Milljónir sem dánar eru munu lifa á ný
MILLJÓNIR sem dánar eru munu lifa á ný — þetta er von sem örvar hjartað! En er hún raunhæf? Hvað þarf til að sannfæra þig um að hún sé það? Til að geta trúað fyrirheiti þarft þú að vera viss um að sá sem gefur það sé bæði fús til og fær um að standa við það. Hver er það sem lofar því að milljónir manna, sem nú eru látnar, muni lifa á ný?
Vorið 31 að okkar tímatali sagði Jesús Kristur djarfmannlega að Jehóva Guð hefði gefið honum mátt til að reisa upp dána. Jesús lofaði: „Eins og faðirinn vekur upp dauða og lífgar, þannig lífgar og sonurinn þá, sem hann vill. Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust [Jesú] og ganga fram.“ (Jóhannes 5:21, 28, 29) Já, Jesús Kristur lofaði því að milljónir manna, sem dánir eru, myndu lifa aftur hér á jörðinni og eiga í vændum að lifa áfram á jörðinni að eilífu. (Jóhannes 3:16; 17:3; samanber Sálm 37:29 og Matteus 5:5.) Þar eð Jesús gaf þetta fyrirheit er óhætt að ganga að því vísu að hann sé fús til að standa við það. En er hann fær um að gera það?
Frásaga Biblíunnar getur þess ekki að Jesús hafi reist nokkurn mann upp frá dauðum áður en hann gaf þetta fyrirheit. Innan við tveim árum síðar sýndi hann þó áþreifanlega að hann væri bæði fús til að reisa upp dána og fær um að gera það.
„Lasarus, kom út“
Lasarus var fjársjúkur. Systur hans tvær, María og Marta, gerðu Jesú orð en hann var staddur handan Jórdanar: „Herra, sá sem þú elskar, er sjúkur.“ (Jóhannes 11:3) Jesú þótti mjög vænt um þessa fjölskyldu. Hann hafði verið gestur á heimili hennar í Betaníu, ef til vill tíður gestur. (Lúkas 10:38-42; samanber Lúkas 9:58.) Nú var þessi góði vinur Jesú mjög veikur.
En hvers væntu María og Marta af Jesú? Þær báðu hann ekki að koma til Betaníu. Þær vissu hins vegar að Jesú þótti mjög vænt um Lasarus. Ætli hann myndi ekki sjálfur vilja koma og heimsækja vin sinn á sjúkrabeðinu? Vafalaust vonuðust þær til að Jesús myndi gera kraftaverk og lækna hann. Þegar hér var komið sögu hafði Jesús læknað fjölda fólks með kraftaverki, jafnvel úr fjarlægð. (Samanber Matteus 8:5-13.) Myndi hann gera eitthvað síður við svona náinn vin? En svo undarlegt sem það var hélt Jesús ekki þegar í stað til Betaníu heldur dvaldist næstu tvo daga á sama stað og hann var. — Jóhannes 11:5, 6.
Lasarus dó einhvern tíma eftir að boðin voru send, ef til vill um svipað leyti og Jesú bárust tíðindin. (Samanber Jóhannes 11:3, 6, 17.) En það þurfti ekki að senda Jesú boð um það því að hann vissi af því er Lasarus dó og ætlaði sér að láta málið til sín taka. Hann sagði lærisveinunum um dauða Lasarusar: „Lasarus, vinur vor, er sofnaður. En nú fer ég að vekja hann.“ (Jóhannes 11:11) Jesús hafði áður reist tvo einstaklinga upp frá dauðum, báða skömmu eftir að þeir dóu.a En nú yrðu aðstæður aðrar. Þegar Jesús loks kom til Betaníu hafði vinur hans verið dáinn í fjóra daga. (Jóhannes 11:17, 39) Gat Jesús lífgað við mann sem hafði verið látinn svo lengi og var þegar byrjaður að rotna í gröf sinni?
Marta, sem var atorkusöm að eðlisfari, hljóp til móts við Jesú er hún frétti að hann væri á leiðinni. (Samanber Lúkas 10:38-42.) Um leið og fundum þeirra bar saman sagði hún við Jesú: „Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.“ Síðan hélt hún áfram og lét með því í ljós trú sína: „En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.“ Jesús var snortinn af sorg hennar og sagði henni: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Er hún lét í ljós trú sína á upprisu framtíðarinnar sagði Jesús henni berum orðum: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“ — Jóhannes 11:20-25.
