Kafli 15
Fyrsta kraftaverk Jesú
ÞAÐ eru ekki liðnir nema einn eða tveir dagar síðan Andrés, Pétur, Jóhannes, Filippus, Natanael og ef til vill Jakob gerðust fyrstu lærisveinar Jesú. Þeir eru allir ættaðir frá Galíleuhéraði og eru nú á heimleið. Þeir ætla til Kana, heimabæjar Natanaels, á hæðunum skammt frá Nasaret þar sem Jesús ólst upp. Þar eru þeir boðnir til brúðkaupsveislu.
Móðir Jesú er líka komin til brúðkaupsins. María er fjölskylduvinur brúðhjónanna og virðist taka þátt í að sinna þörfum gestanna sem eru margir. Hún tekur þess vegna fljótt eftir því þegar eitthvað vantar og segir við Jesú: „Þeir hafa ekki vín.“
Jesús er í fyrstu tregur til þegar María stingur eiginlega upp á að hann geri eitthvað til að bæta úr vínskortinum. „Hvað varðar það mig og þig?“ spyr hann. Hann er útnefndur konungur Guðs og á ekki að beita kröftum sínum í þágu ættingja eða vina. María er því skynsöm og lætur hann um framhaldið. Hún segir bara við þjónana: „Gjörið það, sem hann kann að segja yður.“
Þarna eru sex stór vatnsker úr steini sem hvert um sig tekur meira en 40 lítra. Jesús segir þjónunum: „Fyllið kerin vatni.“ Og þjónarnir barmafylla þau. Síðan segir Jesús: „Ausið nú af og færið veislustjóra.“
Veislustjórinn undrast gæði vínsins, enda veit hann ekki að það var búið til með kraftaverki. Hann kallar á brúðgumann og segir: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“
Þetta er fyrsta kraftaverk Jesú og það styrkir trú nýju lærisveinanna. Eftir brúðkaupið fara þeir með Jesú, móður hans og hálfbræðrum til bæjarins Kapernaum við Galíleuvatn. Jóhannes 2:1-12.
▪ Hvenær á þjónustutíma Jesú er brúðkaupið í Kana haldið?
▪ Hvers vegna andmælir Jesús tillögu móður sinnar?
▪ Hvaða kraftaverk vinnur Jesús og hvaða áhrif hefur það á aðra?