15. KAFLI
Hafðu ánægju af erfiði þínu
„Að . . . gleðjast af öllu erfiði sínu . . . er Guðs gjöf.“ — PRÉDIKARINN 3:13.
1-3. (a) Hvernig hugsa margir um vinnuna? (b) Hvernig hvetur Biblían okkur til að líta á vinnu og um hvaða spurningar verður fjallað í þessum kafla?
MARGIR í heimi nútímans hafa litla ánægju af vinnunni. Þeir strita daginn út og daginn inn við starf sem þeim þykir ekkert sérlega skemmtilegt og kvíða fyrir því að mæta til vinnu á morgnana. Hvernig geta þeir sem eru þannig þenkjandi fengið áhuga á vinnunni — að ekki sé nú talað um að hafa ánægju af henni?
2 Biblían hvetur til vinnusemi og dugnaðar. Hún segir að vinna og afrakstur hennar sé blessun. Salómon skrifaði: „Að matast, drekka og gleðjast af öllu erfiði sínu, einnig það er Guðs gjöf.“ (Prédikarinn 3:13) Jehóva, sem elskar okkur og ber hag okkar alltaf fyrir brjósti, vill að við höfum ánægju af því að vinna og njótum ávaxtar erfiðis okkar. Til að kærleikur hans varðveiti okkur þurfum við að tileinka okkur sjónarmið hans og meginreglur varðandi vinnu. — Prédikarinn 2:24; 5:18.
3 Í þessum kafla verður fjallað um fjórar spurningar: Hvernig getum við haft ánægju af erfiði okkar? Hvers konar vinna hæfir ekki sannkristnum manni? Hvernig getum við fundið rétta jafnvægið milli vinnu og trúariðkana? Og hvert er mikilvægasta starfið sem við getum unnið? En fyrst skulum við líta á fordæmi Jehóva Guðs og Jesú Krists en þeir eru öllum öðrum vinnusamari.
JEHÓVA GUÐ OG JESÚS KRISTUR ERU SÍSTARFANDI
4, 5. Hvernig er gefið til kynna í Biblíunni að Jehóva sé athafnasamur?
4 Jehóva er öllum öðrum vinnusamari. „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð,“ segir í 1. Mósebók 1:1. Þegar Jehóva lauk sköpunarverki sínu á jörð lýsti hann yfir að það væri „harla gott“. (1. Mósebók 1:31) Hann var með öðrum orðum fullkomlega ánægður með allt sem hann hafði gert í sambandi við jörðina. Jehóva er kallaður ‚hinn sæli Guð‘ og hefur því eflaust haft mikla ánægju af því að vinna. — 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912.
5 Jehóva Guð er sístarfandi. Sköpunarstarfinu á jörð var löngu lokið þegar Jesús sagði: „Faðir minn starfar til þessarar stundar.“ (Jóhannes 5:17) Hvað hefur Jehóva verið að gera? Af himnum ofan hefur hann vissulega verið önnum kafinn að annast mannkynið og leiðbeina því. Hann hefur ‚skapað á ný‘ andagetna kristna menn sem eiga að ríkja með Jesú á himnum. (2. Korintubréf 5:17, Biblían 1981) Hann hefur unnið að því að fyrirætlun sín með mennina nái fram að ganga — að þeir sem elska hann hljóti eilíft líf í nýjum heimi. (Rómverjabréfið 6:23) Jehóva hlýtur að vera mjög ánægður með árangurinn af verki sínu. Milljónir manna hafa tekið við boðskapnum um ríkið, laðast að Guði og gert ýmsar breytingar í lífi sínu til að láta kærleika hans varðveita sig. — Jóhannes 6:44.
6, 7. Lýstu dugnaði Jesú.
