Líf eftir dauðann — hvað segir Biblían?
„Mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa.“ — 1. MÓSEBÓK 3:19.
1, 2. (a) Hvaða mismunandi skoðanir eru um líf handan grafar? (b) Hvað þurfum við að kanna til að finna út hvað Biblían kennir um sálina?
„KENNINGIN um eilífa kvöl er ósamrýmanleg trúnni á kærleika Guðs til allrar sköpunarinnar. . . . Að trúa því að sálinni sé refsað um alla eilífð fyrir mistök fáeinna ára, án þess að gefa henni nokkurt tækifæri til að bæta ráð sitt, stríðir gegn allri skynsemi,“ sagði hindúaheimspekingurinn Nikhilananda.
2 Líkt og Nikhilananda eiga margir nú á tímum erfitt með að sætta sig við kenninguna um eilífar kvalir. Á sama hátt eiga aðrir erfitt með að skilja hugmyndir eins og þær að öðlast nirvana og að verða eitt með náttúrunni. Jafnvel meðal þeirra sem segjast byggja trú sína á Biblíunni er að finna ólíkar hugmyndir um það hvað sálin sé og hvað verði um hana þegar við deyjum. En hvað kennir Biblían í raun og veru um sálina? Til þess að komast að því verðum við að kanna merkingu hebresku og grísku orðanna sem þýdd eru „sál“ í Biblíunni.
Það sem Biblían segir um sálina
3. (a) Hvaða orð er þýtt „sál“ í Hebresku ritningunum og hver er grunnmerking þess? (b) Hvernig staðfestir 1. Mósebók 2:7 að orðið „sál“ geti átt við manninn í heild?
3 Hebreska orðið, sem þýtt er „sál,“ er neʹfes og það kemur 754 sinnum fyrir í Hebresku ritningunum. Hvað þýðir neʹfes? Að sögn The Dictionary of Bible and Religion „vísar það venjulega til gervallrar lífverunnar, einstaklingsins í heild sinni.“ Lýsing Biblíunnar á sálinni í 1. Mósebók 2:7 staðfestir það: „Þá myndaði [Jehóva] Guð manninn af leiri jarðar og blés lífsanda í nasir hans, og þannig varð maðurinn lifandi sál.“ Taktu eftir að fyrsti maðurinn „varð“ sál. Það er að segja, Adam hafði ekki sál; hann var sál — alveg eins og einhver sem verður læknir er síðan læknir. Orðið „sál“ getur því átt við manninn í heild.
4. Hvaða orð er þýtt „sál“ í kristnu Grísku ritningunum og hver er grunnmerking þess?
4 Gríska orðið, sem þýtt er „sál“ (psykheʹ) kemur fyrir meira en hundrað sinnum í kristnu Grísku ritningunum. Líkt og neʹfes á þetta orð oft við manninn í heild. Líttu til dæmis á eftirfarandi fullyrðingar: „Nú er sál mín skelfd.“ (Jóhannes 12:27) „Ótta setti að [hverri sál].“ (Postulasagan 2:43) „Sérhver [sál] hlýði þeim yfirvöldum, sem [hún] er [undirgefin].“ (Rómverjabréfið 13:1) „Hughreystið [ístöðulitlar sálir].“ (1. Þessaloníkubréf 5:14) „Í henni frelsuðust fáeinar — það er átta — sálir í vatni.“ (1. Pétursbréf 3:20) Greinilega vísar neʹfes eins og psykheʹ til persónunnar í heild. Fræðimaðurinn Nigel Turner segir að þetta orð „nái yfir það sem er einkennandi fyrir manninn, sjálfið, efnislega líkamann sem hefur fengið rûaḥ [anda] Guðs blásinn inn í sig. . . . Áherslan er á manninn sjálfan í allri heild sinni.“
5. Eru dýr sálir? Rökstyddu svarið.
5 Það er athyglisvert að Biblían notar orðið „sál“ ekki eingöngu um menn heldur líka um dýr. Þegar 1. Mósebók 1:20 lýsir sköpun sjávardýra segir til dæmis að Guð hafi sagt: „Verði vötnin kvik af lifandi skepnum [neʹfes á hebresku].“ Og næsta sköpunardag sagði Guð: „Jörðin leiði fram lifandi [sálir], hverja eftir sinni tegund: fénað, skriðkvikindi og villidýr, hvert eftir sinni tegund.“ — 1. Mósebók 1:24; samanber 4. Mósebók 31:28.
