Kristur — þungamiðja spádómanna
„Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar.“ — OPINBERUNARBÓKIN 19:10.
1, 2. (a) Frammi fyrir hvaða ákvörðun stóðu Ísraelsmenn frá árinu 29? (b) Hvað verður til umfjöllunar í þessari grein?
ÁRIÐ 29 er gengið í garð. Hinn fyrirheitni Messías er helsta umræðuefni fólks í Ísrael. Starf Jóhannesar skírara hefur aukið eftirvæntinguna. (Lúkas 3:15) Jóhannes neitar því að hann sé Kristur. Hann segir hins vegar um Jesú frá Nasaret: „Ég vitna, að hann er sonur Guðs.“ (Jóhannes 1:20, 34) Ekki líður á löngu þar til fjöldi manns fer að fylgja Jesú til að hlýða á kennslu hans og fá lækningu.
2 Á næstu mánuðum leggur Jehóva fram ótal sannanir fyrir því að Jesús sé sonur sinn. Þeir sem hafa grandskoðað Ritningarnar og sjá verk Jesú geta óhikað trúað á hann. En sáttmálaþjóð Guðs skortir almennt trú. Tiltölulega fáir viðurkenna að Jesús sé Kristur, sonur Guðs. (Jóhannes 6:60-69) Hvað hefðir þú gert ef þú hefðir verið uppi í þá daga? Hefðirðu viðurkennt Jesú sem Messías og orðið trúfastur fylgjandi hans? Skoðum hvernig Jesús rökstyður hver hann sé þegar hann er sakaður um að brjóta hvíldardagsákvæðin og taktu eftir þeim sönnunum sem hann leggur fram síðar til að styrkja trú dyggra lærisveina sinna.
Jesús færir sjálfur fram sannanir
3. Hvaða aðstæður urðu til þess að Jesús setti fram sannanir fyrir því hver hann var?
3 Nú eru páskar árið 31 og Jesús er í Jerúsalem. Hann er nýbúinn að lækna mann sem hafði verið veikur í 38 ár. En Gyðingarnir ofsækja Jesú fyrir að hafa gert þetta á hvíldardegi. Þeir saka hann einnig um guðlast og leitast við að drepa hann þar sem hann kallar Guð föður sinn. (Jóhannes 5:1-9, 16-18) Vörn Jesú felur í sér þrenns konar áhrifamikil rök sem ættu að sannfæra alla hjartahreina Gyðinga um það hver Jesús er í raun og veru.
4, 5. Hver var tilgangurinn með þjónustu Jóhannesar og hversu vel innti hann hana af hendi?
4 Jesús byrjar á því að benda á vitnisburð fyrirrennara síns, Jóhannesar skírara: „Þér hafið sent til Jóhannesar. Hann bar sannleikanum vitni. Hann var logandi og skínandi lampi. Þér vilduð um stund gleðjast við ljós hans.“ — Jóhannes 5:33, 35.
5 Áður en Heródes varpaði Jóhannesi skírara að ósekju í fangelsi hafði hann undirbúið veginn fyrir Messías eins og Jehóva hafði falið honum. Þannig var hann „logandi og skínandi lampi“. Jóhannes sagði: „Til þess kom ég og skíri með vatni, að [Messías] opinberist Ísrael. . . . Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum. Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ‚Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.‘ Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs.“a (Jóhannes 1:26-37) Jóhannes tiltók sérstaklega að Jesús væri sonur Guðs — hinn fyrirheitni Messías. Vitnisburður Jóhannesar var svo skýr að um átta mánuðum eftir dauða hans sögðu margir hjartahreinir Gyðingar: „Allt er það satt, sem [Jóhannes] sagði um þennan mann.“ — Jóhannes 10:41, 42.
6. Hvers vegna hefðu verk Jesú átt að sannfæra fólk um að hann hafði stuðning Guðs?
6 Næst notar Jesús annars konar rök sem sýna fram á að hann er Messías. Hann bendir á að góð verk sín vitni um stuðning Guðs. „Ég hef þann vitnisburð, sem er meiri en Jóhannesar,“ segir hann, „því verkin, sem faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni, að faðirinn hefur sent mig.“ (Jóhannes 5:36) Jafnvel óvinir Jesú gátu ekki vísað þessum vitnisburði á bug en hann fólst meðal annars í mörgum kraftaverkum. „Hvað eigum vér að gjöra? Þessi maður gjörir mörg tákn,“ sögðu vissir menn síðar meir. (Jóhannes 11:47) Sumir brugðust hins vegar jákvætt við og sögðu: „Mun Kristur gjöra fleiri tákn, þegar hann kemur, en þessi maður hefur gjört?“ (Jóhannes 7:31) Áheyrendur Jesú voru í frábærri aðstöðu til að koma auga á eiginleika föðurins í syninum. — Jóhannes 14:9.
