Gimsteinar úr Jóhannesarguðspjalli
ANDI Jehóva fékk hinn aldurhnigna Jóhannes postula til að færa í letur hrífandi frásögu af ævi og þjónustu Jesú Krists. Guðspjall hans var skrifað í Efesus eða þar í grenndinni um árið 98 að okkar tímatali. En hvert er eðli frásögunnar og hvaða gimsteina geymir hún?
Aðallega viðbótarefni
Jóhannes valdi efni sitt vandlega og endurtók fátt af því sem Matteus, Markús og Lúkas höfðu skrifað. Hann var sjónarvottur þeirra atburða, sem hann greinir frá, og yfir 90 af hundraði efnisins eru viðbót við það sem fjallað er um í hinum guðspjöllunum. Til dæmis segir hann einn frá fortilveru Jesú og að ‚Orðið hafi orðið hold.‘ (1:1-14) Hinir guðspjallaritararnir segja að Jesús hafi hreinsað musterið undir lok þjónustu sinnar en Jóhannes segir hann einnig hafa gert það í byrjun. (2:13-17) Hinn aldurhnigni postuli segir okkur frá vissum kraftaverkum Jesú, svo sem því er hann breytti vatn í vín, reisti upp hinn látna Lasarus og hinni undraverðu fiskveiði eftir upprisu hans. — 2:1-11; 11:38-44; 21:4-14.
Allir guðspjallaritararnir segja frá því hvernig Jesús stofnsetti minningarhátíðina um dauða sinn, en Jóhannes einn lætur þess getið hvernig Kristur kenndi postulunum lexíu í auðmýkt með því að þvo fætur þeirra það kvöld. Jóhannes einn fjallar um opinskáar og einlægar ræður Jesú og bænir í þágu þeirra á þeim tíma. — 13:1-17:26.
Þegar þetta guðspjall talar um Jóhannes er átt við Jóhannes skírara en ritari þess kallar sig ‚lærisveininn sem Jesús elskaði.‘ (13:23) Postulinn elskaði Jesú sannarlega og það eykur kærleika okkar til Krists er við lesum hvernig Jóhannes lýsir honum sem Orðinu, sem brauði lífsins, sem ljósi heimsins, sem góða hirðinum, sem veginum, sannleikanum og lífinu. (1:1-3, 14; 6:35; 8:12; 10:11; 14:6) Það þjónar yfirlýstum tilgangi Jóhannesar: „Þetta er ritað til þess að þér trúið, að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þér í trúnni eigið líf í hans nafni.“ — 20:31.
Auðmýkt og gleði
Í Jóhannesarguðspjalli kynnumst við Jesú sem Orðinu og lambinu sem friðþægir fyrir syndir manna, og sagt er frá kraftaverkum sem sanna að hann var „hinn heilagi Guðs.“ (1:1-9:41) Meðal annars leggur frásagan áherslu á auðmýkt og gleði Jóhannesar skírara. Hann var undanfari Krists en sagði þó: „Skóþveng hans er ég ekki verður að leysa.“ (1:27) Ilskór voru bundir á fætur manna með leðurólum eða þvengjum. Þrælar voru oft látnir leysa skóþvengi annarra og bera ilskóna fyrir þá og var það talið starf sem hæfði þrælum einum. Jóhannes skírari lét þannig í ljós auðmýkt og vitneskju um lítilvægi sitt í samanburði við meistara sinn. Þetta er góð lexía því að einungis auðmjúkir menn eru hæfir til að þjóna Jehóva og Messíasarkonungi hans! — Sálmur 138:6; Orðskviðirnir 21:4.
Í stað þess að bregðast drembilega og reiðilega við Jesú sagði Jóhannes skírari: „Vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu.“ (3:29) Vinur brúðgumans var fulltrúi hans og samdi um hjúskapinn. Stundum skipulagði hann brúðkaupið og bar brúðinni gjafir og föður hennar brúðarverðið. Þessi fulltrúi hafði ástæðu til að gleðjast þegar hann hafði gegnt skyldum sínum. Á sama hátt gladdist Jóhannes yfir að mega leiða Jesú til fundar við fyrstu meðlimi brúðar hans. (Opinberunarbókin 21:2, 9) Líkt og þjónusta vinar brúðgumans stóð aðeins um skamman tíma tók starf Jóhannesar brátt enda. Hann fór minnkandi en Jesús vaxandi. — Jóhannes 3:30.
Umhyggja Jesú fyrir fólki
Við brunn nálægt borginni Síkar sagði Jesús samverskri konu frá táknrænu vatni sem veitti eilíft líf. Er lærisveinarnir komu á vettvang ‚furðuðu þeir sig á því að hann skyldi vera að tala við konu.‘ (4:27) Hvers vegna? Það kom til af því að Gyðingar fyrirlitu Samverja og áttu engin samskipti við þá. (4:9; 8:48) Einnig var óalgengt að kennari meðal Gyðinga talaði við konu á almannafæri. En hluttekning Jesú og umhyggja fyrir fólki kom honum til að bera vitni og vegna þess ‚komu borgarbúar til hans.‘ — 4:28-30.
