Ætlar þú að vera vottur hins sanna Guðs?
„Þér eruð vottar mínir — segir [Jehóva]. Ég er Guð.“ — JESAJA 43:12.
1. Hvers vegna ættum við að heiðra hinn sanna Guð?
SKÖMMU fyrir dauða sinna ‚hóf Jesús augu sín til himins‘ til að biðja. Hann ávarpaði þann sem hann bað til sem „hinn eina sanna Guð.“ (Jóhannes 17:1, 3) Rökrétt er að einungis geti verið til einn lifandi og sannur Guð, drottinvaldur alheimsins, skaparinn. Úr því að við eigum hinum sanna Guði tilvist okkar að þakka ættum við að sýna honum þann heiður sem hann verðskuldar. Eins og Opinberunarbókin 4:11 orðar það: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“
2. (a) Hverju er rökrétt að trúa um hinn sanna Guð? (b) Hvernig kemur hann boðum sínum á framfæri við þá sem vilja dýrka hann?
2 Rökrétt er að vænta þess að hinn sanni Guð umberi ekki að eilífu hið slæma ástand sem hefur spillt jarðneskri sköpun hans. Það væri líka rökrétt að álíta að hann haldi dýrkendum sínum upplýstum um það hvað hann ætli að gera og til hvers hann ætlist af þeim áður en hann fullnægir dómum sínum. (Amos 3:7) Hvernig kemur hann boðskap sínum á framfæri við unnendur sannleikans? Hann notar menn sem talsmenn sína. „Þér eruð mínir vottar, segir [Jehóva] . . . á undan mér hefir enginn guð verið búinn til, og eftir mig mun enginn verða til. Ég, ég er [Jehóva], og enginn frelsari er til nema ég.“ (Jesaja 43:10, 11) En hvernig er hægt að þekkja þá sem hinn sanni Guð notar sem votta sína? Í hverju eru þeir og boðskapur þeirra ólíkur dýrkendum annarra guða?
Áskorun á aðra guði
3. Hvernig skorar Jehóva á alla aðra guði?
3 Jehóva innblés Jesaja að færa í letur áskorun hans til allra annarra guða: „Hver af þeim [guðum þjóðanna] getur kunngjört slíkt [nákvæma spádóma] og látið oss heyra það [sem á að gerast í framtíðinni], er áður er fram komið? Leiði þeir [guðirnir] fram votta sína og færi sönnur á mál sitt, svo að menn [af þjóðunum] segi, er þeir heyra það: ‚Það er satt!‘“ (Jesaja 43:9) Þannig skorar Jehóva á alla þá guði, sem menn dýrka, að sanna að þeir séu guðir. Vottar þeirra skulu leggja fram sönnunargögn fyrir því að guðir þeirra séu áreiðanlegir og verðugir tilbeiðslu.
4. Hvernig vitum við að guðir fornþjóðanna voru einskis nýtir?
4 En hvað hafa þessir guðir og dýrkendur þeirra lagt fram? Hafa þeir fært okkur sannan frið, velsæld, heilsu og líf? Sagan ber því vitni að margir guðir fornþjóðanna reyndust einskis nýtir og máttlausir. Þeir gátu ekki einu sinni haldið lífi sem guðir því að þeir eru ekki dýrkaðir sem slíkir. Hinir mörgu guðir Egypta, Assýringa, Babýloníumanna, Meda og Persa, Grikkja, Rómverja og annarra þjóða til forna reyndust falsguðir. Þeir eru til núna aðeins í mannkynssögubókum eða í fornminjasöfnum þar sem styttur þeirra eru skoðaðar eingöngu af forvitni.
