Tilgangurinn með komu Messíasar
„Við höfum fundið Messías!“ — JÓHANNES 1:41.
1. Hvaða óvænta tilkynningu er að finna í Biblíunni og hvenær var hún gerð?
GYÐINGUR að nafni Andrés mælti þessi óvæntu orð við bróður sinn fyrir meira en 1950 árum. Getur þú ímyndað þér æsinginn í orðum hans sem kristni postulinn Jóhannes færði í letur? Þessi orð voru töluð hið ógleymanlega ár sem kristinn sagnaritari, Lúkas, kvað vera ‚fimmtánda stjórnarár Tíberíusar keisara.‘ Fimmtánda stjórnarár Tíberíusar, reiknað frá því að hann var lýstur keisari Rómar, hófst í september árið 28 og því lauk í september árið 29. — Lúkas 3:1-3, 21, 22; Jóhannes 1:32-35, 41.
2. Hvernig vísaði spádómur Daníels á árið 29?
2 Sagt hafði verið fyrir hvaða ár Messías myndi koma fram. Nákvæmlega 483 ár voru liðin frá því að Artaxerxes Persakonungur hafði gefið skipun um endurbyggingu Jerúsalem, en það gerðist á 20. stjórnarári hans, árið 455 f.o.t.a (Nehemía 2:1-8) Spámaðurinn Daníel sagði fyrir: „Frá því, er orðið um endurreisn Jerúsalem út gekk, til hins smurða höfðingja, eru sjö sjöundir, og . . . sextíu og tvær sjöundir.“ (Daníel 9:25, sjá NW.) Það áttu því að líða 7 + 62 = 69 spádómlegar sjöundir milli þessara tveggja merkisatburða. Sextíu og níu sjöundir eða vikur samsvara 483 dögum. Samkvæmt hinni spádómlegu reglu um „dag fyrir ár hvert“ átti Messías því að koma fram 483 árum síðar, árið 29. — Esekíel 4:6.
3. (a) Hvað merkir titillinn „Messías“? (b) Hvaða spádóma þurfti Messías að uppfylla?
3 Því var réttilega mikil „eftirvænting vakin hjá lýðnum“ árið 29 varðandi komu Messíasar. (Lúkas 3:1, 15) Titillinn „Messías“ þýðir „hinn Smurði“ og er sömu merkingar og gríska orðið „Kristur.“ (Jóhannes 1:41) Sú spurning brann á vörum margra Gyðinga hvern Jehóva Guð myndi smyrja sem konung til að ríkja ekki aðeins yfir Ísrael heldur öllu mannkyni. Spádómarnir höfðu sagt að það yrði afkomandi Júda, sonarsonarsonar Abrahams. Enn fremur átti Messías að vera erfingi að hásæti Davíðs Júdakonungs og fæðast í heimaborg hans, Betlehem. — 1. Mósebók 17:5, 6; 49:10; Sálmur 132:11; Daníel 7:13, 14; Míka 5:2; Jóhannes 7:42.
Borin kennsl á Messías
4, 5. (a) Hvað gerðist merkisárið 29? (b) Á hvaða ótvíræðan hátt var hinn útvaldi Messías auðkenndur?
4 Á hinu mikilvæga ári 29 gerðist eftirfarandi: „Orð Guðs [kom] til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni. Hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda.“ (Lúkas 3:2, 3) Þjónusta Jóhannesar bjó iðrunarfulla Gyðinga undir að taka við Messíasi sem var rétt ókominn. Enn fremur gaf Jehóva Jóhannesi tákn. Hann átti að horfa eftir þeim er hann ‚sæi andann koma yfir og nema staðar á.‘ — Jóhannes 1:33.
5 Eftir að Jóhannes hafði skírt Jesú frá Nasaret varð hann vitni að þessari smurningu. Jesús var ekki smurður með olíu eins og jarðneskur forfaðir hans Davíð, heldur með heilögum anda Guðs. (1. Samúelsbók 16:13; Postulasagan 10:38) Samtímis sagði Guðs eigin rödd: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ (Matteus 3:16, 17) Eins og Jóhannes bar vitni um síðar: „Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum. Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs.“ — Jóhannes 1:32, 34.
