Þjónar Jehóva styrkjast í trúnni
„Söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.“ — POSTULASAGAN 16:5.
1. Hvernig notaði Guð Pál postula?
JEHÓVA Guð notaði Sál frá Tarsus sem ‚valið verkfæri.‘ Í hlutverki Páls postula þurfti hann ‚mikið að þola‘ en starf hans og annarra stuðlaði að því að skipulag Jehóva naut einingar og stórkostlegs vaxtar. — Postulasagan 9:15, 16.
2. Hvers vegna er gagnlegt að skoða Postulasöguna 13:1-16:5?
2 Menn af þjóðunum voru að taka kristna trú í vaxandi mæli og mikilvægur fundur hins stjórnandi ráðs átti drjúgan þátt í að stuðla að einingu meðal þjóna Guðs og styrkja þá í trúnni. Það er mjög gagnlegt að hugleiða þetta og ýmsa aðra atburði, sem sagt er frá í Postulasögunni 13:1-16:5, því að vottar Jehóva eru nú í áþekkum vexti og njóta sams konar, andlegrar blessunar. (Jesaja 60:22) (Við leggjum til að þú lesir þá kafla Postulasögunnar, sem vitnað er í með feitu letri, í einkanámi þínu á þessum greinum.)
Trúboðar láta til skarar skríða
3. Hvaða starf unnu „spámenn og kennarar“ í Antíokkíu?
3 Menn, sem söfnuðirnir í Antíokkíu í Sýrlandi sendu út, hjálpuðu hinum trúuðu að styrkjast í trúnni. (13:1-5) Í Antíokkíu voru „spámenn og kennarar,“ þeir Barnabas, Símeon (Níger), Lúkíus frá Kýrene, Manaen og Sál frá Tarsus. Spámenn skýrðu orð Guðs og sögðu fyrir atburði en kennarar fræddu í Ritningunni og guðrækilegu lífi. (1. Korintubréf 13:8; 14:4) Barnabas og Sál fengu sérstakt verkefni. Þeir tóku með sér Markús, frænda Barnabasar, og héldu til Kýpur. (Kólossubréfið 4:10) Þeir prédikuðu í samkundunum í hafnarborginni Salamis á austurhluta eyjarinnar, en engum sögum fer af því að Gyðingar hafi tekið boðskapnum vel. Þeir voru í góðum efnum, svo hvaða þörf höfðu þeir fyrir Messías?
4. Hvað gerðist er trúboðarnir héldu áfram að prédika á Kýpur?
4 Guð blessaði vitnisburðarstarf annars staðar á Kýpur. (13:6-12) Í Pafos hittu trúboðarnir fyrir Gyðinginn Bar-Jesús (Elýmas) sem var særingamaður og falsspámaður. Hann reyndi að hindra að Sergíus Páll landstjóri heyrði orð Guðs og þá sagði Sál fylltur heilögum anda: „Þú djöfuls sonur, fullur allra véla og flærðar, óvinur alls réttlætis, ætlar þú aldrei að hætta að rangsnúa réttum vegum [Jehóva]?“ Á sömu stundu blindaði hönd Guðs Elýmas um tíma og Sergíus Páll ‚varð gagntekinn af kenningu Jehóva og tók trú.‘
5, 6. (a) Hvað sagði Páll um Jesú er hann talaði í samkunduhúsinu í Antíokkíu í Pisidíu? (b) Hvaða áhrif hafði ræða Páls?
5 Frá Kýpur sigldu trúboðarnir til borgarinnar Perge í Litlu-Asíu. Páll og Barnabas héldu þá til norðurs um fjallvegi, líklega ‚í háska af ám og ræningjum,‘ til Antíokkíu í Pisidíu. (2. Korintubréf 11:25, 26) Þar talaði Páll í samkunduhúsinu. (13:13-41) Hann rifjaði upp viðskipti Guðs við Ísrael og benti á afkomanda Davíðs, Jesú, sem frelsarann. Þótt valdhafar Gyðinga hefðu krafist dauða Jesú rættist loforðið við forfeður þeirra er Guð vakti hann upp frá dauðum. (Sálmur 2:7; 16:10; Jesaja 55:3) Páll varaði áheyrendur sína við því að þeir mættu ekki spotta hjálpræðisgjöf Guðs fyrir milligöngu Krists. — Habakkuk 1:5, Sjötíumannaþýðingin.