5. Hvers megum við spyrja um guði nútímans?
5 En eru guðir nútímans og dýrkendur þeirra einhverju betri en gerðist til forna? Hindúatrúin á sér guði í milljónatali. Búddhatrúarmenn, kaþólskir, Konfúsíusartrúarmenn, Gyðingar, múhameðstrúarmenn, mótmælendur, shintótrúarmenn, taóistar og margir fleiri eiga sér sína eigin guði. Í Afríku, Asíu og víðar eru náttúruöflin, skepnurnar og ýmsir hlutir dýrkaðir sem guðir. Þjóðernishyggja og efnishyggja, meira að segja eigin persóna, eru orðnir guðir á þann hátt að margir veita því hollustu sína öðru fremur. Hvers konar guðsdýrkun gengur fram fyrir hönd hans sem lýsir yfir: „Ég er [Jehóva] og enginn annar. Enginn Guð er til nema ég“? — Jesaja 45:5.
„Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá“
6. Hvernig getum við greint á milli sannrar guðsdýrkunar og falskrar?
6 Jesús setti fram áreiðanlega reglu til að ganga úr skugga um hvað væri rétt eða rangt á sviði trúmála. Hann sagði: „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. . . . Sérhvert gott tré [ber] góða ávöxtu, en slæmt tré vonda. . . . Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.“ (Matteus 7:16-19) Til að greina hinn sanna Guð frá fölskum og sanna guðsdýrkun frá falskri þurfum við því að skoða ávöxtinn. Er hann ‚góður‘ eða er hann ‚vondur‘?
7. Hvað segir saga þessarar aldar okkur um trúarbrögð þessa heims?
7 Hver af trúarbrögðum heims hafa til dæmis komið á sönnum friði meðal áhangenda sinna um alla jörðina? Svo sannarlega ættu þeir sem tilheyra sömu trú og eru andlegir bræður ekki að drepa hvern annan. En hundruð milljóna manna hafa verið drepnar í styrjöldum 20. aldarinnar og allar þessar styrjaldir hafa notið stuðnings trúarbragða þessa heims. Trúrækið fólk hefur því drepið annað trúrækið fólk. Lengst af hefur það drepið fólk sinnar eigin trúar. Kaþólskir hafa drepið kaþólska, mótmælendur mótmælendur, múhameðstrúarmenn sína trúbræður og fólk annarra trúarbragða hefur farið líkt að.
8. Hvaða orð hafa fallið um slæman ávöxt trúarbragðanna á okkar tímum?
8 Í ritstjórnargrein með yfirskriftinni „Ofbeldi í nafni Guðs“ lét Mike Royko sem væri hann að ávarpa Guð er hann sagði um trúarbrögð þessa heims: „Þeir láta í ljós guðrækni sína með því að drepa hver annan í hundraðatali. Ég býst við að þeir hugsi sem svo að geti annar aðilinn þurrkað hinn út muni það sanna að hans aðferð við að tilbiðja þig sé sú rétta.“ Hann sagði að þótt páfinn gefi þá mynd af sér að hann sé friðsamur maður séu „fylgjendur hans þekktir fyrir að úthella nokkrum milljónum lítra af blóði þegar þeir eru í æstu skapi.“ Þegar Carter, fyrrum Bandaríkjaforseti, lét þau orð falla að ‚heimurinn virtist genginn af göflunum‘ sagði hann: „Djúp trúarsannfæring, sem ætti að binda fólk kærleiksböndum, virðist oft hluti af vitfirringunni og morðunum.“
9. Hvers vegna ættum við ekki að fylgja einskis nýtum guðum?
9 Slíkur vondur ávöxtur er andstæða þess sem dýrkendur hins sanna Guðs verða að bera. (Galatabréfið 5:19-23) Þeir sem styðja stríðandi trúarbrögð og heimspeki eru því jafnmiklir hluttakendur í falskri guðsdýrkun og Forn-Egyptar, Assýringar, Babýloníumenn og aðrir sem horfðu til ‚mállausra guða.‘ (Habakkuk 2:18) Og spádómsorð hins sanna Guðs mun rætast jafnörugglega á okkar tímum og það rættist á falskri guðsdýrkun fortíðar: „Falsguðirnir — það er með öllu úti um þá.“ (Jesaja 2:18) Aðvörun hans er trausts verð: „Snúið yður eigi til falsguða.“ — 3. Mósebók 19:4.
