Hvar er sanna huggun að fá?
„Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists . . . huggar oss í sérhverri þrenging vorri.“ — 2. KORINTUBRÉF 1:3, 4.
1. Hvers vegna þurfa margir sárlega á huggun og hughreystingu að halda?
ÖRKUMLA manni kann að finnast hann einskis nýtur. Fólk er blásnautt og bjargarlaust eftir jarðskjálfta, fárviðri eða hungursneyð. Nákomnir ættingjar falla í stríði, hús og híbýli eyðileggjast eða fólk neyðist til að yfirgefa heimili sitt og flýja. Ranglæti rænir fólk voninni og því finnst það hvergi eiga sér athvarf. Allir sem þekkja eitthvað af þessu þurfa sárlega á huggun og hughreystingu að halda. En hvar er hana að fá?
2. Hvers vegna er huggun Jehóva einstök?
2 Einstaklingar og samtök reyna að lina þjáningar fólks. Hlýleg orð eru alltaf vel metin. Hjálparstarf bætir úr brýnustu þörfinni um stundar sakir. En enginn nema Jehóva, hinn sanni Guð, getur bætt tjónið að fullu og veitt þá hjálp sem nauðsynleg er til að ógæfa af þessu tagi endurtaki sig aldrei framar. Biblían segir um hann: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri, svo að vér getum huggað alla aðra í þrengingum þeirra með þeirri huggun, sem vér höfum sjálfir af Guði hlotið.“ (2. Korintubréf 1:3, 4) Hvernig huggar Jehóva okkur?
Að grafast fyrir rætur vandans
3. Hvernig veitir Guð huggun með því að ráðast að rótum þess vanda sem mannkynið á í?
3 Allt mannkyn er ófullkomið vegna syndar Adams og það er kveikjan að alls konar vanda sem dregur fólk til dauða um síðir. (Rómverjabréfið 5:12) Það gerir svo illt verra að Satan djöfullinn er ‚höfðingi þessa heims.‘ (Jóhannes 12:31; 1. Jóhannesarbréf 5:19) En Jehóva lét sér ekki nægja að lýsa harmi sínum yfir bágindum mannkyns heldur sendi eingetinn son sinn sem lausnargjald til að frelsa það, og hann sagði að við gætum losnað úr fjötrum erfðasyndarinnar með því að trúa á son sinn. (Jóhannes 3:16; 1. Jóhannesarbréf 4:10) Jafnframt sagði Guð það fyrir að Jesús Kristur, sem er falið allt vald á himni og jörð, myndi tortíma Satan og illu heimskerfi hans eins og það leggur sig. — Matteus 28:18; 1. Jóhannesarbréf 3:8; Opinberunarbókin 6:2; 20:10.
4. (a) Hvernig hefur Jehóva styrkt tiltrú okkar til fyrirheita sinna? (b) Hvernig bendir Jehóva á hvenær lausnin komi?
4 Til að styrkja tiltrú okkar á fyrirheit sín lét Guð skrásetja meira en nægar sannanir fyrir því að það sem hann boðar rætist örugglega. (Jósúabók 23:14) Hann lét skrásetja í Biblíuna dæmi um það hvernig hann frelsaði þjóna sína úr vanda sem var óleysanlegur frá mannlegum bæjardyrum séð. (2. Mósebók 14:4-31; 2. Konungabók 18:13–19:37) Og fyrir milligöngu Jesú Krists sýndi hann fram á að hann ætli sér að lækna fólk af ‚hvers kyns veikindum‘ og meira að segja vekja dána aftur til lífs. (Matteus 9:35; 11:3-6) Hvenær á þetta að gerast? Biblían svarar því með lýsingu á síðustu dögum þessa heimskerfis sem eru undanfari nýs himins og nýrrar jarðar Guðs. Lýsing Jesú kemur heim og saman við þá tíma sem við lifum. — Matteus 24:3-14; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
Huggun handa fólki í neyð
5. Á hvað benti Jehóva þegar hann hughreysti Ísraelsmenn fortíðar?
5 Samskipti Jehóva við Ísraelsmenn fortíðar sýna okkur fram á hvernig hann huggaði þá á neyðartímum. Hann minnti þá á hvers konar Guð hann væri. Það styrkti traust þeirra til fyrirheita hans. Hann lét spámenn sína draga upp skarpa mynd af muninum á sér sem sönnum og lifandi Guði og á skurðgoðum sem megnuðu hvorki að hjálpa sjálfum sér né dýrkendum sínum. (Jesaja 41:10; 46:1; Jeremía 10:2-15) Þegar Jehóva sagði Jesaja: „Huggið, huggið lýð minn!“ lét hann spámanninn bregða upp líkingum og lýsingum á sköpunarverkinu til að leggja áherslu á að hann, Jehóva, sé hinn eini sanni Guð. — Jesaja 40:1-31.
