Þú ert dýrmætur í augum Guðs!
„Með ævarandi elsku hefi ég elskað þig. Fyrir því hefi ég látið náð mína haldast við þig.“ — JEREMÍA 31:3.
1. Hvernig voru viðhorf Jesú til almennings ólík viðhorfum faríseanna?
ÞEIR sáu umhyggjuna skína úr augum hans. Þessi maður, Jesús, var gerólíkur trúarleiðtogum þeirra; honum var annt um þá. Hann fann til með þessu fólki af því að það var ‚hrjáð og umkomulaust eins og sauðir er engan hirði hafa.‘ (Matteus 9:36) Trúarleiðtogar þess áttu að vera kærleiksríkir hirðar fyrir hönd Guðs sem var kærleiksríkur og miskunnsamur. En þeir litu niður á almenning sem fyrirlitlegan skríl — álitu hann bölvaðan.a (Jóhannes 7:47-49; samanber Esekíel 34:4.) Slík brengluð, óbiblíuleg afstaða var býsna ólík viðhorfi Jehóva til fólks síns. Hann hafði sagt þjóð sinni, Ísrael: „Með ævarandi elsku hefi ég elskað þig.“ — Jeremía 31:3.
2. Hvernig reyndu þrír félagar Jobs að sannfæra hann um að hann væri einskis virði í augum Guðs?
2 En farísearnir voru alls ekki fyrstir til að reyna að telja ástkærum sauðum Jehóva trú um að þeir væru einskis verðir. Tökum Job sem dæmi. Í augum Jehóva var hann réttlátur og ámælislaus en „huggararnir“ þrír vændu hann um að vera siðlaus og óguðlegur fráhvarfsmaður sem myndi deyja án þess að skilja eftir sig spor. Þeir fullyrtu að ekkert réttlæti, sem Job sýndi, væri nokkurs virði í augum Guðs því að Guð treysti ekki einu sinni englum sínum og liti jafnvel á himininn sem óhreinan. — Jobsbók 1:8; 4:18; 15:15, 16; 18:17-19; 22:3.
3. Hvaða aðferðir notar Satan nú á dögum til að reyna að sannfæra fólk um að það sé einskis virði og enginn geti elskað það?
3 Satan beitir enn því ‚vélabragði‘ að reyna að sannfæra fólk um að það sé einskis virði og enginn elski það. (Efesusbréfið 6:11) Oft tælir hann fólk að vísu með því að höfða til hégómagirndar þess og stolts. (2. Korintubréf 11:3) En hann hefur líka yndi af því að brjóta niður sjálfsvirðingu þeirra sem eru veikir fyrir, sérstaklega núna á þessum erfiðu „síðustu dögum.“ Margir alast upp í ‚kærleikslausum‘ fjölskyldum og margir þurfa að eiga dagleg samskipti við grimma, eigingjarna og framhleypna menn. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Áralangar misþyrmingar, kynþáttafordómar, hatur eða kynferðisleg misnotkun hafa kannski sannfært slíkt fólk um að það sé einskis virði og enginn geti elskað það. Maður einn skrifaði: „Mér finnst ekki vænt um neinn og finn ekki að nokkrum þyki vænt um mig. Ég á mjög erfitt með að trúa að Guð beri nokkra umhyggju fyrir mér.“
4, 5. (a) Hvers vegna gengur sú hugmynd í berhögg við Ritninguna að maðurinn sé einskis virði? (b) Nefndu eina hættulega afleiðingu þess að trúa að ekkert sem við gerum sé nokkurs virði.
4 Sú hugmynd að maðurinn sé einskis virði gengur algerlega í berhögg við eina af undirstöðukenningum orðs Guðs, kenninguna um lausnargjaldið. (Jóhannes 3:16) Fyrst Guð greiddi svona hátt gjald — dýrmætt líf sonar síns — til að kaupa tækifæri handa okkur til að lifa eilíflega, þá hlýtur hann að elska okkur; við hljótum að vera einhvers virði í augum hans.
