Kafli 101
Í húsi Símonar í Betaníu
FRÁ Jeríkó heldur Jesús til Betaníu. Leiðin er um 19 kílómetrar, torfær og hallar upp í móti, þannig að þetta er næstum dagsferð. Jeríkó liggur í 250 metra hæð undir sjávarmáli en Betanía í um 760 metra hæð yfir sjávarmáli. Þú manst kannski að Lasarus og systur hans eiga heima í Betaníu sem er smáþorp í austurhlíð Olíufjallsins, um þrjá kílómetra frá Jerúsalem.
Margir eru komnir til Jerúsalem að halda páska. Menn koma tímanlega til að hreinsa sig trúarlega. Vera má að þeir hafi snert lík eða gert eitthvað annað sem gerir þá óhreina. Þeir fylgja því vissum hreinsunarákvæðum til að geta haldið páska sómasamlega. Þegar þessir snemmkomnu gestir safnast saman í musterinu ræða þeir sín í milli hvort Jesús komi til páskahátíðarinnar.
Jesús er afar umdeildur í Jerúsalem. Það er á allra vitorði að trúarleiðtogarnir vilja taka hann og lífláta. Reyndar hafa þeir fyrirskipað að hver sá sem viti af dvalarstað hans skuli gera þeim viðvart. Þrívegis á undanförnum mánuðum hafa þessir leiðtogar reynt að ráða Jesú af dögum — á laufskálahátíðinni, vígsluhátíðinni og eftir að hann reisti Lasarus upp frá dauðum. Fólk veltir því fyrir sér hvort Jesús sýni sig opinberlega enn einu sinni. ‚Hvað haldið þið?‘ spyrja þeir hver annan.
Jesús kemur til Betaníu sex dögum fyrir páska sem ber upp á 14. nísan samkvæmt almanaki Gyðinga. Þetta er einhvern tíma að áliðnum föstudegi, um það leyti sem 8. nísan rennur upp. Ekki hefur hann getað ferðast til Betaníu á laugardegi því að lög Gyðinga takmarka ferðalög á hvíldardegi — frá sólsetri á föstudegi til sólseturs á laugardegi. Sennilega fer Jesús heim til Lasarusar eins og hann hefur áður gert og er þar um nóttina.
Annar Betaníubúi býður Jesú og félögum hans til kvöldverðar á laugardag. Þetta er Símon sem var holdsveikur áður og hugsanlegt er að Jesús hafi læknað. Marta er sjálfri sér lík og gengur um beina og eins og venjulega sinnir María Jesú sérstaklega, en í þetta sinn verður það tilefni deilna.
María opnar alabastursflösku sem inniheldur um pund af ‚ómenguðum nardussmyrslum.‘ Þetta er mjög dýr ilmolía, metin á hér um bil árslaun! Ilmurinn fyllir húsið þegar María hellir olíunni yfir höfuð Jesú, smyr fætur hans með henni og þerrar með hári sínu.
Lærisveinarnir reiðast og spyrja: „Til hvers er þessi sóun?“ og Júdas Ískaríot segir: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?“ Júdas er reyndar ekki að hugsa um fátæka því hann hefur stolið úr sjóði lærisveinanna.
Jesús kemur Maríu til varnar. „Látið hana í friði!“ segir hann. „Hvað eruð þér að angra hana? Gott verk gjörði hún mér. Fátæka hafið þér jafnan hjá yður og getið gjört þeim gott, nær þér viljið, en mig hafið þér ekki ávallt. Hún gjörði það, sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrirfram smurt líkama minn til greftrunar. Sannlega segi ég yður: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess, sem hún gjörði, til minningar um hana.“
Jesús er búinn að vera meira en sólarhring í Betaníu og það hefur spurst út að hann sé þar. Margir koma því heim til Símonar til að sjá Jesú, en líka til að sjá Lasarus sem er meðal gesta. Æðstuprestarnir leggja þá á ráðin um að ráða bæði Jesú og Lasarus af dögum vegna þess að margir fara að trúa á Jesú af því að þeir sjá með eigin augum manninn sem hann reisti upp frá dauðum. Trúarleiðtogarnir eru sannarlega illskeyttir! Jóhannes 11:55–12:11; Matteus 26:6-13; Markús 14:3-9; Postulasagan 1:12.
▪ Hvað er rætt um í musterinu í Jerúsalem og hvers vegna?
▪ Af hverju hlýtur Jesús að hafa komið til Betaníu á föstudegi en ekki laugardegi?
▪ Hvar eyðir Jesús líklega hvíldardeginum eftir að hann kemur til Betaníu?
▪ Hvað gerir María sem veldur deilum og hvernig kemur Jesús henni til varnar?
▪ Hvernig birtist mögnuð vonska æðstuprestanna?