6. Hvaða vísbendingar gaf Jehóva stundum um væntanlega frelsun?
6 Stundum huggaði Jehóva þjóna sína með því að tiltaka hvenær þeir yrðu frelsaðir, annaðhvort innan skamms eða löngu síðar. Rétt áður en hann frelsaði hina kúguðu Ísraelsmenn frá Egyptalandi sagði hann þeim: „Ég vil enn láta eina plágu koma yfir Faraó og Egyptaland. Eftir það mun hann leyfa yður að fara héðan.“ (2. Mósebók 11:1) Þegar þriggja þjóða bandalag réðst inn í Júda á dögum Jósafats konungs sagði Jehóva Júdamönnum að hann myndi skakka leikinn „á morgun.“ (2. Kroníkubók 20:1-4, 14-17) Jesaja boðaði hins vegar frelsun frá Babýlon með næstum 200 ára fyrirvara, og Jeremía veitti nánari upplýsingar um hana næstum hundrað árum áður en hún átti sér stað. Þessir spádómar voru sérlega uppörvandi fyrir þjóna Guðs þegar lausnartíminn nálgaðist. — Jesaja 44:26–45:3; Jeremía 25:11-14.
7. Hvað fylgdi oft frelsunarloforðunum og hvaða áhrif hafði það á trúfasta Ísraelsmenn?
7 Það er eftirtektarvert að fyrirheitin, sem hughreystu fólk Guðs, gáfu oft ýmsar upplýsingar um Messías. (Jesaja 53:1-12) Kynslóð fram af kynslóð var þetta trúu fólki til hughægðar í margvíslegum prófraunum. Við lesum í Lúkasi 2:25: „Þá var í Jerúsalem maður, er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti huggunar Ísraels [það er að segja komu Messíasar], og yfir honum var heilagur andi.“ Símeon vissi að voninni um Messías var lýst í Ritningunni og eftirvæntingin eftir að hún rættist setti mark sitt á líf hans. Hann skildi ekki hvernig öll fyrirheitin ættu eftir að rætast og lifði það ekki að sjá hið fyrirheitna hjálpræði verða að veruleika. Hann gladdist hins vegar að mega bera kennsl á þann sem átti að vera „hjálpræði“ Guðs. — Lúkas 2:30.
Huggun fyrir atbeina Krists
8. Hvernig var hjálp Jesú í samanburði við væntingar margra?
8 Jesús Kristur hjálpaði fólki á marga vegu meðan hann þjónaði á jörð, en ekki alltaf eins og það hélt sig þurfa. Sumir væntu Messíasar sem myndi létta af þeim hinu hataða oki Rómverja. En Jesús aðhylltist ekki byltingu heldur sagði fólki að ‚gjalda keisaranum það sem keisarans væri.‘ (Matteus 22:21) Guð ætlaði sér meira en að losa fólk við yfirráð stórveldis. Menn vildu gera Jesú að konungi en hann sagðist myndu „gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga.“ (Matteus 20:28; Jóhannes 6:15) Það var ekki tímabært að hann gerðist konungur og hann átti að fá stjórnarumboðið frá Jehóva en ekki óánægðum mannfjöldanum.
9. (a) Hvaða huggandi boðskap flutti Jesús? (b) Hvernig sýndi Jesús fram á að boðskapur hans snerti persónulegar aðstæður fólks? (c) Fyrir hvað bjó Jesús í haginn með þjónustu sinni?
9 Huggunin, sem Jesús veitti fólki, var fólgin í ‚fagnaðarerindinu um Guðs ríki‘ og hann boðaði það hvarvetna. (Lúkas 4:43) Hann lagði áherslu á að boðskapur sinn snerti dagleg vandamál fólks með því að sýna fram á hvað hann myndi gera fyrir mannkynið sem Messías og stjórnandi. Hann endurnýjaði lífslöngun þjáðra með því að gefa blindum sýn og mállausum mál og með því að lækna fólk af bæklun og af andstyggilegum eða erfiðum sjúkdómum. (Matteus 12:22; Markús 2:3-12; 5:25-29; 10:51, 52; Lúkas 5:12, 13) Hann gladdi sorgmædda foreldra með því að reisa börn þeirra upp frá dauðum. (Lúkas 7:11-15; 8:49-56) Hann gat þaggað niður í hættulegum stormum og mettað þúsundir manna. (Markús 4:37-41; 8:2-9) Og Jesús kenndi fólki lífsreglur sem auðvelduðu því að takast á við vandamál sín og innblés því von um réttláta stjórn í höndum Messíasar. Þannig huggaði hann þá sem hlustuðu í trú og bjó jafnframt í haginn til að uppörva fólk á komandi árþúsundum.
