Sjónarmið Biblíunnar:
Eru Gyðingar útvalin þjóð Guðs?
STOFNUN sjálfstæðs ríki Gyðinga árið 1948 var mikið áfall fyrir guðfræðinga kristna heimsins. Um aldaraðir höfðu margir þeirra kennt að Gyðingar væru dæmdir til að flakka um jörðina vegna syndar sinnar gegn Kristi, en nú átti „Gyðingurinn gangandi“ skyndilega að hætta göngu sinni.
Augu manna halda áfram að beinast að Gyðingum vegna þeirra atburða sem eiga sér stað í Miðausturlöndum og spurningar, sem menn héldu að búið væri að svara fyrir langa löngu, halda áfram að skjóta upp kollinum. Eru Gyðingar enn útvalin þjóð Guðs? Sýnir Guð Gyðingum sérstaka velvild núna?
Endur fyrir löngu sagði Guð Ísraelsmönnum: „Ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín. Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.“ (2. Mósebók 19:5, 6) Allar þjóðir tilheyrðu Guði en Ísraelsmenn áttu að verða sérstök eign hans og þjóna síðar sem prestar í þágu alls mannkyns.
En var þetta sérstaka samband við Guð engum skilyrðum háð? Jú! Guð hafði sagt: „Ef þér hlýðið minni röddu . . . Þá skuluð þér vera mín eiginleg eign.“ Hið sérstaka samband Ísraelsmanna við Guð var háð því að þeir varðveittu trúfesti við hann.
Kröftug líking
Atburðir á 8. öld f.o.t., á tímum spámannsins Hósea, undirstrikuðu það. Þótt Ísraelsmenn hefðu notið sérstakrar hylli Guðs sem útvalin þjóð hans hafði þorri þeirra snúið baki við sannri tilbeiðslu á Jehóva. Hver voru viðbrögð Jehóva? „Ég mun eigi framar auðsýna náð Ísraels húsi, svo að ég fyrirgefi þeim. . . . Þér eruð ekki minn lýður, og ég er ekki yðar Guð.“ (Hósea 1:6, 9) Hinir trúvilltu Ísraelsmenn myndu með öðrum orðum ekki njóta áfram velvildar Guðs. Einungis trúfastar leifar myndu dag einn fá þau sérréttindi að endurheimta hylli Guðs og blessun. — Hósea 1:10.
Í samræmi við þennan spádóm leyfði Guð að óvinir Ísraelsmanna hnepptu þá í fjötra og jöfnuðu musterið við jörðu. Þannig var með áhrifamiklum hætti sýnt fram á að þeir hefðu misst velþóknanlega stöðu sína frammi fyrir honum. Aðeins trúfastar leifar Ísraelsmanna (sem nú voru kallaðir Gyðingar) sneru heim úr útlegð árið 537 f.o.t., endurreistu musteri Jehóva og nutu nú hylli hans á ný sem útvalin þjóð Guðs.
Aðeins „leifar“ sýna trúfesti
Á öldunum eftir það urðu Gyðingar fyrir miklum áhrifum af grískri heimspeki, meðal annars kenningu Platons um ódauðlega sál — sem hafði hin skelfilegustu áhrif á guðsdýrkun þeirra. Aldrei framar yrði hún byggð eingöngu á kenningum Móse og hinna hebresku spámanna.
Ætlaði Jehóva að halda áfram að líta á Gyðinga sem útvalda þjóð sína? Jesú var ljóst að margir höfðu enn á ný gert fráhvarf frá óspilltri tilbeiðslu á Jehóva og sagði: „Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.“ (Matteus 21:43) Fæstir virtu þessa aðvörun viðlits og flestir héldu áfram fráhvarfsstefnu sinni og höfnuðu Jesú sem hinum smurða þjóni Jehóva. Þess vegna leyfði Guð að hið endurbyggða musteri þeirra yrði eyðilagt nokkru síðar, árið 70. (Matteus 23:37, 38) Þýddi sú aðgerð að Guð hefði nú hafnað öllum Gyðingum?
Páll, sem var Gyðingur og postuli Krists, sagði: „Guð hefur ekki útskúfað lýð sínum, sem hann þekkti fyrirfram. . . . Svo eru þá líka á vorum tíma leifar orðnar eftir, sem Guð hefur útvalið af náð.“ (Rómverjabréfið 11:2, 5) Á sama hátt og margir geta fengið boð um að vera viðstaddir brúðkaup en aðeins fáeinir þegið boðið, eins hafði Guð boðið allri Ísraelsþjóðinni að eignast sérstakt samband við sig en einungis leifar hennar varðveitt þessi nánu tengsl með trúfesti sinni. Langlundargeð Guðs bar sannarlega vitni um óverðskuldaða gæsku hans!
‚Lýður sem ekki var minn‘ varð ‚minn lýður‘
Trúfastar leifar Gyðinganna fengu innan skamms til liðs við sig menn af öðrum þjóðum sem þráðu líka að þjóna Guði. Þótt forfeður þeirra hefðu ekki átt sérstakt samband við Jehóva var hann núna fús til að viðurkenna þessa trúföstu menn af öðrum þjóðum sem þjóna sína. Páll getur þess og segir: „En ef nú Guð . . . hefur kallað [okkur], ekki aðeins úr flokki Gyðinga, heldur og úr flokki heiðingja. Eins og hann líka segir hjá Hósea: Lýð, sem ekki var minn, mun ég kalla minn.“ — Rómverjabréfið 9:22-25.
Þannig gátu bæði Gyðingar og menn af öðrum þjóðum orðið útvaldir þjónar Guðs og átt í vændum að þjóna sem prestar í þágu alls mannkyns. Pétur postuli, sem var fæddur Gyðingur, talaði til trúfastra tilbiðjenda Guðs af ýmsum þjóðernum er hann skrifaði: „Þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður‘ . . . Þér sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðnir ‚Guðs lýður.‘“ (1. Pétursbréf 2:9, 10) Þetta var sá „lýður“ eða þjóð, menn með eiginleika Guði að skapi, sem Jesús sagði mundu bera ‚ávexti Guðsríkis‘ og þar með njóta sérstaks sambands við Jehóva. — Matteus 21:43.
Guð var að leita trúar og réttlátrar breytni í fari manna er hann valdi hina væntanlegu presta, ekki sérstaks ætternis. Eins og Pétur benti á: „Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.
Guð sýnir mönnum því ekki lengur sérstaka velvild á grundvelli ætternis. Hann gefur mönnum af öllum þjóðum tækifæri til að eignast náið samband við sig. Megum við sýna með trú okkar og breytni að við þráum að vera þjónar Guðs.