5 Auk þess væri það mjög letjandi að hafa á tilfinningunni að við séum Guði vanþóknanleg, að ekkert sem við gerum sé nokkurs virði! (Samanber Orðskviðina 24:10.) Ef við höfum þetta neikvæða viðhorf getur jafnvel vel meint uppörvun, sem ætlað er að hjálpa okkur að gera meira í þjónustu Guðs ef við getum, hljómað eins og fordæming. Hún getur virst enduróma þá innri sannfæringu okkar að hvað sem við gerum þá sé það ekki nóg.
6. Hvert er besta mótefnið gegn afar neikvæðum hugmyndum um sjálfan sig?
6 Örvæntu ekki þótt slíkar neikvæðar kenndir sæki á þig. Margir eru stundum óþarflega harðir við sjálfa sig. Og munum að orð Guðs er til þess gert að ‚leiðrétta‘ og til að „brjóta niður vígi.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16; 2. Korintubréf 10:4) Jóhannes postuli skrifaði: „Af þessu munum vér þekkja, að vér erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu vor frammi fyrir honum, hvað sem hjarta vort kann að dæma oss fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta vort og þekkir alla hluti.“ (1. Jóhannesarbréf 3:19, 20) Við skulum því skoða hvernig Biblían kennir okkur á þrjá vegu að við erum dýrmæt í augum Jehóva.
Jehóva metur þig
7. Hvernig kenndi Jesús öllum kristnum mönnum hvers virði þeir væru í augum Guðs?
7 Í fyrsta lagi kennir Biblían beinlínis að við séum öll einhvers virði í augum Guðs. Jesús sagði: „Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó er ekki einn þeirra gleymdur Guði. Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Lúkas 12:6, 7) Á þeim dögum var spörvinn ódýrasti matfugl sem fékkst, en þó gaf skaparinn gaum að hverjum og einum. Þar með er grunnurinn lagður að heillandi samanburði: Þegar menn eiga í hlut — sem eru margfalt verðmætari — þekkir Guð þá í smáatriðum. Það er rétt eins og hvert einasta hár á höfði okkar sé talið!
8. Af hverju er raunhæft að ætla að Jehóva geti talið hárin á höfði okkar?
8 Að höfuðhárin séu talin? Ef þér býður í grun að hér sé líking Jesú óraunhæf skaltu hugsa um þetta: Guð man svo fullkomlega eftir trúföstum þjónum sínum að hann er fær um að reisa þá upp frá dauðum — endurskapa þá í smáatriðum, meðal annars hinn flókna erfðalykil þeirra og margra ára minningar og reynslu. Í samanburði við það væri það hægur vandi að telja hárin á höfði okkar (sem eru að meðaltali um 100.000). — Lúkas 20:37, 38.
Hvað sér Jehóva við okkur?
9. (a) Nefndu nokkra eiginleika sem Jehóva kann að meta. (b) Af hverju heldurðu að slíkir eiginleikar séu honum dýrmætir?
9 Í öðru lagi kennir Biblían okkur hvað það er sem Jehóva kann að meta í fari okkar. Í stuttu máli hefur hann yndi af góðum eiginleikum okkar og viðleitni. Davíð konungur sagði Salómon syni sínum: „[Jehóva] rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar.“ (1. Kroníkubók 28:9) Þegar Guð rannsakar hjörtu manna í milljarðatali í þessum ofbeldis- og hatursfulla heimi hlýtur hann að hafa mikið yndi af því að finna hjarta sem ann friði, sannleika og réttlæti! (Samanber Jóhannes 1:47; 1. Pétursbréf 3:4.) Hvað gerist þegar Guð finnur hjarta sem svellur af kærleika til hans, sem leitast við að kynnast honum og veita öðrum hlutdeild í slíkri þekkingu? Í Malakí 3:16 segir Jehóva okkur að hann hlusti á þá sem tala við aðra um hann, og að hann haldi jafnvel „minnisbók“ um alla sem „óttast [Jehóva] og virða hans nafn.“ Slíkir eiginleikar eru honum dýrmætir!
10, 11. (a) Hvernig gætu sumir haft tilhneigingu til að leggja takmarkaðan trúnað á að Jehóva meti góða eiginleika þeirra? (b) Hvernig er Abía dæmi um að Jehóva meti góða eiginleika af öllum stærðargráðum?