6. Hvað má segja um notkun Biblíunnar á orðinu „sál“?
6 Af þessu má sjá að Biblían notar orðið „sál“ um menn eða dýr eða um lífið sem býr í mönnum eða dýrum. (Sjá rammann að ofan.) Skilgreining Biblíunnar á sál er einföld, sjálfri sér samkvæm og laus við klafa flókinnar heimspeki og hindurvitna manna. Þar af leiðandi þarf að svara áríðandi spurningu: Hvað segir Biblían að verði um sálina við dauðann?
Dánir hafa enga meðvitund
7, 8. (a) Hvað leiðir Ritningin í ljós um ástand hinna látnu? (b) Nefndu dæmi í Biblíunni sem sýna að sálin deyi.
7 Ástand hinna dánu kemur skýrt fram í Prédikaranum 9:5, 10 þar sem við lesum: „Hinir dauðu vita ekki neitt . . . í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ Dauðinn er þess vegna tilveruleysi. Þegar menn deyja „verða [þeir] aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu,“ skrifaði sálmaritarinn. (Sálmur 146:4) Hinir látnu eru því meðvitundarlausir, óvirkir.
8 Þegar Guð kvað upp dóm yfir Adam sagði hann: „Mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) Adam var ekki til áður en Guð myndaði hann af mold eða leiri jarðar og gaf honum líf. Þegar hann dó hvarf hann aftur til þessa tilveruleysis. Refsing hans var dauði — ekki að flytjast yfir á annað tilverusvið. Hvað verður þá um sálina? Orðið „sál“ í Biblíunni á oft ekki við neitt annað en manninn sjálfan. Þegar við því segjum að Adam hafi dáið erum við að segja að sálin, sem hét Adam, hafi dáið. Það kann að hljóma undarlega í eyrum þeirra sem trúa á ódauðleika sálarinnar. Biblían segir engu að síður: „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ (Esekíel 18:4) Í 3. Mósebók 21:1 er talað um ‚lík.‘ Og nasíreum var sagt að koma ekki nærri ‚líki.‘ (4. Mósebók 6:6) Hebreskan notar hér orðið neʹfes (sál) og talar því í þessu samhengi um „látna sál.“
9. Hvað á Biblían við þegar hún segir að sál Rakelar hafi verið „að fara út“?
9 En hvað má þá segja um orð 1. Mósebókar 35:18 varðandi sorglegan dauða Rakelar sem átti sér stað þegar hún fæddi yngri son sinn? Þar segir samkvæmt Nýheimsþýðingu Heilagrar ritningar: „Er sál hennar var að fara út (því að hún dó) nefndi hún hann Benóní; en faðir hans nefndi hann Benjamín.“ Gefur þessi ritningarstaður í skyn að Rakel hafi haft innri veru sem fór úr henni við dauða hennar? Alls ekki. Munum að orðið „sál“ getur líka vísað til lífsins sem einstaklingurinn á. Í þessu tilviki þýddi „sál“ Rakelar þess vegna ekkert annað en „líf“ hennar. Í stað hinnar orðréttu þýðingar, „sál hennar var að fara út,“ segja aðrar þýðingar „er hún var í andlátinu“ (Biblían 1981), „líf hennar fjaraði út“ (Knox), „hún dró andann í síðasta sinn“ (Jerusalem Bible). Hér er engin vísbending um að einhver dularfullur hluti Rakelar hafi lifað af dauða hennar.
10. Á hvaða hátt ‚kom sál‘ sonar ekkjunnar ‚aftur í hann‘?
10 Áþekkt dæmi er upprisa sonar ekkjunnar sem sagt er frá í 1. Konungabók 17. kafla. Í 22. versi lesum við að Elía hafi beðist fyrir yfir ungum dreng og þá „heyrði [Jehóva] bæn Elía, og sál sveinsins kom aftur í hann, svo að hann lifnaði við.“ Orðið „sál“ merkir hér enn á ný „líf.“ New American Standard Bible orðar þetta á þessa leið: „Líf drengsins kom aftur til hans og hann lifnaði við.“ Já, það var líf, ekki eitthvert óljóst fyrirbæri sem sneri aftur til drengsins. Það er í samræmi við það sem Elía sagði við móður drengsins: „Sjá þú, sonur þinn [drengurinn allur] er lifandi.“ — 1. Konungabók 17:23.
