25. KAFLI
„Ég skýt máli mínu til keisarans“
Páll er góð fyrirmynd þegar hann ver fagnaðarboðskapinn
Byggt á Postulasögunni 25:1–26:32
1, 2. (a) Í hvaða aðstöðu er Páll? (b) Hvaða spurning vaknar varðandi áfrýjun Páls til keisarans?
PÁLL er enn í strangri gæslu í Sesareu. Tveim árum áður hafði hann komið aftur til Júdeu að lokinni trúboðsferð og á örfáum dögum höfðu Gyðingar reynt að minnsta kosti þrisvar að verða honum að bana. (Post. 21:27–36; 23:10, 12–15, 27) Óvinum hans hefur hingað til mistekist en þeir eru ekki af baki dottnir. Þegar Páll sér fram á að hann geti fallið aftur í hendur þeirra segir hann við rómverska landstjórann Festus: „Ég skýt máli mínu til keisarans.“ – Post. 25:11.
2 Studdi Jehóva ákvörðun Páls að skjóta máli sínu til keisarans í Róm? Svarið skiptir máli fyrir okkur sem vitnum ítarlega um ríki Guðs núna á endalokatímanum. Við þurfum að vita hvort við eigum að líkja eftir Páli þegar við vinnum að því að „verja fagnaðarboðskapinn og staðfesta með lögum réttinn til að boða hann“. – Fil. 1:7.
„Ég stend … fyrir dómarasæti keisarans“ (Post. 25:1–12)
3, 4. (a) Hvað bjó að baki þegar Gyðingar báðu um að fá Pál sendan til Jerúsalem og hvernig komst hann undan? (b) Hvernig styrkir Jehóva nútímaþjóna sína, rétt eins og hann styrkti Pál?
3 Þrem dögum eftir að Festus tók við embætti sem landstjóri Rómverja í Júdeu fór hann til Jerúsalem.a Þar hlustar hann á yfirprestana og fyrirmenn Gyðinga saka Pál um alvarlega glæpi. Þeir vissu að þrýst var á nýja landstjórann að halda frið við þá og Gyðinga í heild. Þeir biðja því Festus að gera sér greiða: Sendu Pál til Jerúsalem og láttu dæma hann þar. En það bjó annað að baki hjá óvinum Páls. Þeir ætluðu sér að drepa hann á leiðinni frá Sesareu til Jerúsalem. Festus hafnaði beiðni þeirra og sagði: „Látið … ráðamenn ykkar … koma með mér [til Sesareu] og ákæra manninn ef hann hefur á annað borð brotið eitthvað af sér.“ (Post. 25:5) Þannig komst Páll undan Gyðingum eina ferðina enn og hélt lífi.
4 Jehóva styrkti Pál í öllum erfiðleikum hans fyrir milligöngu Drottins Jesú Krists. Eins og við munum hvatti Jesús postula sinn í sýn til að herða upp hugann. (Post. 23:11) Þjónar Guðs nú á tímum þurfa líka að glíma við ýmsar hindranir og hótanir. Jehóva hlífir okkur ekki við öllum erfiðleikum en hann gefur okkur visku og styrk til að halda út. Við getum alltaf reitt okkur á ‚kraftinn sem er ofar mannlegum mætti‘ og kærleiksríkur Guð okkar veitir. – 2. Kor. 4:7.
5. Hvað gerði Festus í máli Páls?
5 Nokkrum dögum síðar ‚settist Festus í dómarasætið‘ í Sesareu.b Páll og þeir sem ákærðu hann stóðu frammi fyrir honum. Páll svarar tilhæfulausum ákærum þeirra með þessum orðum: „Ég hef hvorki syndgað gegn lögum Gyðinga, musterinu né keisaranum.“ Páll var saklaus og átti skilið að vera leystur úr haldi. En hver var úrskurður Festusar? Hann vildi koma sér í mjúkinn hjá Gyðingum og spurði því Pál: „Viltu fara til Jerúsalem og fá dæmt í málinu þar að mér viðstöddum?“ (Post. 25:6–9) Þetta var fáránleg hugmynd! Ef Páll yrði sendur aftur til Jerúsalem myndu þeir sem ákærðu hann líka dæma hann og hann yrði augljóslega dæmdur til dauða. Í þessu tilfelli lagði Festus meira upp úr pólitískri lausn en réttlæti. Einn af forverum hans, Pontíus Pílatus, hafði farið svipað að í máli þar sem mun mikilvægari fangi átti í hlut. (Jóh. 19:12–16) Dómarar nú á tímum láta líka stundum undan pólitískum þrýstingi. Það ætti því ekki að koma okkur á óvart þegar úrskurðir dómstóla ganga í berhögg við staðreyndir í málum sem snúa að þjónum Guðs.
