Frjálst fólk en ábyrgt
„Þér . . . munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ — JÓHANNES 8:32.
1, 2. (a) Hvaða hlutverki hefur frelsi gegnt í sögu mannkynsins? (b) Hver einn er raunverulega frjáls? Skýrðu svar þitt.
FRELSI er sterkt orð. Mannkynið hefur þolað óteljandi styrjaldir og byltingar og ómælda þjóðfélagsólgu vegna frelsislöngunar mannsins. Það er dagsatt sem Encyclopedia Americana segir: ‚Ekkert hugtak hefur gegnt jafnmikilvægu hlutverki í þróun siðmenningarinnar og frelsishugtakið.‘
2 En hversu margir eru í raun og veru frjálsir? Hversu margir vita einu sinni hvað frelsi er? The World Book Encyclopedia segir: „Eigi menn að njóta algers frelsis má með engum hætti setja því hömlur hvernig þeir hugsa, tala eða hegða sér. Þeir verða að gera sér grein fyrir valkostum sínum og hafa vald til að velja milli þeirra.“ Þekkir þú einhvern, í ljósi þessa, sem er í sannleika frjáls? Hver getur sagt að því séu ‚engar hömlur settar hvernig hann hugsi, tali eða hegði sér?‘ Í raun er aðeins ein persóna í öllum alheiminum sem þessi lýsing á við — Jehóva Guð. Hann einn hefur algert frelsi. Hann einn getur ákveðið hvaðeina sem hann óskar og síðan framkvæmt það þrátt fyrir alla mótspyrnu. Hann er „hinn alvaldi.“ — Opinberunarbókin 1:8; Jesaja 55:11.
3. Hverju er frelsi manna yfirleitt háð?
3 Fyrir lítilmótlega menn getur frelsi einungis verið afstætt. Yfirleitt er það veitt eða tryggt af einhverju yfirvaldi og tengt undirgefni okkar við það yfirvald. Það er nánast regla að eintaklingur getur verið frjáls aðeins ef hann viðurkennir það yfirvald sem tryggir honum frelsi sitt. Til dæmis njóta menn margs konar frelsis í hinum svokallaða „frjálsa heimi,“ svo sem athafnafrelsis, málfrelsis og trúfrelsis. Hvað tryggir mönnum þetta frelsi? Landslög. Einstaklingur getur notið þess svo lengi sem hann hlýðir lögunum. Ef hann misnotar frelsi sitt og brýtur lögin þarf hann að standa yfirvöldum reikningsskap gerða sinna og svo getur farið að frelsi hans verði stórlega skert með fangelsisdómi. — Rómverjabréfið 13:1-4.
Ábyrgð fylgir frelsinu sem Guð gefur
4, 5. Hvaða frelsis njóta tilbiðjendur Jehóva og hverju gerir hann þá ábyrga fyrir?
4 Á fyrstu öldinni talaði Jesús um frelsi. Hann sagði Gyðingum: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ (Jóhannes 8:31, 32) Hann var ekki að tala um málfrelsi eða trúfrelsi. Hann var vissulega ekki að tala um frelsun undan oki Rómar sem margir Gyðingar þráðu. Nei, hann var að tala um miklu dýrmætara frelsi sem veitist ekki vegna laga manna eða duttlunga einhvers mennsks valdhafa heldur er komið frá hinum æðsta drottinvaldi alheimsins, Jehóva. Það var frelsi undan hjátrú, frelsi undan trúarlegri vanþekkingu og mörgu fleiru. Frelsið sem Jehóva veitir er raunverulegt frelsi og það mun endast að eilífu.
5 Páll postuli sagði: „[Jehóva] er andinn, og þar sem andi [Jehóva] er, þar er frelsi.“ (2. Korintubréf 3:17) Í aldanna rás hefur Jehóva átt samskipti við mannkynið á þann hátt að trúfastir menn gætu að lokum notið besta og mesta frelsis sem er mönnum mögulegt, „dýrðarfrelsis Guðs barna.“ (Rómverjabréfið 8:21) Uns það gerist veitir Jehóva okkur frelsi að vissu marki gegnum sannleika Biblíunnar og hann lætur okkur svara til saka ef við misbeitum því frelsi. Páll postuli skrifaði: „Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.“ — Hebreabréfið 4:13.
