Kafli 116
Jesús býr postulana undir burtför sína
MINNINGARMÁLTÍÐIN er afstaðin en Jesús og postular hans eru enn í loftsalnum. Jesús á margt ósagt enda þótt stutt sé þangað til hann yfirgefur þá. „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð,“ segir hann hughreystandi og bætir svo við: „Og trúið á mig.“
„Í húsi föður míns eru margar vistarverur,“ heldur Jesús áfram. ‚Ég fer burt að búa yður stað . . . svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér.‘ Postularnir skilja ekki að Jesús er að tala um að fara til himna svo Tómas spyr: „Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?“
„Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið,“ svarar Jesús. Já, aðeins með því að viðurkenna Jesú og líkja eftir lífsstefnu hans getur nokkur maður gengið í himneskt hús föðurins því að „enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig,“ eins og Jesús segir.
„Herra, sýn þú oss föðurinn. Það nægir oss,“ biður Filippus. Hann vill greinilega að Jesús láti þá sjá dýrð Guðs í sýn eins og Móse, Elía og Jesaja sáu til forna. En það sem postularnir hafa er miklu betra en þess konar sýnir eins og Jesús segir: „Ég hef verið með yður allan þennan tíma, og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn.“
Jesús endurspeglar svo fullkomlega persónuleika föðurins að það er eins og að sjá föðurinn að fá að lifa og fylgjast með syninum. En faðirinn er syninum æðri eins og Jesús viðurkennir: „Orðin, sem ég segi við yður, tala ég ekki af sjálfum mér.“ Hann gefur himneskum föður sínum réttilega allan heiður af því sem hann kennir.
Það hlýtur að vera mjög hvetjandi fyrir postulana að heyra Jesú segja því næst: „Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau.“ Jesús er ekki að segja að fylgjendur hans hafi meiri kraftaverkamátt en hann, heldur að þeir prédiki miklu lengur, á margfalt stærra svæði og fyrir langtum fleira fólki.
Jesús ætlar ekki að yfirgefa lærisveinana eftir burtför sína. „Hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra,“ lofar hann. Síðan segir hann: „Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans.“ Síðar, eftir að Jesús er stiginn upp til himna, úthellir hann heilögum anda, þessum öðrum hjálpara, yfir lærisveina sína.
Burtför Jesú nálgast eins og hann segir: „Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar.“ Jesús verður andavera sem enginn maður getur séð. En aftur lofar hann trúföstum postulum sínum: „Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa.“ Já, bæði mun Jesús birtast þeim sýnilegur eftir upprisu sína og reisa þá síðar upp frá dauðum sem andaverur svo að þeir geti verið með honum á himni.
Jesús setur nú þessa einföldu reglu: „Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig.“
Nú grípur postulinn Júdas, sem einnig er nefndur Taddeus, fram í: „Herra, hverju sætir það, að þú vilt birtast oss, en eigi heiminum?“
„Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð,“ svarar Jesús, „og faðir minn mun elska hann. . . . Sá sem elskar mig ekki, varðveitir ekki mín orð.“ Ólíkt hlýðnum fylgjendum Krists hirðir heimurinn ekki um kenningar hans þannig að hann birtist honum ekki.
Jesús hefur kennt postulum sínum margt meðan hann hefur þjónað á jörð. Hvernig eiga þeir að muna það allt, ekki síst þar sem það er svo margt sem þeir skilja ekki enn? Sem betur fer lofar Jesús: „Hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.“
Aftur hughreystir Jesús þá og segir: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. . . . Hjarta yðar skelfist ekki.“ Jesús er að vísu á förum en hann segir: „Ef þér elskuðuð mig, yrðuð þér glaðir af því, að ég fer til föðurins, því faðirinn er mér meiri.“
Jesús á skamman tíma eftir með þeim. „Ég mun ekki framar tala margt við yður,“ segir hann, „því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekki neitt.“ Satan djöfullinn, sá sem fór í Júdas og náði taki á honum, er höfðingi heimsins. En Jesús hefur enga synduga veikleika sem Satan getur notfært sér til að snúa honum frá því að þjóna Guði.
Náið samband
Eftir minningarmáltíðina hefur Jesús verið að hvetja postula sína í óformlegu og innilegu samtali. Vera má að komið sé fram yfir miðnætti þegar hann segir: „Standið upp, vér skulum fara héðan.“ En vegna kærleika síns til þeirra segir hann þeim hvetjandi dæmisögu áður en þeir fara.
„Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn,“ segir hann. Vínyrkinn mikli, Jehóva Guð, gróðursetti þennan táknræna vínvið þegar hann smurði Jesú með heilögum anda við skírn hans haustið 29. En Jesús sýnir fram á að vínviðurinn tákni meira en aðeins hann og segir: „Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður hann af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt. . . . Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar.“
Á hvítasunnunni, 51 degi síðar, verða postularnir og fleiri að greinum á vínviðnum þegar heilögum anda er úthellt yfir þá. Að lokum verða 144.000 greinar á þessum táknræna vínviði. Ásamt stofninum, Jesú Kristi, mynda þeir táknrænan vínvið sem ber ávöxt Guðsríkis.
Jesús útskýrir hvað þurfi til að bera ávöxt: „Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört.“ En beri einhver ekki ávöxt verður honum „varpað út eins og greinunum, og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt.“ Hins vegar lofar hann: „Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið, og yður mun veitast það.“
Jesús segir síðan við postulana: „Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir.“ Ávöxturinn, sem Guð vill að greinarnar beri, eru eiginleikar eins og Kristur hafði, einkum kærleikur. Og þar eð Kristur boðaði Guðsríki felur ávöxturinn einnig í sér að gera menn að lærisveinum líkt og hann gerði.
„Verið stöðugir í elsku minni,“ hvetur Jesús. En hvernig geta postularnir gert það? „Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni,“ segir hann og bætir við: „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður. Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“
Eftir fáeinar klukkustundir sýnir Jesús þennan framúrskarandi kærleika með því að leggja líf sitt í sölurnar fyrir postulana og aðra sem iðka trú á hann. Fordæmi hans ætti að hvetja fylgjendur hans til að bera sama fórnfúsa kærleikann hver til annars. Þeir eiga að þekkjast á þessum kærleika eins og Jesús sagði áður: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“
Jesús bendir á hverjir séu vinir hans og segir: „Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður. Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.“
Hugsa sér að geta verið náinn vinur Jesú! En til að eiga þetta dýrmæta samband áfram verða fylgjendur hans að halda áfram að „bera ávöxt.“ Geri þeir það, segir Jesús, veitir faðirinn þeim „sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni.“ Þetta eru frábær laun fyrir að bera ávöxt Guðsríkis! Aftur hvetur hann postulana til að ‚elska hver annan‘ og minnir á að heimurinn muni hata þá, en segir hughreystandi: „Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður.“ Hann skýrir síðan hvers vegna heimurinn hati fylgjendur hans og segir: „Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“
Jesús útskýrir nánar af hverju hatur heimsins stafi: „Allt þetta munu þeir yður gjöra vegna nafns míns, af því að þeir þekkja eigi þann [Jehóva Guð], sem sendi mig.“ Kraftaverk Jesú sakfella eiginlega þá sem hata hann eins og hann segir: „Hefði ég ekki unnið meðal þeirra þau verk, sem enginn annar hefur gjört, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir séð þau og hata þó bæði mig og föður minn.“ Þannig, segir hann, rætist ritningarstaðurinn: „Þeir hötuðu mig án saka.“
Eins og áður hughreystir Jesús þá með því að lofa að senda þeim hjálparann, heilagan anda, sem er máttugur starfskraftur Guðs. „Mun hann vitna um mig. Þér skuluð einnig vitni bera.“
Fleiri áminningar að skilnaði
Jesús og postularnir eru reiðubúnir að yfirgefa loftsalinn. „Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá,“ heldur hann áfram. Síðan varar hann þá við: „Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.“
Postulunum bregður greinilega mjög við þessi orð. Enda þótt Jesús hafi áður sagt að heimurinn myndi hata þá hafði hann ekki sagt svona berum orðum að þeir yrðu drepnir. „Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður,“ segir hann. En vissulega er það mikils virði fyrir þá að fá þessa vitneskju áður en hann fer!
„En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: ‚Hvert fer þú?‘“ heldur Jesús áfram. Fyrr um kvöldið höfðu þeir spurt hvert hann væri að fara, en nú er þeim svo brugðið að þeir spyrja hann ekki nánar út í það. Eins og Jesús segir: „Hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta.“ Postularnir eru ekki aðeins hryggir af því að þeir hafa komist að raun um að þeir verði ofsóttir grimmilega og drepnir, heldur líka af því að herra þeirra er að yfirgefa þá.
Jesús útskýrir því: „Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar.“ Sem maður getur Jesús aðeins verið á einum stað í einu, en þegar hann er farinn til himna getur hann sent fylgjendum sínum hvar sem er á jörðinni hjálparann eða heilagan anda Guðs. Þess vegna er það þeim til góðs að hann skuli fara.