Hverjir eru vottar um Jehóva?
10. Eru áhangendur trúarbragða þessa heims vottar hins sanna Guðs?
10 Vottur hins sanna Guðs ætti að vera sá sem ber vitni um hann. Gefa áhangendur trúarbragða þessa heims slíkan vitnisburð? Hve oft talar fólk af þeim trúarbrögðum um trú sína? Hvenær hafa þeir knúið dyra hjá þér til að bera vitni um Guð sinn? Þeirri áskorun hins sanna Guðs á hendur falsguðum, að þeir leiði fram votta sína, er engu svarað. Þeir sem tilheyra trúarbrögðum þessa heims gefa ekki slíkan vitnisburð. Þeir geta ekki sagt þér hver er hinn sanni Guð og hver tilgangur hans er. Klerkar þeirra hafa brugðist þeirri skyldu að kenna þeim sannleikann. „Þeir eru blindir, leiðtogar blindra. Ef blindur leiðir blindan, falla báðir í gryfju.“ — Matteus 15:14.
11. Hverjir einir bera vitni um nafn hins sanna Guðs?
11 Hverjir eru fúsir til að fórna tíma sínum, fjármunum og jafnvel lífi til að bera vitni um hinn sanna Guð? Hverjir segja fólki að hinn sanni Guð lýsi yfir: „Ég er [Jehóva], það er nafn mitt“? (Jesaja 42:8) Hverjir kenna að „þú einn heitir [Jehóva], Hinn hæsti yfir allri jörðinni“? (Sálmur 83:19) Á sínum tíma gat Jesús sagt við hinn sanna Guð: „Ég hef opinberað nafn þitt.“ (Jóhannes 17:6) Á okkar tímum geta einungis vottar Jehóva sagt það. Það á vel við nafnið sem þeir bera — vottar Jehóva!
Vitnisburður um Guðsríki
12. Hvaða mikilvægri kenningu verða sannir vottar að segja öðrum frá?
12 Auk þess að kunngera nafn hins sanna Guðs, hvað áttu vottar hans sérstaklega að segja um tilgang hans? Jesús gaf fordæmið með því að kenna fylgjendum sínum að biðja til hins sanna Guðs: „Til komi þitt ríki.“ (Matteus 6:10) Himneskt ríki Guðs er sú stjórn sem mun að lokum ráða yfir allri jörðinni. (Daníel 2:44) Það var stefið í kennslu Jesú. (Matteus 4:23) Sökum þess að Guðsríki er eina lausnin á erfiðleikum mannkynsins hvatti hann: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis.“ — Matteus 6:33.
13. (a) Hvað sýna staðreyndirnar varðandi prédikun votta Jehóva um Guðsríki? (b) Hvernig er prédikun Guðsríkis merki þess að Jehóva sé hinn eini Guð sannra spádóma?
13 Hverjir bera nú á dögum vitni um ríki Guðs? Prófessor C. S. Braden, áhugasamur fræðimaður í trúarbrögðum heims, sagði: „Vottar Jehóva hafa bókstaflega farið um alla jörðina með vitnisburð sinn. . . . Segja má með sanni að enginn einstakur trúarhópur heims hafa látið í ljós meiri kostgæfni og þrautseigju í viðleitni sinni við að útbreiða fagnaðarerindið um ríki Guðs en vottar Jehóva.“ En hann skrifaði þetta fyrir nálega 40 árum! Núna er búið að bera margfalt ríkulegar vitni um Guðsríki, því að nú eru yfir tífalt fleiri vottar en voru þá! Um þrjár og hálf milljón þeirra í liðlega 57.600 söfnuðum um allan heim bera vitni um ríkið og þeim fjölgar ört. Þessi góði ávöxtur er merki þess að Jehóva sé Guð sannra spádóma. Það var hann sem innblés syni sínum, Jesú, að segja fyrir um okkar tíma: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:14; Jóhannes 8:28.