6 Ræða Páls vakti áhuga líkt og margar opinberar ræður votta Jehóva nú á dögum. (13:42-52) Næsta hvíldardag kom nálega öll borgin saman til að heyra orð Jehóva og það fyllti Gyðinga öfund. Á aðeins einni viku virtust trúboðarnir hafa snúið fleiri heiðingjum til trúar en þessum Gyðingum hafði tekist alla ævi! Úr því að Gyðingarnir mæltu gegn orðum Páls með guðlasti var tímabært að láta hið andlega ljós skína annars staðar og þeim var sagt: ‚Þar sem þið vísið orði Guðs á bug og metið sjálfa yður ekki verða eilífs lífs, þá snúum við okkur til heiðingjanna.‘ — Jesaja 49:6.
7. Hver urðu viðbrögð Páls og Barnabasar við ofsóknum?
7 Nú tóku heiðingjarnir að fagna og allir þeir sem hneigðust til eilífs lífs tóku trú. Er orð Jehóva breiddist út um héraðið æstu Gyðingar upp hefðarkonur (líklega til að ýta á eiginmenn sína eða aðra) og fyrirmenn til að ofsækja Pál og Barnabas og gera þá ræka úr byggðum sínum. Það stöðvaði þó ekki trúboðana. Þeir einfaldlega „hristu dustið af fótum sér móti þeim“ og héldu til Íkóníum (þar sem nú er Konya), en hún var allstór borg í rómverska skattlandinu Galatíu. (Lúkas 9:5; 10:11) En hvað um lærisveinana sem eftir urðu í Antíokkíu í Pisidíu? Þeir höfðu styrkst í trúnni og „voru fylltir fögnuði og heilögum anda.“ Af þessu sjáum við að andstaða fær ekki tálmað andlegum framförum.
Staðfastir í trúnni þrátt fyrir ofsóknir
8. Hverjar urðu afleiðingar góðs vitnisburðar í Íkóníum?
8 Páll og Barnabas reyndust sjálfir sterkir í trúnni þrátt fyrir ofsóknir. (14:1-7) Margir Gyðingar og Grikkir tóku trú er þeir báru vitni í samkunduhúsinu í Íkóníum. Er vantrúaðir Gyðingar æstu heiðingjana upp gegn hinum nýju trúskiptingum töluðu trúboðarnir tveir djarflega í krafti Guðs og hann sýndi þeim velþóknun sína með því að láta tákn og undur gerast fyrir þeirra tilstilli. Við það skiptust borgarbúar í tvo flokka, aðrir með Gyðingum og hinir með postulunum (þeim sem sendir voru). Postularnir voru engir hugleysingjar, en þegar þeir komust á snoðir um samsæri um að grýta þá tóku þeir þá viturlegu ákvörðun að hverfa á brott og prédika í Lýkaóníu, en það var hérað í Litlu-Asíu suður af Galatíu. Með því að vera skynsöm getum við líka oft haldið áfram í þjónustunni þrátt fyrir andstöðu. — Matteus 10:23.
9, 10. (a) Hver urðu viðbrögð Lýstrubúa er lamaður maður var læknaður? (b) Hver urðu viðbrögð Páls og Barnabasar við því sem Lýstrubúar gerðu?
9 Borgin Lýstra í Lýkaóníu var næst til að fá vitnisburð. (14:8-18) Þar læknaði Páll mann sem var lamaður frá fæðingu. Þar eð mannfjöldanum var ekki ljóst að Jehóva stæði á bak við þetta kraftaverk hrópaði hann: „Guðirnir eru í manna líki stignir niður til vor.“ Með því að þetta var sagt á tungu Lýkaóníumanna skildu Páll og Barnabas ekki hvað var á seyði. Þar eð Páll hafði orð fyrir þeim töldu menn hann vera Hermes (hinn mælska boðbera guðanna) og Barnabas töldu þeir vera Seif, höfuðguð Grikkja.