6-8. (a) Hvaða frelsis nutu Adam og Eva og með hvaða skilyrði gátu þau notið þess áfram? (b) Hverju fyrirgerðu Adam og Eva fyrir sjálfum sér og afkomendum sínum?
6 Lögð var áhersla á ábyrgð gagnvart Jehóva þegar fyrstu foreldrar okkar, Adam og Eva, voru uppi. Jehóva áskapaði þeim frjálsan vilja sem er dýrmæt gjöf. Svo lengi sem þau notuðu þennan frjálsa vilja á ábyrgan hátt nutu þau annarra blessana, svo sem frelsis undan ótta, frelsis undan sjúkdómum, frelsis undan dauða og frelsis til að nálgast himneskan föður sinn með hreinni samvisku. Þegar þau misbeittu frjálsum vilja sínum breyttist allt þetta.
7 Jehóva setti Adam og Evu í Edengarðinn, og þeim til ánægju gaf hann þeim ávexti allra trjáa í garðinum — nema eins. Hann tók þetta eina tré frá handa sjálfum sér; það var ‚skilningstréð góðs og ills.‘ (1. Mósebók 2:16, 17) Með því að láta vera að borða ávöxtinn af þessu tré hefðu Adam og Eva viðurkennt að enginn nema Jehóva hefði frelsi til að setja staðla um hvað væri gott og illt. Ef þau hegðuðu sér á ábyrgan hátt og létu vera að neyta hins forboðna ávaxtar myndi Jehóva halda áfram að tryggja frelsi þeirra á öðrum sviðum.
8 Því miður hlustaði Eva á lævísa uppástungu höggormsins um að hún ætti ‚sjálf að vita skyn góðs og ills.‘ (1. Mósebók 3:1-5) Fyrst át hún og síðan Adam af forboðna ávextinum. Af því leiddi að þau skömmuðust sín og földu sig þegar Jehóva Guð kom til að tala við þau í Edengarðinum. (1. Mósebók 3:8, 9) Nú voru þau orðin syndarar og höfðu glatað þeirri tilfinningu, sem kemur til af hreinni samvisku, að þau væru frjáls til að nálgast Guð. Vegna þessa fyrirgerðu þau líka frelsi sjálfra sín og afkomenda sinna undan synd og dauða. Páll sagði: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann [Adam] og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ — Rómverjabréfið 5:12; 1. Mósebók 3:16, 19.
9. Nefndu nokkra sem notuðu frelsi sitt skynsamlega.
9 Eigi að síður hafði mannkynið enn frjálsan vilja og þegar tímar liðu notuðu sumir ófullkomnir menn hann á ábyrgan hátt til að þjóna Jehóva. Nöfn sumra þeirra hafa varðveist frá forneskju handa okkur. Menn eins og Abel, Enok, Nói, Abraham, Ísak og Jakob (einnig kallaður Ísrael) eru dæmi um einstaklinga sem notuðu það frelsi sem þeir enn nutu til að gera vilja Guðs, og þeim farnaðist vel fyrir vikið. — Hebreabréfið 11:4-21.
Frelsi útvalinnar þjóðar Guðs
10. Hvaða ákvæði innihélt sáttmálinn sem Jehóva gerði við eignarlýð sinn?
10 Á dögum Móse frelsaði Jehóva syni Ísraels — sem þá töldust í milljónum — úr þrælkun í Egyptalandi og gerði við þá sáttmála um að þeir væru eignarlýður hans. Undir sáttmálanum höfðu Ísraelsmenn prestastétt og fyrirkomulag þar sem færðar voru dýrafórnir er breiddu á táknrænan hátt yfir syndir þeirra. Þannig höfðu þeir frelsi til að nálgast Guð í tilbeiðslu. Þeir höfðu líka reglna- og lagakerfi til að halda sér frjálsum frá hjátrúariðkunum og falskri guðsdýrkun. Síðar áttu þeir að fá fyrirheitna landið að erfð og þeim var heitið hjálp Guðs í baráttu gegn óvinum sínum. Sáttmálinn kvað á um að Ísraelsmenn væru skuldbundnir að halda lögmál Jehóva. Þeir gengust af fúsum vilja undir þetta skilyrði og sögðu: „Vér viljum gjöra allt það, sem [Jehóva] býður.“ — 2. Mósebók 19:3-8; 5. Mósebók 11:22-25.
