Kafli 68
Meiri kennsla á sjöunda deginum
SÍÐASTI dagur laufskálahátíðarinnar, sjöundi dagurinn, stendur enn. Jesús er að kenna í þeim hluta musterisins sem kallast ‚fjárhirslan.‘ Það mun hafa verið á svæði sem nefnt er forgarður kvenna, en þar eru kistur sem fólk leggur framlög sín í.
Meðan hátíðin stendur er höfð sérstök lýsing á þessu svæði musterisins að nóttu til. Settar eru upp fjórar, risastórar ljósastikur og í hverri fjögur stór ker með olíu. Ljósið frá ljósastikunum með olíukerunum 16 er nógu sterkt til að lýsa langan veg að nóttu. Orð Jesú minna áheyrendur hans kannski á þessa lýsingu. „Ég er ljós heimsins,“ segir hann. „Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“
Farísearnir andmæla: „Þú vitnar um sjálfan þig. Vitnisburður þinn er ekki gildur.“
Jesús svarar: „Enda þótt ég vitni um sjálfan mig, er vitnisburður minn gildur, því ég veit hvaðan ég kom og hvert ég fer. En þér vitið ekki, hvaðan ég kem né hvert ég fer.“ Hann bætir við: „Ég er sá, sem vitna um sjálfan mig, og faðirinn, sem sendi mig, vitnar um mig.“
„Hvar er faðir þinn?“ spyrja farísearnir.
„Hvorki þekkið þér mig né föður minn,“ svarar Jesús. „Ef þér þekktuð mig, þá þekktuð þér líka föður minn.“ Enda þótt farísearnir vilji láta handtaka Jesú snertir hann enginn.
„Ég fer burt,“ segir Jesús aftur. „Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist.“
Gyðingarnir segja nú sín í milli: „Mun hann ætla að fyrirfara sér, fyrst hann segir: ‚Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist‘?“
„Þér eruð neðan að, ég er ofan að. Þér eruð af þessum heimi, ég er ekki af þessum heimi,“ segir Jesús. Svo bætir hann við: „Ef þér trúið ekki, að ég sé sá sem ég er, munuð þér deyja í syndum yðar.“
Jesús er auðvitað að tala um tilveru sína áður en hann varð maður, og að hann sé hinn fyrirheitni Messías eða Kristur. Engu að síður spyrja þeir, eflaust með mikilli fyrirlitningu: „Hver ert þú?“
Þegar þeir hafna Jesú svarar hann: „Til hvers skyldi eg yfir höfuð vera að tala við yður!“ En svo segir hann: „Sá sem sendi mig, er sannur, og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins.“ Hann heldur áfram: „Þegar þér hefjið upp Mannssoninn, munuð þér skilja, að ég er sá sem ég er, og að ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér. Og sá sem sendi mig, er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan, því ég gjöri ætíð það sem honum þóknast.“
Þegar Jesús segir þetta fara margir að trúa á hann. Hann segir við þá: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“
„Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar,“ grípa andstæðingarnir fram í. „Hvernig getur þú þá sagt: ‚Þér munuð verða frjálsir‘?“
Gyðingar hafa oft verið undir erlendum yfirráðum en viðurkenna þó engan kúgara sem herra sinn. Þeir neita að láta kalla sig þræla. En Jesús bendir á að þeir séu svo sannarlega þrælar. Hvernig þá? „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar.“
Gyðingar setja sig í hættu með því að neita að þeir séu þrælar syndarinnar. „Þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu,“ segir Jesús. „Sonurinn dvelst þar um aldur og ævi.“ Þræll á engan erfðarétt og hægt er að senda hann burt hvenær sem er. Aðeins réttborinn sonur eða kjörsonur er „um aldur og ævi“ í húsinu, það er að segja svo lengi sem hann lifir.
„Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir,“ heldur Jesús áfram. Sannleikurinn, sem gerir menn frjálsa, er því sannleikurinn um soninn, Jesú Krist. Það er aðeins vegna fullkominnar fórnar hans sem nokkur maður getur frelsast frá banvænni syndinni. Jóhannes 8:12-36, vers 25 samkvæmt Biblíunni 1912.
▪ Hvar kennir Jesús á sjöunda deginum? Hvað er gert þar að nóttu og hvernig tengist það kennslu Jesú?
▪ Hvað segir Jesús um uppruna sinn og hvað ætti það að segja um hver hann sé?
▪ Á hvaða hátt eru Gyðingarnir þrælar en hvaða sannleikur getur frelsað þá?