NÁMSGREIN 17
Jehóva mun hjálpa þér þegar vandamál verða óvænt á vegi þínum
„Hinn réttláti lendir í mörgum raunum en Jehóva frelsar hann úr þeim öllum.“ – SÁLM. 34:19.
SÖNGUR 44 Bæn hins bágstadda
YFIRLITa
1. Hvað erum við viss um?
VIÐ sem erum þjónar Jehóva vitum að hann elskar okkur og vill að við njótum besta lífs sem mögulegt er. (Rómv. 8:35–39) Við erum líka með það á hreinu að meginreglur Biblíunnar koma okkur alltaf að gagni þegar við förum eftir þeim. (Jes. 48:17, 18) En hvað ef erfiðleikar verða óvænt á vegi okkar?
2. Hvaða vandamálum gætum við staðið frammi fyrir og hvað gætu þau fengið okkur til að hugsa?
2 Allir þjónar Jehóva þurfa að takast á við vandamál. Einhver í fjölskyldu okkar gæti valdið okkur vonbrigðum. Við glímum kannski við veikindi sem takmarka það sem við getum gert í þjónustu Jehóva. Við gætum upplifað eyðileggingu af völdum náttúruhamfara. Og við gætum sætt ofsóknum vegna trúar okkar. Þegar slíkar prófraunir verða á vegi okkar gætum við hugsað: „Hvers vegna kemur þetta fyrir mig? Hef ég gert eitthvað rangt? Þýðir þetta að ég hafi ekki blessun Jehóva?“ Hefur þér einhvern tíma liðið þannig? Ef svo er skaltu ekki missa móðinn. Margir trúfastir þjónar Jehóva hafa glímt við slíkar tilfinningar. – Sálm. 22:1, 2; Hab. 1:2, 3.
3. Hvað lærum við af Sálmi 34:19?
3 Lestu Sálm 34:19. Tökum eftir tvennu mikilvægu sem kemur fram í þessum sálmi: (1) Réttlátt fólk þarf að takast á við vandamál. (2) Jehóva kemur okkur til hjálpar í erfiðleikum okkar. Hvernig gerir hann það? Hann gerir það til dæmis með því að hjálpa okkur að hafa raunhæft viðhorf til lífsins í þessu heimskerfi. Jehóva lofar okkur vissulega að veita okkur gleði þegar við þjónum honum en hann lofar ekki lífi án vandamála. (Jes. 66:14) Hann hvetur okkur til að beina athyglinni að framtíðinni, þegar við munum lifa því lífi sem hann vill að við njótum að eilífu. (2. Kor. 4:16–18) Þangað til hjálpar hann okkur á hverjum degi að þjóna sér. – Harmlj. 3:22–24.
4. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?
4 Skoðum hvað við getum lært af trúföstum tilbiðjendum Jehóva, bæði á biblíutímanum og á okkar dögum. Eins og við munum sjá geta vandamál orðið óvænt á vegi okkar. En Jehóva mun alltaf styðja okkur þegar við treystum á hann. (Sálm. 55:22) Þegar við skoðum eftirfarandi dæmi er gott að spyrja sig: „Hvernig hefði ég brugðist við í svipuðum aðstæðum? Hvernig styrkir þessi frásaga traust mitt á Jehóva? Hvað get ég heimfært upp á líf mitt?“
Á BIBLÍUTÍMANUM
5. Í hvaða erfiðleikum lenti Jakob vegna Labans? (Sjá forsíðumynd.)
