5. KAFLI
Konungurinn varpar ljósi á ríkið
1, 2. Á hvaða hátt var Jesús eins og vitur leiðsögumaður?
HUGSAÐU þér að þú sért að skoða fagra og merkilega borg í fylgd leiðsögumanns. Hvorki þú né ferðafélagar þínir hafa heimsótt borgina áður og þú hlustar ákafur á hvert orð sem leiðsögumaðurinn segir. Stundum eruð þið ferðafélagarnir spenntir að vita eitthvað um byggingar og borgarhluta sem þið hafið ekki séð enn þá. Þið spyrjið leiðsögumanninn en hann svarar ekki strax, oft ekki fyrr en þið eruð rétt í þann mund að koma á staðinn. Hann veit greinilega ósköpin öll og þið hrífist af kunnáttu hans því að hann gefur ykkur þær upplýsingar sem ykkur vantar einmitt þegar þið þurfið að fá þær.
2 Sannkristnir menn standa í svipuðum sporum og ferðamennirnir. Við erum spennt að fræðast um stórfenglegustu borg sem hugsast getur, um ‚borg sem hefur traustan grunn‘, það er að segja ríki Guðs. (Hebr. 11:10) Þegar Jesús var hér á jörð leiðbeindi hann fylgjendum sínum persónulega og fræddi þá um þetta ríki. Svaraði hann öllum spurningum þeirra og gaf þeim allar upplýsingar um ríkið þegar í stað? Nei. „Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú,“ sagði hann. (Jóh. 16:12) Jesús var eins og vitur leiðsögumaður og íþyngdi aldrei lærisveinum sínum með þekkingu sem þeir voru ekki tilbúnir til að meðtaka.
3, 4. (a) Hvernig hefur Jesús haldið áfram að fræða trúa þjóna sína um ríki Guðs? (b) Um hvað er fjallað í þessum kafla?
3 Jesús sagði það sem stendur í Jóhannesi 16:12 síðustu nóttina sem hann var maður á jörð. Hvernig ætlaði hann að halda áfram að fræða trúa þjóna sína um ríki Guðs eftir að hann væri dáinn? Hann sagði við postula sína: ‚Andi sannleikans mun leiða yður í allan sannleikann.‘a (Jóh. 16:13) Við getum litið á heilagan anda eins og þolinmóðan leiðsögumann. Jesús beitir honum til að kenna fylgjendum sínum allt sem þeir þurfa að vita um ríki Guðs – einmitt þegar þeir þurfa að vita það.
4 Við skulum kanna hvernig heilagur andi hefur leiðbeint einlægu kristnu fólki og aukið þekkingu þess á ríki Jehóva. Fyrst skoðum við hvernig þeir skildu hvenær ríki Guðs tók völd. Síðan könnum við hvernig þeir áttuðu sig á hverjir stjórnendur og þegnar þess væru og hvaða vonir þeir höfðu. Og að síðustu lítum við á hvernig fylgjendur Krists skildu hvað væri fólgið í því að sýna ríki Guðs hollustu.
Ár sem markaði tímamót
5, 6. (a) Hvað héldu biblíunemendurnir um stofnsetningu Guðsríkis og uppskeruna? (b) Af hverju er samt engin ástæða til að efast um að Jesús hafi leiðbeint fylgjendum sínum?
5 Eins og fram kom í 2. kafla þessarar bókar höfðu Biblíunemendurnir bent á það áratugum saman að samkvæmt spádómum Biblíunnar myndu mikilvægir atburðir eiga sér stað árið 1914. Á þeim tíma héldu þeir hins vegar að nærvera Krists hefði hafist árið 1874, hann hefði tekið völd á himnum árið 1878 og ríki Guðs myndi ekki taka að fullu til starfa fyrr en í október 1914. Uppskerutíminn stæði frá 1874 til 1914 og honum lyki með því að hinir andasmurðu yrðu kallaðir til himna. Trúir þjónar Guðs höfðu greinilega ekki réttan skilning á þessum málum. Ættum við þá að álykta sem svo að Jesús hafi ekki leiðbeint þeim með heilögum anda?