10 Prestur Seifs kom jafnvel með naut og kransa í þeim tilgangi að færa Páli og Barnabasi fórnir. Líklega töluðu trúboðarnir á hinni almennu grísku eða notuðu túlk og skýrðu í flýti fyrir mannfjöldanum að þeir væru líka menn með sína veikleika og að þeir væru að boða fagnaðarerindið þannig að fólk myndi snúa sér frá þessum „fánýtu goðum“ (lífvana skurðgoðum) til lifanda Guðs. (1. Konungabók 16:13; Sálmur 115:3-9; 146:6) Já, Guð hafði fram til þessa leyft þjóðunum (en ekki Hebreum) að ganga hver sína vegu þótt hann hafi jafnframt vitnað um sjálfan sig með velgjörðum sínum með því að ‚gefa þeim regn af himni og uppskerutíðir og veita þeim fæðu og fylla hjörtu þeirra gleði.‘ (Sálmur 147:8) Með þessum rökum tókst Barnabasi og Páli með naumindum að fá fólkið ofan af því að færa þeim fórnir. Trúboðarnir vildu ekki láta sýna sér lotningu eins og guðum og þeir notuðu ekki heldur slíkt vald til að leggja grunn að kristnum söfnuði þar um slóðir. Þetta er gott fordæmi, einkum ef við höfum tilhneigingu til að vilja fá skjall fyrir það sem Jehóva leyfir okkur að áorka í þjónustu hans!
11. Hvað getum við lært af orðunum: „Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar“?
11 Skyndilega skella á ofsóknir. (14:19-28) Hvers vegna? Gyðingar frá Antíokkíu í Pisidíu og Íkóníum töldu fólkið á sitt mál þannig að það grýtti Pál og dró hann út fyrir borgina og hugði hann dáinn. (2. Korintubréf 11:24, 25) Er lærisveinarnir slógu hring um hann reis hann hins vegar á fætur og gekk óséður inn í Lýstruborg, ef til vill í skjóli náttmyrkurs. Næsta dag héldu hann og Barnabas til Derbe þar sem allmargir urðu lærisveinar. Er trúboðarnir komu aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu styrktu þeir lærisveinana, hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni og sögðu: „Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar.“ Við sem erum kristnir menn megum einnig búast við þrengingum og ættum ekki að reyna að komast hjá þeim með því að hvika frá trúfesti okkar. (2. Tímóteusarbréf 3:12) Þá voru einnig skipaðir öldungar í söfnuðunum sem Páll sendi síðan Galatabréfið.
12. Hvað gerðu trúboðarnir tveir er fyrstu trúboðsferð Páls lauk?
12 Páll og Barnabas fóru nú um Pisidíu og töluðu orðið í Perge sem var ein af helstu borgunum í Pamfýlíu. Loks sneru þeir aftur til Antíokkíu í Sýrlandi. Að lokinni þessari fyrstu trúboðsferð Páls skýrðu trúboðarnir tveir söfnuðinum frá „hversu mikið Guð hafði látið þá gjöra og að hann hefði upp lokið dyrum trúarinnar fyrir heiðingjum.“ Þeir dvöldu um tíma hjá lærisveinunum í Antíokkíu sem átti vafalaust ríkan þátt í að styrkja þá í trúnni. Heimsóknir farandumsjónarmanna nú á dögum hafa svipuð áhrif.
Skorið úr mikilvægu ágreiningsmáli
13. Hvað þurfti að gera til að kristnin klofnaði ekki í gyðingakristni og heiðingjakristni?
13 Staðfesta í trúnni kallaði einnig á einingu í hugsun. (1. Korintubréf 1:10) Til að kristnin klofnaði ekki í gyðingakristni og heiðingjakristni þurfti hið stjórnandi ráð að skera úr um hvort heiðingjarnir, sem streymdu nú inn í skipulag Guðs, yrðu að halda lögmál Móse og láta umskerast. (15:1-5) Nokkrir menn frá Júdeu voru þegar farnir til Antíokkíu í Sýrlandi og voru byrjaðir að kenna trúuðum mönnum af þjóðunum að þeir gætu ekki frelsast nema þeir létu umskerast. (2. Mósebók 12:48) Páll, Barnabas og aðrir voru því sendir til postulanna og öldunganna í Jerúsalem. Jafnvel þar héldu trúaðir menn, sem áður fyrr höfðu verið farísear og haft allan hugann við lögmálið, því fram að menn af þjóðunum yrðu að láta umskerast og halda lögmál Móse.
14. (a) Hvaða gott fordæmi settu bræðurnir á ráðstefnunni í Jerúsalem, enda þótt miklar umræður ættu sér stað þar? (b) Hver var kjarninn í rökum Páls á ráðstefnunni?