6. Hvaða gott fordæmi gáfu þeir Andrés og Jóhannes okkur?
6 Með slíkum orðum kynnti Jóhannes skírari Jesú fyrir lærisveinum sínum og kallaði hann einnig „Guðs lamb, sem ber synd heimsins.“ (Jóhannes 1:29) Tveir lærisveinar brugðust skjótt við. Eftir að hafa verið með Jesú einn dag voru þeir fullkomlega sannfærðir um að hann væri Messías. Annar þeirra hét Andrés og hann leitaði uppi bróður sinn, Símon Pétur, fullur hrifningar. Hinn lærisveinninn er talinn hafa verið Jóhannes Sebedeusson sem varð ástkær postuli Jesú. Eftir að hafa borið vitni um Messías í nálega 70 ár var Jóhannes knúinn til að skrifa guðspjall sitt okkur til gagns. Hafa fordæmi Andrésar og Jóhannesar áhrif á þig? Ert þú jafnákafur og þeir og aðrir ‚postular lambsins‘ voru að boða hinn hrífandi boðskap um Messías? — Opinberunarbókin 1:9; 21:14; Jóhannes 1:35-41; Postulasagan 5:40-42.
Smurður sem konungur og æðsti prestur
7. Hvers vegna gat Jesús ekki þjónað sem prestur í musterinu í Jerúsalem?
7 Jesús fæddist sem Gyðingur og fæddist því „undir lögmáli.“ (Galatabréfið 4:4) Þar eð hann var af ættkvísl Júda gat hann ekki þjónað sem prestur í jarðnesku musteri Jehóva, en prestarnir þar voru afkomendur Arons af ættkvísl Leví. „Drottinn vor er af Júda upp runninn, en Móse hefur ekkert um presta talað, að því er varðar þá ættkvísl.
8. Hvað táknaði jarðneskt musteri Jehóva?
8 Jóhannes postuli skrifaði: „Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.“ (Jóhannes 1:6-9) Með skírn Jóhannesar var sem mikið, andlegt musteri hefði orðið til, og þar var nú andlegur æðsti prestur sem gat leyst mannkynið úr andlegum myrkrafjötrum heims Satans. — Hebreabréfið 8:1-5; 9:24.
9, 10. (a) Hvað var átt við með orðum Jesú: „Fórn og gjafir hefir þú eigið viljað“ og „Líkama hefur þú búið mér“? (b) Hvernig leit Jesús á þetta?
9 Jesús var á bæn meðan hann var skírður. Biblían greinir frá sumu því sem hann sagði í bæninni eins og Páll postuli skrifaði síðar: „Fórn og gjafir hefur þú eigi viljað, en líkama hefur þú búið mér. Brennifórnir og syndafórnir geðjuðust þér ekki. Þá sagði ég: ‚Sjá, ég er kominn — í bókinni er það ritað um mig — ég er kominn til að gjöra þinn vilja, Guð minn!‘“ — Hebreabréfið 10:5-7; Lúkas 3:21.
10 Jesús heimfærði þannig á sjálfan sig spádóminn í Sálmi 40:7-9 sem sagði fyrir þann tilgang Jehóva að láta dýrafórnirnar, sem prestar af ætt Arons færðu í musterinu í Jerúsalem, taka enda. Jehóva hafði ekki „þóknun“ á þessum fórnum í þeim skilningi að þær voru aðeins táknmynd og gátu ekki friðþægt fullkomlega fyrir syndir manna. Jehóva útbjó því fullkominn mannslíkama handa Jesú til að fórnfæra. Guð flutti líf hins himneska sonar síns í móðurkvið Gyðingameyjar. Jesús fæddist þannig óflekkaður af synd Adams. Hann var fullkominn sonur Guðs og líf hans gat friðþægt fyrir syndir mannkyns. (Lúkas 1:30-35) Eins og Sálmur 40:9 sagði fyrir var það hjartanleg löngun Jesú að gera vilja föður síns. „Og samkvæmt þessum vilja erum vér helgaðir með því, að líkama Jesú Krists var fórnað í eitt skipti fyrir öll.“ — Hebreabréfið 10:10, 11.