11. Hvaða afleiðingar hafði það er Ísraelsmenn héldu ekki sinn hluta sáttmálans við Jehóva?
11 Í meira en 1500 ár áttu Ísraelsmenn þetta sérstaka samband við Jehóva, en aftur og aftur brutu þeir sáttmálann. Margsinnis létu þeir tælast af falsdýrkun og lentu í fjötrum skurðgoðadýrkunar og hjátrúar, þannig að Guð leyfði að þeir yrðu bókstaflegir þrælar óvina sinna. (Dómarabókin 2:11-19) Í stað þess að njóta þeirrar frelsandi blessunar, sem fylgdi því að halda sáttmálann, var þeim refsað fyrir að brjóta hann. (5. Mósebók 28:1, 2, 15) Loks, árið 607 f.o.t., leyfði Jehóva að þjóðin væri hneppt í þrælkun í Babýlon. — 2. Kroníkubók 36:15-21.
12. Hvað sýndi sig að lokum í sambandi við lagasáttmála Móse?
12 Það var hörð lexía. Ísraelsmenn hefðu átt að læra af henni hve þýðingarmikið það væri að halda lögmálið. Samt sem áður létu þeir enn undir höfuð leggjast að halda lagasáttmálann fullkomlega er þeir sneru aftur heim í land sitt að 70 árum liðnum. Nálega hundrað árum eftir heimkomu þjóðarinnar sagði Jehóva prestum Ísraels: „Þér hafði vikið af veginum og leitt marga í hrösun með fræðslu yðar, þér hafið spillt sáttmála Leví.“ (Malakí 2:8) Einlægasti Ísraelsmaður gat ekki einu sinni lifað eftir hinu fullkomna lögmáli. Í stað þess að vera blessun varð það „bölvun“ eins og Páll postuli komst að orði. (Galatabréfið 3:13) Ljóst var að eitthvað meira en lagasáttmála Móse þurfti til að veita ófullkomnum, trúföstum mönnum dýrðarfrelsi Guðs barna.
Eðli kristins frelsis
13. Hvaða betri frelsisgrundvöllur var að lokum lagður?
13 Þessari þörf var fullnægt með lausnarfórn Jesú Krists. Um árið 50 skrifaði Páll söfnuði smurðra kristinna manna í Galatíu. Hann lýsti því hvernig Jehóva hefði frelsað þá undan þrælkun lagasáttmálans og sagði svo: „Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok.“ (Galatabréfið 5:1) Á hvaða hátt frelsaði Jesús mennina?
14, 15. Á hvaða stórkostlega vegu frelsaði Jesús trúaða menn bæði úr hópi Gyðinga og annarra þjóða?
14 Eftir dauða Jesú komust þeir Gyðingar, er tóku við honum sem Messíasi og urðu lærisveinar hans, undir nýjan sáttmála sem kom í stað gamla lagasáttmálans. (Jeremía 31:31-34; Hebreabréfið 8:7-13) Undir þessum nýja sáttmála urðu þeir — og trúaðir menn af öðrum þjóðum sem síðar gengu í lið með þeim — hluti nýrrar, andlegrar þjóðar er kom í stað Ísraels að holdinu sem útvalin þjóð Guðs. (Rómverjabréfið 9:25, 26; Galatabréfið 6:16) Sem slíkir nutu þeir þess frelsis sem Jesús lofaði er hann sagði: „Sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ Auk þess að leysa þá undan bölvun Móselaganna frelsaði sannleikurinn kristna Gyðinga undan öllum hinum íþyngjandi erfðavenjum sem trúarleiðtogarnir höfðu lagt á þá. Og hann frelsaði kristna menn, sem ekki voru Gyðingar, undan skurðgoðadýrkun og hjátrú sinnar fyrri trúar. (Matteus 15:3, 6; 23:4; Postulasagan 14:11-13; 17:16) Og það var ekki allt og sumt.