14 Haldin var ráðstefna til að ganga úr skugga um vilja Guðs. (15:6-11) Þar átti sér stað mikil umræða, en þó var ekki um að ræða nokkrar erjur er þessir menn með sterka sannfæringu tjáðu hug sinn — gott fordæmi öldungum okkar tíma! Loks sagði Pétur: ‚Guð kaus sér það að heiðingjarnir [svo sem Kornelíus] skyldu fyrir munn minn heyra orð fagnaðarerindisins og taka trú. Hann bar vitni með því að gefa þeim heilagan anda og gerði engan mun á okkur og þeim. [Postulasagan 10:44-47] Hvers vegna eruð þið þá að freista Guðs með því að leggja ok [þá kvöð að halda lögmálið] á háls þeirra er hvorki feður okkar né við megnuðum að bera? Við [Gyðingar að holdinu] trúum að við verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir.‘ Sú staðreynd að Guð skyldi viðurkenna óumskorna heiðingja sýndi að umskurn og fastheldni við lögmálið voru ekki forsendur hjálpræðis. — Galatabréfið 5:1.
15. Hvaða atriði benti Jakob á og hvað lagði hann til að kristnum mönnum af þjóðunum yrði skrifað?
15 Þögn sló á hópinn er Pétur lauk máli sínu en fleiri tóku til máls. (15:12-21) Páll og Barnabas sögðu frá táknunum sem Guð hafði látið þá gera meðal heiðingjanna. Þá sagði fundarstjórinn, Jakob, hálfbróðir Jesú: ‚Símeon [hebreskt nafn Péturs] hefur skýrt frá hvernig Guð beindi athygli sinni að þjóðunum til að eignast meðal þeirra lýð er bæri nafn hans.‘ Jakob benti á að endurreisn ‚tjaldbúðar Davíðs‘ (endurreisn konungsdóms í ætt Davíðs), sem spáð hafði verið, væri nú að rætast með því að safnað væri saman lærisveinum Jesú (erfingjum Guðsríkis) bæði meðal Gyðinga og heiðingja. (Amos 9:11, 12, Sjötíumannaþýðingin; Rómverjabréfið 8:17) Úr því að þetta var tilgangur Guðs áttu lærisveinarnir að viðurkenna það. Jakob lagði til að kristnum mönnum af þjóðunum yrði skrifað að þeir skyldu halda sér frá (1) því sem saurgað var af skurðgoðum, (2) saurlifnaði og (3) blóði og kjöti af köfnuðum dýrum. Þessi ákvæði voru í ritum Móse sem voru lesin í samkundunum á hverjum hvíldardegi. — 1. Mósebók 9:3, 4; 12:15-17; 35:2, 4.
16. Um hvaða fjögur atriði gefur bréf hins stjórnandi ráðs á fyrstu öld leiðbeiningar allt til þessa dags?
16 Hið stjórnandi ráð sendi nú bréf til kristinna manna af þjóðunum í Antíokkíu í Sýrlandi og Kilikíu. (15:22-35) Heilagur andi og bréfritarar kröfðust þess að þeir héldu sér frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði (sem sumir neyttu reglulega), kjöti af köfnuðum dýrum (margir heiðingjar litu á slíkt kjöt sem lostæti) og saurlifnaði (á grísku porneia sem merkir óleyfileg kynmök utan biblíulegs hjónabands). Ef þeir héldu sér frá öllu þessu myndu þeir dafna andlega líkt og vottar Jehóva gera núna vegna þess að þeir halda sér frá þessu „sem nauðsynlegt er.“ Orðin „lifið heilir!“ (NW) samsvöruðu venjulegri kveðju, „verið sælir,“ og ekki má af þeim álykta að þessar kröfur snertu einungis heilsufarsleg atriði. Er bréfið var lesið í Antíokkíu glöddust söfnuðirnir yfir þeirri uppörvun sem það veitti þeim. Á þeim tíma styrktust þjónar Guðs í Antíokkíu einnig í trúnni við hvatningarorð Páls, Sílasar, Barnabasar og annarra. Megum við líka gera okkur far um að uppörva og uppbyggja trúbræður okkar.
Önnur trúboðsferðin hefst
17. (a) Hvaða vandamál kom upp þegar verið var að leggja drög að annarri trúboðsferð? (b) Hvernig leystu Páll og Barnabas deilu sína?
