Látnir ástvinir þínir — átt þú eftir að sjá þá aftur?
JOHN var bara níu ára þegar móðir hans dó. Síðar sagði hann frá því sem gerðist í útfararkapellunni: „Ég teiknaði mynd handa mömmu og skrifaði stutt skilaboð á myndina þar sem ég bað hana að bíða eftir okkur öllum á himnum. Ég gaf pabba myndina til að láta í kistuna hjá henni, og jafnvel þótt hún hafi verið dáin vil ég leyfa mér að halda að hún hafi fengið þessi síðustu skilaboð frá mér.“ — How It Feels When a Parent Dies eftir Jill Krementz.
Enginn vafi leikur á því að John elskaði móður sína innilega. Eftir að hafa lýst góðum eiginleikum hennar sagði hann: „Kannski vil ég bara ekki minnast þess sem miður fór, en ég man bara ekki eftir neinu neikvæðu um hana. Hún var fallegasta kona sem ég hef séð á ævinni.“
Líkt og John eiga margir hlýjar minningar um látna ástvini og viðurkenna tilfinningalega þörf sína fyrir að sjá þá aftur. Edith, sem missti 26 ára son sinn úr krabbameini, segir: „Ég þarf að trúa því að sonur minn sé til einhvers staðar en ég veit ekki hvar. Á ég eftir að sjá hann aftur? Ég veit það ekki en ég vona það.“
Vissulega er kærleiksríkur skapari mannsins ekki tilfinningalaus gagnvart þessari eðlilegu, mannlegu kennd. Það er þess vegna sem hann hefur heitið að sá tími komi að milljónir manna sameinist látnum ástvinum sínum á ný. Í orði Guðs er oft minnst á þetta loforð um væntanlega upprisu dauðra. — Jesaja 26:19; Daníel 12:2, 13; Hósea 13:14; Jóhannes 5:28, 29; Opinberunarbókin 20:12, 13.
Hverjir eru reistir upp til himna?
Athugum þá von Johns að ástkær móðir hans bíði hans á himnum. Margir kirkjugestir hafa sams konar von eða trú. Prestar og sumir félagsráðgjafar heimfæra biblíutexta ranglega í þeim tilgangi að styðja slík sjónarmið.
Elisabeth Kübler-Ross, sem er læknir og sérfræðingur í því að hjálpa þeim sem hafa misst ástvin, segir til dæmis í bók sinni On Children and Death: „Dauðinn hefur það eitt í för með sér að við köstum líkama okkar á sama hátt og við hendum gamalli og slitinni flík eða göngum úr einu herbergi í annað. Í Prédikaranum 12:7 lesum við: ‚Moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, og andinn til Guðs, sem gaf hann.‘ Jesús sagði: ‚Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.‘ Og við þjófinn á krossinum: ‚Í dag skaltu vera með mér í Paradís.‘“
Merkja þessir ritningarstaðir virkilega að látnir ástvinir okkar séu lifandi núna og bíði okkar á himnum? Við skulum athuga þá nánar, fyrst Prédikarann 12:7. Augljóslega ætlaði spekingurinn, sem skrifaði þessi orð, sér ekki að andmæla því sem hann hafði sagt fyrr í þessari biblíubók: „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt.“ (Prédikarinn 9:5) Hann var að tala um dauða mannkynsins almennt. Er rökrétt að halda að allir svarnir guðleysingjar og forhertir glæpamenn hverfi aftur til Guðs við dauðann? Tæplega. Reyndar er ekki hægt að segja það um neitt okkar, óháð því hvort við teljum okkur góð eða slæm. Þar eð ekkert okkar hefur verið hjá Guði á himnum, hvernig er þá hægt að segja að við hverfum aftur til hans?
Hvað á biblíuritarinn þá við þegar hann segir að ‚andinn hverfi aftur til Guðs‘ við dauðann? Með því að nota hebreska orðið fyrir „andi“ var hann ekki að tala um eitthvað einstakt sem greinir einn mann frá öðrum. Þess í stað útskýrir þessi sami innblásni biblíuritari í Prédikaranum 3:19 að menn og skepnur hafi „sama andann.“ Ljóst er að hann átti við það að „andinn“ sé lífskrafturinn í frumunum sem mynda efnislíkama manna og dýra. Við fengum ekki þennan anda beint frá Guði. Hann barst okkur frá mennskum foreldrum okkar þegar við vorum getin og síðar fædd. Auk þess fer þessi andi ekki bókstaflega um himingeiminn til Guðs við dauðann. Orðalagið ‚andinn hverfur aftur til Guðs‘ er líkingamál sem merkir að lífshorfur látins manns í framtíðinni séu núna hjá Guði. Það er hans að ákveða hverjum hann man eftir og reisir upp. Sjáðu sjálfur hve skýrt þetta kemur fram í Biblíunni í Sálmi 104:29, 30.