7. Hvernig bera Hebresku ritningarnar vitni um Jesú?
7 Að síðustu vekur Jesús athygli á óhrekjandi vitnisburði. „Ritningarnar . . . vitna um mig,“ segir hann og bætir við: „Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað.“ (Jóhannes 5:39, 46) Móse var auðvitað aðeins einn af mörgum forkristnum vottum sem skrifuðu um Krist. Á meðal þess sem þeir skrifuðu eru hundruð spádóma og nákvæmar ættartölur sem hjálpuðu fólki að bera kennsl á Messías. (Lúkas 3:23-38; 24:44-46; Postulasagan 10:43) Hvað um Móselögin? „Lögmálið [hefur] orðið tyftari vor, þangað til Kristur kom,“ skrifaði Páll postuli. (Galatabréfið 3:24) Já, „vitnisburður Jesú [það er að segja um Jesú] er andi [tilgangur og markmið] spádómsgáfunnar“. — Opinberunarbókin 19:10.
8. Hvers vegna trúðu margir Gyðingar ekki á Messías?
8 Hefðu ekki allar þessar sannanir — afdráttarlaus vitnisburður Jóhannesar, máttug verk og eiginleikar Jesú og hin sterku rök Ritninganna — sannfært þig um að Jesús var Messías? Allir sem elskuðu Guð og orð hans hlutu að sjá þetta og sýna í verki að þeir tryðu að Jesús væri hinn fyrirheitni Messías. Slíkur kærleikur var hins vegar almennt ekki til staðar í Ísrael. Jesús sagði við andstæðinga sína: „Ég þekki yður að þér hafið ekki í yður kærleika Guðs.“ (Jóhannes 5:42) Í stað þess að ,leita þess heiðurs sem er frá einum Guði þáðu þeir heiður hver af öðrum‘. Það er ekki að undra að þeir voru upp á móti Jesú sem hefur andstyggð á slíkri hugsun líkt og faðir hans. — Jóhannes 5:43, 44; Postulasagan 12:21-23.
Spádómssýnir sem hvetja okkur
9, 10. (a) Hvers vegna var tímabært að lærisveinarnir sæju tákn? (b) Hvaða einstæða loforð gaf Jesús lærisveinum sínum?
9 Meira en ár er liðið síðan Jesús lagði fram fyrrnefndar sannanir fyrir því að hann væri Messías. Páskarnir árið 32 eru afstaðnir. Margir sem tóku trú hafa hætt að fylgja honum, ef til vill út af ofsóknum, efnishyggju eða áhyggjum lífsins. Aðrir eru kannski ráðvilltir eða vonsviknir þar sem Jesús leyfði ekki fólkinu að gera sig að konungi. Þegar trúarleiðtogar Gyðinga reyndu að fá hann til að vegsama sjálfan sig með því að láta tákn koma frá himni neitaði hann. (Matteus 12:38, 39) Sumir hafa kannski orðið undrandi yfir því að Jesús skyldi neita þessu. Og það sem meira er, Jesús er farinn að segja lærisveinunum frá nokkru sem þeim finnst mjög erfitt að skilja — ,að hann eigi að fara til Jerúsalem, líða þar margt af hendi öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn‘. — Matteus 16:21-23.
10 Eftir um það bil níu til tíu mánuði var tíminn kominn „að [Jesús] færi burt úr þessum heimi til föðurins“. (Jóhannes 13:1) Jesú er einkar umhugað um trúfasta lærisveina sína og lofar sumum þeirra því sem hann neitaði trúlausu Gyðingunum um — tákni frá himni. Jesús segir: „Sannlega segi ég yður: Nokkrir þeirra, sem hér standa, munu eigi dauða bíða, fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.“ (Matteus 16:28) Jesús er auðvitað ekki að segja að sumir lærisveinanna lifi þangað til Messíasarríkið er stofnsett árið 1914. Hann hefur aftur á móti í hyggju að gefa þrem af nánum lærisveinum sínum forsmekk af dýrð sinni sem konungur Guðsríkis. Þessi tilkomumikla sýn er kölluð ummyndunin.