Heilagur andi mun „sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur,“ segir Jesús. Synd heimsins, að iðka ekki trú á son Guðs, verður afhjúpuð. Auk þess verður réttlæti Jesú sannað með því að hann stígur upp til föður síns. Og það sannast að Satan, höfðingi heimsins, hefur fengið óhagstæðan dóm af því að honum og illum heimi hans tekst ekki að brjóta ráðvendni Jesú á bak aftur.
„Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú,“ heldur Jesús áfram. Þess vegna lofar hann því að þegar hann úthelli yfir þá heilögum anda, sem er starfskraftur Guðs, þá veiti hann þeim skilning á þessu í þeim mæli sem þeir eru færir um að meðtaka.
Postularnir eiga sérlega erfitt með að skilja að Jesús eigi að deyja og síðan birtast þeim aftur upprisinn, þannig að þeir spyrja hver annan: „Hvað er hann að segja við oss: ‚Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,‘ og: ‚Ég fer til föðurins‘?“
Jesú er ljóst að þeir vilja spyrja hann svo hann útskýrir: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð.“ Veraldlegir trúarleiðtogar fagna síðdegis þennan sama dag þegar Jesús er drepinn en lærisveinarnir syrgja. Hryggð þeirra snýst hins vegar í fögnuð þegar Jesús er reistur upp frá dauðum! Og fögnuður þeirra viðhelst þegar hann gefur þeim kraft á hvítasunnunni til að vera vottar hans, með því að úthella heilögum anda Guðs yfir þá!
Jesús líkir stöðu postulanna við konu með fæðingarhríðir: „Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin.“ En þegar barnið er fætt eru þrautirnar gleymdar. Hann hvetur þá: „Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur [upprisinn], og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.“
Hingað til hafa postularnir aldrei beðið í Jesú nafni, en nú segir hann þeim: „Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður. . . . Sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn. Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.“
Orð Jesú eru mjög uppörvandi fyrir postulana. „Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði,“ segja þeir. „Trúið þér nú?“ spyr Jesús. „Sjá, sú stund kemur og er komin, að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir.“ Þótt ótrúlegt kunni að virðast gerist þetta áður en nóttin er úti!
„Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér.“ Síðan segir Jesús: „Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn.“ Jesús sigraði heiminn með því að gera vilja Guðs í trúfesti, þrátt fyrir allt sem Satan og heimur hans reyndi að gera til að brjóta ráðvendni hans á bak aftur.
Lokabæn í loftsalnum
Sökum innilegs kærleika til postula sinna hefur Jesús verið að búa þá undir yfirvofandi burtför sína. Eftir að hafa áminnt þá og hughreyst í löngu máli horfir hann til himins og biður föður sinn: „Gjör son þinn dýrlegan, til þess að sonurinn gjöri þig dýrlegan. Þú gafst honum vald yfir öllum mönnum, að hann gefi eilíft líf öllum þeim, sem þú hefur gefið honum.“
Þetta er hrífandi efni sem Jesús hefur nú máls á — eilíft líf! Honum hefur verið gefið „vald yfir öllum mönnum“ og hann getur notað lausnarfórn sína í þágu alls deyjandi mannkyns. En hann veitir „eilíft líf“ þeim einum sem faðirinn hefur velþóknun á. Jesús heldur áfram að ræða um eilíft líf í bæn sinni:
„Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ Já, hjálpræði er undir því komið að afla sér þekkingar á bæði Guði og syni hans. En huglæg þekking ein sér nægir ekki.
Menn verða að kynnast þeim náið og byggja upp gagnkvæmt vináttusamband við þá. Við þurfum að hafa sömu afstöðu til mála og þeir og sjá hlutina með þeirra augum. Og umfram allt er nauðsynlegt að leggja sig allan fram um að líkja eftir óviðjafnanlegum eiginleikum þeirra í samskiptum við aðra.
Nú biður Jesús: „Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna.“ Hann hefur lokið verki sínu fram til þessa og biður í trausti þess að það takist sem eftir er: „Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til.“ Já, hann biður þess að endurheimta fyrri dýrð á himnum með upprisu.
Jesús lýsir í hnotskurn aðalstarfi sínu á jörð: „Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum. Þeir voru þínir, og þú gafst mér þá, og þeir hafa varðveitt þitt orð.“ Jesús notaði nafn Guðs, Jehóva, í þjónustu sinni og bar það rétt fram, en hann gerði meira en það til að opinbera postulum sínum nafn Guðs. Hann jók líka þekkingu og mat þeirra á Jehóva, persónuleika hans og tilgangi.