6 Jesús hefur verið iðinn um langan aldur. Áður en hann kom til jarðar var hann „með í ráðum“ við hlið Guðs þegar allt var skapað „í himnunum og á jörðinni“. (Orðskviðirnir 8:22-31; Kólossubréfið 1:15-17) Hann hélt áfram að leggja hart að sér meðan hann var hér á jörð. Hann lærði snemma til verka við trésmíði og var kallaður „smiðurinn“.a (Markús 6:3) Trésmíðar hafa alla tíð verið erfiðisvinna og kallað á fjölhæfni, ekki síst áður en sögunarmyllur, byggingarvöruverslanir og rafmagnsverkfæri komu til sögunnar. Geturðu séð Jesú fyrir þér sækja timbur, jafnvel fella tré og flytja þau þangað sem hann var að vinna? Sérðu hann fyrir þér reisa hús — höggva til og setja upp þakbita, smíða hurðir og jafnvel húsgögn? Jesús þekkti ábyggilega hve ánægjulegt það var að skila af sér góðu verki.
7 Jesús var ötull boðberi fagnaðarerindisins. Hann var algerlega upptekinn af þessu mikilvæga starfi í þrjú og hálft ár. Hann lagði nótt við dag því að hann vildi ná til sem flestra. Hann tók daginn snemma og var að fram á nótt. (Lúkas 21:37, 38; Jóhannes 3:2) Hann fór „borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki.“ (Lúkas 8:1) Hann fór fótgangandi hundruð kílómetra um rykuga vegi til að flytja fólki fagnaðarerindið.
8, 9. Hvers vegna hafði Jesús ánægju af erfiði sínu?
8 Hafði Jesús ánægju af því að leggja svona mikið á sig til að boða fagnaðarerindið? Já, hann sáði sæði sannleikans um ríkið og lét eftir sig akra sem voru fullþroskaðir til uppskeru. Honum þótti svo endurnærandi að vinna verk Guðs að hann var fús til að neita sér um mat til að geta haldið því áfram. (Jóhannes 4:31-38) Hugsaðu þér hve ánægjulegt það hlýtur að hafa verið fyrir hann að geta ávarpað föður sinn við lok þjónustu sinnar á jörð og sagt: „Ég hef gert þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk sem þú fékkst mér að vinna.“ — Jóhannes 17:4.
9 Það má með sanni segja að Jehóva og Jesús hafi öðrum fremur ánægju af erfiði sínu. Við elskum Jehóva svo að okkur langar til að líkja eftir honum. (Efesusbréfið 5:1) Og þar eð við elskum Jesú finnum við hjá okkur sterka löngun til að „feta í fótspor hans“. (1. Pétursbréf 2:21) Við skulum nú kanna hvernig við getum líka haft ánægju af erfiði okkar.
HVERNIG GETUM VIÐ HAFT ÁNÆGJU AF ERFIÐI OKKAR?
10, 11. Hvað getur hjálpað okkur að hafa jákvætt hugarfar gagnvart starfi okkar?
10 Veraldleg störf eru hluti af lífi flestra sannkristinna manna. Okkur langar til að njóta lífsfyllingar og hafa ánægju af störfum okkar en það getur verið þrautin þyngri ef okkur þykir vinnan ekki sérlega skemmtileg. Hvernig er þá hægt að hafa ánægju af störfum sínum?
11 Með því að temja okkur jákvæð viðhorf. Við getum ekki alltaf breytt aðstæðum okkar en við getum breytt viðhorfum okkar. Ef við hugleiðum sjónarmið Jehóva getur það ef til vill auðveldað okkur að vera jákvæð gagnvart vinnunni. Ef þú ert fyrirvinna geturðu til dæmis minnt þig á að vinnan gerir þér kleift að sjá fjölskyldunni fyrir nauðsynjum, og skiptir þá ekki máli hve óspennandi vinnan virðist vera. Það er mikils virði í augum Guðs að sjá ástvinum sínum farborða. Í orði hans segir að sá sem sér ekki fyrir sínum nánustu sé ‚verri en vantrúaður‘. (1. Tímóteusarbréf 5:8) Ef þú lítur á vinnuna sem leið að ákveðnu marki — leið til að rækja þær skyldur sem Guð leggur þér á herðar — áttu kannski auðveldara en vinnufélagarnir með að hafa ánægju af henni og sjá meiri tilgang með henni.
