Það sem læra má af kraftaverkum Jesú
„Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. . . . Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: ‚Þeir hafa ekki vín.‘“ Þetta atvik var kveikjan að fyrsta kraftaverki Jesú. — Jóhannes 2:1-3.
Var þetta ekki of smávægilegt og lítilfjörlegt vandamál til að vekja athygli Jesú á því? Biblíufræðingur segir: „Í Austurlöndum var gestrisni heilög skylda . . . Sönn gestrisni, einkum í brúðkaupsveislu, kallaði á gnótt matar og drykkjar. Ef vistir hefði þrotið í brúðkaupsveislu hefði skömm fjölskyldunnar og brúðhjónanna aldrei fyrnst.“
Jesús lét því til sín taka. Hann sá þar „sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun.“ Helgisiðareglur kröfðust þess að Gyðingar þvægju sér áður en þeir mötuðust og talsvert mikið vatn hafði þurft til þarfa viðstaddra. „Fyllið kerin vatni,“ sagði Jesús þeim sem þjónuðu gestunum. Jesús var ekki „veislustjóri“ en hann var blátt áfram og valdsmannslegur er hann talaði. Frásagan segir: „Veislustjóri bragðaði vatnið, [og var það] orðið vín.“ — Jóhannes 2:6-9; Markús 7:3.
Það kann að virðast undarlegt að jafnhversdagslegur viðburður og brúðkaup skyldi vera vettvangur fyrsta kraftaverks Jesú, en það segir okkur margt um hann. Hann var einhleypur og ræddi við ýmis tækifæri við lærisveina sína um kosti einhleypis. (Matteus 19:12) En nærvera hans í brúðkaupsveislunni sýnir að hann var alls ekki andvígur hjónabandi. Hann var öfgalaus, studdi hjúskaparfyrirkomulagið og leit á það sem heiðvirða ráðstöfun í augum Guðs. — Samanber Hebreabréfið 13:4.
Jesús var ekki sá þungbúni meinlætamaður sem síðari tíma kirkjulistaverk lýsa. Hann naut þess greinilega að blanda geði við fólk og var því ekki frábitinn að gera sér glaðan dag. (Samanber Lúkas 5:29.) Þannig setti hann fylgjendum sínum fordæmi. Jesús sýndi persónulega að þeir ættu ekki að vera óþarflega alvörugefnir eða dapurlegir — rétt eins og það að vera réttlátur jafngilti því að vera ekki glaður. Þvert á móti var kristnum mönnum fyrirskipað síðar: „Verið ávallt glaðir í Drottni.“ (Filippíbréfið 4:4) Kristnir nútímamenn gæta þess að halda afþreyingu innan skynsamlegra marka. Þeir hafa yndi af þjónustu Guðs, en eftir fyrirmynd Jesú gefa þeir sér líka tíma við og við til að blanda geði hver við annan og gera sér dagamun.
Taktu líka eftir tilfinninganæmi Jesú. Honum bar alls engin skylda til að vinna kraftaverkið. Hér var ekki um neinn spádóm að ræða sem þurfti að uppfylla. Að því er best verður séð var Jesús einfaldlega snortinn af umhyggju móður sinnar fyrir vandræðum brúðhjónanna. Hann lét sér annt um tilfinningar þeirra og langaði til að hlífa þeim við niðurlægingu. Eykur það ekki traust þitt á að Kristur hafi ósvikinn áhuga á þér — jafnvel á hversdagslegum vandamálum þínum? — Samanber Hebreabréfið 4:14-16.
Vatnskerin rúmuðu hvert um sig „tvo mæla eða þrjá,“ þannig að það var verulegt magn sem Jesús bjó til með kraftaverki — kannski einir 390 lítrar! (Jóhannes 2:6) Af hverju svona mikið? Jesús var ekki að hvetja til ofdrykkju enda fordæmir Guð hana. (Efesusbréfið 5:18) Hann var einfaldlega að sýna örlæti eins og Guð. Vín var algengur drykkur þannig að nota mátti síðar það sem af gekk. — Samanber Matteus 14:14-20; 15:32-37.
Frumkristnir menn voru örlátir og líktu þar með eftir fordæmi Jesú. (Samanber Postulasöguna 4:34, 35) Og fólk Jehóva nú á dögum er sömuleiðis hvatt til að ‚gefa.‘ (Lúkas 6:38) En fyrsta kraftaverk Jesú hafði líka spádómlegt gildi. Það vísar til framtíðarinnar þegar Guð mun örlátlega búa mönnum „veislu með krásum, veislu með dreggjavíni,“ og uppræta hungur fyrir fullt og allt. — Jesaja 25:6.
