Fimm algengar rökleysur — láttu ekki blekkjast af þeim!
„ENGINN tæli yður með marklausum orðum.“a Þetta ráð var gefið fyrir nærfellt 2000 árum og er enn í fullu gildi. Margir reyna að sannfæra okkur á mörgum vígstöðvum: kvikmyndastjörnur sem auglýsa snyrtivörur, stjórnmálamenn sem hampa stefnumálum, sölumenn sem falbjóða vörur og prestar sem útlista kennisetningar. Allt of oft fara þessar sannfærandi raddir með rangt mál — með lítið annað en marklaus orð. Samt sem áður láta margir blekkjast af þeim.
Orsökin eru oft sú að fólki tekst ekki að greina sannindi frá ósannindum og koma auga á rökleysur eða rökvillur. Orðið „rökleysa“ er í rökfræði notað um sérhvert frávik frá heilbrigðri rökfærslu. Rökleysa er með öðrum orðum villandi eða haldlítil rökfærsla þar sem ályktunin leiðir ekki af fyrri rökum eða forsendum. Rökleysur geta eigi að síður verið mjög sannfærandi vegna þess að þær höfða oft til tilfinninga — ekki skynsemi.
Nauðsynlegt er að vita hvernig rökleysur eru settar fram til að láta ekki blekkjast af þeim. Við skulum því skoða nánar fimm algengar rökleysur í því skyni að skerpa þá ‚skynsemi‘ sem Guð hefur gefið okkur. — Rómverjabréfið 12:1, Ísl. bi. 1912.
1. RÖKLEYSA
Persónuleg árás. Með þessari rökleysu er reynt að afsanna eða gera tortryggileg fullkomlega gild rök eða staðhæfingu með því að ráðast á einstaklinginn sem bar hana fram, án þess að það komi málinu nokkuð við.
Lítum á dæmi úr Biblíunni. Jesús Kristur reyndi einhverju sinni að upplýsa aðra um væntanlegan dauða sinn og upprisu. Áheyrendur hans stóðu frammi fyrir nýjum og erfiðum hugmyndum, en í stað þess að vega og meta kenningu Jesú réðust sumir á hann sjálfan og sögðu: „Hann hefur illan anda og er genginn af vitinu. Hvað eruð þér að hlusta á hann?“ — Jóhannes 10:20; samanber Postulasöguna 26:24, 25.
Það er hægur vandi að stimpla annan mann „heimskan,“ „klikkaðan“ eða „fáfróðan“ þegar hann segir eitthvað sem við viljum ekki heyra. Það að ráðast að öðrum með lævísum aðdróttunum er svipuð aðferð. Dæmigerðar dylgjur af því tagi hljóða svo: „Ef þú skildir kjarna málsins myndir þú sjá það öðrum augum“ eða „Þú trúir þessu bara af því að þér er sagt að trúa því.“
En þótt persónulegar árásir, lævísar sem opinskáar, geti hrætt kjarkinn úr sumum og sannfært aðra afsanna þær ekki það sem sagt hefur verið. Gættu þín að láta ekki þessa rökleysu blekkja þig!
2. RÖKLEYSA
Skírskotun til yfirvalds. Stundum er reynt að hræða kjarkinn úr mönnum með því að vitna til ummæla svonefndra sérfræðinga eða frægs fólks. Að sjálfsögðu er það aðeins eðlilegt að leita ráða þeirra sem vita meira en við um tiltekið mál. Ekki er þó alltaf byggt á heilbrigðum rökum þegar höfðað er til yfirvalds.
Ímyndaðu þér að læknirinn þinn segði við þig: „Þú ert með mýraköldu.“ Þú spyrð þá: „Hvernig veistu það, læknir?“ Það væri þá tæplega rétt né sanngjarnt af honum að svara: „Heyrðu mig nú, ég er læknir. Ég veit miklu meira um þetta en þú. Trúðu mér bara, þú ert með mýraköldu.“ Þótt sjúkdómsgreiningin sé líklega rétt er það rökleysa að segja að þú sért með mýraköldu aðeins vegna þess að hann segir það. Orð hans hefðu snöggt um meiri sannfæringarkraft ef hann nefndi nokkrar staðreyndir máli sínu til stuðnings, svo sem sjúkdómseinkenni, niðurstöðu blóðrannsóknar og svo framvegis.
