Sjónarmið Biblíunnar
Eiga konur að gegna prestsembætti?
„FÆSTIR kristnir leikmenn skilja hvers vegna konur mega ekki miðla heilögu sakramenti og gefa saman hjón, fyrst konur geta verið þjóðhöfðingjar, forsætisráðherrar, dómarar, skurðlæknar og vísindamenn,“ segir Nicholas Stacey í Lundúnablaðinu The Times, en hann er prestur við Englandskirkju.
Enda þótt Englandskirkja veiti konum þjálfun til sérstakrar þjónustu hefur hún fram til þessa ekki leyft að konur gegni prestsembætti og miðli sakramentunum. Þykir þér það rétt afstaða eða álítur þú að konur ættu að fá að gegna prestsembætti til jafns við karla?
Gæti klofið kirkjudeildir
Deilan um það hvort konur eigi að fá að gegna prestsembætti hefur skipt sumum kirkjudeildum í andstæðar fylkingar. Biskupinn í Lundúnum, dr. Graham Leonard, höfuðandstæðingur þess meðal presta að konur taki prestsvígslu, heldur því fram að Englandskirkja gæti hæglega klofnað í tvær sjálfstæðar kirkjudeildir vegna þessarar deilu. Sumir telja það fordóma eina að standa gegn því að konur gegni prestsembætti. En málið er ekki svona einfalt.
Um áratuga skeið hefur Englandskirkja reynt að jafna ágreining sinn við Róm. En í nýlegu bréfi til erkibiskupsins af Kantaraborg sagði páfi að fengju konur að gegna prestsembætti myndi „kaþólska kirkjan líta á það sem mjög alvarlegan þránd í götu.“
Eitt þýðingarmikið yfirvald hefur þó lítil sem engin áhrif haft á þessa deilu — Biblían. Hvernig þjónuðu konur í frumkristna söfnuðinum og hvert ætti að vera hlutverk þeirra nú á dögum?
Jafnrétti en mismunur
Þegar kristni söfnuðurinn fæddist árið 33 að okkar tímatali var konum veittur heilagur andi til jafns við karla. Það var að öllu leyti eins og Jóel spámaður hafði sagt fyrir öldum áður, eins og Pétur postuli gerði grein fyrir. — Postulasagan 1:13-15; 2:1-4, 13-18.
Síðar komst Pétur til fulls skilnings á öðru þýðingarmiklu atriði: „Guð fer ekki í manngreinarálit.“ (Postulasagan 10:34) Orðrétt segir þessi ritningarstaður að Guð ‚taki ekki á móti andlitum,‘ hann dæmir með öðrum orðum ekki eftir ytra útliti, tekur ekki einn mann fram yfir annan. Til forna var algengt að dómarar væru vilhallir ríkum á kostnað fátækra, eða dæmdu eftir þjóðerni, stöðu, ætt eða vináttu frekar en málsatvikum. En Jehóva gerir hið gagnstæða. Hann er vilhallur þeim einum sem óttast hann og stunda réttlæti. Þegar hjálpræði á í hlut tekur Guð ekki ‚andlit‘ karlmanns fram yfir ‚andlit‘ konu. Bæði eru jöfn frammi fyrir honum. — Postulasagan 10:35.
Ritningin veitir því kristnum körlum og konum jafnverðugan sess í söfnuðinum. Páll postuli skrifar kristnum mönnum í Galatíu: „Hér er enginn . . . þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.“ Hver og einn á sitt persónulega einkasamband við Guð, en þó eru allir þjónar hans sameinaðir í eina heild. Á heimili Guðs eru allir jafnir. — Galatabréfið 3:26-28.
Engu að síður er munur á karli og konu í söfnuðinum. En mismunandi sérréttindi karls og konu í kristna söfnuðinum ætti þó ekkert frekar að spilla einingu safnaðarins en hin náttúrlegi munur þeirra spillir fyrir því að þau séu fylling hvors annars. En hvaða mun er hér um að ræða?
Hverjum eiga konur að kenna og hvar?
Munurinn á hlutverki karls og konu í söfnuðinum er tengdur kennslu og yfirvaldi. Konum er ekki ætlað að veita opinbera kennslu í söfnuðinum og fara með andlegt yfirvald yfir öðrum safnaðarmeðlimum. Í hirðisbréfi sínu til Tímóteusar segir Páll skýrum orðum: „Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát.“ — 1. Tímóteusarbréf 2:12.
Páll bendir síðan á orsök þess að konum sé ekki leyft að vera kennarar — það samband milli karls og konu sem Guð setti þeim. „Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva,“ skrifar hann. (1. Tímóteusarbréf 2:13) Guð hefði getað skapað Adam og Evu samtímis en gerði það ekki. Adam var til um tíma áður en Eva kom í heiminn. Gefur það ekki til kynna að Guð ætlaði Adam — ekki Evu — að fara með forystuna, að vera höfuðið? (1. Korintubréf 11:3) Það að kenna er í raun að fara með hlutverk húsbónda eða vera höfuð yfir þeim sem taka við kennslunni. Þeir sem kennsluna hljóta hlusta og læra í hljóði. Því er aðeins karlmönnum ætlað að vera kennarar og umsjónarmenn í söfnuðinum.
Þarf sú staðreynd að konur kenna ekki í söfnuðinum að vera tilefni gremju og leiðinda? Nei, konum er frjálst að kenna öðrum kristin fræði og eru reyndar hvattar til þess. En undir hvaða kringumstæðum? Aldraðar konur geta ‚kennt yngri konum gott frá sér.‘ Og líkt og Evnike og Lóis, móðir hennar, kenndu Tímóteusi, eins geta kristnar konur kennt börnum sínum ‚veginn,‘ veg sannleikans. — Títusarbréfið 2:3-5; Postulasagan 9:2; 2. Tímóteusarbréf 1:5.
Kristnar nútímakonur fylgja líka fordæmi Evodíu og Sýntýke með því að prédika fagnaðarerindið opinberlega þeim sem ekki trúa. (Filippíbréfið 4:2, 3) Þær geta verið kennarar með því að hjálpa áhugasömum að nema Biblíuna. (Matteus 28:20) Hundruð þúsundir kvenna sækja lífsfyllingu í þetta þýðingarmikla kennslu- og prédikunarstarf. Þær segja öðrum frá nýjum heimi þar sem ríkja mun friður og réttlæti undir stjórn Jesú Krists. Það er von sem þær njóta til jafns við kristna bræður sína. — Sálmur 37:10, 11; 68:12.
[Innskot á blaðsíðu 25]
Jafnvel innan sama trúfélags er oft mikill ágreiningur um það hvort konur eigi að gegna prestsembætti eða ekki.