Að verja fagnaðarerindið frammi fyrir háttsettum embættismönnum
,ÞENNAN mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja og konunga.‘ (Post. 9:15) Þetta sagði Drottinn Jesús um mann sem hafði nýlega tekið kristna trú, Gyðinginn sem síðar varð þekktur sem Páll postuli.
Einn þessara „konunga“ var Neró Rómarkeisari. Hvernig liði þér ef þú þyrftir að verja trú þína frammi fyrir slíkum valdhafa? Kristnir menn eru hvattir til að líkja eftir Páli. (1. Kor. 11:1) Við gætum lent í svipuðum aðstæðum og Páll þegar hann þurfti að takast á við réttarkerfi síns tíma.
Móselögin voru landslög í Ísrael og trúræknir Gyðingar, sem bjuggu annars staðar, héldu einnig siðferðisreglur þeirra. Eftir hvítasunnu árið 33 þurftu sannir tilbiðjendur Guðs ekki lengur að fylgja Móselögunum. (Post. 15:28, 29; Gal. 4:9-11) Páll og aðrir kristnir menn töluðu þó ekki af óvirðingu um lögmálið. Þar af leiðandi gátu þeir boðað trúna án vandkvæða í mörgum samfélögum Gyðinga. (1. Kor. 9:20) Páll fór reyndar oft í samkunduhús en þar gat hann vitnað fyrir fólki sem þekkti Guð Abrahams og hann gat rökrætt við út frá Hebresku ritningunum. – Post. 9:19, 20; 13:5, 14-16; 14:1; 17:1, 2.
Postularnir völdu að hafa fyrstu miðstöð safnaðarins í Jerúsalem en þaðan yrði boðuninni stýrt. Þeir kenndu reglulega í musterinu. (Post. 1:4; 2:46; 5:20) Páll fór nokkrum sinnum til Jerúsalem þar sem hann var síðar meir handtekinn. Þar með hófust málaferli sem leiddu hann að lokum til Rómar.
PÁLL OG LÖG RÓMVERJA
Hvernig ætli rómversk yfirvöld hafi litið á trúna sem Páll boðaði? Til að svara því er gagnlegt að vita hvernig Rómverjar litu á trúarbrögð almennt. Þeir þvinguðu ekki hina ólíku þjóðflokka innan veldisins til að afneita trú sinni nema þegar hún virtist ógna ríkinu eða siðferði þegnanna.
Rómverjar veittu Gyðingum mikil réttindi í heimsveldinu. Í bókinni Backgrounds of Early Christianity segir: „Gyðingar nutu ákveðinna forréttinda í Rómaveldi ... Þeir máttu iðka trú sína að vild og voru undanþegnir því að tilbiðja guði rómverska ríkisins. Í samfélögum sínum máttu þeir hafa sín eigin lög.“ Þeir þurftu ekki heldur að gegna herskyldu.a Páll nýtti sér verndina sem Gyðingar nutu undir lögum Rómverja þegar hann varði kristna trú frammi fyrir rómverskum yfirvöldum.
Andstæðingar Páls reyndu á ýmsa vegu að fá almenning og yfirvöld til að snúast gegn honum. (Post. 13:50; 14:2, 19; 18:12, 13) Skoðum eitt dæmi. Öldungar í kristna söfnuðinum í Jerúsalem fréttu að meðal Gyðinga gengju sögusagnir um að Páll boðaði að fólk ætti að „hverfa frá Móse“. Slíkur orðrómur hefði getað valdið því að sumum Gyðingum, sem höfðu nýlega tekið kristna trú, fyndist Páll ekki virða ráðstafanir Guðs. Æðstaráðið hefði líka getað lýst því yfir að kristin trú væri fráhvarf frá gyðingdómi. Gyðingar, sem umgengust kristið fólk, gátu þá átt von á refsingu. Þeir yrðu brottrækir úr samfélaginu og yrði bannað að tala opinberlega í musterinu og í samkunduhúsum. Safnaðaröldungarnir ráðlögðu því Páli að hrekja þennan orðróm með því að fara í musterið og gera nokkuð sem Guð krafðist ekki af honum en var þó ekki rangt í sjálfu sér. – Post. 21:18-27.
Páll gerði það og það veitti honum tækifæri til að „verja fagnaðarerindið og staðfesta það“. (Fil. 1:7, Biblían 1981) Við musterið varð uppþot meðal Gyðinga og þeir vildu drepa Pál. Rómverskur hersveitarforingi handtók hann þá og setti í varðhald. Þegar verið var að búa Pál undir húðstrýkingu upplýsti hann að hann væri rómverskur ríkisborgari. Í kjölfarið var farið með hann til Sesareu en þaðan stýrðu Rómverjar Júdeu. Þar átti hann eftir að fá fágæt tækifæri til að vitna af hugrekki fyrir yfirvöldum. Þannig fengu líklega margir sem vissu lítið um kristna trú að kynnast henni betur.