5 Þjónar Jehóva á biblíutímanum stóðu frammi fyrir óvæntum vandamálum. Tökum Jakob sem dæmi. Faðir hans sagði honum að ná sér í eiginkonu af dætrum Labans, ættingja í trúnni, og fullvissaði hann um að Jehóva myndi blessa hann ríkulega. (1. Mós. 28:1–4) Jakob gerði það rétta í stöðunni. Hann yfirgaf Kanaansland og hélt af stað til Labans sem átti tvær dætur, Leu og Rakel. Jakob varð ástfanginn af Rakel, yngri dóttur Labans, og samþykkti að vinna í sjö ár þangað til faðir hennar myndi gifta hana. (1. Mós. 29:18) En málin fóru á annan veg en Jakob hafði vonast til. Laban blekkti hann þannig að hann giftist eldri dóttur hans, Leu. Laban leyfði Jakobi að giftast Rakel viku síðar, en aðeins ef hann ynni sjö ár til viðbótar. (1. Mós. 29:25–27) Laban var líka ósanngjarn í viðskiptum sínum við Jakob. Hann notfærði sér Jakob í 20 ár. – 1. Mós. 31:41, 42.
6. Hvaða fleiri vandamál þurfti Jakob að glíma við?
6 Jakob þurfti að glíma við fleiri vandamál. Hann átti stóra fjölskyldu en sonum hans kom ekki alltaf vel saman. Þeir seldu jafnvel Jósef bróður sinn í þrældóm. Tveir af sonum Jakobs, Símeon og Leví, leiddu skömm yfir fjölskylduna og nafn Jehóva. Þar að auki dó kær eiginkona Jakobs, Rakel, þegar hún fæddi yngri son þeirra. Og Jakob neyddist til að flytja til Egyptalands vegna mikillar hungursneyðar þegar hann var orðinn aldraður. – 1. Mós. 34:30; 35:16–19; 37:28; 45:9–11, 28.
7. Hvernig sýndi Jehóva Jakobi að hann hefði velþóknun hans?
7 Þrátt fyrir alla þess erfiðleika missti Jakob aldrei trú á Jehóva og loforðum hans. Og Jehóva sýndi honum að hann hefði velþóknun hans. Jehóva blessaði Jakob til dæmis með efnislegum eigum þrátt fyrir sviksemi Labans. Og hugsa sér hversu þakklátur Jakob hlýtur að hafa verið Jehóva þegar hann hitti Jósef aftur – soninn sem hann hélt að væri löngu dáinn. Náið samband Jakobs við Jehóva gerði honum kleift að takast á við erfiðleikana með góðum árangri. (1. Mós. 30:43; 32:9, 10; 46:28–30) Við getum líka tekist á við óvænta erfiðleika með góðum árangri ef við höldum nánu sambandi við Jehóva.
8. Hvað langaði Davíð konung að gera?
8 Davíð konungur fékk ekki að gera allt sem hann hafði vonast til í þjónustu Jehóva. Hann langaði til dæmis mjög mikið til að byggja musteri fyrir Guð sinn. Hann sagði Natan spámanni frá löngun sinni. Natan svaraði honum: „Gerðu allt sem þér býr í hjarta því að hinn sanni Guð er með þér.“ (1. Kron. 17:1, 2) Við getum rétt ímyndað okkur hve viðbrögð Natans hafa verið hvetjandi fyrir Davíð. Kannski byrjaði hann strax að gera áætlanir fyrir þetta mikla verkefni.
9. Hvernig brást Davíð við svekkjandi fréttum?
9 En spámaður Jehóva kom fljótlega aftur með svekkjandi fréttir. „Sömu nótt“ sagði Jehóva Natan að Davíð væri ekki sá sem ætti að byggja musterið heldur einn sona hans. (1. Kron. 17:3, 4, 11, 12) Hvernig brást Davíð við þessum fréttum? Hann setti sér nýtt markmið. Hann einbeitti sér að því að safna fé og efnivið sem Salómon sonur hans myndi þurfa í verkefnið. – 1. Kron. 29:1–5.