Það var umhyggja fyrir fólki sem lá að baki orðum Jesú: „Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki.“ (7:37) Hér vísaði hann bersýnilega til siðvenju sem orðin var hluti af hinni átta daga laufskálahátíð. Hvern morgun í sjö daga samfleytt sótti prestur vatn í Sílóamlaug og hellti yfir altari musterisins. Meðal annars var þetta sagt tákna úthellingu andans. Frá og með hvítasunnunni árið 33 knúði andi Guðs fylgjendur Jesú til að bera mönnum um alla jörðina lífgandi vatn. Menn geta hlotið eilíft líf aðeins frá Jehóva, „uppsprettu hins lifandi vatns,“ fyrir tilstilli Krists. — Jeremía 2:13; Jesaja 12:3; Jóhannes 17:3.
Góði hirðirinn sýnir umhyggju!
Umhyggja Jesú fyrir fólki birtist vel í hlutverki hans sem góði hirðirinn er annast sauðumlíka fylgjendur sína. Jafnvel er dauðastundin nálgaðist gaf hann lærisveinunum ástrík heilræði og bað fyrir þeim. (10:1-17:26) Ólíkt þjófi eða ræningja gengur hann um dyrnar inn í sauðabyrgið. (10:1-5) Sauðabyrgi var umgirt svæði þar sem sauðir voru hafðir að nóttu til verndar gegn þjófum og rándýrum. Það var með hlöðnum steinveggjum og stundum voru lagðar þyrnigreinar ofan á þá. Dyravörður gætti dyranna.
Oft notuðu allmargir fjárhirðar sama sauðabyrgi fyrir sauði sína, en hver sauðahjörð hlýddi þó einungis röddu síns hirðis. Í bók sinni Manners and Customs of Bible Lands segir Fred H. Wight: „Þegar skilja þarf að nokkrar sauðahjarðir standa fjárhirðarnir upp hver á fætur öðrum og kalla: ‚Tahú! Tahú!‘ eða eitthvað áþekkt. Sauðirnir lyfta höfðum og eftir að hafa verið allir í kös fylgja þeir hver sínum hirði. Þeir þekkja fullkomlega raddblæ síns hirðis. Ókunnugir hafa oft kallað á sauði með sama hætti en mistekst alltaf að fá sauðina til að fylgja sér.“ Jesús mælti þessi athyglisverðu orð: „Mínir sauðir heyra raust mína, og ég þekki þá, og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf.“ (10:27, 28) Bæði ‚litla hjörðin‘ og hinir ‚aðrir sauðir‘ hlýða rödd Jesú, fylgja forystu hans og njóta umhyggju hans og gæslu. — Lúkas 12:32; Jóhannes 10:16.
Trúfastur sonur Guðs
Kristur var ávallt trúfastur Guði meðan á jarðlífi hans stóð og til fyrirmyndar sem ástríkur hirðir. Umhyggja hans sýndi sig einnig er hann birtist eftir upprisu sína. Það var umhyggja fyrir öðrum sem kom Jesú þá til að hvetja Pétur til að næra sauði sína. — 18:1-21:25.
Er Jesús var staurfestur setti hann okkur skínandi fordæmi um trúfesti allt til dauða. Ein svívirðingin, sem hann mátti þola til umfyllingar spádómunum, var sú að hermennirnir skyldu ‚skipta með sér klæðum hans.‘ (Sálmur 22:19) Þeir vörpuðu hlutkesti um hver skyldi fá hinn vandaða kyrtil hans (á grísku khiton) sem var ofinn í eitt ofan frá og niður úr og saumlaus. (19:23, 24) Slíkur kyrtill var ýmist ofinn í einu lagi úr ull eða hör og gat verið hvítur eða marglitur. Oft var hann ermalaus og borinn innstur klæða. Hann var knésíður eða jafnvel ökklasíður. Jesús var að sjálfsögðu ekki efnishyggjumaður þótt hann klæddist þessum vandaða og saumlausa kyrtli.
Einhverju sinni er Jesús birtist lærisveinunum eftir upprisu sína heilsaði hann þeim með þessum orðum: „Friður sé með yður!“ (20:19) Þetta var algeng kveðja meðal Gyðinga. (Matteus 10:12, 13) Í hugum margra hafa orðin sjálfsagt haft litla merkingu, en ekki í huga Jesú því hann hafði sagt fylgjendum sínum áður: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður.“ (Jóhannes 14:27) Friðurinn, sem Jesús gaf lærisveinum sínum, byggðist á trú þeirra á hann sem son Guðs og róaði hugi þeirra og hjörtu.
Við getum á sama hátt notið ‚friðar Guðs.‘ Megum við meta mikils hina óviðjafnanlegu rósemi sem kemur af nánu sambandi við Jehóva fyrir atbeina hins elskaða sonar hans. — Filippíbréfið 4:6, 7.
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 31]
Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.