Í 24. kafla Postulasögunnar er lýsing á því hvernig Felix, rómverski landstjórinn í Júdeu, réttaði yfir Páli en hann hafði þegar heyrt ýmislegt um hverju kristnir menn trúðu. Gyðingar ákærðu Pál fyrir að hafa brotið lög Rómverja á að minnsta kosti þrjá vegu. Þeir sökuðu hann um að ýta undir uppreisnaráróður meðal Gyðinga um allt heimsveldið, vera forsprakka hættulegs villuflokks og reyna að vanhelga musterið sem var undir vernd Rómverja á þeim tíma. (Post. 24:5, 6) Þessar ákærur gátu leitt til dauðadóms.
Það er athyglisvert fyrir þjóna Guðs nú á dögum að skoða hvernig Páll brást við þessum ákærum. Hann hélt ró sinni og háttvísi. Hann vísaði í lögmálið og spámennina og benti á rétt sinn til að tilbiðja ,Guð feðra sinna‘. Aðrir Gyðingar höfðu þann rétt samkvæmt rómverskum lögum. (Post. 24:14) Með tímanum fékk Páll líka að boða trúna og verja frammi fyrir Porkíusi Festusi, næsta landstjóra, og Heródesi Agrippu konungi.
Til þess að Páll fengi sanngjörn réttarhöld sagði hann að lokum: „Ég skýt máli mínu til keisarans“ – æðsta valdhafa þess tíma. – Post. 25:11.
PÁLL FRAMMI FYRIR DÓMSTÓLI KEISARANS
„Fyrir keisarann átt þú að koma,“ sagði engill síðar við Pál. (Post. 27:24) Neró Rómarkeisari sagði við upphaf stjórnartíðar sinnar að hann myndi ekki dæma í öllum málum sjálfur. Á fyrstu átta stjórnarárum sínum lét hann flest mál í hendur öðrum. Í bókinni The Life and Epistles of Saint Paul segir að þegar Neró tók að sér dómsmál hafi réttarhöldin farið fram í höll hans, en þar naut hann aðstoðar hóps reyndra og áhrifamikilla ráðgjafa.
Í Biblíunni kemur ekki fram hvort Neró hafi sjálfur hlýtt á mál Páls og dæmt í því eða hvort hann hafi falið það öðrum sem síðan upplýsti hann um málið. Hvort heldur hefur Páll líklega greint frá því að hann tilbæði Guð Gyðinga og að hann hvetti alla til að sýna stjórnvöldum tilhlýðilega virðingu. (Rómv. 13:1-7; Tít. 3:1, 2) Páll virðist hafa varið fagnaðarerindið með góðum árangri frammi fyrir háttsettum embættismönnum því að eftir málsmeðferð við dómstól keisarans var hann látinn laus. – Fil. 2:24; Fílem. 22.
OKKUR ER FALIÐ AÐ VERJA FAGNAÐARERINDIÐ
Jesús sagði við lærisveina sína: „Þér munuð leiddir fyrir landshöfðingja og konunga mín vegna til þess að bera vitni um mig fyrir þeim og heiðingjunum.“ (Matt. 10:18) Það er okkur heiður að vera fulltrúar Jesú á þennan hátt. Það sem við leggjum á okkur til að verja fagnaðarerindið getur haft í för með sér sigra í dómsmálum. Ákvarðanir ófullkominna manna verða auðvitað ekki til þess að staðfesta að fullu með lögum rétt okkar til að boða fagnaðarerindið. Aðeins ríki Guðs getur bundið enda á kúgun og óréttlæti fyrir fullt og allt. – Préd. 8:9; Jer. 10:23.
Þjónar Jehóva geta engu að síður vegsamað nafn hans nú á dögum þegar þeir verja trú sína. Við ættum að reyna að vera róleg, einlæg og sannfærandi, rétt eins og Páll. Jesús sagði fylgjendum sínum ,að vera ekki fyrir fram að hugsa um hvernig þeir ættu að verjast því hann myndi gefa þeim orð og visku sem engir mótstöðumenn þeirra fengju staðið í gegn né hrakið‘. – Lúk. 21:14, 15; 2. Tím. 3:12; 1. Pét. 3:15.
Þegar þjónar Guðs verja trú sína frammi fyrir konungum, valdhöfum eða öðrum embættismönnum geta þeir vitnað fyrir fólki sem hefði annars verið erfitt að ná til með boðskapinn. Dómsúrskurðir okkur í vil hafa stundum leitt til bættra laga sem vernda trú- og tjáningarfrelsi. En hvernig sem úrskurðað er í slíkum málum gleður það Guð að sjá þjóna sína sýna hugrekki frammi fyrir dómstólum.
a James Parkes skrifar í einni af bókum sínum: „Gyðingar ... máttu halda sínar eigin hátíðir. Það var ekkert óvenjulegt að Rómverjar skyldu veita þeim þessi réttindi því að það var í samræmi við þá stefnu þeirra að veita hinum mismunandi svæðum heimsveldisins eins mikið sjálfstæði og hægt var.“