12. Hvaða umbun fylgir því að vera duglegur og heiðarlegur starfsmaður?
12 Með því að vera heiðarleg og dugleg. Það getur verið til farsældar að vera iðinn og læra að skila af sér góðu verki. Duglegir og færir starfsmenn eru oft mikils metnir. (Orðskviðirnir 12:24; 22:29) Sannkristnir menn þurfa líka að vera heiðarlegir í starfi. Þeir mega ekki stela peningum, hlutum eða tíma frá vinnuveitanda sínum. (Efesusbréfið 4:28) Það borgar sig að vera heiðarlegur eins og fram kom í kaflanum á undan. Heiðarlegum starfsmanni er að öllum líkindum treyst. Og þó að vinnuveitandinn taki kannski ekki eftir því að við erum dugleg njótum við ánægjunnar sem fylgir því að hafa góða samvisku og við vitum að við þóknumst Guði sem við elskum. — Hebreabréfið 13:18; Kólossubréfið 3:22-24.
13. Hvað gæti hlotist af góðu fordæmi okkar á vinnustað?
13 Með því að hafa í huga að við getum verið Guði til lofs með hegðun okkar. Það fer ekki fram hjá vinnufélögunum ef við hegðum okkur eins og kristnum mönnum sæmir. Með hvaða árangri? Þannig ‚prýðum við kenningu Guðs frelsara okkar‘. (Títusarbréfið 2:9, 10) Góð breytni okkar getur orðið til þess að öðrum finnist tilbeiðsla okkar aðlaðandi og þeir fái áhuga á henni. Hugsaðu þér hvernig þér yrði innanbrjósts ef gott fordæmi þitt á vinnustað yrði til þess að vinnufélagi sýndi áhuga á sannleikanum. Og hvað gæti verið ánægjulegra en að vita að þú sért Jehóva til lofs og gleðjir hjarta hans með hegðun þinni? — Orðskviðirnir 27:11; 1. Pétursbréf 2:12.
SÝNUM GÓÐA DÓMGREIND ÞEGAR VIÐ VELJUM OKKUR VINNU
14-16. Hvaða tvær spurningar er mikilvægt að hugleiða áður en við ráðum okkur í vinnu?
14 Biblían útlistar ekki í smáatriðum hvaða vinna sé viðeigandi fyrir kristinn mann og hvaða vinna sé óviðeigandi. Það þýðir þó ekki að við getum ráðið okkur í vinnu óháð því í hverju hún felst. Biblían getur hjálpað okkur að velja hentugt og heiðarlegt starf sem er Guði að skapi og jafnframt að forðast störf sem hann myndi hafa vanþóknun á. (Orðskviðirnir 2:6) Þegar við tökum ákvörðun varðandi atvinnu þurfum við að velta fyrir okkur tveim mikilvægum spurningum.
15 Myndi þessi vinna fela í sér verknað sem er fordæmdur í Biblíunni? Þjófnaður, lygar og smíði skurðgoða er fordæmd skýrum stöfum í Biblíunni. (2. Mósebók 20:4; Postulasagan 15:29; Efesusbréfið 4:28; Opinberunarbókin 21:8) Við myndum því ekki ráða okkur í vinnu þar sem við þyrftum að gera eitthvað af þessu tagi. Þar sem við elskum Jehóva myndum við aldrei þiggja starf sem fæli í sér að við yrðum að brjóta boðorð Guðs. — 1. Jóhannesarbréf 5:3.
16 Yrðum við þátttakendur í röngum verknaði eða værum við að hvetja aðra til rangra verka ef við réðum okkur í þetta starf? Lítum á dæmi. Það er ekkert athugavert við að vinna sem móttökuritari. En segjum að kristnum manni byðist að vinna sem móttökuritari á fóstureyðingarstofu. Starfið felur auðvitað ekki í sér að hann aðstoði beinlínis við fóstureyðingar. En væri hann ekki samt með vinnu sinni að styðja starfsemi sem er rekin til að framkvæma fóstureyðingar — verknað sem gengur í berhögg við meginreglur Biblíunnar? (2. Mósebók 21:22-24) Þeir sem elska Jehóva vilja alls ekki bendla sig við óbiblíulega starfsemi.
