árum . . . var safnað milljónum punda til hjálparstarfs. Þúsundum mannslífa var bjargað. Nú er þetta sama fólk aftur í lífshættu. . . . Hvers vegna? Hvað fór úrskeiðis?“ Tímarit sjóðsins, CAFOD Journal, segir í framhaldinu að aldrei hafi verið tekist á við langtímavandamál og að ‚hjálpargögn, sem mikil þörf var fyrir til þróunaraðstoðar, hafi verið notuð til að kynda undir átökin [borgarastyrjöld].‘ Líklegt er að þú hafir heyrt aðrar hjálparstofnanir lýsa einhverju svipuðu.
12. Hver er eina lausnin á vandamálum veraldar?
12 Hungursneyð er alvarlegt vandamál. En hverjir benda á að hungursneyðir og styrjaldir okkar tíma sé uppfylling á spádómi Jesú Krists um endalok hins núverandi heimskerfis? (Matteus 24:3, 7) Hverjir hafa lagt fram rök sem tengja þessa atburði reið riddaranna fjögurra er sjötti kafli Opinberunarbókar Biblíunnar lýsir með lifandi orðfæri? Vottar Jehóva hafa gert það dyggilega með hjálp þessa tímarits. Til hvers? Til að sýna fram á að það sé mönnum ofviða að finna einhverja varanlega lausn á þessum vandamálum. Þar með er ekki sagt að kristnir menn láti sem vandamál heimsins komi þeim ekki við. Því fer fjarri. Þeir eru umhyggjusamir og gera hvað sem þeir geta til að lina þjáningar annarra. Eigi að síður eru þeir nógu raunsæir til að viðurkenna þá staðreynd að vandamál heimsins verða aldrei leyst án íhlutunar Guðs. Fátækt og önnur vandamál munu fylgja mannkyninu svo lengi sem Satan er leyft að halda áfram að ráða yfir þessum heimi. — Markús 14:7; Jóhannes 12:31.
Verðmætasta starfið
13. Hvert er þýðingarmesta starf okkar tíma og hverjir inna það af hendi?
13 Það starf, sem mest ríður á nú á dögum, er prédikun þeirra fagnaðartíðinda að ríki Jehóva Guðs muni bráðlega ryðja úr vegi öllum stjórnum veraldar og veita guðhræddum mönnum þá lausn sem þeir þrá. (Daníel 2:44; Matteus 24:14) Prédikun fagnaðarerindisins um himnaríki var aðaltilgangur Jesú Krists, þótt prédikun hans hafi verið takmörkuð við Palestínu. Núna er prédikað um víða veröld eins og Jesús sagði að verða ætti. (Jóhannes 14:12; Postulasagan 1:8) Hlutdeild í verki Guðs, jafnvel þótt lítil sé, er óviðjafnanleg sérréttindi. Karlar og konur, ungnir og aldnir, sem áður dreymdi ekki um að verða prédikarar fagnaðarerindisins, eru nú fremstir í fylkingu í því prédikunarstarfi sem vottar Jehóva inna af hendi nú á dögum. Líkt og Nói og fjölskylda hans vinna þeir trúfastir það verk sem Guð hefur falið þeim, og þar með í krafti hans, áður en þetta heimskerfi líður undir lok. — Filippíbréfið 4:13; Hebreabréfið 11:7.
14. Hvernig er prédikunin bæði til bjargar mannslífum og auk þess vernd?
14 Vitnisburður votta Jehóva núna á síðustu dögum er til bjargar þeim sem hlusta og breyta samkvæmt fagnaðarerindinu sem þeir heyra. (Rómverjabréfið 10:11-15) Það er líka vernd þeim sem prédika. Þegar við höfum einlægan áhuga á að hjálpa fólki sem býr við alvarlegri vandamál en við, þá eru minni líkur á að við gerum okkur óhóflegar áhyggjur af eigin vandamálum. Við gerum okkur ljóst að heimur hrakandi siðferðisgilda vill gjarnan að við tileinkum okkur þankagang hans. Það að láta hugsanir Guðs fylla hugi okkar við prédikun fagnaðarerindisins gerir því meira en aðeins að styrkja trú okkar; það er okkur fyrir bestu. Eins og vottur orðaði það: „Ef ég reyni ekki að breyta fólkinu sem ég hitti, þá gæti það breytt mér!“ — Samanber 2. Pétursbréf 2:7-9.
