Er þetta bara minni háttar misskilningur?
Lítil stúlka sér reyk stíga upp frá reykháfum í verksmiðju og verða að skýjahnoðrum. Hún heldur að verksmiðjan hljóti að búa til ský. Slíkur misskilningur af hálfu barns getur verið saklaus og skemmtilegur. Annars konar misskilningur getur hins vegar haft veigamikil áhrif á líf okkar. Ef við til dæmis lesum vitlaust utan á lyfjaumbúðir getur það haft alvarlegar afleiðingar.
Misskilningur varðandi andleg mál getur haft enn alvarlegri afleiðingar í för með sér. Sumir fylgjendur Jesú misskildu kennslu hans. (Jóhannes 6:48-68) Þeir höfnuðu öllu sem hann kenndi í stað þess að reyna að skilja orð hans betur. Hvílík mistök!
Lest þú í Biblíunni þér til gagns og leiðsagnar? Það er mjög jákvætt. En getur verið að þú misskiljir sumt af því sem þú lest? Það kemur fyrir besta fólk. Lítum nú á þrennt sem fólki hættir til að misskilja.
Sumir misskilja fyrirmæli Biblíunnar um að ,óttast Guð‘. Þeir halda að Guð vilji að við skelfumst hann. (Prédikarinn 12:13) En Guð vill ekki að tilbiðjendum sínum líði þannig gagnvart honum. Hann segir: „Óttast eigi því að ég er með þér, vertu ekki hræddur því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér.“ (Jesaja 41:10) Að óttast Guð merkir einfaldlega að bera djúpa lotningu og virðingu fyrir honum.
Í Prédikaranum 3:1, 2 stendur: „Öllu er afmörkuð stund ... Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma.“ Sumir rangtúlka þessi orð og nota þau til að styðja þá hugmynd að Guð hafi fyrir fram ákveðið hvenær menn deyja. En þetta biblíuvers fjallar einfaldlega um eðlilegan gang lífsins frá vöggu til grafar. Biblían kennir líka að ákvarðanir okkar geti haft áhrif á hversu lengi við lifum. Í henni stendur: „Ótti Drottins lengir lífdagana.“ (Orðskviðirnir 10:27; Sálmur 90:10; Jesaja 55:3) Hvernig? Virðing fyrir orði Guðs knýr okkur til að forðast óheilbrigðan lífsstíl eins og drykkjuskap og kynferðislegt siðleysi. – 1. Korintubréf 6:9, 10.
Sumir túlka orð Biblíunnar bókstaflega þegar hún segir að himnar og jörð muni ,eyðast með eldi‘ og þeir álykta að Guð muni eyða jörðinni. (2. Pétursbréf 3:7) En Guð hefur lofað að jörðinni verði ekki eytt. Hann „grundvallar jörðina á undirstöðum hennar svo að hún haggast eigi um aldur og ævi“. (Sálmur 104:5; Jesaja 45:18) Þetta spillta heimskerfi, en ekki jörðin, verður eldi að bráð ef svo má að orði komast. Hvað um himnana? Þegar orðið er notað í bókstaflegri merkingu getur það átt við alheiminn, stjörnuhimininn eða dvalarstað Guðs. Þeim verður ekki eytt.
HVERS VEGNA MISSKILUR FÓLK STUNDUM BIBLÍUNA?
Má ekki sjá af þessum dæmum að fólk misskilur oft vers í Biblíunni? Sumir gætu spurt sig: „Ef Guð er alvitur og veit allt hefði hann getað gefið okkur bók sem er nægilega skýr þannig að allir geti skilið hana auðveldlega. Hvers vegna gerði hann það ekki?“ Lítum á þrjár ástæður fyrir því að fólk misskilur oft Biblíuna.
Biblían er skrifuð þannig að auðmjúkt fólk, sem vill skilja hana, geti skilið hana. Jesús sagði við föður sinn: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum.“ Jesús átti hér við að Guð gæfi auðmjúku fólki skilning. (Lúkas 10:21) Biblían er þannig skrifuð að til að skilja hana skiptir viðhorfið miklu máli. Hroki, sem gjarnan loðir við ,spekinga og hyggindamenn‘, getur valdið því að menn misskilji ýmislegt í Biblíunni. En auðmjúkt fólk, sem les Biblíuna og vill skilja hana, fær skilning á boðskap Guðs. Biblían er sannarlega meistaraverk frá Guði!
Biblían á erindi til fólks sem vill fá hjálp Guðs til að skilja hana. Jesús benti á að fólk þyrfti aðstoð til að skilja til fulls það sem hann kenndi. Hvar er slíka hjálp að fá? Jesús sagði: „Hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt.“ (Jóhannes 14:26) Guð gefur heilagan anda – máttugan kraft – til að veita fólki betri skilning á Biblíunni. Aftur á móti heldur Guð anda sínum frá þeim sem treysta ekki á hjálp hans. Þess vegna er boðskapur Biblíunnar oft óskiljanlegur fyrir þeim. Heilagur andi knýr kristna menn sem hafa þekkingu á Biblíunni til að fara og hjálpa þeim sem leitast eftir auknum skilningi. – Postulasagan 8:26-35.
Sum vers í Biblíunni er ekki hægt að skilja fyrr en í fyllingu tímans. Daníel spámanni var sagt að skrifa hvað gerast myndi í framtíðinni. Engill sagði við hann: „Leyndu þessum orðum, Daníel, og innsiglaðu bókina þar til dregur að endalokum.“ Í aldanna rás hafa margir lesið Daníelsbók en ekki getað skilið hana almennilega. Daníel gat ekki einu sinni sjálfur skilið sumt af því sem hann skrifaði. Hann viðurkenndi auðmjúklega: „Ég hlustaði á en skildi ekki.“ Er fram liðu stundir myndi fólk fá réttan skilning á spádómum Guðs sem Daníel skráði, en þó ekki fyrr en í fyllingu tímans. Engillinn sagði við Daníel hvað þetta varðar: „Farðu, Daníel, því að þessi orð eru leyndardómur, innsigluð allt til endalokanna.“ En hver myndi þá skilja boðskap Guðs? „Enginn hinna ranglátu mun skilja neitt; en hinir vitru munu skilja það.“ (Daníel 12:4, 8-10) Guð gefur því ekki skilning á sumum biblíuversum fyrr en í fyllingu tímans.
Hafa Vottar Jehóva einhvern tíma misskilið vers í Biblíunni? Já. Tíminn var ekki kominn til að fá skilning. Þeir voru samt fúsir að leiðrétta sig þegar Guð veitti þeim betri skilning. Þannig líktu þeir eftir postulunum sem voru fúsir til að hlusta á Jesú og leiðrétta rangar ályktanir sínar. – Postulasagan 1:6, 7.
Hugmyndir litlu stúlkunnar um hvaðan skýin koma var skemmtilegur misskilningur. En boðskapur Biblíunnar er svo dýrmætur að við ættum að reyna að gera allt til að misskilja hann ekki. Leitaðu þér aðstoðar við að skilja það sem þú lest. Leitaðu til fólks sem les Biblíuna með opnum huga, reiðir sig á heilagan anda til að skilja Biblíuna og er sannfært um að við lifum á mikilvægum tíma í mannkynssögunni – þeim tíma sem Guð vill að við skiljum Biblíuna sem aldrei fyrr. Talaðu við votta Jehóva eða lestu vandað biblíufræðsluefni á vefsetri þeirra, jw.org. Biblían lofar þér að ,ef þú kallar á skynsemina þá mun þér veitast þekking á Guði‘. – Orðskviðirnir 2:3-5.