6, 7. Af hverju skaut Páll máli sínu til keisarans og hvaða fordæmi gaf hann með því?
6 Löngun Festusar til að þóknast Gyðingum hefði getað sett Pál í lífshættu. Hann nýtti sér því réttindi sín sem rómverskur ríkisborgari og sagði við Festus: „Ég stend nú fyrir dómarasæti keisarans og þar á ég að hljóta dóm. Ég hef ekki gert neitt á hlut Gyðinga eins og þú hefur örugglega áttað þig á … Ég skýt máli mínu til keisarans.“ Ef máli var skotið til keisarans var yfirleitt ekki hægt að draga það til baka. Festus benti á það og sagði: „Þú hefur skotið máli þínu til keisarans og til keisarans skaltu fara.“ (Post. 25:10–12) Með því að skjóta máli til æðra dómstigs gefur Páll sannkristnum mönnum fordæmi. Þegar andstæðingar reyna að „valda tjóni í nafni laganna“ notfæra vottar Jehóva sér lagaleg úrræði til að verja fagnaðarboðskapinn.c – Sálm. 94:20.
7 Eftir að Páll hefur verið í haldi í meira en tvö ár fyrir afbrot sem hann framdi ekki fær hann tækifæri til að verja mál sitt í Róm. En annar valdhafi vill gjarnan hitta hann áður en hann fer þangað.
‚Ég óhlýðnaðist ekki‘ (Post. 25:13–26:23)
8, 9. Af hverju kom Agrippa konungur í heimsókn til Sesareu?
8 Nokkrum dögum eftir að Páll skaut máli sínu til keisarans komu Agrippa konungur og Berníke systir hans í „kurteisisheimsókn til Festusar“.d Á tímum Rómaveldis voru ráðamenn vanir að fara í slíkar heimsóknir til nýskipaðra landstjóra. Með því að óska Festusi til hamingju með embættið vildi Agrippa eflaust styrkja pólitísk og persónuleg tengsl sem gætu nýst honum í framtíðinni. – Post. 25:13.
9 Festus sagði Agrippu frá Páli og það vakti forvitni hans. Daginn eftir komu valdhafarnir með pompi og prakt til að hlusta á Pál flytja mál sitt. Öll viðhöfnin var svo sem nógu glæsileg en orð fangans voru þó mun áhrifameiri en allt umstangið kringum viðburðinn. – Post. 25:22–27.
10, 11. Hvernig sýndi Páll Agrippu virðingu og hvað sagði hann honum um fortíð sína?
10 Páll sýnir Agrippu konungi virðingu og þakkar honum fyrir að fá tækifæri til að verja mál sitt fyrir honum. Hann viðurkennir að konungur sé vel að sér í öllum siðum og ágreiningsmálum Gyðinga. Páll lýsir síðan fortíð sinni og segir: „Ég var farísei og fylgdi ströngustu stefnu trúar okkar.“ (Post. 26:5) Sem farísei hafði Páll beðið eftir að Messías kæmi. Núna var hann orðinn kristinn og boðaði hugrakkur að Jesús Kristur væri hinn langþráði Messías. Páll og ákærendur hans áttu ákveðna von sameiginlega – þá von að Guð myndi uppfylla loforðið sem hann gaf forfeðrum þeirra. Hún var ástæðan fyrir því að Páll var fyrir rétti þennan dag. Þessi skýring vakti enn meiri forvitni hjá Agrippu.e
11 Páll rifjaði upp hvernig hann hafði áður barist gegn kristnum mönnum og sagði: „Sjálfur var ég sannfærður um að ég ætti að berjast með öllum ráðum gegn nafni Jesú frá Nasaret … Og þar sem ég var ævareiður út í þá [fylgjendur Krists] gekk ég jafnvel svo langt að ofsækja þá í öðrum borgum.“ (Post. 26:9–11) Páll var ekki að ýkja. Margir vissu af ofbeldi hans í garð kristinna manna. (Gal. 1:13, 23) Agrippu var kannski spurn hvað gæti hafa breytt slíkum manni.