10. Hvernig blessaði Jehóva Davíð?
10 Strax eftir að Jehóva hafði sagt Davíð að hann fengi ekki að byggja musterið gerði hann sáttmála við hann. Jehóva lofaði Davíð að einn afkomenda hans myndi ríkja að eilífu. (2. Sam. 7:16) Ímyndum okkur hversu glaður Davíð verður í nýja heiminum þegar hann fréttir að konungur þúsundáraríkisins, Jesús, sé afkomandi hans. Þessi frásaga hjálpar okkur að skilja að jafnvel þótt við getum ekki gert allt sem við vildum í þjónustu Jehóva gæti hann haft aðra blessun í huga fyrir okkur sem við gætum ekki ímyndað okkur.
11. Hvaða blessunar nutu kristnir menn á fyrstu öld þótt ríkið hafi ekki komið þegar þeir áttu von á því? (Postulasagan 6:7)
11 Kristnir menn á fyrstu öld þurftu að takast á við óvænta erfiðleika. Þeir biðu til dæmis eftirvæntingarfullir eftir komu Guðsríkis en vissu ekki hvenær það myndi koma. (Post. 1:6, 7) Hvað gerðu þeir? Þeir héldu sér uppteknum í boðuninni. Eftir því sem fagnaðarboðskapurinn breiddist út sáu þeir fleiri sannanir fyrir því að Jehóva blessaði viðleitni þeirra. – Lestu Postulasöguna 6:7.
12. Hvað gerðu hinir frumkristnu þegar það var hungursneyð?
12 Á fyrstu öld kom eitt sinn mikil hungursneyð „yfir alla heimsbyggðina“. (Post. 11:28) Kristnum mönnum var ekki hlíft við henni. Við getum rétt ímyndað okkur hvað þessi alvarlegi matarskortur hefur haft mikil áhrif á þá. Foreldrar hafa eflaust haft áhyggjur af því hvernig þeir ættu að sjá fjölskyldunni fyrir mat. Og hvað með unga fólkið sem hafði ákveðið að auka við þjónustu sína? Gæti það hafa hugsað að það væri best að fresta því? Hinir frumkristnu löguðu sig hins vegar að aðstæðunum. Þeir héldu áfram að boða trúna á hvern þann hátt sem þeir gátu og deildu með ánægju því sem þeir áttu með trúsystkinum sínum í Júdeu. – Post. 11:29, 30.
13. Hvaða blessunar nutu frumkristnir menn á tíma hungursneyðarinnar?
13 Hvaða blessunar nutu frumkristnir menn í hungursneyðinni? Þeir sem fengu hjálpargögn sáu að Jehóva hjálpaði þeim. (Matt. 6:31–33) Þeim hlýtur að hafa fundist þeir nánari trúsystkinum sínum sem komu þeim til hjálpar. Og þeir sem gáfu framlög eða tóku þátt í hjálparstarfinu fundu hversu ánægjulegt er að gefa. (Post. 20:35) Jehóva blessaði þá alla vegna þess að þeir löguðu sig að breyttum aðstæðum.
14. Hvað henti Barnabas og Pál postula en með hvaða árangri? (Post. 14:21, 22)
14 Þjónar Guðs á fyrstu öld urðu oft fyrir ofsóknum, stundum þegar þeir áttu síst von á. Barnabas og Páll postuli voru eitt sinn að boða trúna í grennd við Lýstru. Í fyrstu var tekið vel á móti þeim og fólk hlustaði á þá. En síðar komu andstæðingar og „fengu fólkið á sitt band“ og þetta sama fólk grýtti Pál og skildi hann eftir í þeirri trú að hann væri dáinn. (Post. 14:19) Barnabas og Páll héldu samt áfram að boða trúna annars staðar. Hver var árangurinn? Þeir gerðu „allmarga að lærisveinum“ og fordæmi þeirra og orð styrktu trúsystkini þeirra. (Lestu Postulasöguna 14:21, 22.) Margir nutu góðs af því að Barnabas og Páll gáfust ekki upp þótt þeir yrðu fyrir skyndilegum ofsóknum. Við munum líka njóta blessunar svo framarlega sem við gefumst ekki upp og vinnum það verk sem Jehóva hefur beðið okkur að gera.