10. Hvað hefur fórn Jesú í för með sér?
10 Meira en 60 árum eftir að Jesús fórnaði mannslífi sínu og var reistur upp til lífs á himnum var Jóhannesi postula innblásið að skrifa: „Börnin mín! Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Fórn Jesú er okkur til mikillar huggunar. Við vitum að við getum fengið fyrirgefningu synda okkar, haft hreina samvisku og átt gott samband við Guð og von um eilíft líf. — Jóhannes 14:6; Rómverjabréfið 6:23; Hebreabréfið 9:24-28; 1. Pétursbréf 3:21.
Heilagur andi huggar
11. Hvaða annarri huggun lofaði Jesús áður en hann dó?
11 Kvöldið fyrir dauða sinn sagði Jesús postulunum frá annarri ráðstöfun sem faðirinn á himnum hefði gert þeim til huggunar. Hann sagði: „Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara [huggara; á grísku paraʹkletos], að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans.“ Hann lofaði þeim: „Hjálparinn, andinn heilagi, . . . mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.“ (Jóhannes 14:16, 17, 26) Hvernig var heilagur andi þeim til huggunar?
12. Hvernig hefur heilagur andi verið mörgum til huggunar með því að vera lærisveinum Jesú minnishjálp?
12 Jesús hafði kennt postulunum rækilega. Aldrei myndu þeir gleyma hvernig hann kenndi þeim. En gátu þeir munað hvað hann sagði? Myndu þeir gleyma mikilvægum atriðum af því að hugur þeirra var ófullkominn? Jesús fullvissaði þá um að heilagur andi myndi ‚minna þá á allt sem hann hefði sagt þeim.‘ Því gat Matteus skrifað fyrsta guðspjallið um átta árum eftir dauða Jesú þar sem hann skrásetti hina uppörvandi fjallræðu hans, hinar mörgu dæmisögur um ríkið og ítarlega umfjöllun um nærverutákn hans. Rúmlega 50 árum síðar gat Jóhannes postuli skrifað áreiðanlega frásögu með nákvæmum upplýsingum um síðustu dagana í ævi Jesú hér á jörð. Þessar innblásnu frásagnir eru einstaklega uppörvandi enn þann dag í dag.
13. Hvernig kenndi heilagur andi frumkristnum mönnum?
13 Auk þess að minna lærisveinana á orð Jesú leiðbeindi heilagur andi þeim svo að þeir skildu fyrirætlun Guðs betur. Meðan Jesús var með þeim sagði hann þeim margt sem þeir skildu ekki til hlítar á þeim tíma. Síðar skrifuðu Jóhannes, Pétur, Jakob, Júdas og Páll nánari skýringar á fyrirætlun Guðs, undir áhrifum heilags anda. Heilagur andi starfaði þannig sem kennari og fullvissaði lærisveinana um að Guð leiðbeindi þeim.
14. Hvernig hjálpaði heilagur andi þjónum Jehóva?
14 Hinar yfirnáttúrlegu gjafir heilags anda sýndu líka fram á að Guð hefði flutt velþóknun sína frá hinum bókstaflega Ísrael yfir til kristna safnaðarins. (Hebreabréfið 2:4) Ávöxtur andans, sem birtist í lífi fólks, var líka mikilvægur til að bera kennsl á raunverulega lærisveina Jesú. (Jóhannes 13:35; Galatabréfið 5:22-24) Og andinn styrkti safnaðarmenn svo að þeir gátu vitnað djarfmannlega og óttalaust. — Postulasagan 4:31.
Hjálp þegar álagið er sem mest
15. (a) Hvaða álag hefur hvílt á kristnum mönnum bæði fyrr og nú? (b) Af hverju getur sá sem uppörvar aðra stundum þarfnast uppörvunar sjálfur?
15 Allir sem þjóna Jehóva og eru honum trúir verða fyrir einhvers konar ofsóknum. (2. Tímóteusarbréf 3:12) Margir kristnir menn hafa sætt næstum óbærilegu álagi. Sumir hafa orðið fyrir skrílsárásum eða verið hnepptir í fangabúðir, vinnubúðir eða fangelsi við ómannúðlegar aðstæður. Ríkisstjórnir hafa ofsótt þjóna Guðs eða leyft löglausum öflum að leika lausum hala. Og sannkristnir menn hafa átt við alvarleg veikindi að stríða eða mjög erfið vandamál í fjölskyldunni. Það getur líka verið mikið álag fyrir þroskaðan kristinn mann að hjálpa mörgum trúsystkinum, einu af öðru, í erfiðleikum. Þegar svo er komið getur sá sem uppörvar aðra sjálfur verið uppörvunar þurfi.
