Frá hverjum getum við vænst ósvikins réttlætis?
„Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?“ — 1. MÓSEBÓK 18:25.
1, 2. Hvernig bregðast margir við því óréttlæti sem ríkir?
FLESTIR vita alltof vel hve útbreitt óréttlætið er. Hver eru viðbrögð þín við hinum langvarandi skorti á sönnu réttlæti?
2 Sumir bregðast við með þeim hætti að draga í efa að til sé réttlátur Guð. Þeir segjast kannski jafnvel vera efasemdamenn í þeim skilningi að þeir álíta að „ekkert verði vitað um tilvist guðs né um neitt fyrir utan mannlega skynjun og reynslu.“ Líffræðingurinn Thomas H. Huxley, stuðningsmaður þróunarkenningar Darwins á 19. öld, notaði á ensku orðið „agnostic“ með þeim hætti fyrstur manna, og hefur það síðan verið tekið upp í mörg fleiri tungumál.a
3, 4. Hver er bakgrunnur orðsins sem þýtt er „efasemdamaður“?
3 Hvaðan fékk Huxley orðið „agnostic“ sem þýtt er á íslensku „efasemdamaður“? Hann tók það að láni frá löglærðum manni á fyrstu öld, Páli postula, sem hafði notað það í öðrum skilningi. Orðið kemur fyrir í einni af frægustu ræðum sem fluttar hafa verið. Þessi ræða snertir okkur nútímamenn því að hún er traustur þekkingargrundvöllur fyrir því hvernig og hvenær allir munu fá notið réttlætis, og meira að segja hvernig við persónulega getum notið góðs af því.
4 Páll notaði gríska orðið agnostos („óþekktur“) er hann minntist á altari sem var tileinkað „ókunnum guði.“ Læknirinn Lúkas skráði þessa stuttu ræðu og er hana að finna í 17. kafla Postulasögunnar í Biblíunni. Í byrjun kaflans er greint frá því hvernig það atvikaðist að Páll var í Aþenu. Í rammanum á 6. síðu getur þú lesið inngangsorð Lúkasar og ræðuna í heild.
5. Við hvaða aðstæður flutti Páll ræðu sína til Aþenumanna? (Látið lesa Postulasöguna 17:16-31.)
5 Ræða Páls er þróttmikil og verðskuldar gaumgæfilega athugun okkar. Við erum umkringd grófu ranglæti á alla vegu og getum lært margt af henni. Í fyrsta lagi skulum við veita athygli umgjörð hennar sem lesa má um í Postulasögunni 17:16-21. Aþenubúar voru stoltir af því að eiga heima á frægu lærdómssetri þar sem Sókrates, Platon og Aristóteles höfðu kennt. Aþena var líka mikil trúarmiðstöð. Páll sá skurðgoð allt í kringum sig — styttur af stríðsguðinum Aresi eða Mars, Seifi, lækningaguðinum Eskulapíusi, hinum ofbeldisfulla sjávarguði Póseidon, auk Díónýsíusar, Aþenu, Erosar og fleiri.
6. Hvernig eru aðstæður þar sem þú býrð í samanburði við það sem Páll sá í Aþenu?
6 En hvað myndi Páll sjá ef hann gengi um hinar ýmsu borgir okkar daga? Hann gæti komið auga á aragrúa skurðgoða eða trúarlegra höggmynda, jafnvel í löndum kristna heimsins. Annars staðar kynni hann að sjá enn fleiri. Í ferðahandbók segir: „Indverskir guðir lifa í einkvæni, ólíkt hverflyndum, grískum ‚bræðrum‘ sínum, og eiginkonum þeirra er eignaður afarmikill máttur . . . Það eru engar ýkjur að segja að til séu milljónir guða sem tengdar eru öllum myndum lífs og náttúru.“
7. Hvernig voru guðir Forn-Grikkja?
7 Mörgum grískum guðum var lýst sem ómerkilegum og afar siðlausum. Hegðun þeirra myndi teljast svívirðileg fyrir dauðlega menn, já, glæpsamleg í flestum löndum heims. Þú hefur því ærna ástæðu til að spyrja hvers konar réttlætis Grikkir þess tíma hafa mátt búast við frá slíkum guðum? Þó sá Páll að Aþenubúar báru sérlega mikla lotningu fyrir þeim. Fullur réttlátrar sannfæringar byrjaði hann að útskýra hin háleitu sannindi kristninnar.