Á OKKAR DÖGUM
15. Hvað lærum við af bróður Alexander H. Macmillan?
15 Á árunum fyrir 1914 höfðu þjónar Jehóva miklar væntingar. Tökum bróður Alexander H. Macmillan sem dæmi. Eins og margir á þeim tíma hélt hann að hann myndi hljóta laun sín á himnum mjög fljótlega. Í ræðu sem hann flutti í september 1914 sagði hann: „Þetta er sennilega síðasta opinbera ræðan sem ég á eftir að flytja.“ Þetta var auðvitað ekki síðasta ræðan hans. Bróðir Macmillan skrifaði síðar: „Kannski vorum við sumir hverjir aðeins of fljótir á okkur þegar við hugsuðum að við færum strax til himna.“ Hann bætti við: „Það sem við þurftum að gera var að halda okkur uppteknum í þjónustu Drottins.“ Og bróðir Macmillan hélt sér uppteknum. Hann var kappsamur í boðuninni. Hann fékk það verkefni að hvetja marga bræður sem voru í fangelsi vegna hlutleysis síns. Og hann sótti trúfastur samkomur jafnvel þótt hann væri orðinn aldraður. Hvaða gagn hafði bróðir Macmillan af því að vera upptekinn í þjónustu Jehóva meðan hann beið eftir umbun sinni? Stuttu áður en hann lést, árið 1966, skrifaði hann: „Trú mín hefur aldrei veikst.“ Við getum öll líkt eftir þessu frábæra viðhorfi, sérstaklega ef við höfum þurft að halda lengur út en við bjuggumst við. – Hebr. 13:7.
16. Hvaða óvæntu erfiðleikum stóðu Herbert Jennings og eiginkona hans frammi fyrir? (Jakobsbréfið 4:14)
16 Margir þjónar Jehóva glíma við heilsuvandamál sem þeir áttu ekki von á. Bróðir Herbert Jenningsb lýsir því í ævisögu sinni hvernig hann og eiginkona hans nutu þess að vera trúboðar í Gana. En svo var hann greindur með alvarlega geðröskun. Bróðir Herbert vitnaði í Jakobsbréfið 4:14 og útskýrði að þessar nýju aðstæður væru alls ekki það sem þau áttu von á. (Lestu.) Hann skrifaði: „Við þurftum að vera raunsæ svo að við ákváðum að yfirgefa Gana og marga nána vini og snúa aftur til Kanada [til að fá læknishjálp].“ Jehóva hjálpaði bróður Herbert og konunni hans að halda áfram að þjóna honum trúfastlega þrátt fyrir erfiðleikana sem þau gengu í gegnum.
17. Hvernig nýttist reynsla bróður Herberts öðrum trúsystkinum?
17 Heiðarleg frásögn bróður Herberts hefur haft mikil áhrif á aðra. Systir ein skrifaði: „Ég hef aldrei verið jafn snortin og þegar ég las þessa frásögu … Að lesa um hvernig bróðir Herbert þurfti að segja skilið við verkefni til að fá hjálp í veikindum sínum hjálpaði mér að sjá aðstæður mínar í réttu ljósi.“ Bróðir hugsar á svipuðum nótum og skrifar: „Eftir að hafa þjónað sem safnaðaröldungur í tíu ár þurfti ég að gefa frá mér verkefni vegna geðrænna veikinda. Mér fannst ég svo misheppnaður og þunglyndið var oft slíkt að ég gat ekki lesið ævisögur … En þolgæði bróður Herberts var uppörvandi fyrir mig.“ Þetta minnir okkur á að þegar við höldum út í óvæntum erfiðleikum getum við verið öðrum hvatning. Jafnvel þegar líf okkar tekur aðra stefnu en við vonuðumst til getum við sett öðrum fordæmi í trú og þolgæði. – 1. Pét. 5:9.