11. Lýstu ummynduninni.
11 Sex dögum síðar tekur Jesús þá Pétur, Jakob og Jóhannes með sér upp á hátt fjall, líklega hrygg á Hermonfjalli. „Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós.“ Spámennirnir Móse og Elía birtast þar einnig á tali við Jesú. Þessi magnþrungni atburður á sér ef til vill stað um nótt og því er hann mjög áhrifamikill. Hann virkar svo raunverulegur að Pétur býðst meira að segja til að reisa þrjár tjaldbúðir — eina fyrir Jesú, aðra fyrir Móse og þá þriðju fyrir Elía. Meðan Pétur er enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd frá skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ — Matteus 17:1-6.
12, 13. Hvaða áhrif hafði ummyndunarsýnin á lærisveina Jesú og hvers vegna?
12 Pétur hafði vissulega lýst því yfir skömmu áður að Jesús væri „Kristur, sonur hins lifanda Guðs“. (Matteus 16:16) En ímyndaðu þér að heyra Guð sjálfan lýsa þessu yfir, að staðfesta hver smurður sonur sinn væri og hvaða hlutverki hann ætti að gegna. Ummyndunarsýnin er sannarlega trústyrkjandi fyrir Pétur, Jakob og Jóhannes. Núna eru þeir betur búnir undir það sem fram undan er og það mikilvæga hlutverk sem þeir eiga að gegna í væntanlegum söfnuði.
13 Ummyndunin hefur varanleg áhrif á lærisveinana. Meira en 30 árum síðar skrifar Pétur: „[Jesús] meðtók af Guði föður heiður og dýrð, þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: ,Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.‘ Þessa raust heyrðum vér sjálfir, koma frá himni, þá er vér vorum með honum á fjallinu helga.“ (2. Pétursbréf 1:17, 18) Atburðurinn hefur svipuð áhrif á Jóhannes. Meira en 60 árum síðar vísar hann greinilega óbeint í hann með orðunum: „Vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.“ (Jóhannes 1:14) En ummyndunin er ekki síðasta sýnin sem fylgjendur Jesú fá að sjá.
Trúfastir þjónar Guðs fá meiri opinberun
14, 15. Í hvaða skilningi átti Jóhannes postuli að lifa þar til Jesús kæmi?
14 Jesús birtist lærisveinunum við Galíleuvatn eftir upprisu sína. Þar segir hann við Pétur: „Ef ég vil, að [Jóhannes] lifi, þangað til ég kem, hverju skiptir það þig?“ (Jóhannes 21:1, 20-22, 24) Gefur þetta til kynna að Jóhannes postuli myndi lifa lengur en hinir postularnir? Svo virðist vera því að hann þjónar Jehóva trúfastlega í næstum 70 ár eftir þetta. En það er meira fólgið í orðum Jesú.
15 Orðin „þangað til ég kem“ minna okkur á það þegar Jesús talaði um að ,Mannsonurinn kæmi í ríki sínu‘. (Matteus 16:28) Jóhannes lifir þangað til Jesús kemur í þeim skilningi að hann fær síðar að sjá spádómlega sýn þar sem Jesús kemur sem stjórnandi Guðsríkis. Þegar Jóhannes á skammt eftir ólifað í útlegð á eynni Patmos fær hann að sjá sýnirnar, sem hann skráir í Opinberunarbókina, með öllum sínum spádómlegu táknum og atburðum sem eiga að uppfyllast á „Drottins degi“. Þessar tilkomumiklu sýnir hafa svo mikil áhrif á Jóhannes að þegar Jesús segir: „Já, ég kem skjótt,“ svarar Jóhannes: „Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!“ — Opinberunarbókin 1:1, 10; 22:20.
16. Hvers vegna er mikilvægt að við höldum áfram að styrkja trúna?
16 Hjartahreint fólk á fyrstu öldinni viðurkennir að Jesús sé Messías og fer að trúa á hann. Það þarf að styrkja þá sem taka trú sökum ríkjandi trúleysis umhverfis þá, verksins sem þeir eiga eftir að vinna og prófraunanna fram undan. Jesús hefur sannað nægilega vel að hann er Messías og hefur látið í té spádómssýnir sem hvetja og upplýsa trúfasta fylgjendur hans. Núna er langt liðið á ,Drottins dag‘. Bráðlega mun Kristur eyða óguðlegum heimi Satans og frelsa fólk Guðs. Við verðum líka að styrkja trú okkar með því að nýta okkur til fulls allt sem Jehóva hefur gert með andlega velferð okkar í huga.
Varðveitt á tímum myrkurs og þrenginga
17, 18. Hvaða skýri munur var á fylgjendum Jesú á fyrstu öldinni og þeim sem stóðu gegn fyrirætlun Guðs og hver urðu afdrif þessara tveggja hópa?