Líkt eftir kærleika Guðs
14. Hvaða eiginleika verða sannir vottar Guðs að líkja eftir og hvað þýðir það ef þeir gera það ekki?
14 Hinir sönnu vottar Guðs verða að líkja eftir fremsta eiginleika hans — kærleika. „Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð, því að Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Já, „af þessu eru augljós börn Guðs og börn djöfulsins. Sá sem iðkar ekki réttlætið og elskar ekki bróður sinn heyrir ekki Guði til. . . . Vér eigum að elska hver annan. Ekki vera eins og Kain, sem heyrði hinum vonda til og myrti bróður sinn.“ — 1. Jóhannesarbréf 3:10-12.
15. Hvers vegna getum við sagt að vottar Jehóva láti í ljós ósvikinn kærleika?
15 Vottar Jehóva einir hafa til að bera þess konar kærleika. Þeir beygja sig ekki fyrir guðum stríðs, þjóðernishyggju og kynþáttafordóma. Þeir styðja enga af styrjöldum þessa heims og eru því aldrei í þeirri aðstöðu að þeir myndu styðja það að andlegur bróðir þeirra úr öðrum heimshluta yrði drepinn. Þeir eru, eins og Jesús sagði, „ekki af heiminum“ og hafa ‚slíðrað sverð sín.‘ — Jóhannes 17:14; Matteus 26:52.
16. Hvernig hjálpa aðrir okkur að bera kennsl á sanna votta Guðs?
16 Í ritgerð, sem nefnd var „Meira um réttlætingu ofbeldis,“ sagði: „Vottar Jehóva hafa stefnufastir haldið sér við ‚kristið hlutleysi‘ sem sneiðir hjá ofbeldi. . . . Stefnuföst afstaða þeirra gegn þjónustu við ríkið í sérhverri mynd, her- eða þegnþjónustu, og neitun þeirra að heiðra þjóðartákn hefur haft í för með sér tímabil lögsóknar, fangelsisdóma og skrílsláta víða um lönd. . . . Vottarnir hafa samt sem áður aldrei gripið til ofbeldis.“ Brasilíska dagblaðið O Tempo sagði um þá: „Þótt til séu mörg tilkomumikil trúarbrögð sem reka áróður sinn í öllum heimshlutum eru engin til á yfirborði jarðar sem sýna sama kærleika og þeir.“ Jesús sagði að þessi sanni kærleikur ætti að vera auðkenni sannra votta Guðs. „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ — Jóhannes 13:35.
Ofsóknir auka vitnisburðinn
17, 18. Hvaða nýlegt atvik sýnir hvernig ofsóknir geta aukið við vitnisburðinn um Guðsríki?
17 Ofsóknir geta jafnvel leitt til aukins vitnisburðar um Guðsríki. Til dæmis eru á Indlandi aðeins um 8000 vottar Jehóva. Þó olli nafn Jehóva og tilgangur mjög miklu umtali nýverið þar í landi vegna þess sem ellefu vottabörn gerðu í líkingu við kristna menn á fyrstu öld, en þeir höfðu sagt dómstóli: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Postulasagan 5:29) Þessi indversku börn höfðu verið gerð ræk úr skóla fyrir að syngja ekki þjóðsönginn. En hæstiréttur Indlands felldi þann dóm, eins og skýrt var frá í dagblaðinu Deccan Herald í Bangalore, að „í þessu landi sé engin skyldukvöð að syngja þjóðsönginn.“ Í dómsorði réttarins sagði að börnin „hefðu sýnt tilhlýðilega virðingu“ og að það „jafnist á engan hátt við mótþróa við yfirvöld“ að þau skyldu ekki taka þátt í söngnum. Rétturinn fyrirskipaði að börnin skyldu fá aðgang að skólanum á ný.