17. (a) Hvað getum við hugleitt þegar við tökum ákvarðanir varðandi atvinnu? (Sjá rammagreinina „Ætti ég að sækja um þetta starf?“.) (b) Hvernig getur samviskan hjálpað okkur að taka ákvarðanir sem Guð hefur velþóknun á?
17 Hægt er að útkljá mörg mál, sem tengjast atvinnu, með því að skoða vandlega svörin við spurningunum tveim í 15. og 16. grein. Auk þess er gott að líta á nokkur atriði til viðbótar áður en við ráðum okkur í vinnu.b Það er ekki hægt að ætlast til þess að hinn trúi og hyggni þjónn setji tæmandi reglur um allar hugsanlegar aðstæður sem kunna að koma upp. Við þurfum sjálf að beita dómgreind okkar. Eins og fram kom í 2. kafla þurfum við að fræða og þjálfa samviskuna með því að kynna okkur hvernig við getum notað orð Guðs í daglega lífinu. Ef við ögum hugann jafnt og þétt getur samviskan hjálpað okkur að taka ákvarðanir sem Guð hefur velþóknun á og þá getur kærleikur hans varðveitt okkur. — Hebreabréfið 5:14.
SJÁUM VINNU Í RÉTTU LJÓSI
18. Af hverju er ekki auðvelt að halda góðu jafnvægi á öllum sviðum?
18 Við lifum á „síðustu dögum“ og þeim fylgja „örðugar tíðir“ þannig að það er engan veginn auðvelt að halda góðu jafnvægi á öllum sviðum. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Það getur verið þrautin þyngri að fá vinnu og halda henni. Sannkristnir menn vita að þeir þurfa að vera duglegir að framfleyta fjölskyldunni. En ef við gætum ekki að okkur getur álagið á vinnustað og smitandi efnishyggja heimsins farið að trufla okkur í því að þjóna Guði og tilbiðja hann. (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Við skulum því kanna hvernig við getum haldið góðu jafnvægi og „metið þá hluti rétt sem máli skipta“. — Filippíbréfið 1:10.
19. Af hverju verðskuldar Jehóva algert traust okkar og hvað getum við forðast ef við treystum honum?
19 Treystu á Jehóva í einu og öllu. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Hann verðskuldar traust okkar af því að hann ber mikla umhyggju fyrir okkur. (1. Pétursbréf 5:7) Hann þekkir þarfir okkar betur en við sjálf og hönd hans er aldrei stutt. (Sálmur 37:25) Þess vegna er skynsamlegt af okkur að hafa eyrun opin fyrir eftirfarandi áminningu í Biblíunni: „Verið ekki fégráðug en látið ykkur nægja það sem þið hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ‚Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘“ (Hebreabréfið 13:5) Margir sem þjóna Guði í fullu starfi geta vitnað um að hann sé fær um að sjá þeim fyrir lífsnauðsynjum. Ef við treystum fullkomlega að Jehóva annist okkur gerum við okkur ekki óþarfar áhyggjur af því hvort við getum séð fyrir fjölskyldunni. (Matteus 6:25-32) Þá látum við ekki vinnuna verða til þess að við vanrækjum þjónustuna við Jehóva, svo sem það að boða fagnaðarerindið og sækja samkomur. — Matteus 24:14; Hebreabréfið 10:24, 25.