Hvað um andann?
11. Hvers vegna getur orðið „andi“ ekki átt við einhvern hluta mannsins sem leysist úr viðjum líkamans og lifir af dauðann?
11 Biblían segir að þegar menn deyi ‚líði andi þeirra burt, þeir verði aftur að jörðu.‘ (Sálmur 146:4) Þýðir þetta að einhver andi leysist bókstaflega úr viðjum líkamans og haldi áfram að lifa eftir lát mannsins? Það getur ekki verið af því að næstu orð sálmaritarans eru þessi: „Á þeim degi verða áform [„hugsun,“ New English Bible] þeirra að engu.“ Hvað er þá andinn og hvernig ‚líður hann burt‘ þegar fólk deyr?
12. Hvað er gefið til kynna með hebresku og grísku orðunum sem þýdd eru „andi“ í Biblíunni?
12 Í Biblíunni er grunnmerking orðsins, sem þýtt er „andi“ (hebreska, ruʹach; gríska, pneuʹma), „andardráttur.“ Í stað þess að segja „andi þeirra líður burt“ notar þýðing R. A. Knox þess vegna orðalagið „andardrátturinn yfirgefur líkama hans.“ (Sálmur 145:4) En orðið „andi“ gefur í skyn miklu meira en þá athöfn að draga andann. Til dæmis segir í 1. Mósebók 7:22 þegar verið er að lýsa eyðingu manna og dýra í heimsflóðinu: „Allt sem hafði lífsanda í nösum sínum, allt sem var á þurrlendinu, það dó.“ Orðið „andi“ (ruʹach á hebresku) getur þar af leiðandi átt við lífskraftinn sem er virkur í öllum lifandi skepnum, bæði mönnum og dýrum, og þau viðhalda með andardrættinum.
13. Hvernig hverfur andinn aftur til Guðs við dauðann?
13 Hvers vegna segir þá í Prédikaranum 12:7 að þegar maðurinn deyi ‚hverfi andinn aftur til Guðs sem gaf hann‘? Þýðir þetta að andinn ferðist bókstaflega út í geiminn til að komast í návist við Guð? Það er langt í frá að verið sé að gefa slíkt í skyn. Þar sem andinn er lífskrafturinn ‚hverfur hann aftur til Guðs‘ í þeim skilningi að það sé núna algerlega undir Guði komið hvort hinn látni fái einhvern tíma að lifa á ný. Guð einn getur endurvakið andann, eða lífskraftinn, og látið mann snúa aftur til lífsins. (Sálmur 104:30) En ætlar Guð að gera það?
„Hann rís upp“
14. Hvað sagði Jesús og hvað gerði hann til að hugga systur Lasarusar þegar þær misstu bróður sinn?
14 Í smábænum Betaníu, þrjá kílómetra austur af Jerúsalem, syrgðu María og Marta ótímabæran dauða Lasarusar, bróður síns. Jesús tók þátt í sorg þeirra því að honum þótti vænt um Lasarus og systur hans. Hvernig gat Jesús huggað systurnar? Ekki með því að segja þeim einhverja flókna sögu heldur með því að segja þeim sannleikann. Hann sagði einfaldlega: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Jesús fór við svo búið til grafarinnar og reisti Lasarus upp — endurvakti til lífs á ný mann sem hafði verið látinn í fjóra daga! — Jóhannes 11:18-23, 38-44.
15. Hver voru viðbrögð Mörtu við því sem Jesús sagði og gerði?
15 Var Marta hissa á orðum Jesú að Lasarus myndi „upp rísa“? Greinilega ekki, því að hún svaraði: „Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ Hún trúði á fyrirheitið um upprisu. Jesús sagði þá við hana: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“ (Jóhannes 11:20-25) Þetta kraftaverk, upprisa Lasarusar, styrkti trú hennar og varð til þess að aðrir öðluðust trú. (Jóhannes 11:45) En hvað er nákvæmlega átt við með hugtakinu „upprisa“?
16. Hvað þýðir orðið „upprisa“?
16 Orðið „upprisa“ er þýðing á gríska orðinu anaʹstasis sem bókstaflega þýðir „það að standa upp aftur.“ Hebreskir þýðendur grískunnar hafa þýtt anaʹstasis með orðum sem merkja „endurlífgun látinna“ (á hebresku techiyathʹ hammethimʹ).a Upprisa felur þess vegna í sér að reisa manninn upp frá hinu lífvana ástandi dauðans — að endurvekja einstaklinginn eins og hann var í lifanda lífi.