11. Hvaða spádóm uppfyllti dauði Messíasar og hvernig olli hann því að ‚fórnir voru afnumdar‘?
11 Mannslífið, sem Jesús fórnaði, gerði að engu í eitt skipti fyrir öll þörfina á öðrum fórnum í hinu jarðneska musteri í Jerúsalem. Auk þess dó hann á páskadegi árið 33. Það var um þrem og hálfu ári eftir skírn hans. Þessi þrjú og hálft ár svöruðu til hálfrar, spádómlegrar sjöundar eða viku. (4. Mósebók 14:34) Því fór nákvæmlega eins og Daníel hafði sagt fyrir um dauða Messíasar: „Um miðja sjöundina mun hann afnema sláturfórn og matfórn.“ (Daníel 9:26, 27) Enda þótt hinn táknræni prestdómur í Jerúsalem hafi starfað áfram uns musterinu var eytt árið 70 hættu fórnirnar, sem prestarnir færðu þessi ár, að hafa nokkurt gildi því að hin æðri fórn Jesú var komin í þeirra stað. — Matteus 23:37, 38.
12. Á hvaða hátt er prestdómur Jesú fremri prestdómi Arons?
12 Aron hafði verið fyrstur margra æðstu presta Ísraels. Eftir að hann hafði verið smurður með heilagri olíu varð hann að bíða í sjö daga í tjaldbúðinni uns hann fékk vald til að þjóna sem æðsti prestur. (3. Mósebók 8:12, 33) Eins þurfti Jesús að bíða áður en honum var veitt vald til að biðja mannkyni griða. Þessi tími stóð frá því að hann var smurður sem æðsti prestur uns hann var reistur upp frá dauðum. Ólíkt Aroni þarf hinn ódauðlegi sonur Guðs enga arftaka og hann þjónar bæði sem prestur og konungur „að hætti Melkísedeks.“ — Sálmur 110:1-4; 1. Mósebók 14:18-20; Hebreabréfið 6:20; 7:1-3, 11-17, 23-25.
13. Hvaða þung ábyrgð hvíldi á æðstu prestum Ísraels? (b) Hvernig hefur Jesús Kristur axlað enn þyngri ábyrgð?
13 Í Ísrael til forna bar æðsti presturinn aðalábyrgð á réttri trúfræðslu þjóðarinnar. (3. Mósebók 10:8-11; Malakí 2:7) Á sama hátt kunngerði Jesús réttlátar kröfur Jehóva fyrir öllum sem vildu erfa Guðsríki og hljóta eilíft líf. (Matteus 6:9, 10, 33; 7:28, 29; 11:12; 25:34, 46) Er Jesús var staddur í samkunduhúsi í Nasaret las hann og heimfærði á sjálfan sig eftirfarandi spádóm: „Andi [Jehóva] er yfir mér, af því að hann hefur smurt mig. Hann hefur sent mig til að flytja fátækum gleðilegan boðskap.“ Eftir að hafa dvalið um hríð í Kapernaum sagði hann: „Mér ber og að flytja hinum borgunum fagnaðarerindið um Guðs ríki, því að til þess var ég sendur.“ (Lúkas 4:18, 19, 43; Jesaja 61:1, 2) Jesús þjálfaði líka 70 af lærisveinum sínum til að auka umfang þessarar prédikunar um Guðsríki og sagði fyrir að þeir myndu vinna enn meiri verk en hann hafði unnið. (Lúkas 10:1-9; Jóhannes 14:12) Þar með var grunnurinn lagður að biblíufræðslu um víða veröld sem Jesús ætlaði að stýra fyrir milligöngu ‚hins trúa þjóns‘ eða smurðra fylgjenda sinna. — Matteus 24:45-47; 28:19, 20.
Fremsti verjandi drottinvalds Jehóva
14. (a) Hvers vegna gekk æðsti prestur Ísraels inn í hið allra helgasta á hinum árlega friðþægingardegi? (b) Hvað táknaði ilmreykelsið?
