Kafli 66
Á laufskálahátíðinni
JESÚS er orðinn frægur á þeim tæpu þrem árum sem liðin eru síðan hann skírðist. Þúsundir manna hafa séð kraftaverk hans og fregnirnar af starfi hans hafa borist vítt og breitt um landið. Nú er fólk saman komið í Jerúsalem til að halda laufskálahátíðina og leitar hans þar og spyrst fyrir um hann.
Jesús er orðinn umdeildur. „Hann er góður,“ segja sumir en aðrir fullyrða: „Nei, hann leiðir fjöldann í villu.“ Það er mikið talað um hann í hálfum hljóðum á fyrstu dögum hátíðarinnar. Enginn þorir þó að tala máli Jesú opinberlega, því að menn óttast refsingu af hendi leiðtoga Gyðinga.
Jesús kemur til Jerúsalem þegar hátíðin er hálfnuð. Hann fer í musterið þar sem fólk undrast frábæra kennsluhæfni hans. Jesús hefur aldrei gengið í rabbínaskóla þannig að Gyðingarnir spyrja hver annan: „Hvernig hefur þessi maður orðið lærður og hefur þó ekki fræðslu notið?“
„Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig,“ segir Jesús. „Sá sem vill gjöra vilja hans, mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.“ Kennsla Jesú fylgir lögmáli Guðs. Það ætti því að vera augljóst að hann leitast við að heiðra Guð, ekki sjálfan sig. „Gaf Móse yður ekki lögmálið?“ spyr Jesús. Síðan segir hann í ávítunartón: „Samt heldur enginn yðar lögmálið.“
„Hví sitjið þér um líf mitt?“ spyr hann svo.
Fólkið, sennilega aðkomufólk á hátíðinni, veit ekki til þess að setið sé um líf hans. Því finnst óhugsandi að nokkur vilji drepa þennan frábæra kennara. Menn ímynda sér því að það hljóti að vera eitthvað að Jesú fyrst hann heldur það. „Þú ert haldinn illum anda,“ segja þeir. „Hver situr um líf þitt?“
Leiðtogar Gyðinga vilja Jesú feigan enda þótt mannfjöldinn viti það ekki. Þegar Jesús læknaði mann á hvíldardegi um hálfu öðru ári áður reyndu leiðtogarnir að drepa hann. Jesús bendir á hve ósanngjarnir þeir séu og segir: „Fyrst maður er umskorinn á hvíldardegi, til þess að lögmál Móse verði ekki brotið, hví reiðist þér mér, að ég gjörði manninn allan heilan á hvíldardegi? Dæmið ekki eftir útliti, dæmið réttlátan dóm.“
Jerúsalembúar, sem vita hvernig í pottinn er búið, segja nú: „Er þetta ekki sá, sem þeir sitja um að lífláta? Og nú er hann að tala á almannafæri, og þeir segja ekkert við hann. Skyldu nú höfðingjarnir hafa komist að raun um, að hann sé Kristur?“ Þessir Jerúsalembúar útskýra af hverju þeir trúa ekki að Jesús sé Kristur: „Vér vitum, hvaðan þessi maður er. Þegar Kristur kemur, veit enginn, hvaðan hann er.“
Jesús svarar: „Bæði þekkið þér mig og vitið hvaðan ég er. Þó er ég ekki kominn af sjálfum mér. En sá er sannur, sem sendi mig, og hann þekkið þér ekki. Ég þekki hann, því ég er frá honum og hann sendi mig.“ Þá reyna þeir að leggja hendur á hann, kannski til að hneppa hann í fangelsi eða láta drepa hann. En þeim mistekst því að tíminn er enn ekki kominn að Jesús skuli deyja.
Margir taka þó að trúa á Jesú eins og þeir eiga reyndar að gera. Hann hefur gengið á vatni, lægt storma og öldur, mettað þúsundir með fáeinum brauðum og fiskum, læknað sjúka og halta, opnað augu blindra, læknað holdsveika og jafnvel reist upp dána. Þeir spyrja því: „Mun Kristur gjöra fleiri tákn, þegar hann kemur, en þessi maður hefur gjört?“
Þegar farísearnir heyra fólkið tala sín í milli um þetta senda þeir og yfirprestarnir þjóna til að handtaka Jesú. Jóhannes 7:11-32.
▪ Hvenær kemur Jesús til hátíðarinnar og hvað segir fólk um hann?
▪ Hver kann að vera ástæðan fyrir því að sumir segja að Jesús hafi illan anda?
▪ Hvernig líta Jerúsalembúar á Jesú?
▪ Af hverju taka margir að trúa á Jesú?