Kafli 104
Rödd Guðs heyrist þriðja sinni
TILHUGSUNIN um yfirvofandi dauða hefur lagst mjög þungt á Jesú meðan hann er í musterinu. Fyrst og fremst hefur hann áhyggjur af þeim áhrifum sem þessi atburður hefur á orðspor föður hans og biður: „Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!“
Þá heyrist sterk rödd af himni: „Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt.“
Mannfjöldinn, sem þar er hjá, veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. „Engill var að tala við hann,“ segja sumir en aðrir halda því fram að þruma hafi riðið yfir. Í rauninni var það Jehóva Guð sem talaði! Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Guð lætur rödd sína heyrast að Jesú viðstöddum.
Jóhannes skírari heyrði Guð segja um Jesú við skírn hans þrem og hálfu ári áður: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ Síðan, einhvern tíma eftir síðustu páska þegar Jesús ummyndaðist frammi fyrir Jakobi, Jóhannesi og Pétri, heyrðu þeir Guð lýsa yfir: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Og núna, 10. nísan, fjórum dögum fyrir dauða Jesú, heyra menn rödd Guðs í þriðja sinn. En í þetta sinn talar Jehóva í áheyrn mikils mannfjölda!
Jesús segir: „Þessi rödd kom ekki mín vegna, heldur yðar vegna.“ Hún sannar að hann sé raunverulega sonur Guðs, hinn fyrirheitni Messías. „Nú gengur dómur yfir þennan heim,“ heldur Jesús áfram. „Nú skal höfðingja þessa heims út kastað.“ Trúfesti Jesú staðfestir í reynd að Satan djöfullinn, höfðingi heimsins, verðskuldi að honum sé „út kastað,“ tortímt.
Jesús bendir á afleiðingarnar af yfirvofandi dauða sínum: „Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín.“ Dauði hans er alls enginn ósigur því að með honum dregur hann aðra til sín svo að þeir geti hlotið eilíft líf.
En mannfjöldinn mótmælir: „Lögmálið segir oss, að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt, að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?“
Þrátt fyrir öll sönnunargögnin, meðal annars Guðs eigin rödd af himni, trúa fæstir að Jesús sé hinn sanni Mannssonur, hinn fyrirheitni Messías. En Jesús talar aftur um sig sem „ljósið“ eins og hann gerði sex mánuðum áður á laufskálahátíðinni og hvetur áheyrendur sína: „Trúið á ljósið, meðan þér hafið ljósið, svo að þér verðið börn ljóssins.“ Að svo mæltu fer hann burt og í felur, eflaust af því að líf hans er í hættu.
Með því að trúa ekki á Jesú uppfylla Gyðingar þau orð Jesaja að ‚augu manna séu blinduð og hjörtu þeirra forhert svo að þeir snúa sér ekki og læknast.‘ Jesaja sá himneska hirð Jehóva í sýn, og sér þar Jesú í dýrð sinni hjá Jehóva áður en hann varð maður. En Gyðingar uppfylla orð Jesaja með því að hafna þrjóskufullir sönnununum fyrir því að Jesús sé hinn fyrirheitni frelsari þeirra.
Hins vegar trúa jafnvel margir af höfðingjunum (sem trúlega sátu í hæstarétti Gyðinga, æðstaráðinu) á Jesú, þeirra á meðal Nikódemus og Jósef frá Arímaþeu. En höfðingjarnir játa ekki trú sína opinberlega því þeir óttast að verða reknir úr stöðu sinni í samkundunni. Þeir missa aldeilis af miklu!
Jesús segir síðan: „Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig, og sá sem sér mig, sér þann er sendi mig. . . . Ef nokkur heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að frelsa heiminn. . . . Orðið, sem ég hef talað, verður dómari hans á efsta degi.“
Kærleikur Jehóva til mannheimsins fékk hann til að senda Jesú svo að þeir sem tækju trú á hann gætu frelsast. Frelsunin er undir því komin að hlýða því sem Guð fól Jesú að tala. Dómurinn á sér stað „á efsta degi,“ í þúsundáraríki Krists.
Jesús segir að lokum: „Ég hef ekki talað af sjálfum mér, heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala. Og ég veit, að boðorð hans er eilíft líf. Það sem ég tala, það tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér.“ Jóhannes 12:28-50; 19:38, 39; Matteus 3:17; 17:5; Jesaja 6:1, 8-10.
▪ Við hvaða þrjú tækifæri heyrðist rödd Guðs að Jesú viðstöddum?
▪ Hvernig sá spámaðurinn Jesaja dýrð Jesú?
▪ Hvaða höfðingjar trúa á Jesú en hvers vegna játa þeir það ekki opinberlega?
▪ Hver er ‚efsti dagur‘ og eftir hverju verður fólk dæmt þá?