En hvað þá um hinar mörgu kraftaverkalækningar Jesú? Hvað getum við lært af þeim?
Góðverk á hvíldardegi
„Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jesús mælti þessi orð við mann sem hafði verið sjúkur í 38 ár. Frásögn guðspjallsins heldur áfram: „Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk.“ Svo ótrúlegt sem það er voru ekki allir ánægðir með það sem gerst hafði. Frásagan segir: „Nú tóku Gyðingar að ofsækja Jesú fyrir það, að hann gjörði þetta á hvíldardegi.“ — Jóhannes 5:1-3, 5-9, 16.
Hvíldardagurinn átti að vera dagur gleði og hvíldar fyrir alla. (2. Mósebók 20:8-11) Á dögum Jesú var hann hins vegar orðinn að völdundarhúsi þjakandi mannasetninga. Fræðimaðurinn Alfred Edersheim skrifar að í hinum löngu hvíldardagsköflum Talmúðsins séu „mál, sem varla er hægt að ímynda sér að maður með heilbrigða skynsemi íhugi alvarlega, rædd af fullri alvöru sem áríðandi trúaratriði.“ (The Life and Times of Jesus the Messiah) Rabbínarnir létu sem það varðaði líf og dauða að halda ómerkilegar og gerræðislegar reglur sem stjórnuðu nánast hverjum einasta þætti í lífi Gyðinga — oft af kaldrifjuðu skeytingarleysi fyrir mannlegum tilfinningum. Ein hvíldardagsreglan var á þessa leið: „Ef hús hrynur yfir mann og óvíst er hvort hann er þar inni eða ekki, eða hvort hann er lífs eða liðinn, eða hvort hann er heiðingi eða Ísraelsmaður, þá má fjarlægja rústirnar ofan af honum. Ef hann er lífs má grafa hann alveg upp; en ef hann er látinn skal hann skilinn eftir.“ — Yoma 8:7, The Mishnah þýtt úr enskri þýðingu Herberts Danbys.
Hvernig leit Jesús á svona hártoganir? Þegar hann var gagnrýndur fyrir að lækna á hvíldardegi sagði hann: „Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig.“ (Jóhannes 5:17) Jesús var ekki að vinna launað starf í auðgunarskyni. Hann var að gera vilja Guðs. Á sama hátt og levítunum var leyft að halda áfram að gegna helgiþjónustu sinni á hvíldardeginum, eins gat Jesús með réttu rækt Messíasarskyldur sínar, sem Guð hafði falið honum, án þess að brjóta hvíldardagslög Guðs. — Matteus 12:5.
Hvíldardagslækningar Jesú afhjúpuðu líka fræðimenn og farísea Gyðinga sem ‚of réttláta‘ — sem stífa og öfgafulla í hugsun. (Prédikarinn 7:16) Vissulega var það ekki vilji Guðs að góðverk skyldu einskorðuð við vissa vikudaga, og hann ætlaðist ekki heldur til að hvíldardagurinn væri æfing í tilgangslausri reglufylgni. Jesús sagði í Markúsi 2:27: „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins.“ Jesús elskaði fólk, ekki gerræðislegar reglur.
Kristnir nútímamenn ættu því að gæta sín að vera ekki óþarflega stífir eða regluglaðir. Forystumenn safnaðarins varast að íþyngja öðrum með óhóflegum mannareglum. Fordæmi Jesú hvetur okkur líka til að vera vakandi fyrir tækifærum til að láta gott af okkur leiða. Það myndi til dæmis aldrei hvarfla að kristnum manni að segja öðrum frá sannleika Biblíunnar aðeins þegar hann er formlega að starfa hús úr húsi eða stendur á ræðupallinum. Pétur postuli segir að kristinn maður ætti ‚ætíð að vera reiðubúinn að svara hverjum manni sem krefst raka hjá honum fyrir voninni sem í honum er.‘ (1. Pétursbréf 3:15) Góðverkum eru ekki settar neinar tímaskorður.