12, 13. (a) Hvað varð til þess að Páll tók kristna trú? (b) Hvernig hafði Páll ‚spyrnt á móti broddstafnum‘?
12 Páll svarar því í framhaldinu: „Þegar ég var á leiðinni til Damaskus í slíkum erindagerðum með vald og umboð frá yfirprestunum sá ég, konungur, ljós frá himni um hádegisbil. Það var bjartara en ljómi sólar og leiftraði á mig og samferðamenn mína. Við féllum allir til jarðar og ég heyrði rödd segja við mig á hebresku: ‚Sál, Sál, hvers vegna ofsækirðu mig? Þú gerir þér erfitt fyrir með því að spyrna á móti broddstafnum.‘ En ég spurði: ‚Hver ertu, Drottinn?‘ Og Drottinn svaraði: ‚Ég er Jesús sem þú ofsækir.‘“f – Post. 26:12–15.
13 Áður en þessi yfirnáttúrulegi atburður átti sér stað hafði Páll í táknrænni merkinu ‚spyrnt á móti broddstafnum‘. Burðardýr gat skaðað sig að óþörfu með því að spyrna á móti oddhvössum broddstafnum. Páll hafði á sambærilegan hátt skaðað samband sitt við Guð með því að vinna gegn vilja hans. Páll var einlægur en augljóslega á rangri braut. Með því að birtast honum á veginum til Damaskus fékk hinn upprisni Jesús hann til að breyta hugsunarhætti sínum. – Jóh. 16:1, 2.
14, 15. Hvað sagði Páll um þær breytingar sem hann hafði gert?
14 Páll hafði breytt lífi sínu á róttækan hátt. Hann sagði við Agrippu: „[Ég] óhlýðnaðist … ekki hinni himnesku vitrun heldur boðaði fyrst Damaskusbúum og síðan Jerúsalembúum, allri Júdeu og einnig þjóðunum að iðrast og snúa sér til Guðs með því að vinna verk sem hæfa iðruninni.“ (Post. 26:19, 20) Páll hafði árum saman unnið að því verkefni sem Jesús Kristur fól honum í þessari vitrun. Með hvaða árangri? Þeir sem tóku við fagnaðarboðskapnum sem Páll boðaði iðruðust þess að hafa verið siðlausir og óheiðarlegir og sneru sér til Guðs. Þeir urðu góðir borgarar, hlýddu lögum og reglum og stuðluðu að friði í samfélaginu.
15 En Gyðingum stóð hjartanlega á sama um þau góðu áhrif sem boðun Páls hafði haft. Páll sagði: „Af þessari ástæðu gripu Gyðingar mig í musterinu og reyndu að drepa mig. En þar sem Guð hefur hjálpað mér hef ég haldið áfram til þessa dags að vitna fyrir háum sem lágum.“ – Post. 26:21, 22.
16. Hvernig getum við líkt eftir Páli þegar við tölum við dómara og ráðamenn um trú okkar?
16 Við sem erum kristin ættum alltaf að vera tilbúin að verja trú okkar. (1. Pét. 3:15) Þegar við segjum dómurum og valdhöfum frá trúnni getur verið gott að líkja eftir aðferð Páls þegar hann talaði við Agrippu og Festus. Við getum sagt þeim með virðingu frá því hvernig sannleikur Biblíunnar hefur haft jákvæð áhrif á líf okkar og þeirra sem hlusta á okkur, og það getur kannski gert þá jákvæðari í okkar garð.
„Þú yrðir ekki lengi að snúa mér til kristni“ (Post. 26:24–32)
17. Hvernig brást Festus við málsvörn Páls og hvernig minnir það á algeng viðbrögð nú á dögum?
17 Sannfærandi rök Páls gátu ekki annað en hreyft við valdhöfunum tveim. Hver voru viðbrögðin? „Þegar hér var komið í málsvörn Páls sagði Festus hárri röddu: ‚Þú ert að missa vitið, Páll! Allur lærdómurinn rænir þig vitinu!‘“ (Post. 26:24) Margir nú á dögum bregðast við með svipuðum hætti og Festus. Í huga þeirra er það trúarofstæki að boða það sem Biblían kennir. Menntamenn þessa heims eiga oft erfitt með að meðtaka það sem Biblían segir um upprisu dauðra.