17 Eftir dauða Jesú hlýða lærisveinarnir hugrakkir þeim fyrirmælum hans að vitna um hann „í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar“. (Postulasagan 1:8) Þrátt fyrir ofsóknaröldur blessar Jehóva hinn nýstofnaða kristna söfnuð með því að upplýsa hann um andleg mál og bæta við mörgum nýjum lærisveinum. — Postulasagan 2:47; 4:1-31; 8:1-8.
18 Hins vegar verða framtíðarhorfur þeirra sem standa gegn fagnaðarerindinu sífellt verri. „Vegur óguðlegra er eins og niðamyrkur,“ segir í Orðskviðunum 4:19. „Þeir vita ekki, um hvað þeir hrasa.“ Myrkrið ágerist árið 66 þegar rómverskar hersveitir umkringja Jerúsalem. Rómverjar draga herlið sitt til baka um hríð af engri augljósri ástæðu en snúa aftur árið 70. Núna leggja þeir borgina í eyði. Samkvæmt sagnaritaranum Jósefusi týnir yfir milljón Gyðinga lífi. Trúfastir kristnir menn komast hins vegar undan. Hvers vegna? Vegna þess að þegar fyrra umsátrinu léttir hlýða þeir fyrirmælum Jesú um að flýja. — Lúkas 21:20-22.
19, 20. (a) Hvers vegna hefur fólk Guðs enga ástæðu til að óttast þó að núverandi heimskerfi sé í þann mund að líða undir lok? (b) Hvaða einstæða skilning veitti Jehóva fólki sínu á áratugunum fyrir 1914?
19 Staða okkar er svipuð. Þrengingin mikla, sem er í nánd, markar endalok óguðlegs heims Satans. En fólk Guðs þarf ekki að hræðast því að Jesús lofaði: „Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:20) Jesús styrkti trú fyrstu lærisveina sinna og bjó þá undir það sem fram undan var með því að gefa þeim forsmekk af himneskri dýrð sinni þegar hann yrði messíasarkonungur. Hvað um okkar tíma? Árið 1914 varð þessi sýn að veruleika og það hefur verið mjög trústyrkjandi fyrir fólk Guðs. Í þessu felst loforð um dásamlega framtíð og þjónar Jehóva hafa fengið sífellt gleggri skilning á þessum raunveruleika. Mitt í myrkum heimi er ,gata réttlátra eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi‘. — Orðskviðirnir 4:18.
20 Jafnvel fyrir 1914 fór lítill hópur kristinna manna að skilja mikilvæg sannindi varðandi endurkomu Drottins. Til dæmis gerðu þeir sér grein fyrir að hún átti að vera ósýnileg eins og englarnir tveir gáfu til kynna sem birtust lærisveinunum meðan Jesús steig upp til himna árið 33. Eftir að ský hafði hulið Jesú sögðu englarnir við lærisveinana: „Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.“ — Postulasagan 1:9-11.
21. Um hvað verður fjallað í næstu grein?
21 Það voru aðeins trúfastir fylgjendur Jesú sem sáu burtför hans. Hún fór ekki fram fyrir opnum tjöldum frekar en ummyndunin, heimurinn vissi almennt ekki hvað hafði gerst. Það sama myndi gerast þegar Kristur kæmi aftur sem konungur Guðsríkis. (Jóhannes 14:19) Engir nema trúfastir andasmurðir lærisveinar hans myndu skilja að hann væri nærverandi sem konungur. Í næstu grein verður fjallað um þau djúpstæðu áhrif sem þessi skilningur hafði á þá en hámarkið var samsöfnun milljóna manna sem áttu að verða jarðneskir þegnar Jesú. — Opinberunarbókin 7:9, 14.
[Neðanmáls]
a Það var greinilega aðeins Jóhannes sem heyrði rödd Guðs við skírn Jesú. Gyðingarnir, sem Jesús er að ávarpa, hafa hvorki „heyrt rödd [Guðs] né séð ásýnd hans“. — Jóhannes 5:37.
Manstu?
• Hvaða rök færði Jesús fyrir því að hann væri Messías þegar hann var sakaður um guðlast og að brjóta hvíldardagsákvæðin?
• Hvernig nutu lærisveinar Jesú góðs af ummynduninni?
• Hvað átti Jesús við þegar hann sagði að Jóhannes myndi lifa þangað til hann kæmi?
• Hvaða sýn varð að veruleika árið 1914?
[Myndir á blaðsíðu 18]
Jesús lagði fram sannanir fyrir því að hann væri Messías.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Ummyndunin var trústyrkjandi.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Jóhannes átti að lifa þangað til Jesús ,kæmi‘.