10 En hjarta, sem fordæmir sjálft sig, berst kannski gegn slíkum rökum fyrir því að við séum verðmæt í augum Guðs. Það hvíslar kannski þrálega: ‚En það eru svo margir aðrir sem eru betri fyrirmynd í þessum eiginleikum en ég. Jehóva hlýtur að verða fyrir miklum vonbrigðum þegar hann ber mig saman við þá!‘ En Jehóva ber menn ekki saman og hann er ekki stífur og kröfuharður. (Galatabréfið 6:4) Hann les hjörtun af miklu innsæi og kann að meta góða eiginleika af öllum stærðargráðum.
11 Þegar Jehóva úrskurðaði til dæmis að öll hin fráhverfa konungsætt Jeróbóams skyldi líflátin, sópað burt eins og „saur,“ fyrirskipaði hann að aðeins einn af sonum hans, Abía, skyldi fá mannsæmandi greftrun. Af hverju? Af því að „eitthvað hefir það verið í fari hans, er [Jehóva], Guði Ísraels, geðjaðist að.“ (1. Konungabók 14:10, 13) Þýddi það að Abía væri trúfastur tilbiðjandi Jehóva? Það er ekki víst því að hann dó eins og aðrir í óguðlegri fjölskyldu hans. (5. Mósebók 24:16) Engu að síður sá Jehóva eitthvað gott í hjarta Abía og breytti samkvæmt því. Biblíuskýringarritið Matthew Henry’s Commentary on the Whole Bible segir: „Þótt ekki sé nema eitthvað gott af því tagi þá finnst það; Guð, sem leitar þess, sér það þótt smátt sé og er ánægður með það.“ Og gleymdu ekki að finni Guð einhvern eiginleika í fari þínu, jafnvel í smáum mæli, þá getur hann látið hann vaxa eins lengi og þú leitast við að þjóna honum í trúfesti.
12, 13. (a) Hvernig sýnir Sálmur 139:3 að Jehóva metur viðleitni okkar? (b) Í hvaða skilningi má segja að Jehóva sigti verk okkar?
12 Jehóva metur viðleitni okkar á svipaðan hátt. Í Sálmi 139:1-3 lesum við: „[Jehóva], þú rannsakar og þekkir mig. Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar. Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.“ Jehóva tekur sem sagt eftir öllu sem við erum að gera. En hann tekur ekki bara eftir því. Setningin „alla vegu mína gjörþekkir þú“ á hebresku getur líka merkt „þér þykir vænt um alla vegu mína.“ (Samanber Matteus 6:19, 20.) En hvernig getur Jehóva þótt vænt um vegu okkar þar eð við erum svo ófullkomin og syndug?
13 Það er athyglisvert að sumir fræðimenn benda á að þar sem Davíð skrifaði að Jehóva ‚athugaði‘ ferðir hans og hvíldarstundir merkir hebreskan bókstaflega að „sigta“ eða „hreinsa.“ Heimildarrit segir: „Það merkir . . . að hreinsa allt hismið frá og skilja allt kornið eftir — að halda öllu verðmætu eftir. Hérna merkir það því að Guð hafi sigtað hann ef svo má segja. . . . Hann tvístraði öllu hisminu eða því verðlausa og sá þá hvað var raunverulegt og verðmætt.“ Hjarta, sem fordæmir sjálft sig, sigtar kannski gerðir okkar á gagnstæðan hátt, ávítar okkur miskunnarlaust fyrir mistök fortíðarinnar og vísar því sem við höfum áorkað á bug sem einskis verðu. En Jehóva fyrirgefur syndir okkar ef við iðrumst einlæglega og leggjum hart að okkur að endurtaka ekki mistökin. (Sálmur 103:10-14; Postulasagan 3:19, 20) Hann sigtar úr góðu verkin og man eftir þeim. Hann man meira að segja eftir þeim að eilífu, svo framarlega sem við erum honum trúföst. Hann myndi líta á það sem ranglæti að gleyma þeim og hann er aldrei ranglátur. — Hebreabréfið 6:10.