6 Engan veginn. Hugsaðu um líkinguna sem var brugðið upp í byrjun kaflans. Verður leiðsögumaðurinn óáreiðanlegur við það eitt að ferðamennirnir gera sér ákveðnar hugmyndir og spyrja hann ákaft áður en það er tímabært að upplýsa þá? Auðvitað ekki. Þjónar Guðs reyna líka stundum að varpa ljósi á ýmsa þætti í fyrirætlun Jehóva áður en það er tímabært að heilagur andi leiði þá í allan sannleikann, en það er samt ljóst að Jesús leiðir þá. Trúir þjónar Guðs eru fúsir til að taka leiðréttingu og nógu auðmjúkir til þess. – Jak. 4:6.
7. Hvað fengu þjónar Guðs að sjá í skýrara ljósi?
7 Á árunum upp úr 1919 fengu þjónar Guðs að sjá margt í skýrara ljósi. (Lestu Sálm 97:11.) Árið 1925 birtist grein í Varðturninum sem markaði þáttaskil en hún nefndist „Fæðing þjóðarinnar“. Þar voru færð skýr biblíuleg rök fyrir því að ríki Messíasar hefði tekið til starfa árið 1914 og þá hefði ræst sýnin sem lýst er í 12. kafla Opinberunarbókarinnar. Þar segir frá himneskri konu Guðs fæða barn.b Í greininni var sýnt fram á að ofsóknirnar og erfiðleikarnir, sem þjónar Jehóva urðu fyrir á stríðsárunum, væru greinileg merki þess að Satan hefði verið varpað niður af himni. Hann væri nú ‚í miklum móð því að hann vissi að hann hefði nauman tíma‘. – Opinb. 12:12.
8, 9. (a) Hvernig var lögð áhersla á hve ríki Guðs væri mikilvægt? (b) Hvaða spurningar skoðum við?
8 Hve mikilvægt er ríki Guðs? Árið 1928 var farið að leggja áherslu á það í Varðturninum að ríkið væri mikilvægara en hjálpræði hvers og eins fyrir atbeina lausnargjaldsins. Ríki Messíasar er verkfærið sem Jehóva notar til að helga nafn sitt, staðfesta að hann sé réttmætur Drottinn alheims og hrinda fyrirætlun sinni með mannkynið í framkvæmd að fullu og öllu leyti.
9 Hverjir áttu að ríkja með Kristi? Hverjir yrðu þegnar þessa ríkis á jörð? Og að hvaða verki ættu fylgjendur Krists að einbeita sér?
Andasmurðum safnað á uppskerutímanum
10. Hvað hafa þjónar Guðs skilið lengi varðandi hinar 144.000?
10 Áratugum fyrir 1914 höfðu sannkristnir menn gert sér grein fyrir því að 144.000 trúir fylgjendur Krists myndu ríkja með honum á himnum.c Biblíunemendurnir skildu að talan var bókstafleg og að byrjað var að velja í hópinn á fyrstu öld okkar tímatals.
11. Hvernig fengu þeir sem mynduðu tilvonandi brúði Krists skilning á verkefni sínu á jörð?
11 En hvaða verkefni höfðu þeir sem mynduðu tilvonandi brúði Krists meðan þeir voru enn á jörð? Þeir vissu að Jesús hafði lagt áherslu á boðunina og sett hana í samband við uppskeru. (Matt. 9:37; Jóh. 4:35) Eins og bent var á í 2. kafla héldu þeir um tíma að uppskeran tæki 40 ár og næði hámarki þegar hinir andasmurðu yrðu kallaðir til himna. En boðunin hélt áfram eftir að 40 árin voru liðin þannig að það þurfti greinilega að leita betri skýringa. Nú vitum við að uppskerutíminn hófst raunverulega árið 1914. Þetta var tíminn þegar átti að aðgreina hveitið frá illgresinu, það er að segja hina trúu andasmurðu frá falskristnum mönnum. Nú var kominn tími til að beina kröftum sínum að því að safna saman þeim sem eftir voru af þessum himneska hópi.
12, 13. Hvernig hafa dæmisögur Jesú um meyjarnar tíu og um talenturnar ræst á síðustu dögum?