15 Þegar Jesús talaði um sannleikann sem frelsar sagði hann: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar.“ (Jóhannes 8:34) Með því að Adam og Eva syndguðu hefur hver einasti maður, sem uppi hefur verið fram til þessa, verið syndari og þar með þræll syndarinnar. Eina undantekningin var Jesús sjálfur, og fórn hans leysti trúaða menn undan þeirri þrælkun. Að vísu voru þeir eftir sem áður ófullkomnir og syndugir í eðli sínu. Núna gátu þeir hins vegar iðrast synda sinna og beðið um fyrirgefningu á grundvelli fórnar Jesú, í trausti þess að bæn þeirra yrði heyrð. (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Á grundvelli lausnarfórnar Jesú lýsti Guð þá réttláta og þeir gátu nálgast hann með hreinni samvisku. (Rómverjabréfið 8:33) Enn fremur frelsaði sannleikurinn þá meira að segja undan ótta við dauðann þar eð lausnarfórnin opnaði möguleika á upprisu og endalausu lífi. — Matteus 10:28; Hebreabréfið 2:15.
16. Hvernig gengur kristið frelsi lengra en nokkurt það frelsi sem heimurinn býður?
16 Á stórkostlegan hátt hlotnaðist körlum og konum kristið frelsi, óháð stöðu þeirra í mannlegu samfélagi. Fátæklingar, fangar, jafnvel þrælar, gátu verið frjálsir. Á hinn bóginn voru hinir háu herrar þjóðanna, sem höfnuðu boðskapnum um Krist, enn í þrælkun hjátrúar, syndar og ótta við dauðann. Við ættum aldrei að láta af að þakka Jehóva fyrir það frelsi sem við njótum. Ekkert sem heimurinn býður upp á kemst nálægt því að jafnast á við það.
Frjálsir en ábyrgir
17. (a) Hvernig glötuðu sumir á fyrstu öld kristnu frelsi sínu? (b) Hvers vegna ættum við ekki að láta blekkjast af því frelsi sem virðist ríkja í heimi Satans?
17 Flestir smurðir kristnir menn á fyrstu öldinni fögnuðu líklega frelsi sínu og varðveittu ráðvendni hvað sem það kostaði. Því miður smökkuðu þó sumir hið kristna frelsi með allri sinni blessun en höfnuðu því síðan með lítilsvirðingu og sneru aftur til þrælkunar heimsins. Hvers vegna? Vafalaust veiklaðist trú margra og þeir einfaldlega ‚bárust afleiðis.‘ (Hebreabréfið 2:1) Aðrir ‚vörpuðu frá sér trú og góðri samvisku og liðu skipbrot á trú sinni.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:19) Ef til vill féllu þeir fyrir efnishyggju eða siðlausu líferni. Það er sannarlega mikilvægt að við stöndum vörð um trú okkar og byggjum hana upp og höldum okkur uppteknum af einkanámi, samkomum, bæn og kristnu starfi! (2. Pétursbréf 1:5-8) Megum við aldrei hætta að meta hið kristna frelsi að verðleikum! Sumir freistast kannski af þeirri lausung sem þeir sjá utan safnaðarins og halda að þeir sem eru í heiminum séu frjálsari en við. Raunin er hins vegar sú að það sem lítur út eins og frelsi í heiminum er yfirleitt einungis ábyrgðarleysi. Ef við erum ekki þrælar Guðs, þá erum við þrælar syndarinnar og laun þeirrar þrælkunar eru beisk. — Rómverjabréfið 6:23; Galatabréfið 6:7, 8.
18-20. (a) Hvernig urðu sumir „óvinir kross Krists“? (b) Hvernig notuðu sumir ‚frelsi sitt sem hjúp yfir vonskuna‘?