16. Hvaða hjálp fékk Davíð þegar álagið var mikið?
16 Þegar Sál konungur var á hælunum á Davíð og vildi hann feigan leitaði Davíð ásjár Guðs: „Guð, heyr þú bæn mína,“ bað hann. „Í skugga vængja þinna vil ég hælis leita.“ (Sálmur 54:4, 6; 57:2) Fékk Davíð hjálp? Já, Jehóva notaði Gað spámann og Abjatar prest til að leiðbeina þessum unga manni og hann notaði Jónatan, son Sáls, til að styrkja hann. (1. Samúelsbók 22:1, 5; 23:9-13, 16-18) Og hann leyfði Filistum að brjótast inn í landið svo að Sál varð að hætta að elta Davíð. — 1. Samúelsbók 23:27, 28.
17. Hvar leitaði Jesús hjálpar þegar álagið var sem mest?
17 Jesús Kristur var undir gífurlegu álagi rétt áður en jarðlífi hans lauk. Hann vissi mætavel hvaða áhrif framferði hans gæti haft á orðstír föður hans á himnum og á framtíð mannkyns. Hann baðst einlæglega fyrir, jafnvel „í dauðans angist.“ Guð sá til þess að Jesús fengi þann stuðning sem hann þurfti á þessari erfiðu stund. — Lúkas 22:41-44.
18. Hvernig hughreysti Guð frumkristna menn þegar þeir voru ofsóttir grimmilega?
18 Svo grimmilega voru kristnir menn ofsóttir á fyrstu öld eftir að söfnuðurinn var stofnaður, að allir nema postularnir forðuðu sér frá Jerúsalem. Bæði karlar og konur voru dregin með valdi út af heimilum sínum. Hvernig hughreysti Guð þau? Með því loforði Ritningarinnar að þau ættu „betri eign og varanlega,“ það er að segja örugga arfleifð með Kristi á himnum. (Hebreabréfið 10:34; Efesusbréfið 1:18-20) Þau héldu áfram að prédika og sáu að andi Guðs var með þeim, og það sem gerðist í starfi þeirra gladdi þau mjög. — Matteus 5:11, 12; Postulasagan 8:1-40.
19. Hvað fannst Páli um þá huggun sem Guð gaf honum þegar hann var ofsóttur grimmilega?
19 Sál (Páll) hafði ofsótt kristna menn grimmilega en var síðar ofsóttur sjálfur eftir að hann varð kristinn. Særingamaður á eynni Kýpur reyndi að tálma boðun Páls með svikum og rangfærslum. Páll var grýttur og talinn látinn í Galatíu. (Postulasagan 13:8-10; 14:19) Hann var húðstrýktur í Makedóníu. (Postulasagan 16:22, 23) Eftir skrílsárás í Efesus skrifaði hann: „Vér vorum aðþrengdir langt um megn fram, svo að vér jafnvel örvæntum um lífið. Já, oss sýndist sjálfum, að vér hefðum þegar fengið vorn dauðadóm.“ (2. Korintubréf 1:8, 9) En það var í sama bréfi sem Páll skrifaði hin uppörvandi orð sem vitnað er til í 2. tölugrein þessarar námsgreinar. — 2. Korintubréf 1:3, 4.
20. Um hvað er fjallað í greininni á eftir?
20 Hvernig getur þú verið öðrum til huggunar og hughreystingar? Margir þarfnast hennar, ýmist í hörmungum sem leggjast á fjöldann eða þrengingum sem leggjast á þá eina. Í greininni á eftir er fjallað um það hvernig við getum huggað og hughreyst aðra í báðum tilfellum.
Manstu?
• Hvers vegna er huggunin frá Guði afar verðmæt?
• Hvaða huggun veitir Guð fyrir atbeina Krists?
• Hvernig hefur heilagur andi reynst huggari?
• Nefndu dæmi um huggun sem Guð veitti þjónum sínum þegar álagið var mikið.
[Myndir á blaðsíðu 15]
Biblían bendir á að Jehóva hafi huggað og hughreyst með því að frelsa fólk sitt.
[Myndir á blaðsíðu 16]
Jesús huggaði og hughreysti með því að kenna, lækna og reisa upp dána.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Jesús fékk hjálp að ofan.