Lexía í meðaumkun
Lúkas 7:11-17 segir frá öðru einstöku kraftaverki. Frásagan segir að Jesús hafi ‚haldið til borgar sem heitir Nain, og lærisveinar hans hafi farið með honum og mikill mannfjöldi.‘ Enn þann dag í dag má sjá grafreiti suðaustur af arabaþorpinu Nein. „Þegar hann nálgaðist borgarhliðið“ var þar ys og þys því að „þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni.“ H. B. Tristram bendir á að „greftrunarsiðir hafi ekki breyst“ frá fornu fari og bætir við: „Ég hef séð konurnar ganga á undan líkbörunum með atvinnugrátkonur í fararbroddi. Þær sveifla höndunum upp í loftið og rífa í hár sér með hamslausum sorgartilburðum og hrópa nafn hins látna.“ — Eastern Customs in Bible Lands.
Mitt í þessari hávaðasömu þvögu var sorgmædd ekkja. Allt yfirbragð hennar hlýtur að hafa endurspeglað sára kvöl. Hún var búin að missa mann sinn og leit á soninn, eins og rithöfundurinn Herbert Lockyer orðaði það, sem „staf í ellinni, huggun í einsemdinni — sem stoð og styttu heimilisins. Með missi einkasonar síns var síðasta haldreipi hennar brostið.“ (All the Miracles of the Bible) Og hver voru viðbrögð Jesú? Lúkas kemst vel að orði: „Er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: ‚Grát þú eigi!‘“ Orðin „kenndi í brjósti um“ eru þýðing á grísku orði sem merkir bókstaflega „iður.“ Það merkir „að vera snortinn innst inni.“ (Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words) Já, Jesús var djúpt snortinn.
Móðir Jesú var líklega orðin ekkja þá og Jesús hafði misst stjúpföður sinn, Jósef, þannig að hann þekkti sennilega sársaukann sem fylgir ástvinamissi. (Samanber Jóhannes 19:25-27.) Ekkjan þurfti ekki að sárbæna Jesú um hjálp. Af sjálfsdáðum „gekk [hann] að og snart líkbörurnar“ enda þótt sá sem snerti lík yrði óhreinn af því samkvæmt Móselögunum. (4. Mósebók 19:11) Með undraverðum mætti sínum gat Jesús fjarlægt sjálfa orsök óhreinleikans. Hann sagði: „‚Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!‘ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans.“
Þetta er hrífandi lexía í meðaumkun. Kristnir menn eiga ekki að líkja eftir hinum kærleikslausu og kaldlyndu viðhorfum sem sýna sig núna á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Þvert á móti hvetur 1. Pétursbréf 3:8: „Að lokum, verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir.“ Þegar vinur eða kunningi deyr eða veikist alvarlega getum við ekki reist hann upp eða læknað af sjúkdóminum. En við getum boðið fram raunhæfa hjálp og hughreystingu, kannski bara með því að vera viðstödd og gráta með þeim. — Rómverjabréfið 12:15.
Þessi áhrifamikla upprisa, sem Jesús framkvæmdi, bendir einnig fram í tímann — til þess tíma er „allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram“! (Jóhannes 5:28, 29) Um alla jörðina munu þeir sem misst hafa ástvini kynnast meðaumkun Jesú þegar látnar mæður, feður, börn og vinir snúa aftur frá gröfinni!
Það sem læra má af kraftaverkunum
Ljóst er því að kraftaverk Jesú voru meira en hrífandi sýning á mætti hans. Þau vegsömuðu Guð og gáfu kristnum mönnum fyrirmynd, en þeir eru hvattir til að ‚vegsama Guð.‘ (Rómverjabréfið 15:6) Kraftaverkin hvetja menn til að gera gott, sýna örlæti og vera meðaumkunarsamir. Og enn þýðingarmeira er að þau voru forsmekkur þeirra máttarverka sem unnin verða í þúsundáraríki Krists.
Meðan Jesús var á jörðinni vann hann máttarverk sín á tiltölulega afmörkuðu svæði. (Matteus 15:24) Sem dýrlegur konungur mun hann ráða yfir allri jörðinni! (Sálmur 72:8) Þeir sem Jesús læknaði á undraverðan hátt eða reisti upp frá dauðum þegar hann var á jörðinni, dóu um síðir. Undir himneskri konungsstjórn hans verða synd og dauði algerlega afmáð þannig að eilíft líf verður mögulegt. (Rómverjabréfið 6:23; Opinberunarbókin 21:3, 4) Já, kraftaverk Jesú eru forsmekkur dýrlegrar framtíðar. Vottar Jehóva hafa hjálpað milljónum manna að öðlast ósvikna von um að eiga hlutdeild í þessari framtíð. Þangað til gefa kraftaverk Jesú stórkostlega innsýn í það sem bráðlega mun eiga sér stað!
[Mynd á blaðsíðu 7]
Jesús breytir vatni í vín.