18. Hvernig svaraði Páll Festusi og hvað sagði Agrippa?
18 En það stóð ekki á svarinu hjá Páli: „Ég er ekki að missa vitið, göfugi Festus, heldur er það sem ég segi bæði satt og skynsamlegt. Konungur þekkir vel til þessara mála svo að ég get talað hiklaust um þetta … Trúirðu spámönnunum, Agrippa konungur? Ég veit að þú gerir það.“ Agrippa sagði þá: „Þú yrðir ekki lengi að snúa mér til kristni.“ (Post. 26:25–28) Hvort sem konungur sagði þetta í einlægni eða ekki er ljóst að vitnisburður Páls hafði sterk áhrif á hann.
19. Hver var niðurstaða Festusar og Agrippu í máli Páls?
19 Agrippa og Festus stóðu síðan upp til merkis um að yfirheyrslunni væri lokið. „Á leiðinni út sögðu [þeir] sín á milli: ‚Þessi maður hefur ekkert gert sem kallar á dauðarefsingu eða fangavist.‘ Agrippa sagði þá við Festus: ‚Það hefði mátt láta manninn lausan ef hann hefði ekki skotið máli sínu til keisarans.‘“ (Post. 26:31, 32) Þeir vissu að maðurinn sem hafði staðið frammi fyrir þeim var saklaus. Kannski myndu þeir sýna kristnum mönnum meiri skilning eftir þetta.
20. Hvaða tilgangi þjónaði það að Páll skyldi verja mál sitt fyrir þessum valdhöfum?
20 Hvorugur þessara valdamanna virðist hafa tekið við fagnaðarboðskapnum um ríki Guðs. Þjónaði það einhverjum tilgangi að Páll skyldi verja mál sitt frammi fyrir þeim? Svarið er já. Að hann skyldi vera ‚leiddur fyrir konunga og landstjóra‘ í Júdeu varð til þess að háttsettir Rómverjar sem annars hefði ekki náðst til fengu að heyra boðskapinn. (Lúk. 21:12, 13) Trúfesti hans í prófraunum og það sem hann upplifði var líka hvetjandi fyrir bræður hans og systur. – Fil. 1:12–14.
21. Hvaða jákvæðu áhrif getur það haft ef við höldum áfram að boða ríki Guðs?
21 Hið sama er uppi á teningnum núna. Margt jákvætt getur gerst ef við höldum ótrauð áfram að boða ríki Guðs þrátt fyrir prófraunir og andstöðu. Við fáum kannski tækifæri til að vitna fyrir ráðamönnum sem annars væri erfitt að ná til. Ef við höldum út og erum trúföst getum við verið bræðrum okkar og systrum til hvatningar og það getur gert þau enn hugrakkari þannig að þau haldi áfram að vitna ítarlega um ríki Guðs.
a Sjá rammann „Rómverski skattlandsstjórinn Porkíus Festus“.
b „Dómarasætið“ var stóll sem stóð á palli við salarenda. Upphækkunin átti að vekja þá tilfinningu að úrskurðir dómarans væru endanlegir og skyldu virtir. Pílatus sat í dómarasæti þegar hann vó og mat ákærurnar á hendur Jesú.
c Sjá rammann „Áfrýjað til æðri dómstiga á okkar dögum“.
d Sjá rammann „Heródes Agrippa konungur annar“.
e Sem kristinn maður viðurkenndi Páll að Jesús væri Messías. Gyðingarnir sem höfnuðu Jesú litu því á Pál sem fráhvarfsmann. – Post. 21:21, 27, 28.
f Páll segist hafa verið á ferð „um hádegisbil“. Biblíufræðingur segir um það: „Ferðamenn voru vanir að hvílast í miðdegishitanum nema þeim lægi ákaflega mikið á. Af því má sjá hve ákafur Páll var að ofsækja kristna menn.“