12 Kristur hélt áfram að hvetja hinn trúa og hyggna þjón eftir 1919 til að leggja áherslu á boðunina. Hann hafði falið þeim það verkefni á fyrstu öld. (Matt. 28:19, 20) Hann gaf einnig til kynna hvað andasmurðir fylgjendur hans þyrftu að hafa til að bera til að gera því góð skil. Hvernig gerði hann það? Í dæmisögunni um meyjarnar tíu benti Jesús á að hinir andasmurðu yrðu að halda andlegri vöku sinni. Annars myndu þeir ekki ná því marki sínu að taka þátt í brúðkaupsveislunni á himnum þegar hann myndi ganga að eiga „brúði“ sína, hinar 144.000. (Opinb. 21:2) Í dæmisögunni um talenturnar sýndi hann andasmurðum þjónum sínum fram á að þeir yrðu að vera ötulir við að boða fagnaðarerindið sem hann fól þeim að flytja. – Matt. 25:1-30.
13 Hinir andasmurðu hafa reynst vera bæði vökulir og ötulir þessa öld sem uppskeran hefur staðið yfir. Þeim verður umbunað fyrir árvekni sína. En átti aðeins að safna saman 144.000 meðstjórnendum Krists á uppskerutímanum?
Jarðneskum þegnum Guðsríkis safnað saman
14, 15. Um hvaða fjóra hópa var rætt í bókinni The Finished Mystery?
14 Trúaðir karlar og konur höfðu lengi brunnið í skinninu að vita hver væri ‚múgurinn mikli‘ sem er nefndur í Opinberunarbókinni 7:9-14. Margt var skrifað um þennan fjölmenna hóp áður en það var tímabært fyrir Krist að upplýsa hverjir mynduðu hann. En það kemur ekki á óvart að stór hluti þess var órafjarri þeim skýra og einfalda sannleika sem við þekkjum núna og er okkur kær.
15 Árið 1917 var staðhæft í bókinni The Finished Mystery að „himneskt hjálpræði væri tvískipt eða tvenns konar, og jarðneskt hjálpræði tvískipt“. Hverjir skipuðu þá fjóra hópa sem áttu sér hver sína von um hjálpræði? Í fyrsta lagi voru það þau 144.000 sem myndu ríkja með Kristi. Í öðru lagi var það múgurinn mikli. Á þeim tíma var talið að þetta væri fólk sem kallaði sig kristið en tilheyrði enn þá kirkjum kristna heimsins. Það hefði vissa trú en ekki nógu sterka til að vera fullkomlega ráðvant Guði. Þess vegna fengi það óæðri stöðu á himnum. Á jörðinni áttu að vera tveir hópar. Í öðrum væru hinir „fornu heiðursmenn“ eins og Abraham, Móse og fleiri, og sá hópur átti að ráða yfir mannheiminum sem myndaði fjórða hópinn.
16. Um hvað voru þjónar Guðs upplýstir árið 1923 og 1932?
16 Hvernig leiðbeindi heilagur andi fylgjendum Krists svo að þeir fengu þann skilning sem við höfum núna? Þeir voru upplýstir smám saman. Það var strax árið 1923 að Varðturninn benti á hóp sem vonaðist ekki eftir að fara til himna heldur ætti að lifa á jörð undir stjórn Krists. Árið 1932 ræddi Varðturninn um Jónadab sem fór með Jehú, hinum smurða Ísraelskonungi, og studdi hann í stríðinu gegn falskri guðsdýrkun. (2. Kon. 10:15-17) Í greininni sagði að á okkar tímum væri til hópur fólks sem líktist Jónadab. Síðan sagði að það væri þessi hópur sem Jehóva ætlaði að bjarga „í Harmagedónstríðinu“ og leyfa að lifa hér á jörð.
17. (a) Á hvað var varpað skæru ljósi árið 1935? (b) Hvaða áhrif hafði það á trúa þjóna Guðs að þeir skildu hverjir tilheyrðu múginum mikla? (Sjá greinina „Mörgum létti stórlega“.)