18 Páll skrifaði enn fremur í bréfi sínu til Filippímanna: „Margir breyta, — ég hef oft sagt yður það og nú segi ég það jafnvel grátandi —, eins og óvinir kross Krists.“ (Filippíbréfið 3:18) Já, sumir fyrrverandi kristnir menn urðu óvinir trúarinnar, jafnvel fráhvarfsmenn. Sannarlega er mikilvægt að við líkjum ekki eftir þeim. Auk þess skrifaði Pétur: „Þér eruð frjálsir menn, hafið ekki frelsið fyrir hjúp yfir vonskuna, breytið heldur sem þjónar Guðs.“ (1. Pétursbréf 2:16) Hvernig er hægt að nota frelsið sem hjúp yfir vonskuna? Með því að drýgja alvarlegar syndir — ef til vill í leynum — og halda áfram að eiga samneyti við söfnuðinn.
19 Mundu eftir Díótrefesi. Jóhannes sagði um hann: „Díótrefes, sem vill vera fremstur meðal þeirra [innan safnaðarins], tekur eigi við oss. . . . Hann [tekur] ekki sjálfur á móti bræðrunum og hindrar þá, er það vilja gjöra, og rekur þá úr söfnuðinum.“ (3. Jóhannesarbréf 9, 10) Díótrefes notaði frelsi sitt sem hjúp yfir eigingjarnan metnað sinn.
20 Lærisveinninn Júdas skrifaði: „Inn hafa læðst nokkrir menn, sem fyrir löngu var ritað um að þessi dómur biði þeirra. Þeir eru óguðlegir menn, sem misnota náð Guðs vors til taumleysis og afneita vorum einasta lávarði og Drottni, Jesú Kristi.“ (Júdasarbréfið 4) Þessir menn höfðu spillandi áhrif á söfnuðinn meðan þeir höfðu samband við hann. (Júdasarbréfið 8-10, 16) Í Opinberunarbókinni lesum við að í söfnuðunum í Pergamos og Þýatíru hafi verið sundrung, skurðgoðadýrkun og siðleysi. (Opinberunarbókin 2:14, 15, 20-23) Hvílík misnotkun kristins frelsis!
21. Hvað bíður þeirra sem misnota kristið frelsi sitt?
21 Hvað bíður þeirra sem misnota kristið frelsi sitt með þessum hætti? Munum hvað kom fyrir Ísrael. Ísrael var útvalin þjóð Guðs en Jehóva hafnaði henni að lokum. Hvers vegna? Vegna þess að Ísraelsmenn notuðu samband sitt við Guð sem hjúp yfir vonsku sína. Þeir státuðu sig af því að vera synir Abrahams en höfnuðu Jesú, sæði Abrahams og útvöldum Messíasi Jehóva. (Matteus 23:37-39; Jóhannes 8:39-47; Postulasagan 2:36; Galatabréfið 3:16) „Ísrael Guðs“ sem heild mun aftur á móti ekki reynast að sama skapi ótrúr. (Galatabréfið 6:16) Einstakir kristnir menn, sem valda andlegri eða siðferðilegri spillingu, verða hins vegar fyrr eða síðar að fá aga, jafnvel óhagstæðan dóm. Öll erum við ábyrg fyrir því hvernig við notum kristið frelsi okkar.
22. Hvaða gleði fellur þeim í skaut sem nota frelsi sitt til að þræla fyrir Guð?
22 Það er miklu betra að þræla fyrir Guð og vera frjálsir í raun og veru. Enginn nema Jehóva veitir frelsi sem skiptir raunverulegu máli. Orðskviðurinn segir: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ (Orðskviðirnir 27:11) Notum kristið frelsi okkar til þess að upphefja Jehóva. Ef við gerum það mun líf okkar hafa gildi, við munum veita himneskum föður okkar ánægju og að lokum verða meðal þeirra sem njóta dýrðarfrelsis Guðs barna.
Getur þú útskýrt?
◻ Hver einn er algerlega frjáls?
◻ Hvaða frelsis nutu Adam og Eva og hvers vegna glötuðu þau því?
◻ Hvaða frelsis nutu Ísraelsmenn þegar þeir héldu sáttmála sinn við Jehóva?
◻ Hvaða frelsi hlutu þeir sem tóku við Jesú?
◻ Hvernig misstu eða misnotuðu sumir á fyrstu öld kristið frelsi sitt?
[Mynd á blaðsíðu 11]
Frelsið sem Jesús gaf var miklu betra en nokkurt það frelsi sem menn geta veitt.