Öðru dæmi um ógnandi skírskotun til valds er lýst í Jóhannesi 7:32-49. Þar er sagt frá því að lögregluþjónar hafi verið sendir til að handtaka Jesú Krist. Þeir hrifust hins vegar svo af kennslu hans að í stað þess að handtaka hann sögðu þeir yfirmönnum sínum: „Aldrei hefur nokkur maður talað þannig.“ Óvinir Jesú svöruðu: „Létuð þér þá einnig leiðast afvega? Ætli nokkur af höfðingjunum hafi farið að trúa á hann, eða þá af faríseum?“ Veittu athygli að leiðtogar Gyðinga gerðu enga tilraun til að hrekja rök Jesú. Þess í stað bentu þeir á sjálfa sig sem „sérfræðinga“ í lögmáli Móse sem rök fyrir því að vísa á bug öllu sem Jesú segði.
Athygli vekur að prestar grípa oft til svipaðra aðferða nú á dögum er þeim tekst ekki að sanna út frá Biblíunni að kenningarnar um þrenningu, ódauðleika sálarinnar og helvíti eigi við rök að styðjast.
Auglýsendur vísa mjög gjarnan til „heimildarmanna“ eða „sérfræðinga“ er þeir láta frægar persónur tjá sig um eitthvað sem er víðs fjarri sérsviði þeirra. Golfstjarna hvetur kannski fólk til að kaupa vissa gerð af ljósritunarvél. Knattspyrnukappi auglýsir kæliskápa. Ólympíuhetja í frjálsíþróttum mælir með ákveðnu verksmiðjuunnu kornmeti til morgunmatar. Margir leiða ekki hugann að því að þessir „sérfræðingar“ vita sennilega ekkert um þær vörur sem þeir eru að auglýsa.
Hafðu líka hugfast að jafnvel fullgildir sérfræðingar geta verið hlutdrægir eins og allir aðrir. Hámenntaður vísindamaður getur haldið því fram að tóbaksreykingar séu skaðlausar, en eru ekki ummæli slíks „sérfræðings“ tortryggileg ef hann starfar á vegum tóbakiðnaðarins?
3. RÖKLEYSA
‚Gerðu eins og allir hinir.‘ Hér er verið að spila á tilfinningar, fordóma og viðhorf. Fólk vill yfirleitt falla inn í fjöldann. Við höfum tilhneigingu til að veigra okkur við að andmæla ríkjandi skoðun. Þessi tilhneiging til að líta svo á að álit meirihlutans sé sjálfkrafa rétt er notuð með áhrifaríkum árangri þegar beitt er þeirri rökleysu að rétt sé að ‚gera eins og allir hinir.‘
Í virtu bandarísku tímariti birtist auglýsing af hópi brosandi fólks með rommglas í hendi. Hjá myndinni stóð þetta: „Þannig er það. Um alla Ameríku er fólk farið að drekka . . . romm.“ Þetta er blygðunarlaus hvatning um að gera eins og allir hinir.
En er sjálfgefið að þú eigir að láta þér finnast eitthvað eða gera eitthvað aðeins vegna þess að aðrir gera það? Almenningsálitið er hreinlega ekki óbrigðull mælikvarði sannleikans. Alls kyns hugmyndir hafa notið vinsælda í aldanna rás en síðar meir reynst alrangar. Samt er þessari rökvillu enn beitt óspart. Þegar hver á fætur öðrum segir: „Allir hinir gera þetta!“ þá fær það fólk til að neyta fíkniefna, drýgja hór, stela frá vinnuveitanda sínum og svíkja undan skatti.