Jesús segir að Jehóva, sem hann þjónar, sé sér æðri og viðurkennir auðmjúklega: „Ég hef flutt þeim þau orð, sem þú gafst mér. Þeir tóku við þeim og vita með sanni, að ég er frá þér út genginn, og trúa því, að þú hafir sent mig.“
Jesús gerir greinarmun á fylgjendum sínum og mannkyninu í heild og biður næst: „Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum, heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér . . . Meðan ég var hjá þeim, varðveitti ég þá . . . og gætti þeirra, og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar,“ Júdas Ískaríot. Á þessari sömu stundu er Júdas á leið til að svíkja Jesú og er þar með óafvitandi að uppfylla Ritninguna.
„Heimurinn hataði þá,“ heldur Jesús bæn sinni áfram. „Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ Fylgjendur Jesú eru í heiminum, samfélagi manna sem er undir stjórn Satans, en þeir eru og verða alltaf að vera aðgreindir frá því og illsku þess.
„Helga þá í sannleikanum,“ segir Jesús. „Þitt orð er sannleikur.“ Hér kallar Jesús hinar innblásnu Hebresku ritningar, sem hann vitnaði sífellt í, ‚sannleikann.‘ En það sem hann kenndi lærisveinunum og þeir skrifuðu síðan vegna innblásturs í kristnu Grísku ritningunum, er líka „sannleikur.“ Þessi sannleikur getur helgað mann, gerbreytt lífi hans og aðgreint hann frá heiminum.
Jesús biður nú „ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á [hann] trúa fyrir orð þeirra.“ Hann biður því fyrir öllum sem verða smurðir fylgjendur hans og fyrir öðrum lærisveinum framtíðarinnar sem enn á eftir að safna í ‚eina hjörð.‘ Hvernig biður hann fyrir þeim?
„Að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, . . . svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt.“ Jesús og faðir hans eru ekki bókstaflega ein persóna, en þeir eru sammála um allt. Jesús biður þess að fylgjendur hans njóti sömu einingar: „Til þess að heimurinn viti, að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig.“
Jesús biður himneskan föður sinn nú nokkurs í þágu þeirra sem verða smurðir fylgjendur hans. Hvers? „Að þeir . . . séu hjá mér, þar sem ég er, svo að þeir sjái dýrð mína, sem þú hefur gefið mér, af því að þú elskaðir mig fyrir grundvöllun heims,“ það er að segja áður en Adam og Eva eignuðust börn. Guð hafði elskað eingetinn son sinn, sem varð Jesús Kristur, löngu áður.
Í lok bænarinnar leggur Jesús aftur áherslu á þetta. „Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim.“ Postularnir hafa meðal annars kynnst nafni Guðs með því að kynnast kærleika hans af eigin raun. Jóhannes 14:1–17:26; 13:27, 35, 36; 10:16; Lúkas 22:3, 4; 2. Mósebók 24:10; 1. Konungabók 19:9-13; Jesaja 6:1-5; Galatabréfið 6:16; Sálmur 35:19; 69:5; Orðskviðirnir 8:22, 30.
▪ Hvert er Jesús að fara og hvað segir hann Tómasi um veginn þangað?
▪ Hvað er Filippus greinilega að biðja Jesú um?
▪ Af hverju hefur sá sem hefur séð Jesú séð föðurinn?
▪ Hvernig munu fylgjendur Jesú gera enn meiri verk en hann?
▪ Í hvaða skilningi hefur Satan ekkert tak á Jesú?
▪ Hvenær gróðursetti Jehóva hinn táknræna vínvið og hvenær og hvernig verða aðrir hluti af vínviðnum?
▪ Hve margar greinar verða að lokum á vínviðnum táknræna?
▪ Hvaða ávöxt vill Guð að greinarnar beri?
▪ Hvernig getum við verið vinir Jesú?
▪ Af hverju hatar heimurinn fylgjendur Jesú?
▪ Hvaða viðvörun Jesú gerir postulunum órótt?
▪ Hvers vegna spyrja postularnir Jesú ekki nánar út í hvert hann sé að fara?
▪ Hvað eiga postularnir sérlega erfitt með að skilja?
▪ Hvernig lýsir Jesús með dæmi að hryggð postulanna breytist í fögnuð?
▪ Hvað segir Jesús að postularnir geri bráðlega?
▪ Hvernig sigrar Jesús heiminn?
▪ Í hvaða skilningi er Jesú gefið „vald yfir öllum mönnum“?
▪ Hvað merkir það að þekkja Guð og son hans?
▪ Á hvaða vegu opinberar Jesús nafn Guðs?
▪ Hvað er ‚sannleikurinn‘ og hvernig ‚helgar‘ hann kristinn mann?
▪ Hvernig eru Guð, sonur hans og allir sannir guðsdýrkendur eitt?
▪ Hvenær var „grundvöllun heims“?