14. Hvað sýnir að Jehóva metur starf okkar í hinni kristnu þjónustu?
14 Hvaða góð verk kann Guð að meta? Nálega hvaðeina sem við gerum til að líkja eftir syni hans, Jesú Kristi. (1. Pétursbréf 2:21) Vissulega er útbreiðsla fagnaðarerindisins um Guðsríki eitt mjög þýðingarmikið verk. Við lesum í Rómverjabréfinu 10:15: „Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu.“ Við hugsum kannski ekki venjulega um fótatak okkar sem „fagurt“ en Páll notar sama orð hérna og notað er í grísku Sjötíumannaþýðingunni til að lýsa Rebekku, Rakel og Jósef — sem öll voru þekkt fyrir fegurð sína. (1. Mósebók 26:7; 29:17; 39:6) Það er því mjög fagurt og dýrmætt í augum Guðs okkar, Jehóva, þegar við göngum fram í þjónustu hans. — Matteus 24:14; 28:19, 20.
15, 16. Af hverju metur Jehóva þolgæði okkar og hvernig undirstrika orð Davíðs konungs í Sálmi 56:9 það?
15 Annar eiginleiki, sem Guð kann að meta, er þolgæði okkar. (Matteus 24:13) Mundu að Satan vill að þú snúir baki við Jehóva. Með hverjum degi, sem þú ert Jehóva trúfastur, veitirðu honum enn frekara svar við smánarorðum Satans. (Orðskviðirnir 27:11) Stundum er ekki auðvelt að vera þolgóður. Heilsubrestur, fjárhagsvandræði, sorg og aðrir erfiðleikar geta gert hvern dag sem líður að prófraun. Þolgæði í slíkum prófraunum er sérstaklega dýrmætt í augum Jehóva. Það var þess vegna sem Davíð konungur bað Jehóva að safna tárum hans í táknrænum skilningi í „sjóð“ og var þess fullviss að hann hefði þau ‚rituð í bók sína.‘ (Sálmur 56:9) Já, öll okkar tár eru Jehóva dýrmæt og hann man eftir þeim og þeim þjáningum sem við þolum til að varðveita hollustu okkar við hann. Þau eru líka verðmæt í augum hans.
16 Þegar litið er á góða eiginleika okkar og viðleitni er ljóst að Jehóva finnur margt verðmætt í fari okkar allra. Einu gildir hvernig heimur Satans hefur farið með okkur; við erum dýrmæt í augum Jehóva og hluti af ‚gersemum allra þjóða.‘ — Haggaí 2:7.
Það sem Jehóva hefur gert til að sýna fram á kærleika sinn
17. Hvers vegna ætti lausnarfórn Krists að sannfæra okkur um að Jehóva og Jesús elski okkur sem einstaklinga?
17 Í þriðja lagi gerir Jehóva margt til að sanna kærleika sinn til okkar. Lausnarfórn Krists er áhrifamesta svarið við þeirri lygi Satans að við séum einskis virði eða ekki elskuverð. Við ættum aldrei að gleyma að kvalafullur dauði Jesú á aftökustaurnum, og enn meiri kvöl Jehóva að horfa upp á ástkæran son sinn deyja, er sönnun fyrir kærleika þeirra til okkar. Og þessi kærleikur nær til okkar persónulega. Páll postuli leit málið þeim augum því að hann skrifaði: ‚Guðs sonur . . . elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.‘ — Galatabréfið 2:20.
18. Í hvaða skilningi dregur Jehóva okkur til Krists?
18 Jehóva hefur sannað kærleika sinn til okkar með því að hjálpa okkur hverju og einu að notfæra okkur gagnið af lausnarfórn Krists. Jesús sagði í Jóhannesi 6:44: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ Jehóva dregur okkur persónulega til sonar síns og vonarinnar um eilíft líf með prédikunarstarfinu og með heilögum anda, sem hann notar til að hjálpa okkur að skilja andleg sannindi og fara eftir þeim, þrátt fyrir takmörk okkar og ófullkomleika. Jehóva getur þess vegna sagt við okkur eins og hann sagði við Ísrael: „Með ævarandi elsku hefi ég elskað þig. Fyrir því hefi ég látið náð mína haldast við þig.“ — Jeremía 31:3.