Sannleikurinn er sá að það gera ekki allir það sem fullyrt er, og jafnvel þótt svo væri þá væri það engin ástæða fyrir þig til að gera það líka. Heilræðið, sem er að finna í 2. Mósebók 23:2, er því góð, almenn hegðunarregla: „Þú skalt ekki fylgja fjöldanum til illra verka.“
4. RÖKLEYSA
Annaðhvort-eða. Með þessari rökleysu er verið að fækka valkostum niður í tvo, þótt þeir kunni að vera margfalt fleiri. Til dæmis er kannski sagt: ‚Annaðhvort læturðu gefa þér blóð eða þú deyrð.‘ Vottar Jehóva mæta oft slíkri rökfærslu vegna þeirrar afstöðu Biblíunnar að ‚halda sér frá blóði‘ í sérhverri mynd. (Postulasagan 15:29) Hvað er rangt við þessa rökfærslu? Hún útilokar aðra gilda valkosti. Staðreyndin er sú að ýmsar aðrar meðferðir koma vel til greina og að hægt er að gera velflestar skurðaðgerðir með góðum árangri án þess að nota blóð. Færir læknar geta oft dregið verulega úr blóðmissi með kunnáttu sinni. Þá kemur vel til greina að gefa í æð vökva sem ekki inniheldur blóð.b Að auki hafa margir dáið þótt þeim hafi verið gefið blóð. Margir hafa líka lifað þótt þeir hafi neitað að láta gefa sér blóð. Annaðhvort-eða rökfærslan er því götótt í meira lagi.
Þú skalt því spyrja þig ef þú mætir annaðhvort-eða rökfærslu: ‚Er í rauninni aðeins um tvo kosti að velja? Getur verið að það komi fleiri kostir til greina?‘
5. RÖKLEYSA
Óhófleg einföldun. Þegar flókið mál er einfaldað um of er ekki tekið tillit til mikilvægra atriða sem málið varða.
Að sjálfsögðu er ekkert athugavert við það að reyna að einfalda flókið mál — góðir kennarar eru sífellt að gera það. Stundum eru málin þó einfölduð svo að það færir sannleikann úr skorðum. Setjum sem svo að þú lesir: ‚Ör fólksfjölgun er orsök fátæktar í þróunarlöndunum.“ Það er að vísu sannleikskorn í þessu en hér er horft fram hjá öðrum mikilvægum orsökum svo sem pólitískri óstjórn, arðráni og veðurfari.
Óhófleg einföldun hefur valdið mörgum misskilningi varðandi orð Guðs, Biblíuna. Lítum til dæmis á frásöguna í Postulasögunni 16:30, 31. Þar bar fangavörður fram spurningu um hjálpræði. Páll svaraði: „Trú þú á Drottin Jesú, og þú munt verða hólpinn og heimili þitt.“ Margir hafa ályktað út frá þessum orðum að það sé nóg að trúa á Jesú í huga sér til að hljóta hjálpræði.
Þetta er að sjálfsögðu allt of mikil einföldun. Að vísu er nauðsynlegt að trúa á Jesú sem lausnara okkar, en það er líka nauðsynlegt að trúa því sem Jesús kenndi og bauð og öðlast góðan skilning á sannindum Biblíunnar. Það má sjá af því að Páll og Sílas ‚fluttu fangaverðinum orð Jehóva og öllum á heimili hans‘ eftir það. (Postulasagan 16:32) Hlýðni er einnig forsenda hjálpræðis. Páll sýndi fram á það síðar er hann skrifaði að Jesús hafi gerst „öllum þeim, er honum hlýða, höfundur eilífs hjálpræðis.“ — Hebreabréfið 5:9.
Forn orðskviður segir: „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.“ (Orðskviðirnir 14:15) Gættu þín þess vegna á rökleysum. Lærðu að gera greinarmun á réttmætum árásum á það sem sagt er og lítilfjörlegum árásum á einstaklinga. Láttu ekki blekkjast af rangri skírskotun til „yfirvalds,“ hvatningu um að ‚gera eins og allir hinir,‘ annaðhvort-eða rökfærslu eða óhóflegri einföldun. Vertu sérstaklega á verði þegar um er að ræða jafnmikilvægt atriði og trúarsannindi. Sannprófaðu allar staðreyndir; ‚prófaðu allt‘ eins og Biblían orðar það. — 1. Þessaloníkubréf 5:21.
[Neðanmáls]
a Tekið úr Efesusbréfinu 5:6 í Biblíunni.
b Sjá bæklinginn Jehovah’s Witnesses and the Question of Blood, gefinn út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.