Er Jesús kom til grafarinnar bað hann menn um að taka frá steininn sem var fyrir gröfinni. Í fyrstu andmælti Marta: „Herra, það er komin nálykt af honum, það er komið á fjórða dag.“ En Jesús fullvissaði hana: „Sagði ég þér ekki: ‚Ef þú trúir, munt þú sjá dýrð Guðs‘?“ Eftir að Jesús hafði beðist fyrir upphátt skipaði hann: „Lasarus, kom út!“ Og Lasarus kom út, þótt hann hefði verið dáinn í fjóra daga! — Jóhannes 11:38-44.
Gerðist þetta í raun og veru?
Jóhannesarguðspjall segir frá upprisu Lasarusar sem sannsögulegri staðreynd. Smáatriðin eru of lifandi til að hér geti verið um að ræða líkingasögu. Sé sannsögulegt gildi þessarar frásögu dregið í efa er verið að véfengja öll kraftaverk Biblíunnar, meðal annars upprisu Jesú Krists sjálfs.b Og sé upprisu Jesú Krists afneitað jafngildir það því að afneita kristinni trú í heild sinni. — 1. Korintubréf 15:13-15.
Sá sem trúir að Guð sé til ætti ekki að eiga í neinum erfiðleikum með að trúa á upprisuna. Lýsum því með dæmi. Segjum svo að maður lesi erfðaskrá sína inn á myndband. Ættingjar hans og vinir geta þá, eftir dauða hans, í reyndinni séð hann og heyrt greina frá því hvað gert skuli við eigur hans. Fyrir hundrað árum var slíkt óhugsandi. Og fyrir suma jarðarbúa er myndbandatæknin enn þá „kraftaverk“ sem þeir fá ekki skilið. Ef menn geta notað náttúrulögmál, sem skaparinn er höfundur að, til að kalla fram það sem er jafnraunverulegt og lifandi og þetta, ætli skaparinn geti þá ekki gert langtum betur? Er þá nokkuð óeðlilegt að gera ráð fyrir að höfundur og skapari lífsins geti reist mann upp frá dauðum með því að endurskapa persónuleika hans í nýmynduðum líkama?
Hin undraverða upprisa Lasarusar jók trú fólksins á Jesú og upprisuna. (Jóhannes 11:41, 42; 12:9-11, 17-19) Hún er líka lifandi sönnun fyrir vilja og löngun Jehóva og sonar hans til að reisa menn upp frá dauðum.
‚Guð mun þrá verk handa sinna‘
Viðbrögð Jesú við dauða Lasarusar sýna okkur að sonur Guðs var mjög hluttekningarsamur. Þær djúpu tilfinningar hans, sem birtust við þetta tækifæri, gefa skýrt til kynna hina brennandi löngun hans til að reisa upp dána. Við lesum: „María kom þangað, sem Jesús var, og er hún sá hann, féll hún honum til fóta og sagði við hann: ‚Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.‘ Þegar Jesús sá hana gráta og Gyðingana gráta, sem með henni komu, komst hann við í anda og varð hrærður mjög og sagði: ‚Hvar hafið þér lagt hann?‘ Þeir sögðu: ‚Herra, kom þú og sjá.‘ Þá grét Jesús. Gyðingarnir sögðu: ‚Sjá, hversu hann hefur elskað hann!‘“ — Jóhannes 11:32-36.
Tilfinningum Jesú er lýst hér með þrennu móti: Hann ‚komst við,‘ „varð hrærður mjög“ og „grét.“ Þau orð, sem Jóhannes postuli notaði á frummálinu er hann sagði frá þessu atviki, gefa til kynna hve djúpar tilfinningar Jesú voru.