Kröfuharðir áheyrendur
8. (a) Hver var lífsskoðun Epíkúringa? (b) Hverju trúðu Stóuspekingar?
8 Sumir Gyðingar og Grikkir hlustuðu með athygli, en hver ætli hafi orðið viðbrögð hinna áhrifamiklu Epíkúringa og Stóuspekinga? Eins og þú munt sjá voru hugmyndir þeirra að mörgu leyti keimlíkar algengum nútímaviðhorfum sem eru jafnvel kennd unglingum í skólum. Epíkúringar hvöttu til þess að menn hefðu eins mikinn unað út úr lífinu og hægt væri, einkum huglægan. Sú lífsspeki þeirra að ‚eta og drekka því að á morgun deyjum vér‘ einkenndist af því að lífsreglur og dyggðir vantaði með öllu. (1. Korintubréf 15:32) Þeir trúðu ekki að guðirnir hefðu skapað alheiminn heldur að lífið hefði kviknað fyrir slysni í vélrænum alheimi. Auk þess álitu þeir að guðirnir hefðu engan áhuga á mönnum. Hvað um Stóuspekingana? Þeir lögðu áherslu á rökfræði og trúðu að efni og afl væru helstu náttúrulögmál alheimsins. Stóuspekingar ímynduðu sér guðdóminn sem ópersónulegan í stað þess að trúa á Guð sem persónu. Þeir trúðu einnig að örlög réðu lífi manna.
9. Hvers vegna var það vandasamt verk fyrir Pál að prédika við þessar aðstæður?
9 Hvernig brugðust slíkir heimspekingar við opinberri kennslu Páls? Þar eð hrokablandin forvitni var þá áberandi meðal Aþenumanna byrjuðu þessir heimspekingar að þrátta við Pál. Loks fóru þeir með hann til Areopagusar. Fyrir ofan markaðstorgið í Aþenu en fyrir neðan hina tígurlegu Akrópólishæð var klettahæð nefnd eftir stríðsguðinum Mars eða Aresi og því nefnd Marshæð eða Aresarhæð. Til forna var hún samkomustaður dómstóls eða ráðs. Það var því farið með Pál til dómstóls réttvísinnar sem ef til vill kom saman þar sem sást til hinnar mikilfenglegu Akrópólishæðar með sínu fræga Meyjarhofi, Parþenon, og öðrum musterum og styttum. Sumir halda að postulinn hafi verið í hættu staddur þar eð rómversk lög bönnuðu að komið væri fram með nýja guði. En jafnvel þótt Páll hafi verið tekinn til Areopagusar einfaldlega til að skýra trú sína eða láta á það reyna hvort hann væri hæfur kennari var það óárennilegur áheyrendahópur sem hann stóð frammi fyrir. Gat hann útlistað sinn mikilvæga boðskap án þess að gera áheyrendurna fráhverfa sér?
10. Hvernig sýndi Páll háttvísi í inngangi ræðu sinnar?
10 Taktu eftir í Postulasögunni 17:22, 23 af hvílíkri háttvísi og visku Páll hóf ræðu sína. Hann viðurkenndi hversu trúræknir Aþeningar væru og hversu mörg skurðgoð þeir hefðu, og sumir af áheyrendunum hafa trúlega tekið það sem hól. Páll réðist ekki á fjölgyðistrú þeirra. Þess í stað beindi hann athyglinni að altari sem hann hafði séð tileinkað „ókunnum guði.“ Sögulegar heimildir sýna að slík ölturu voru til og það styrkir tiltrú okkar á frásögn Lúkasar. Páll notfærði sér þetta altari sem eins konar stökkpall. Aþeningar báru mikla virðingu fyrir þekkingu og rökfræði. Samt játuðu þeir að til væri guð sem væri þeim ‚ókunnur‘ (á grísku agnostos). Það var því einungis rökrétt að þeir leyfðu Páli að segja frá þessum ókunna guði. Enginn gat fundið að slíkri röksemdafærslu.
Er hægt að vita eitthvað um Guð?