19. Af hverju ættu þau sérréttindi að biðja til Jehóva að sannfæra okkur um persónulegan kærleika hans til okkar?
19 Við finnum þó kannski best fyrir kærleika Jehóva vegna þeirra sérréttinda að hafa bænasamband við hann. Hann býður okkur að biðja til sín „án afláts.“ (1. Þessaloníkubréf 5:17) Hann hlustar! Hann er jafnvel kallaður „þú sem heyrir bænir.“ (Sálmur 65:3) Hann hefur ekki falið neinum öðrum þetta embætti, ekki einu sinni syni sínum. Hugsaðu þér bara: Skapari alheimsins hvetur okkur til að nálgast sig frjálsmannlega í bæn. Bænir þínar geta jafnvel fengið Jehóva til að gera það sem hann myndi að öðrum kosti ekki gera. — Hebreabréfið 4:16; Jakobsbréfið 5:16; sjá Jesaja 38:1-16.
20. Af hverju er kærleikur Guðs til okkar engin afsökun fyrir því að hugsa hátt um sjálfan sig eða vera þóttafullur?
20 Enginn skynsamur kristinn maður tekur slíkan vitnisburð um kærleika Guðs og virðingu sem afsökun fyrir því að álíta sjálfan sig mikilvægari en hann raunverulega er. Páll skrifaði: „Fyrir þá náð, sem mér er gefin, segi ég yður hverjum og einum að hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi, og halda sér hver og einn við þann mæli trúar, sem Guð hefur úthlutað honum.“ (Rómverjabréfið 12:3) Þótt við böðum okkur í kærleiksyl okkar himneska föður skulum við vera heilbrigð í hugsun og muna að ástrík góðvild hans er óverðskulduð. — Samanber Lúkas 17:10.
21. Hvaða lygi Satans verðum við stöðugt að vísa á bug og hvaða sannleika megum við aldrei gleyma?
21 Við skulum gera allt sem í okkar valdi stendur til að sporna gegn öllum hugmyndum sem Satan kemur á framfæri í þessum deyjandi gamla heimi. Meðal þeirra er sú hugmynd að við séum einskis virði og enginn elski okkur. Ef lífið í þessu heimskerfi hefur kennt þér að líta á sjálfan þig sem svo stóra hindrun að hinn ómælanlegi kærleikur Guðs ráði ekki við hana, eða að góð verk þín séu of lítilmótleg til að jafnvel alsjáandi augu hans taki eftir þeim, eða að syndir þínar séu of miklar til að dauði hins dýrmæta sonar hans breiði yfir þær, þá hefur þér verið kennd lygi. Hafnaðu slíkum lygum með allri þeirri óbeit sem þær verðskulda! Höfum stöðugt í huga hin innblásnu orð Páls postula í Rómverjabréfinu 8:38, 39: „Ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“
[Neðanmáls]
a Þeir vísuðu reyndar fátækum á bug með hinu niðrandi orði „ʽam-haʼaʹrets“ eða „fólk landsins.“ Að sögn fræðimanns kenndu farísearnir að það ætti hvorki að trúa þeim fyrir verðmætum né treysta vitnisburði þeirra, bjóða þeim til sín sem gestum eða vera gestur þeirra og ekki einu sinni kaupa af þeim. Trúarleiðtogarnir sögðu að það að gifta dóttur sína einhverjum þessara manna væri ámóta og að gefa hana bundna og hjálparvana á vald villidýri.
Hvað finnst þér?
◻ Af hverju reynir Satan að sannfæra okkur um að við séum einskis virði og að enginn elski okkur?
◻ Hvernig kenndi Jesús að Jehóva meti hvert og eitt okkar mikils?
◻ Hvernig vitum við að Jehóva hefur mætur á góðum eiginleikum okkar?
◻ Hvernig getum við verið viss um að Jehóva kann að meta viðleitni okkar?
◻ Hvernig hefur Jehóva sannað kærleika sinn til okkar sem einstaklinga?
[Mynd á blaðsíðu 12]
Jehóva tekur eftir og man eftir öllum sem virða nafn hans.