17 Árið 1935 var varpað skæru ljósi á þetta mál. Á móti, sem haldið var í Washington D.C., kom fram að múgurinn mikli ætti að búa á jörð. Þetta væri sami hópur og nefndur er sauðir í dæmisögu Jesú um sauðina og hafrana. (Matt. 25:33-40) Múgurinn mikli tilheyrði hópnum sem Jesús kallaði „aðra sauði“ og sagði að ‚sér bæri einnig að leiða‘. (Jóh. 10:16) Síðan sagði ræðumaðurinn, Joseph F. Rutherford: „Vilja allir þeir sem hafa von um að lifa að eilífu á jörðinni rísa úr sætum?“ Meira en helmingur áheyrenda stóð á fætur. „Sjáið, múgurinn mikli!“ sagði hann. Margir voru djúpt snortnir. Nú skildu þeir loksins hver framtíðarvon þeirra var.
18. Að hverju hafa fylgjendur Krists einbeitt sér og með hvaða árangri?
18 Allar götur síðan hefur Kristur séð til þess að þjónar hans einbeittu sér að því að safna saman þeim sem eiga að mynda múginn mikla – múginn sem á að komast heill og óskaddaður úr þrengingunni miklu. Uppskeran virtist ekki mikil í fyrstu. Bróðir Rutherford sagði jafnvel einu sinni: „Það lítur ekki út fyrir að ‚múgurinn mikli‘ verði svo mikill þegar allt kemur til alls.“ Við vitum auðvitað núna hvernig Jehóva hefur blessað uppskerustörfin síðan þá. Undir handleiðslu Jesú og heilags anda hafa bæði hinir andasmurðu og ‚aðrir sauðir‘ orðið „ein hjörð“ undir umsjón ‚eins hirðis‘, rétt eins og Jesús spáði.
19. Hvernig getum við stuðlað að því að múgurinn mikli vaxi?
19 Langflestir trúir þjónar Guðs munu lifa að eilífu í paradís á jörð undir stjórn Krists og þeirra 144.000 sem stjórna með honum. Er ekki ánægjulegt að velta fyrir sér hvernig Kristur hefur leiðbeint þjónum Guðs þannig að þeir fengju þessa skýru og tæru von sem Biblían veitir? Hvílíkur heiður að mega segja þeim sem við hittum frá þessari von! Við skulum vera eins ötul og aðstæður okkar leyfa til að múgurinn mikli haldi áfram að vaxa og lofsöngurinn um nafn Jehóva verði sífellt sterkari. – Lestu Lúkas 10:2.
Hvað er fólgið í því að sýna ríki Guðs hollustu?
20. Hvaða öfl tilheyra fylkingu Satans og hvernig reynir á hollustu kristinna manna?
20 Jafnhliða því að þjónar Guðs fengu skýrari mynd af ríki hans þurftu þeir að skilja vel hvað væri fólgið í því að sýna ríkinu á himnum hollustu. Bent var á það í Varðturninum árið 1922 að heimurinn skiptist í tvær fylkingar, söfnuð Jehóva og fylkingu Satans. Í hinni síðarnefndu eru viðskipta-, trúar- og stjórnmálaöfl heimsins. Þeir sem þjóna ríki Guðs í höndum Krists mega ekki hvika frá hollustu sinni með því að eiga óviðeigandi samskipti við nokkur þau öfl sem Satan ræður yfir. (2. Kor. 6:17) Hvað þurfa þeir að forðast?
21. (a) Hvernig hefur trúi þjónninn varað fólk Guðs við viðskiptaöflunum? (b) Hvað kom fram um ‚Babýlon hina miklu‘ í Varðturninum árið 1963?
21 Hinn trúi og hyggni þjónn hefur staðfastlega afhjúpað spillingu viðskiptaaflanna og varað þjóna Guðs við að láta efnishyggju ná tökum á sér. (Matt. 6:24) Í ritum okkar hefur líka verið flett ofan af hinum trúarlegu öflum sem Satan hefur á valdi sínu. Árið 1963 kom fram í Varðturninum að „Babýlon hin mikla“ táknaði ekki aðeins kristna heiminn heldur allt heimsveldi falskra trúarbragða. Fólk Guðs í öllum löndum og menningarsamfélögum heims hefur fengið hjálp til að ‚forða sér úr henni‘ og losa sig við allar falstrúariðkanir. (Opinb. 18:2, 4) Nánar er fjallað um þetta í 10. kafla.