Samvinna við söfnuðinn
15. Hvaða ábyrgð hvílir á undirhirðum okkar tíma og hvernig ættu karlmenn innan safnaðarins að líta á 1. Tímóteusarbréf 3:1?
15 Er nýir tengjast söfnuðinum ganga þeir undir hjarðgæslu hirðisins mikla, Jehóva Guðs, og góða hirðisins Jesú Krists. (Sálmur 23:1; Jóhannes 10:11) Þessir himnesku hirðar eiga sér sem fulltrúa hér á jörð hina trúföstu undirhirða hjarðarinnar, karlmenn sem skipaðir eru til slíks innan safnaðarins. (1. Pétursbréf 5:2, 3) Slíkt starf er ómetanleg sérréttindi núna á síðustu dögum. Starf hirðanna er mjög ábyrgðarmikið. Bæði felst í því að taka forystuna í kennslu innan safnaðarins og prédikun fagnaðarerindisins, en eins hitt að vernda hjörðina fyrir andlegum rándýrum og skýla henni fyrir óveðri heimsins sem við búum í. Karlmenn innan safnaðarins geta ekki sóst eftir verðugara starfi en því að eiga þátt í að gæta andlegrar velferðar hins vaxandi, kristna safnaðar. — 1. Tímóteusarbréf 3:1; samanber Jesaja 32:1, 2.
16. Á hvaða veg bæta kristnir hirðar hver annan upp?
16 Við megum þó aldrei gleyma að slíkir hirðar eru menn og hafa hver sinn persónuleika og sína galla eins og aðrir í hjörðinni. Einn skarar kannski fram úr á vissum sviðum hjarðgæslunnar en annar hefur gáfur og hæfileika sem gagnast söfnuðinum á aðra vegu. Hinir kristnu öldungar leggja saman krafta sína til að styrkja söfnuðinn. (1. Korintubréf 12:4, 5) Aldrei ætti að gæta samkeppnisanda meðal þeirra. Sameiginlega vinna þeir að því að verja og efla hagsmuni Guðsríkis, ‚upplyfta heilögum höndum‘ í bæn til Jehóva og leita blessunar hans og leiðsagnar í öllum ákvörðunum sínum. — 1. Tímóteusarbréf 2:8.
17. (a) Hvaða skylda hvílir á okkur? (b) Hvað þurfum við að forðast til að rækja skyldu okkar vel?
17 Eftir því sem nálgast endalok veldis Satans ríður meira og meira á að prédika. Okkur, sem erum vottar Jehóva Guðs og þekkjum sannleikann í orði hans, er skylt að útbreiða fagnaðarerindið við hvert tækifæri. Það starf, sem fyrir liggur, er meira en nóg til að halda okkur uppteknum allt til enda. Við megum aldrei leyfa löngun í sællífi, siðleysi og munaðarlíf beina okkur út af réttri braut eða efnishyggju að íþyngja okkur. Við ættum ekki að leiðast út í fræðilegar hugleiðingar og orðastælur, því að það getur verið tímafrekt og tilgangslaust. (2. Tímóteusarbréf 2:14; Títusarbréfið 1:10; 3:9) Er lærisveinarnir spurðu Jesú: „Herra, ætlar þú á þessum tíma að reisa ríkið handa Ísrael?“ beindi Jesús huga þeirra að því mikilvæga verki sem framundan var og sagði: „Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ Þetta er enn verkefni þjóna Guðs. — Postulasagan 1:6-8.
18. Hvers vegna hefur það mikil laun í för með sér að starfa með Jehóva?
18 Það að vinna með Jehóva og prédika með heimssöfnuði hans nú á tímum veitir okkur hamingju, lífsfyllingu og sannan tilgang í lífinu. Það er tækifæri fyrir sérhvern þann, sem elskar Jehóva, til að sýna honum tryggð og hollustu. Þetta margþætta starf verður aldrei endurtekið. Megum við, með eilíft líf í sjónmáli, halda drottinholl áfram að „þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta,“ honum til lofs og okkur til hjálpræðis. — Hebreabréfið 12:28.
Hverju svarar þú?
◻ Hvaða starf veitti Jesú gleði og lífsfyllingu?
◻ Hverjir standa gegn starfi Jehóva og hvers vegna?
◻ Hvað kemur í ljós ef við berum saman „góðverk“ heimsins og prédikun fagnaðarerindisins um Guðsríki?
Jesús fól lærisveinum sínum að prédika.