20. Hvað er fólgið í því að hafa heilt auga og hvernig er það hægt?
20 Haltu auganu heilu. (Matteus 6:22, 23) Að hafa heilt auga merkir að lifa einföldu lífi. Heilt auga kristins manns einbeitir sér að einu markmiði — að gera vilja Guðs. Þá verðum við ekki heltekin af því að sækjast eftir hálaunuðu starfi eða munaði. Og við verðum ekki upptekin af endalausu kapphlaupi eftir því nýjasta og besta sem auglýsendur reyna að telja okkur trú um að við þurfum til að vera hamingjusöm. Hvernig er hægt að halda auganu heilu? Safnaðu ekki óþarfa skuldum. Raðaðu ekki í kringum þig hlutum sem gleypa óhóflegan tíma og athygli. Gerðu þig ánægðan með „fæði og klæði“ eins og hvatt er til í Biblíunni. (1. Tímóteusarbréf 6:8) Reyndu að einfalda lífið eftir föngum.
21. Af hverju er nauðsynlegt að forgangsraða og hvað ætti að ganga fyrir í lífinu?
21 Settu þér markmið í þjónustu Guðs og haltu þig við þau. Við höfum ekki nema takmarkaðan tíma úr að spila þannig að við þurfum að forgangsraða. Annars gæti það sem minna máli skiptir í lífinu étið upp dýrmætan tíma frá því sem mestu máli skiptir. Hvað ætti að ganga fyrir öllu öðru? Margir leggja aðaláherslu á æðri menntun í von um að komast áfram í heiminum. Jesús hvatti fylgjendur sína hins vegar til að ‚leita fyrst ríkis Guðs‘. (Matteus 6:33) Sannkristnir menn láta ríki Guðs ganga fyrir öðru. Lífsstefna okkar — ákvarðanir, markmið og viðfangsefni — ætti að sýna að vilji Guðs og hagsmunir ríkis hans eru okkur meira virði en efnislegir hlutir eða veraldleg viðfangsefni.
VERUM DUGLEG AÐ BOÐA FAGNAÐARERINDIÐ
22, 23. (a) Hvert er aðalverkefni sannkristinna manna og hvernig getum við sýnt að það er okkur mikilvægt? (Sjá rammagreinina „Ákvörðun mín varð mér til gæfu og gleði“.) (b) Hvernig ætlar þú að líta á veraldleg störf þín?
22 Við vitum að það er langt liðið á tíma endalokanna þannig að við einbeitum okkur að aðalstarfi sannkristinna manna — að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Líkt og Jesús, fyrirmynd okkar, viljum við vera upptekin af starfi sem getur bjargað mannslífum. Hvernig getum við sýnt að okkur finnist þetta þýðingarmikið verkefni? Flestir þjónar Guðs eru safnaðarboðberar og leggja sig heilshugar fram í því. Sumir hafa skapað sér svigrúm til að geta starfað sem brautryðjendur eða trúboðar. Margir foreldrar hafa hvatt börn sín til að þjóna Guði í fullu starfi, vitandi hve mikils virði það er að setja sér markmið í þjónustu hans. Hafa þeir sem boða ríkið af kappi ánægju af erfiði sínu? Já, það má með sanni segja. Að þjóna Jehóva af heilum huga er örugg leið til að vera glaður, njóta lífsfyllingar og hljóta margs konar blessun. — Orðskviðirnir 10:22.
23 Margir þurfa að vinna langan vinnudag til að sjá fjölskyldunni farborða. Höfum hugfast að Jehóva vill að við höfum ánægju af erfiði okkar. Við getum haft ánægju af vinnunni ef við lögum hugarfar okkar og hegðun að sjónarmiðum og meginreglum hans. En verum ákveðin í að láta ekki veraldleg störf draga athygli okkar frá aðalverkefninu — að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. Ef við látum það ganga fyrir í lífinu sýnum við að við elskum Jehóva og þá mun kærleikur hans varðveita okkur.
a Gríska orðið, sem er þýtt „smiður“, er sagt vera „almennt starfsheiti manns sem vann við trésmíði, hvort heldur smíði húsa, húsgagna eða annarra hluta úr tré“.
b Nánari upplýsingar um mál, sem þarf að hugleiða þegar atvinna er annars vegar, er að finna í Varðturninum, 1. maí 1999, bls. 29-30, og 1. maí 1983, bls. 27.