17. (a) Hvers vegna er það engum vandkvæðum bundið fyrir Jehóva Guð og Jesú Krist að reisa menn upp frá dauðum hvern og einn? (b) Hvaða fyrirheit gaf Jesús um þá sem eru í minningargröfunum?
17 Jehóva Guð býr yfir óendanlegri visku og fullkomnu minni og getur því auðveldlega reist mann upp til lífs á ný. Það er engum vandkvæðum bundið fyrir hann að muna eftir því sem einkenndi hina látnu — persónuleikaeinkennum þeirra, lífsreynslu og öllu því sem gerir hvern og einn frábrugðinn öðrum mönnum. (Jobsbók 12:13; samanber Jesaja 40:26.) Auk þess er Jesús Kristur bæði fús og fær um að reisa dána upp til lífs eins og frásagan af Lasarusi gefur til kynna. (Samanber Lúkas 7:11-17; 8:40-56.) Jesús Kristur sagði meira að segja: „Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum [„minningargröfunum,“ NW] eru, munu heyra raust hans [Jesú] og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Já, Jesús Kristur hét því að allir, sem væru geymdir í minni Jehóva, fengju upprisu. Því er ljóst samkvæmt Biblíunni að sálin deyr og upprisan leysir menn undan dauðanum. En milljarðar manna hafa lifað og dáið. Hverjir þeirra eru geymdir í minni Guðs og bíða upprisu?
18. Hverjir verða reistir upp?
18 Þeir sem hafa lifað grandvöru lífi sem þjónar Jehóva verða reistir upp. En milljónir annarra hafa dáið án þess að sýna hvort þeir myndu kæra sig um að fylgja réttlátum stöðlum Guðs. Þeim var annaðhvort ókunnugt um kröfur Jehóva eða skorti tíma til að gera nauðsynlegar breytingar á lífi sínu. Þetta fólk er líka í minni Guðs og verður reist upp vegna þess að Biblían lofar: „Upp [munu] rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ — Postulasagan 24:15.
19. (a) Hvaða sýn var Jóhannesi postula gefin í tengslum við upprisuna? (b) Hverju var „kastað í eldsdíkið“ og hvað er átt við með því orðalagi?
19 Jóhannes postuli fékk í spennandi sýn að sjá hina upprisnu standa frammi fyrir hásæti Guðs. Hann lýsir því með þessum orðum: „Hafið skilaði hinum dauðu, þeim sem í því voru, og dauðinn og Hel skiluðu þeim dauðu, sem í þeim voru, og sérhver var dæmdur eftir verkum sínum. Og dauðanum og Helju var kastað í eldsdíkið. Þetta er hinn annar dauði, eldsdíkið.“ (Opinberunarbókin 20:12-14) Hugleiddu hvað þetta þýðir. Allir hinir dauðu, sem eru í minni Guðs, verða leystir úr Helju, almennri gröf mannkynsins. (Sálmur 16:10; Postulasagan 2:31) Þá verður „dauðanum og Helju“ kastað í það sem kallað er „eldsdíkið“ sem táknar algera eyðingu. Hin almenna gröf mannkynsins hættir að vera til.
Einstök framtíð!
20. Í hvers konar umhverfi verða milljónir manna, sem núna eru dánar, reistar upp?
20 Þegar að upprisunni kemur og menn verða reistir upp til lífs í milljónatali býður þeirra ekki auð jörð. (Jesaja 45:18) Þeir vakna upp í fögru, endurbættu umhverfi og komast að raun um að húsnæði, klæði og gnægð matar er til reiðu handa þeim. (Sálmur 67:7; 72:16; Jesaja 65:21, 22) Hverjir munu annast allt þetta undirbúningsstarf? Augljóst er að einhverjir munu þegar búa í nýja heiminum áður en jarðneska upprisan hefst. En hverjir eru þeir?
21, 22. Hvaða einstakar framtíðarhorfur geta þeir átt sem uppi eru á hinum „síðustu dögum“?
21 Uppfylling biblíuspádóma sýnir að við lifum á hinum „síðustu dögum“ núverandi heimskerfis.b (2. Tímóteusarbréf 3:1) Áður en langt um líður grípur Jehóva Guð inn í málefni mannanna og hreinsar jörðina af allri illsku. (Sálmur 37:10, 11; Orðskviðirnir 2:21, 22) Hvað verður um þá sem á þeim tíma þjóna Guði trúfastlega?
