Sjónarmið Biblíunnar
„Ekki af heiminum“ — hvað merkir það?
Á FJÓRÐU öld sneru þúsundir manna, sem sögðust vera kristnar, baki við eigum sínum, ættingjum og lífsháttum til að setjast að sem einsetumenn í eyðimörk Egyptalands. Sagnfræðingur nokkur sagði að þeir hafi ekki blandað geði við samtíðarmenn sína. Einsetumennirnir héldu að með því að draga sig í hlé frá mannlegu samfélagi væru þeir að fylgja kristnu kröfunni um að vera „ekki af heiminum.“ — Jóhannes 15:19.
Biblían áminnir kristna menn um að halda sér ‚óflekkuðum af heiminum.‘ (Jakobsbréfið 1:27) Ritningin varar við: „Þér ótrúu, vitið þér ekki, að vinátta við heiminn er fjandskapur gegn Guði? Hver sem því vill vera vinur heimsins, hann gjörir sig að óvini Guðs.“ (Jakobsbréfið 4:4) Merkir þetta þá að kristnir menn eigi að gerast einsetumenn og draga sig í hlé frá öðrum í bókstaflegri merkingu? Ættu þeir að forðast samneyti við þá sem hafa ekki sömu trúarskoðanir og þeir?
Kristnir menn eru ekki ófélagslyndir
Hugmyndin um að vera ekki af heiminum er rædd í fjölmörgum frásögum Biblíunnar, sem benda á nauðsyn þess að kristnir menn aðgreini sig frá fjöldanum í mannlegu samfélagi sem er fráhverfur Guði. (Samanber 2. Korintubréf 6:14-17; Efesusbréfið 4:18; 2. Pétursbréf 2:20.) Það er því viturlegt af sannkristnum mönnum að forðast viðhorf, málfar og hegðun sem stangast á við réttláta vegi Jehóva, eins og ágirnd heimsins í auðæfi eða metorð og óhóflega skemmtanafíkn. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Þeir halda sér einnig aðgreindum frá heiminum með því að vera hlutlausir í styrjöldum og stjórnmálum.
Jesús Kristur sagði að fylgjendur hans væru „ekki af heiminum.“ En hann bað einnig til Guðs: „Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.“ (Jóhannes 17:14-16) Jesús vildi greinilega ekki að lærisveinar hans væru ófélagslyndir og forðuðust allt samband við þá sem voru ekki kristnir. Reyndar myndi einangrun hindra kristinn mann í að rækja skyldur sínar að prédika og kenna „opinberlega og í heimahúsum.“ — Postulasagan 20:20; Matteus 5:16; 1. Korintubréf 5:9, 10.
Sú ráðlegging að halda sér óflekkuðum af heiminum gefur kristnum mönnum ekkert tilefni til að telja sig vera öðrum æðri. Þeir sem óttast Jehóva hata „drambsemi.“ (Orðskviðirnir 8:13) Galatabréfið 6:3 segir: „Sá sem þykist vera nokkuð, en er þó ekkert, dregur sjálfan sig á tálar.“ Þeim sem finnst þeir yfir aðra hafnir blekkja sig af því að „allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð.“ — Rómverjabréfið 3:23.
‚Lastmælið engum‘
Á dögum Jesú voru til menn sem fyrirlitu alla þá er tilheyrðu ekki einangruðum trúflokki þeirra. Á meðal þeirra voru farísearnir. Þeir voru vel að sér í Móselögunum og líka í smáatriðum erfikenninga Gyðinga. (Matteus 15:1, 2; 23:2) Þeir lögðu metnað sinn í að halda marga helgisiði af ýtrustu nákvæmni. Farísearnir höguðu sér eins og þeir væru öðrum æðri aðeins vegna menntunar sinnar og trúarlegrar stöðu. Þeir létu skinhelgi sína og fyrirlitningu í ljós með því að segja: „Þessi almúgi, sem veit ekkert í lögmálinu, hann er bölvaður!“ — Jóhannes 7:49.
Farísearnir gáfu jafnvel þeim sem ekki voru farísear smánarheiti. Hebreska orðið ʽam haʼaʹrets var upphaflega notað á jákvæðan hátt um vissa þjóðfélagsþegna. En þegar fram liðu stundir breyttu hinir hrokafullu trúarleiðtogar Júda merkingu orðsins ʽam haʼaʹrets í skammaryrði. Aðrir hópar, þar á meðal þeir sem kalla sig kristna, hafa notað orð eins og „trúleysingjar“ og „heiðingjar“ á niðrandi hátt um fólk sem hefur aðrar trúarskoðanir en þeir.
En hvernig litu frumkristnir menn á þá sem höfðu ekki tekið kristna trú? Lærisveinar Jesú voru áminntir um að koma fram við vantrúaða „með hógværð og virðingu.“ (2. Tímóteusarbréf 2:25; 1. Pétursbréf 3:15, 16) Páll postuli gaf gott fordæmi að þessu leyti. Hann var þægilegur í viðmóti en ekki hrokafullur, og í stað þess að hefja sig upp yfir aðra var hann auðmjúkur og uppbyggjandi. (1. Korintubréf 9:22, 23) Í innblásnu bréfi sínu til Títusar gefur Páll þá áminningu að „lastmæla engum, vera ódeilugjarnir, sanngjarnir og sýna hvers konar hógværð við alla menn.“ — Títusarbréfið 3:2.
Í Biblíunni er orðið „vantrúaður“ stundum notað um þá sem eru ekki kristnir. Hins vegar er ekkert sem gefur til kynna að orðið „vantrúaður“ hafi verið notað sem opinbert heiti eða viðurnefni. Það var vissulega ekki notað til að gera lítið úr eða sverta mannorð þeirra sem ekki voru kristnir, því að það hefði stangast á við meginreglur Biblíunnar. (Orðskviðirnir 24:9) Vottar Jehóva forðast að vera harðneskjulegir eða hrokafullir gagnvart þeim sem eru ekki í trúnni. Þeir álíta það dónalegt að kalla ættingja og nágranna, sem ekki eru vottar, niðrandi nöfnum. Þeir fylgja ráðleggingum Biblíunnar: „Þjónn Drottins á . . . að vera ljúfur við alla.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:24.
‚Gerum öllum gott‘
Það er lífsnauðsynlegt að gera sér ljósar hætturnar af nánum kynnum við heiminn, einkum við þá sem bera enga virðingu fyrir stöðlum Guðs. (Samanber 1. Korintubréf 15:33.) En þegar Biblían ráðleggur okkur að „gjöra öllum gott,“ nær orðið „öllum“ líka yfir þá sem játa ekki sanna kristni. (Galatabréfið 6:10) Ljóst er að frumkristnir menn og þeir sem ekki voru í trúnni borðuðu saman við vissar aðstæður. (1. Korintubréf 10:27) Þess vegna eru kristnir menn öfgalausir í framkomu við vantrúaða og líta á þá sem náunga sína. — Matteus 22:39.
Það væri rangt að gera ráð fyrir því að einhver sé dónalegur eða siðlaus aðeins vegna þess að hann þekkir ekki sannindi Biblíunnar. Aðstæður breytast og mennirnir með. Þess vegna verður sérhver kristinn maður að ákveða hversu mikið samband hann ætlar að hafa við þá sem eru ekki í trúnni. Hins vegar væri það ástæðulaust og óbiblíulegt fyrir kristinn mann að einangra sig líkamlega eins og einsetumennirnir í Egyptalandi eða finnast hann vera öðrum æðri eins og farísearnir.