18. Hvað getum við lært af ekkjunni í Nígeríu? (Sjá sviðsettu myndirnar.)
18 Hörmungar eins og COVID-19 faraldurinn hafa haft áhrif á marga þjóna Jehóva. Ekkja í Nígeríu var að verða uppiskroppa með mat og peninga. Morgun einn spurði dóttir hennar hana hvað þær ættu að borða eftir að hafa eldað síðasta bollann af hrísgrjónum. Systir okkar sagði dóttur sinni að þær ættu enga peninga eða mat eftir en þær skyldu gera eins og ekkjan í Sarefta – elda síðustu máltíðina og setja allt sitt traust á Jehóva. (1. Kon. 17:8–16) Jafnvel áður en þær veltu fyrir sér hvað þær ættu að borða í hádegismat barst þeim sending með hjálpargögnum frá trúsystkinum sínum. Í henni var matur sem dugði í meira en tvær vikur. Systirin sagðist ekki hafa áttað sig á hversu vandlega Jehóva hefði hlustað á það sem hún sagði við dóttur sína. Þegar við treystum á Jehóva geta erfiðleikar lífsins sannarlega gert okkur nánari honum. – 1. Pét. 5:6, 7.
19. Hvaða ofsóknir hefur Aleksej Jershov mátt þola?
19 Á undanförnum árum hafa margir bræður og systur þurft að þola ofsóknir sem þau hafa ef til vill ekki átt von á. Tökum sem dæmi bróður Aleksej Jershov sem býr í Rússlandi. Þegar hann lét skírast árið 1994 höfðu þjónar Jehóva þar visst frelsi. En ástandið hefur breyst í Rússlandi á síðari árum. Árið 2020 var ráðist inn á heimili bróður Aleksej, gerð húsleit og margar af eigum hans gerðar upptækar. Nokkrum mánuðum síðar höfðuðu yfirvöld mál á hendur honum. Til að gera þetta allt enn erfiðara var ákæran byggð á myndbandsupptökum gerðum af einstaklingi sem þóttist í meira en ár hafa áhuga á að rannsaka Biblíuna. Hvílík svik!
20. Hvernig hefur bróðir Aleksej styrkt samband sitt við Jehóva?
20 Hefur eitthvað gott komið út úr prófraunum bróður Aleksej? Já. Samband hans við Jehóva er orðið sterkara. „Við konan mín biðjum oftar til Jehóva saman,“ segir hann. „Ég geri mér grein fyrir að ég gæti ekki tekist á við þessar aðstæður án hjálpar Jehóva.“ Hann bætir við: „Sjálfsnám hjálpar mér þegar ég er niðurdreginn. Ég hugleiði reynslu trúfastra þjóna Jehóva til forna. Margar frásögur í Biblíunni sýna fram á mikilvægi þess að halda ró sinni og treysta Jehóva.“
21. Hvað höfum við lært í þessari námsgrein?
21 Hvað höfum við lært í þessari námsgrein? Við þurfum stundum að glíma við óvænt vandamál í þessu heimskerfi. En Jehóva hjálpar alltaf þjónum sínum sem treysta á hann, eins og kemur fram í biblíuversinu sem stef greinarinnar er byggt á: „Hinn réttláti lendir í mörgum raunum en Jehóva frelsar hann úr þeim öllum.“ (Sálm. 34:19) Beinum athyglinni að þeim krafti og stuðningi sem Jehóva veitir en ekki erfiðleikum okkar. Þá getum við sagt eins og Páll postuli: „Ég get tekist á við hvað sem er vegna hans sem gefur mér kraft.“ – Fil. 4:13.
SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig
a Þótt lífið í þessu heimi reyni stundum óvænt á okkur getum við verið viss um að Jehóva styður trúfasta tilbiðjendur sína. Hvernig hefur Jehóva hjálpað þjónum sínum áður? Hvernig styður hann okkur nú á dögum? Skoðum dæmi úr Biblíunni og úr nútímanum sem fullvissa okkur um að ef við treystum á Jehóva muni hann styðja okkur líka.