22 Jehóva ætlar ekki að eyða hinum grandvöru með hinum illu. (Sálmur 145:20) Slíkt hefur hann aldrei gert og mun ekki gera þegar hann hreinsar jörðina af allri illsku. (Samanber 1. Mósebók 18:22, 23, 26.) Síðasta bók Biblíunnar talar meira að segja um ‚mikinn múg, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum‘ og segir hann koma úr „þrengingunni miklu.“ (Opinberunarbókin 7:9-14) Já, mikill fjöldi lifir af þá miklu þrengingu sem bindur enda á hinn núverandi illa heim, og sá mikli fjöldi fólks gengur inn í nýjan heim Guðs. Þar getur hlýðið fólk fengið að njóta til fulls þeirrar dásamlegu ráðstöfunar Guðs að leysa mannkynið úr viðjum syndar og dauða. (Opinberunarbókin 22:1, 2) ‚Múgurinn mikli‘ þarf þess vegna aldrei að smakka dauðann. Það eru sannarlega einstakar framtíðarhorfur!
Líf án dauða
23, 24. Hvað þarftu að gera ef þig langar til að lifa að eilífu í paradís á jörð?
23 Getum við treyst því að þessi undraverða von verði að veruleika? Algerlega! Jesús Kristur gaf sjálfur til kynna að þeir tímar kæmu að fólk fengi að lifa án þess að þurfa nokkurn tíma að deyja. Rétt áður en Jesús reisti vin sinn Lasarus upp frá dauðum sagði hann við Mörtu: „Hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“ — Jóhannes 11:26.
24 Langar þig til að lifa að eilífu í paradís hér á jörð? Þráir þú að sjá látna ástvini þína aftur? „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu,“ segir Jóhannes postuli. (1. Jóhannesarbréf 2:17) Núna er rétti tíminn til að læra hver sé vilji Guðs og ákveða að lifa í samræmi við hann. Þá getur þú, ásamt milljónum annarra sem þegar gera vilja Guðs, lifað að eilífu í paradís á jörð.
[Neðanmáls]
a Þó að orðið „upprisa“ komi ekki fyrir í Hebresku ritningunum kemur upprisuvonin greinilega fram í Jobsbók 14:13, Daníel 12:13 og Hósea 13:14.
b Sjá bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs, blaðsíðu 98-107, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Manstu?
◻ Hver er grunnmerking frummálsorðanna sem eru þýdd „sál“?
◻ Hvað verður um sálina við dauðann?
◻ Hvað segir Biblían að leysi menn undan dauðanum?
◻ Hvaða einstakar framtíðarhorfur bíða hinna trúföstu nú á tímum?
[Rammagrein á blaðsíðu 24]
„Sálin“ sem lifandi vera
Stundum á orðið „sál“ við lífið sem býr í mannveru eða dýri. Það breytir ekki þeirri skilgreiningu Biblíunnar að sálin sé mannveran sjálf eða dýrið. Þetta má skýra með dæmi: Við segjum að einhver sé lifandi í þeirri merkingu að hann sé lifandi mannvera. Við gætum líka sagt að hann eigi líf. Á sama hátt er lifandi maður sál. Meðan hann er á lífi er engu að síður hægt að segja að hann eigi „sál.“
Til dæmis sagði Guð við Móse: „Þeir eru allir dauðir, sem leituðu eftir [sál þinni].“ Óvinir Móse voru greinilega á höttunum eftir lífi hans. (2. Mósebók 4:19; samanber Jósúabók 9:24; Orðskviðina 12:10.) Jesús notaði orðið á svipaðan hátt þegar hann sagði: „Mannssonurinn er . . . kominn . . . til að þjóna og gefa [sál sína] til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28; samanber 10:28.) Orðið „sál“ þýðir í öllum þessum tilvikum „líf.“
[Myndir á blaðsíðu 24]
Þau eru öll sálir.
[Rétthafi]
Kólibrífugl: U.S. Fish and Wildlife Service, Washington, D.C./Dean Biggins
[Mynd á blaðsíðu 25]
Jesús sýndi fram á að upprisan leysir menn undan dauðanum.
[Mynd á blaðsíðu 26]
„Hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“ — Jóhannes 11:26.