17 Vandamál kom upp er verið var að leggja drög að annarri trúboðsferð. (15:36-41) Páll lagði til að hann og Barnabas heimsæktu aftur söfnuðina á Kýpur og í Litlu-Asíu. Barnabas féllst á það en vildi taka með sér Markús frænda sinn. Páll var á móti því þar eð Markús hafði yfirgefið þá í Pamfýlíu. Við það „varð þeim mjög sundurorða.“ En hvorki Páll né Barnabas reyndu að réttlæta sjálfa sig með því að draga aðra öldunga eða hið stjórnandi ráð inn í þetta einkamál. Það er gott fordæmi.
18. Hvaða afleiðingar hafði viðskilnaður Páls og Barnabasar og hvað getum við lært af þessu atviki?
18 Þessi orðaskipti urðu þó til þess að leiðir skildu með þeim. Barnabas tók Markús með sér til Kýpur. Páll kaus sér Sílas sem ferðafélaga og fór „um Sýrland og Kilikíu og styrkti söfnuðina.“ Vera má að fjölskyldubönd hafi haft áhrif á Barnabas, en hann hefði átt að viðurkenna postuladóm Páls og útvalningu sem ‚útvalið verkfæri.‘ (Postulasagan 9:15) Og hvað um okkur? Þetta atvik ætti að undirstrika fyrir okkur nauðsyn þess að viðurkenna guðræðislegt yfirvald og vera fullkomlega samstarfsfús við ‚hinn trúa og hyggna þjón‘! — Matteus 24:45-47.
Friðurinn efldur
19. Hvaða fordæmi eiga kristin ungmenni nú á tímum í Tímóteusi?
19 Þessi deila fékk þó ekki að spilla friði safnaðarins. Þjónar Guðs héldu áfram að styrkjast í trúnni. (16:1-5) Páll og Sílas héldu til Derbe og síðan til Lýstru. Þar bjó Tímóteus, sonur trúaðrar gyðingakonu er Evníke hét og eiginmanns hennar er var grískur og ekki í trúnni. Tímóteus var ungur því að jafnvel 18 eða 20 árum síðar var honum enn sagt: „Lát engan líta smáum augum á æsku þína.“ (1. Tímóteusarbréf 4:12) Þar eð „bræðurnir í Lýstru [í um 29 km fjarlægð] og Íkóníum báru honum gott orð“ var hann vel þekktur fyrir góða þjónustu sína og guðrækna eiginleika. Kristin ungmenni ættu að leita hjálpar Jehóva til að byggja upp sams konar mannorð. Páll umskar Tímóteus þar eð þeir áttu eftir að fara inn á heimili og samkundur Gyðinga sem vissu að faðir Tímóteusar var heiðingi, og postulinn vildi ekki láta neitt hindra aðgang þeirra að Gyðingum sem þurftu að kynnast Messíasi. Án þess að brjóta meginreglur Biblíunnar gera vottar Jehóva nú á dögum einnig það sem þeir geta til að gera fagnaðarerindið meðtækilegt fyrir alls konar fólk. — 1. Korintubréf 9:19-23.
20. Hvaða áhrif hafði það er söfnuðirnir fylgdu bréfi hins stjórnandi ráðs og hvaða áhrif finnst þér það eiga að hafa á okkur?
20 Með Tímóteus sem þjón fluttu Páll og Sílas lærisveinunum ályktanir hins stjórnandi ráðs. Og hver var árangurinn? Lúkas virðist vera að tala um Sýrland, Kilikíu og Galatíu er hann segir: „Söfnuðirnir styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi.“ Já, það að fylgja bréfi hins stjórnandi ráðs stuðlaði að einingu og andlegum vexti. Það er okkur gott fordæmi á þessum örðugu tímum er þjónar Jehóva þurfa að vera sameinaðir og staðfastir í trúnni!
Hvert er svar þitt?
◻ Hver voru viðbrögð Páls og Barnabasar við ofsóknum?
◻ Hvað getum við lært af orðunum: „Vér verðum að ganga inn í Guðs ríki gegnum margar þrengingar?“
◻ Hvaða ráð fyrir okkur finnum við í hinum þrem atriðum í bréfinu sem hið stjórnandi ráð fyrstu aldar sendi út?
◻ Hvernig eiga þau atriði, sem styrktu votta Jehóva á fyrstu öld, við okkur nú á tímum?