18 Sama dagblað sagði einnig: „Þessi börn neituðu að syngja þjóðsönginn vegna þess að vottar Jehóva líta á sig sem kristna menn sem eru algerlega helgaðir ríki Guðs. . . . Þeir taka því ekki þátt í neins konar stjórnmálastarfsemi ríkisins.“ Dagblaðið The Telegraph í Calcutta bætti við: „Afstaða skólabarnanna hefur einnig dregið fram í dagsljósið . . . votta Jehóva sem hafa verið lítt þekktir í landi okkar þar til nýverið.“ Já, ‚fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað til vitnisburðar öllum þjóðum‘ áður en endirinn kemur. — Matteus 24:14.
Samansöfnun votta hins sanna Guðs
19. Hvað þurfa hjartahreinir menn að gera ef þeir vilja vera tilbiðjendur hins sanna Guðs?
19 Hinn sanni Guð, Jehóva, lætur þjóna sína núna bera vitni um drottinvald sitt og tilgang. Um leið og þeir boða boðskap hans af síauknum krafti safnar hann saman vaxandi fjölda hjartahreinna manna af öllum þjóðum inn til samfélags við dýrkendur sína. (Jesaja 2:2-4) Þeir segja skilið við falsguði sína og snúast til tilbeiðslu á hinum sanna Guði, líkt og þeir sem vildu dýrka Jehóva voru leystir úr fjötrum Forn-Babýonar þar sem dýrkun falsguða var í algleymingi. — Jesaja 43:14.
20, 21. Hvers vegna er áríðandi að yfirgefa falsguði núna og vera ekki aðeins hlutlausir sjónarvottar?
20 Ætlar þú að vera vottur hins sanna Guðs? Ætlar þú að taka afstöðu með sannri guðsdýrkun og komast undan samsekt í blóðskuld og siðferðilegri sekt þessa heims og falsguða hans? Orð Guðs hvetur: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni [babýlonskum falstrúarbrögðum], svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.“ (Opinberunarbókin 18:4) Já, ‚gakktu út,‘ láttu til skarar skríða áður en það er um seinan! Vertu ekki eins og maðurinn sem svaraði, þegar kaþólskt dagblað spurði hann hvaða trú hann aðhylltist: „Ég býst við að ég sé sjónarvottur Jehóva. Ég trúi í aðalatriðum því sem vottar Jehóva trúa — en ég vil ekki vera þátttakandi.“
21 Hver einasti jarðarbúi verður þó bráðlega að vera þátttakandi þegar Jehóva tekur falsguði þessa heims og dýrkendur þeirra af lífi: „Þeir guðir, sem ekki hafa skapað himin og jörð munu hverfa af jörðinni og undan himninum.“ (Jeremía 10:11) Þá verða engir hlutlausir sjónarvottar. Menn verða taldir annaðhvort vottar hins sanna Guðs eða ekki. (Matteus 24:37-39; 2. Pétursbréf 2:5; Opinberunarbókin 7:9-15) Ætlar þú að vera vottur hins sanna Guðs? Það ættir þú að vera því að „Guð er oss hjálpræðisguð, og [Jehóva] alvaldur bjargar frá dauðanum.“ — Sálmur 68:21.
Til upprifjunar
◻ Hvernig skorar Guð á falska guði?
◻ Hvaða reglu má styðjast við til að greina sanna guðsdýrkun frá falskri?
◻ Hvaða ávöxtur sýnir að guðir þessa heims eru jafnmáttlausir og guðir fortíðar?
◻ Hvaða góðan ávöxt verða vottar hins sanna Guðs að bera og hverjir gera það?
◻ Hvers vegna er áríðandi að yfirgefa falska guðsdýrkun nú þegar?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Hinir einskis nýtu guðir fornþjóðanna hafa horfið af sjónarsviðinu sem tilbeiðslugripir.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Á okkar öld hafa um hundrað milljónir manna verið drepnar í styrjöldum sem trúarbrögð þessa heims hafa stutt.
[Rétthafi]
Ljósmynd: Bandaríkjaher.
[Mynd á blaðsíðu 27]
Jesús sagði að sannir vottar hans myndu þekkjast á kærleikanum er þeir bæru hver til annars.