Orðin „komst við“ eru þýðing grískrar sagnar (embrimaomai) sem lýsir tilfinningalegum sársauka eða því að vera djúpt snortinn. Biblíuskýrandinn William Barcley segir: „Í klassískri grísku er [embrimaomai] notað um það er hestur frýsar. Hér getur það aðeins merkt að Jesús hafi verið gripinn svo djúpstæðum tilfinningum að ósjálfráð stuna hafi komið frá hjarta hans.“
Orðið, sem þýtt er „hrærður,“ er komið af gríska orðinu tarasso er lýsir geðshræringu. Að sögn ritsins The New Thayer’s Greek-English Lexicon of the New Testament merkir það að „valda innra uppnámi, . . . að valda mikilli kvöl eða sorg.“ Orðið „grét“ er þýðing grísku sagnarinnar dakryo sem merkir að „tárfella, gráta í hljóði.“ Það er ekki hið sama og ‚grátur‘ Maríu og Gyðinganna sem með henni voru og sagt er frá í Jóhannesi 11:33. Orðið, sem þar er notað á grískunni (komið af klaio), merkir að gráta upphátt.c
Jesús komst því í mikla geðshræringu vegna dauða hins ástkæra vinar síns, Lasarusar, og við það að sjá systur Lasarusar gráta. Svo mikil var geðshræring hans að augu hans flóðu í tárum. Það er eftirtektarvert að Jesús hafði, þegar hér var komið sögu, reist tvo einstaklinga upp frá dauðum og ætlaði sér einnig að reisa Lasarus upp. (Jóhannes 11:11, 23, 25) Eigi að síður „grét“ hann. Það er því ekki eins og vanaverk fyrir Jesú að vekja menn upp til lífs. Hinar sterku og djúpu tilfinningar hans, sem birtust við þetta tækifæri, bera glögglega vitni um brennandi löngun hans til að vinna bug á því tjóni sem dauðinn er valdur að.
Úr því að Jesús er ‚ímynd veru Jehóva Guðs‘ getum við treyst að himneskur faðir okkar beri ekki síðri tilfinningar í brjósti. (Hebreabréfið 1:3) Hinn trúfasti Job sagði um fúsleika Jehóva til að reisa menn upp frá dauðum: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? . . . Þú mundir kalla og ég — ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Jobsbók 14:14, 15) Hebresku orðin, sem þýdd eru „þú mundir þrá,“ gefa í skyn innilega löngun og þrá. (1. Mósebók 31:30; Sálmur 84:3) Jehóva hlýtur því að hlakka mjög til upprisunnar.
Getum við í raun og veru treyst fyrirheitinu um upprisuna? Já, því að enginn vafi leikur á að Jehóva og sonur hans eru bæði fúsir til og færir um að uppfylla það. Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig? Að þú getur átt í vændum að sameinast látnum ástvinum þínum aftur hér á jörðinni við friðsæl skilyrði!
Roberta, sem getið var um í greininni á undan, ber þá von í brjósti núna. Nokkrum árum eftir að móðir hennar dó hjálpuðu vottar Jehóva henni að nema Biblíuna rækilega. Hún segir: „Ég grét eftir að hafa lært um upprisuvonina. Það var dásamleg tilhugsun að ég myndi fá að sjá móður mína aftur.“ Ef hjarta þitt þráir líka að sjá látinn ástvin á ný er enginn vafi á að þig langar til að vita meira um þessa stórfenglegu von. Þetta tímarit mun síðar fjalla um það hversu áreiðanleg þessi von er.
[Neðanmáls]
a Frá því að Jesús gaf fyrirheitið, sem skráð er í Jóhannesi 5:28, 29, fram til dauða Lasarusar, reisti Jesús upp son ekkjunar í Nain og dóttur Jaírusar. — Lúkas 7:11-17; 8:40-56.
b Sjá bókina Er Biblían í raun og veru orð Guðs? gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., 6. kafla sem nefnist „Hafa kraftaverk Biblíunnar gerst í raun og veru?“
c Athyglisvert er að gríska orðið, sem merkir að gráta upphátt, (klaio), er notað um Jesú er hann sagði fyrir væntanlega eyðingu Jerúsalem. Lúkas segir svo frá: „Er hann kom nær og sá borgina [Jerúsalem] grét hann yfir henni.“ — Lúkas 19:41.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Jesús reisti dóttur Jaírusar upp frá dauðum. Það er ein af ástæðunum fyrir að við getum trúað á upprisu dauðra í framtíðinni.
[Mynd á blaðsíðu 6]
Jesús var djúpt snortinn yfir dauða Lasarusar.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Þeir sem verða vitni að upprisunni munu finna til sömu gleði og ekkjan í Nain er Jesús reisti son hennar upp frá dauðum.