11. Hvernig fékk Páll áheyrendur sína til að hugsa um hinn sanna Guð?
11 En hvers konar guð var þessi ‚ókunni guð‘? Hann var sá sem gert hafði heiminn og allt sem í honum er. Enginn gat neitað því að alheimurinn væri til, að jurtir og dýr væru til og að við mennirnir værum til. Sá máttur og hugvit, já, viska, sem birtist í alheiminum, benti til að hann ætti sér vitran og voldugan skapara en væri ekki til orðinn af tilviljun. Satt að segja á þessi röksemdafærsla Páls enn meiri rétt á sér á okkar tímum. — Opinberunarbókin 4:11; 10:6.
12, 13. Hvaða vitneskja styður röksemdir Páls?
12 Ekki alls fyrir löngu fjallaði breski stjarnfræðingurinn Sir Bernard Lovell um það í bók sinni In the Centre of Immensities hversu gífurlega flóknar einföldustu lífverur jarðar eru. Hann fjallaði einnig um líkurnar á því að lífverur af slíku tagi hefðu myndast af tilviljun. Niðurstaða hans var þessi: „Líkurnar á að . . . tilviljun hafi leitt til myndunar einföldustu prótínsameinda eru óendanlega litlar. Innan þeirra marka í tíma og rúmi, sem við erum að fjalla um, eru þær í reynd engar.“
13 Lítum á hina hliðina — hinn firnastóra alheim. Stjarnfræðingar hafa með hjálp rafeindatækja reynt að verða einhvers vísari um uppruna hans. Hvað hafa þeir uppgötvað? Í bók sinni God and the Atronomers segir Robert Jastrow: „Nú sjáum við hvernig stjarnfræðilegar upplýsingar leiða okkur að viðhorfi Biblíunnar til uppruna heimsins.“ „Fyrir vísindamanninn, sem hefur lifað eftir trú sinni á mátt rökfræðinnar, lýkur sögunni eins og vondum draumi. Hann hefur klifið fjöll fáfræðinnar; hann er í þann mund að komast upp á hæsta tindinn, og þegar hann togar sig upp á síðasta klettinn heilsar honum hópur guðfræðinga [manna sem trúa á sköpun] sem hefur setið þar um aldaraðir.“ — Samanber Sálm 19:2.
14. Hvaða rök studdu þau orð Páls að Guð byggi ekki í musterum gerðum af mannahöndum?
14 Við sjáum þannig hve nákvæm orð Páls í Postulasögunni 17:24 eru, sem leiðir okkur að næsta atriði í rökfærslu hans í 25. versi. Hinn máttugi Guð, sem gat gert „heiminn og allt, sem í honum er,“ er sannarlega meiri en hinn efnislegi alheimur. (Hebreabréfið 3:4) Það væri því ekki rökrétt að hugsa sér að hann byggi í musterum, einkum þeim sem byggð eru af mönnum er játuðu að hann væri þeim ‚ókunnur.‘ Þessi rök hljóta að hafa haft sterk áhrif á heimspekingana sem mændu kannski á sömu stundu á hin mörgu musteri á hæðinni þar skammt frá! — 1. Konungabók 8:27; Jesaja 66:1.
15. (a) Hvers vegna hafa áheyrendur Páls áreiðanlega haft gyðjuna Aþenu í huga? (b) Hver hlaut að vera niðurstaðan af því að Guð væri gjafari allra hluta?
15 Líklegt er að áheyrendur Páls hafi dýrkað einhverja af styttum verndargyðju sinnar, Aþenu, á Akrópólishæð. Hin dáða Aþena í Meyjarhofinu var gerð úr fílabeini og gulli. Önnur stytta af Aþenu var um 20 metra há og sást frá skipum á hafi úti. Og sagt var að skurðgoð, sem kallað var Aþena Pólías, hafi fallið af himni ofan og fólk færði því reglulega ný klæði. En ef sá Guð, sem þessir menn þekktu ekki, var hinn hæsti og hafði skapað alheiminn, hvers vegna skyldi þá þurfa að þjóna honum með því sem menn gátu borið fram? Hann gefur okkur það sem við þurfum: „líf“ okkar, „anda“ eða andardrátt sem viðheldur lífinu og „alla hluti,“ þeirra á meðal sólina, regnið og frjóa jörð þar sem fæðan okkar vex. (Postulasagan 14:15-17; Matteus 5:45) Hann er gjafarinn; mennirnir eru þiggjendur. Vissulega er gjafarinn ekki háður þiggjendunum.