22. Hvernig skildu margir þjónar Guðs fyrirmælin í Rómverjabréfinu 13:1 meðan fyrri heimsstyrjöldin geisaði?
22 En Satan ræður líka yfir stjórnmálaöflunum. Gátu sannkristnir menn tekið þátt í styrjöldum og átökum þjóðanna? Í fyrri heimsstyrjöldinni voru biblíunemendurnir almennt þeirrar skoðunar að fylgjendur Krists mættu ekki drepa náunga sinn. (Matt. 26:52) Í Rómverjabréfinu 13:1 er kristnum mönnum hins vegar sagt að ‚hlýða yfirvöldum‘. Margir skildu það svo að þeir ættu að gegna herþjónustu, klæðast hermannabúningi og jafnvel að bera vopn. Þegar þeim væri skipað að drepa óvinina ættu þeir hins vegar að skjóta upp í loftið.
23, 24. Hvernig skildu fylgjendur Krists Rómverjabréfið 13:1 meðan síðari heimsstyrjöldin geisaði og hvaða nákvæmari skilning fengu þeir síðar?
23 Um svipað leyti og síðari heimsstyrjöldin braust út árið 1939 birtist ítarleg umfjöllun um hlutleysi í Varðturninum. Í greininni kom skýrt fram að kristnir menn ættu ekki að taka nokkurn þátt í styrjöldum og átökum þjóðanna í heimi Satans. Þetta var tímabær leiðsögn. Fylgjendum Krists var þar með hlíft við hinni skelfilegu blóðskuld sem þjóðirnar bökuðu sér í stríðinu. Frá 1929 hafði því einnig verið haldið fram í ritum okkar að yfirvöldin í Rómverjabréfinu 13:1 væru ekki hin veraldlegu yfirvöld heldur Jehóva og Jesús. En frekari skýringa var þörf.
24 Heilagur andi leiðbeindi fylgjendum Krists þannig að þeir fengu nýjan skilning á málinu árið 1962. Í Varðturninum 15. nóvember og 1. desember það ár birtust greinar þar sem fjallað var um Rómverjabréfið 13:1-7 (birtist í Varðturninum á íslensku 1. febrúar og 1. mars 1964). Þjónar Guðs skildu nú loksins meginregluna um skilyrta undirgefni sem Jesús hafði sett fram þegar hann sagði hin frægu orð: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ (Lúk. 20:25) Sannkristnir menn vita nú að yfirvöldin eru hin veraldlegu stjórnvöld þessa heims og að þeir eiga að vera þeim undirgefnir. En undirgefnin er skilyrðum háð. Ef veraldleg yfirvöld fara fram á að við óhlýðnumst Jehóva Guði svörum við eins og postularnir forðum daga: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Post. 5:29) Í 13. og 14. kafla þessarar bókar er rætt nánar hvernig þjónar Guðs hafa fylgt meginreglunni um kristið hlutleysi.
25. Hvað finnst þér um að heilagur andi skuli hafa veitt okkur skilning á ríki Guðs?
25 Hugsaðu þér hve mikið fylgjendur Krists hafa lært um ríki Guðs síðastliðna öld. Við höfum lært hve mikilvægt ríkið er og hvenær það var stofnsett á himnum. Við höfum fengið skýra mynd af tvenns konar von sem trúir þjónar Guðs eiga sér annaðhvort á himni eða jörð. Og við vitum hvernig við eigum að sýna ríki Guðs hollustu og vera veraldlegum yfirvöldum undirgefin með skilyrðum. Spyrðu þig hvort þú myndir þekkja nokkur af þessum dýrmætu sannindum ef Jesús Kristur hefði ekki leiðbeint trúum þjóni sínum á jörð þannig að hann skildi þau og kenndi síðan öðrum. Það er ómetanleg blessun að Kristur og heilagur andi skuli leiðbeina okkur.
a Samkvæmt heimildarriti merkir gríska orðið, sem er þýtt „leiða“ í þessu versi, „að vísa veginn“.
b Fram að þeim tíma hafði verið talið að sýnin lýsti stríði milli hinnar heiðnu Rómar og páfaveldisins.
c Í júní árið 1880 var sú hugmynd viðruð í Varðturni Síonar að hinar 144.000 væru Gyðingar sem snúið yrði til trúar fyrir 1914. Síðar sama ár birtist á prenti skýring sem er nær þeim skilningi sem við höfum haft alla tíð síðan.