Það er tilgangur Jehóva Guðs að takmarkaður fjöldi trúfastra fylgjenda Krists, aðeins 144.000 samanlagt, verði reistur upp til lífs á himnum sem andasynir Guðs. (Opinberunarbókin 14:1, 3) Þeir mynda himneska stjórn með Kristi til blessunar fyrir mannkynið á jörðinni.
Trúfastir postular Jesú voru fyrstir til að kynnast þessu en hann hann sagði við þá: „Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.“ (Jóhannes 14:2, 3) Þessir postular og aðrir frumkristnir menn dóu og urðu að bíða meðvitundarlausir í dauðanum uns Jesús kom og umbunaði þeim með himneskri upprisu. Það er þess vegna sem við lesum að fyrsti kristni píslarvotturinn, Stefán, hafi ‚sofnað.‘ — Postulasagan 7:60; 1. Þessaloníkubréf 4:13.
Upprisa til lífs á jörðinni
En hvað um loforð Jesú við glæpamanninn sem dó honum við hlið? Líkt og margir Gyðingar á þeim tíma trúði þessi maður að Guð myndi senda Messías til að setja á fót ríki og endurreisa frið og öryggi Gyðingaþjóðarinnar á jörðinni. (Berðu 1. Konungabók 4:20-25 saman við Lúkas 19:11; 24:21 og Postulasöguna 1:6.) Enn fremur lét illvirkinn í ljós þá trú að Jesús væri sá sem Guð hefði útvalið til konungs. En á þeirri stundu virtist þetta ótrúlegt miðað við það að Jesús var rétt í þann mund að deyja sem dæmdur maður. Það var þess vegna sem Jesús fullvissaði glæpamanninn um loforð sitt með þessum inngangsorðum: „Sannlega segi ég þér í dag: Þú skalt vera með mér í paradís.“ — Lúkas 23:43, NW.
Biblíuþýðendur, sem setja tvípunkt eða kommu á undan orðunum „í dag“ gera mönnum erfitt fyrir að skilja orð Jesú. Jesús fór ekki til neinnar paradísar þennan sama dag. Hann lá meðvitundarlaus í dauðanum í þrjá daga uns Guð reisti hann upp. Jafnvel eftir upprisu Jesú og uppstigningu til himna varð hann að bíða við hægri hönd föður síns uns tími hans kæmi til að ríkja sem konungur yfir mannkyninu. (Hebreabréfið 10:12, 13) Bráðlega mun Guðsríki í höndum Jesú koma mannkyninu til hjálpar og breyta allri jörðinni í paradís. (Lúkas 21:10, 11, 25-31) Þá uppfyllir hann loforð sitt við glæpamanninn með því að reisa hann upp til lífs á jörðinni. Og Jesús verður með manninum í þeim skilningi að hann fullnægir öllum þörfum hans, meðal annars þeirri að samræma líferni hans réttlátum lögum Guðs.
Upprisa margra
Upprisa flestra manna mun eiga sér stað hér á jörðinni líkt og hjá þessum iðrunarfulla glæpamanni. Það er í samræmi við tilgang Guðs með sköpun mannsins. Fyrsti maðurinn og konan voru sett í paradís og sagt að gera jörðina undirgefna sér. Ef þau hefðu verið Guði hlýðin hefðu þau aldrei hrörnað og dáið. Á tilsettum tíma Guðs hefðu Adam og fullkomnir afkomendur hans gert alla jörðina sér undirgefna, búið til paradís um allan heim. — 1. Mósebók 1:28; 2:8, 9.
En af því að Adam og Eva syndguðu viljandi kölluðu þau dauða yfir sig og væntanlega afkomendur sína. (1. Mósebók 2:16, 17; 3:17-19) Það er þess vegna sem Biblían segir: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann [Adam] og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ — Rómverjabréfið 5:12.
Aðeins einn maður hefur fæðst laus við erfðasynd. Það var fullkominn sonur Guðs, Jesús Kristur, en líf hans var flutt frá himnum í móðurlíf Gyðingameyjarinnar Maríu. Jesús var syndlaus og verðskuldaði ekki líflát. Þess vegna hefur dauði hans endurlausnargildi fyrir „syndir heimsins.“ (Jóhannes 1:29; Matteus 20:28) Það er þess vegna sem Jesús gat sagt: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“ — Jóhannes 11:25.
Þú getur því haft von um að sameinast látnum ástvinum þínum, en það útheimtir að þú iðkir trú á Jesú sem lausnara þinn og hlýðir honum sem skipuðum konungi Guðs. Bráðlega afmáir Guðsríki alla illsku af jörðinni. Allir menn, sem neita að lúta stjórn þess, farast. En þegnar Guðsríkis bjargast og verða uppteknir af því að breyta þessari jörð í paradís. — Sálmur 37:10, 11; Opinberunarbókin 21:3-5.
Þá rennur upp hinn hrífandi tími að upprisan hefst. Verður þú á sjónarsviðinu til að taka á móti hinum látnu? Það er allt undir því komið hvað þú gerir núna. Stórkostleg blessun bíður allra sem beygja sig núna undir stjórn ríkis Jehóva í höndum sonar hans, Jesú Krists.