Kafli 124
Framseldur og leiddur burt
ÆÐSTUPRESTARNIR reiðast um allan helming þegar Pílatus reynir enn á ný að láta Jesú lausan, snortinn af þögulli reisn hans þrátt fyrir pyndingar. Þeir eru staðráðnir í að láta ekkert hindra illskuáform sín svo að þeir hrópa aftur: „Staurfestu hann! Staurfestu hann!“
„Takið þið hann sjálfir og staurfestið,“ svarar Pílatus. (Vera má að Gyðingar hafi vald til að lífláta afbrotamenn fyrir nógu alvarleg, trúarleg afbrot, gagnstætt því sem þeir hafa haldið fram.) Síðan lýsir hann Jesú saklausan, að minnsta kosti í fimmta sinn, og segir: „Ég finn enga sök hjá honum.“
Gyðingar átta sig nú á því að pólitískar ákærur þeirra hafa ekki borið árangur og grípa því aftur til trúarlegu ákærunnar um guðlast sem þeir notuðu klukkustundum áður við réttarhöld æðstaráðsins. „Vér höfum lögmál, og samkvæmt lögmálinu á hann að deyja, því hann hefur gjört sjálfan sig að Guðs syni,“ segja þeir.
Pílatus hefur ekki heyrt þessa ákæru áður og verður enn hræddari. Honum er orðið ljóst að Jesús er enginn venjulegur maður eins og draumur eiginkonu hans og óvenjulegur persónustyrkur Jesú vitnar um. En ‚sonur Guðs‘? Pílatus veit að Jesús er frá Galíleu. En getur hugsast að hann hafi lifað áður? Pílatus fer aftur með hann inn í höllina og spyr: „Hvaðan ertu?“
Jesús svarar ekki. Hann var búinn að segja Pílatusi áður að hann sé konungur en ríki hans sé ekki af þessum heimi. Ítarlegri skýringar á þessari stundu þjóna engum tilgangi. En Pílatusi er misboðið að Jesús skuli ekki svara og spyr hann hvasst: „Talarðu ekki við mig? Veistu ekki að ég hef vald til að láta þig lausan og ég hef vald til að staurfesta þig?“
„Þú hefðir ekkert vald yfir mér, ef þér væri ekki gefið það að ofan,“ svarar Jesús kurteislega. Hann er að tala um það vald sem Guð hefur veitt mennskum valdhöfum til að stjórna á jörð. Hann bætir við: „Fyrir því ber sá þyngri sök, sem hefur selt mig þér í hendur.“ Kaífas æðstiprestur og sökunautar hans, ásamt Júdasi Ískaríot, bera allir þyngri sök en Pílatus á þeirri ranglátu meðferð sem Jesús hefur hlotið.
Pílatus dáist nú enn meira að Jesú og verður enn hræddari um að hann sé af guðlegum uppruna. Hann reynir því enn á ný að láta hann lausan en Gyðingar hafna honum hranalega. Þeir endurtaka pólitískar ásakanir sínar og hóta honum klókindalega: „Ef þú lætur hann lausan, ert þú ekki vinur keisarans. Hver sem gjörir sjálfan sig að konungi, rís á móti keisaranum.“
Þrátt fyrir hótunina sem felst í þessum orðum leiðir Pílatus Jesú út enn einu sinni. Hann skírskotar aftur til þeirra: „Sjáið þar konung yðar!“
„Burt með hann! Burt með hann! Staurfestu hann!“
„Á ég að staurfesta konung ykkar?“ spyr Pílatus örvæntingarfullur.
Gyðingum hafa síður en svo líkað yfirráð Rómverja. Reyndar fyrirlíta þeir rómversk yfirvöld! En nú segja æðstuprestarnir hræsnisfullir: „Við höfum engan konung nema keisarann.“
Pílatus óttast um pólitíska stöðu sína og orðstír og lætur loks undan linnulausum kröfum Gyðinga og framselur Jesú til aftöku. Hermennirnir færa Jesú úr purpurakápunni og í eigin yfirhöfn. Hann er leiddur út til staurfestingarinnar og látinn bera kvalastaur sinn.
Liðið er á morgun föstudaginn 14. nísan eða kannski komið fram undir hádegi. Jesús hefur verið á fótum síðan snemma á fimmtudagsmorgni og þolað kvöl á kvöl ofan. Skiljanlegt er að kraftar hans þrjóti fljótt undir þungum kvalastaurnum. Maður sem á leið hjá, Símon nokkur frá Kýrene í Afríku, er þá neyddur til að bera staurinn fyrir hann. Margir fylgja þeim á göngunni, þeirra á meðal konur sem harma og gráta Jesú.
Jesús snýr sér að konunum og segir: „Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar. Því þeir dagar koma, er menn munu segja: Sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf, er aldrei fæddu, og þau brjóst, sem engan nærðu. . . . Því að sé þetta gjört við hið græna tréð, hvað mun þá verða um hið visna?“
Tréð, sem Jesús nefnir, er Gyðingaþjóðin sem enn er eitthvert líf í vegna návistar hans og tilveru þeirra leifa manna sem trúa á hann. En þegar þeir eru teknir úr þjóðinni er ekkert eftir nema andlega dautt tré, já, visnað þjóðskipulag. Það verður sannarlega tilefni til að gráta þegar rómverskar hersveitir eyða Gyðingaþjóðinni í umboði Guðs! Jóhannes 19:6-17, vers 6, 10, 15 samkvæmt NW; 18:31; Lúkas 23:24-31; Matteus 27:31, 32; Markús 15:20, 21.
▪ Hvað ásaka trúarleiðtogarnir Jesú um þegar pólitískar ákærur skila ekki tilætluðum árangri?
▪ Af hverju verður Pílatus enn hræddari?
▪ Hverjir bera þyngri sök á því sem verður um Jesú?
▪ Hvernig fá prestarnir Pílatus að lokum til að framselja Jesú til aftöku?
▪ Hvað segir Jesús konunum sem gráta hann, og hvað á hann við með því að tala um tréð sem ‚grænt‘ og svo ‚visið‘?