14 Mikilvægasta ástæðan fyrir komu sonar Guðs til jarðar var ekki að bjarga mannkyninu, heldur að gera út um þær ásakanir sem Satan hafði komið fram með varðandi drottinvald Jehóva. Við fáum innsýn í þetta með því að virða nánar fyrir okkur hinn árlega friðþægingardag Ísraels, er æðsti presturinn þurfti að ganga inn í hið allra helgasta nokkrum sinnum. Fyrst fór hann með ilmreykelsi sem brennt var á eldpönnu með glóandi kolum. (3. Mósebók 16:12-16) Það táknaði vel það sem hinn raunverulegi æðsti prestur átti að gera á jörðinni áður en hann stigi upp til himna og gengi fram fyrir Jehóva með verðgildi mannsfórnar sinnar.b (Hebreabréfið 9:24) Reykelsið var tákn um trúfasta lífsstefnu Jesú sem einkenndist af einlægum bænum, brennandi kostgæfni vegna hreinnar tilbeiðslu og djúpum kærleika til Jehóva. (Sálmur 141:2; Markús 1:35; Jóhannes 2:13-17; 12:27, 28; 14:30, 31; Hebreabréfið 5:7) Jesú auðnaðist að varðveita fullkomna ráðvendni gegnum alls konar lævísar freistingar, spott og illskeyttar ofsóknir sem Satan og útsendarar hans stóðu fyrir. — Orðskviðirnir 27:11; Matteus 22:15-18; Markús 14:60-65; 15:16-32; Lúkas 4:13, 29; Jóhannes 8:44, 59.
15. Hvernig getum við sýnt Jehóva þakklæti okkar fyrir að sjá okkur fyrir svona frábærum æðsta presti? (Hebreabréfið 10:21-26)
15 Að launum fyrir að upphefja drottinvald Jehóva var Jesú veitt upprisa til ódauðleika á himnum. Við ættum að vera Jehóva innilega þakklát fyrir að veita okkur svo frábæran æðsta prest! „Er vér þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum vér halda fast við játninguna.“ (Hebreabréfið 4:14) Er það einlæg þrá þín að fylgja ráðvöndu fordæmi Jesú, óháð því hvað djöfullinn kann að gera? Ef svo er getur þú reitt þig á að þú fáir hjálp til að halda út, vegna þess að það er besta hjálpin sem völ er á. „Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar. Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.“ — Hebreabréfið 4:15, 16; 5:7-10; Filippíbréfið 4:13; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2.
Þörf á breyttum hugsunarhætti
16. Hverjar voru væntingar fyrstu lærisveina Messíasar varðandi stjórn Guðsríkis?
16 Andrés og Jóhannes voru fljótir að bera kennsl á hinn sanna Messías, en þeir og aðrir nýir lærisveinar áttu margt ólært. (Jóhannes 16:12, 13) Líkt og margir trúhneigðir Gyðingar á þeim tíma vonuðust þeir til að Messíasarríkið myndi taka til starfa strax á þeim tíma og frelsa Ísraelsþjóðina og höfuðborg hennar, Jerúsalem, undan yfirráðum heiðingja. (Lúkas 2:38; 3:15; 19:11; 23:51; 24:21) En hvaða varanlegt gagn hefði það verið syndugu mannkyni?
17, 18. Hvers vegna sagði Jesús dæmisöguna um ‚mann nokkurn tiginborinn‘?
17 Til að losa væntanlega þegna Guðsríkis undan synd og dauða þurfti Messías fyrst að deyja sem fórnarlamb. (Jóhannes 1:29; Jesaja 53:7, 12) Er Jesús sagði fyrir hvernig það myndi gerast og hvernig hann yrði reistur upp svaraði Pétur: „Guð náði þig, herra, þetta má aldrei fyrir þig koma.“ (Matteus 16:21, 22) Jesús vissi samt sem áður að lærisveinar hans „skildu ekki það sem hann sagði.“ — Markús 9:31, 32; samanber Matteus 17:22, 23.
18 Í síðustu ferð sinni til Jerúsalem gerðist Jesús enn berorðari. (Matteus 20:18, 19) Hann skýrði líka hve mikið gagn myndi hljótast af dauða hans og sagði: „Mannssonurinn er . . . kominn . . . til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28) Rangar væntingar komu í veg fyrir að lærisveinar hans skildu hann. Lúkas skrifar: „Hann var í nánd við Jerúsalem, og þeir ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast.“ Jesús sagði þeim líkingu, til að leiðrétta hugsun þeirra, þar sem hann líkti sér við ‚mann nokkurn tiginborinn‘ er þurfti fyrst að fara „í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi.“ (Lúkas 19:11, 12) Þetta „land“ var himinninn þangað sem Jesús steig upp eftir dauða sinn og upprisu.
19. (a) Hvaða rangar væntingar létu lærisveinar Jesú í ljós eftir upprisu hans? (b) Hvaða breyting varð á samskiptum Guðs við menn á hvítasunnunni árið 33? (Hebreabréfið 8:7-9, 13)
19 Rétt fyrir uppstigningu Jesú spurðu lærisveinar hans samt sem áður: „Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“ (Postulasagan 1:6) Vísaði Jesús þeim á bug fyrir að spyrja svona? Nei, hann skýrði fyrir þeim að það væri enn ótímabært og að þeir ættu að gera sig upptekna af því þýðingarmikla starfi að bera vitni um hinn sanna Messías. (Postulasagan 1:7, 8) Sáttmálasamband Guðs við Ísrael að holdinu átti að taka enda innan skamms. Þess vegna yrði Messíasarríki framtíðarinnar ekki endurreist hjá þessari ótrúu, jarðnesku þjóð. Jesús sagði andstæðingum sínum úr hópi Gyðinga: „Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.“ (Matteus 21:43) Tíu dögum eftir að Jesús steig upp til himna fæddist þessi þjóð. Heilögum anda var úthellt yfir 120 af lærisveinum Jesú, og þannig voru þeir smurðir sem „hinir heilögu“ Guðs og „samarfar Krists“ að hinu komandi Messíasarríki. — Daníel 7:13, 14, 18; Rómverjabréfið 1:7; 8:1, 16, 17; Postulasagan 2:1-4; Galatabréfið 6:15, 16.
20. Hvað gerðu trúfastir kristnir menn á fyrstu öld, þótt þeir hefðu ýmsar rangar væntingar?
20 Jafnvel eftir smurningu sína báru kristnir menn á fyrstu öld rangar væntingar í brjósti. (2. Þessaloníkubréf 2:1, 2) En í stað þess að verða óánægðir og gefast upp tóku þeir auðmjúkir við leiðréttingunni sem þeir fengu. Í krafti heilags anda Guðs tóku þeir glaðir við því verkefni að bera vitni og gera „allar þjóðir að lærisveinum.“ — Matteus 28:19, 20; Postulasagan 1:8; Kólossubréfið 1:23.
21. Hvaða spurningar verður fjallað um í greininni á eftir?
21 Hvað um 20. öldina? Voru nútímavottar Jehóva vakandi fyrir stofnsetningu Messíasarríkis Jehóva? Og þurfti að leiðrétta væntingar þeirra með einhverjum hætti líkt og hjá trúbræðrum þeirra á fyrstu öld?
[Neðanmáls]
a Bæði The Encyclopedia Americana og Great Soviet Encyclopedia eru á einu máli um að stjórnartíð Artaxerxesar hafi lokið árið 424 f.o.t. Hvenær hófst hún? Árið 474. Þessu til stuðnings má nefna að fundist hefur áletrun sem er ársett á 50. stjórnarári Artarxerxesar og önnur gefur til kynna að annar konungur hafi tekið við af honum á 51. stjórnarári hans. Séu talin 50 heil ár frá 424 f.o.t. aftur í tímann sjáum við að hann tók völd árið 474 f.o.t. Tuttugasta stjórnarár Artaxerxesar, þegar tilskipunin var gefin, hefur því verið 19 heilum árum eftir að hann tók við völdum, það er að segja árið 455 f.o.t. Nánari skýringar er að finna í Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 616, útgefið af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Sjá Varðturninn þann 1. janúar 1976, bls. 15, 16.
Hverju svarar þú?
◻ Hvað merkir titillinn „Messías“?
◻ Hvaða merkisatburður átti sér stað árið 29?
◻ Hvernig ‚afnam Messías fórnir um miðja sjöundina‘?
◻ Hvaða ábyrgð hefur Jesús axlað eftir smurningu sína?
◻ Hver var aðaltilgangurinn með fyrri komu Messíasar og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?
[Mynd á blaðsíðu 11]
Er æðsti presturinn gekk inn í hið allra helgasta í fyrsta sinn á friðþægingardeginum táknaði það þýðingarmeira atriði en hjálpræði mannkyns.