Allir menn komnir af einum
16. Hvað fullyrti Páll um uppruna mannsins?
16 Þessu næst, í Postulasögunni 17:26, mælti Páll fram sannindi sem margir ættu að íhuga, einkanlega vegna hins mikla kynþáttamisréttis sem núna er. Hann sagði að skaparinn hefði ‚skapað af einum allar þjóðir manna og látið þær byggja allt yfirborð jarðar.‘ Sú hugmynd að mannkynið væri eitt stórt bræðrafélag (og það sem hún hafði í för með sér varðandi réttlæti) var íhugunarverð fyrir þessa menn, því að Aþenumenn héldu því fram að þeir væru af sérstökum uppruna er greindi þá frá öðrum mönnum. Páll viðurkenndi hins vegar frásögn 1. Mósebókar um hinn fyrsta mann, Adam, sem var forfaðir okkar allra. (Rómverjabréfið 5:12; 1. Korintubréf 15:45-49) En margir spyrja kannski hvort hugmyndin um sameiginlegan uppruna mannkyns fái staðist í ljósi vísindaþekkingar nútímans.
17. (a) Hvernig styður nútímaþekking staðhæfingu Páls? (b) Hvaða áhrif ætti það að hafa á viðhorf okkar til réttlætis?
17 Þróunarkenningin gerir ráð fyrir að maðurinn hafi þróast á ýmsum stöðum og í ýmsum myndum. Snemma á síðasta ári helgaði tímaritið Newsweek vísindasíður sínar ‚leitinni að Adam og Evu.‘ Þar var fjallað um nýlegar uppgötvanir í erfðafræði. Enda þótt vísindamenn séu ekki allir á eitt sáttir þar um, frekar en við er að búast, benda rannsóknaniðurstöður til þess að allir menn eigi sér sameiginlegan forföður. Úr því að við erum allir bræður, eins og Biblían sagði endur fyrir löngu, ættu þá ekki allir að fá að njóta réttlætis? Ættu ekki allir að eiga rétt á óhlutdrægri meðferð óháð litarhætti og öðrum ytri einkennum? (1. Mósebók 11:1; Postulasagan 10:34, 35) Við þurfum þó að vita hvenær og hvernig slíkt réttlæti mun falla mannkyni í skaut.
18. Hvað lá að baki orðum Páls um viðskipti Guðs við menn?
18 Í 26. versi benti Páll á að ætla mætti að skaparinn hefði ákveðinn vilja eða réttlátan tilgang með mannkynið. Postulinn vissi að þegar Guð átti samskipti við Ísraelsþjóðina ákvað hann hvar hún ætti að búa og hvernig aðrar þjóðir mættu koma fram við hana. (2. Mósebók 23:31, 32; 4. Mósebók 34:1-12; 5. Mósebók 32:49-52) Að sjálfsögðu kunna áheyrendur Páls í stolti sínu að hafa heimfært orð hans fyrst og fremst á sjálfa sig. Hvort sem þeir vissu það eða ekki hafði Jehóva Guð meira að segja í spádómi látið í ljós vilja sinn um það hvenær í mannkynssögunni Grikkland yrði fimmta heimsveldið. (Daníel 7:6; 8:5-8, 21; 11:2, 3) Er ekki rökrétt að menn ættu að vilja að kynnast þessum Guði sem getur jafnvel stjórnað þjóðunum að vild sinni?
19. Hvers vegna eru rök Páls í Postulasögunni 17:27 skynsamleg?
19 Ekki er það heldur svo að Guð hafi látið okkur eftir án vitneskju um sig, þannig að við þyrftum að fálma í blindni. Hann gaf Aþenumönnum og okkur tækifæri til að kynnast sér. Í Rómverjabréfinu 1:20 skrifaði Páll síðar: „Hið ósýnilega eðli [Guðs], bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ Guð er því í raun ekki langt frá neinum okkar ef við viljum finna hann og kynnast honum. — Postulasagan 17:27.
20. Með hvaða hætti má segja að í Guði „lifum, hrærumst og erum vér“?
20 Þakklæti ætti að koma okkur til að gera það eins og Postulasagan 17:28 hvetur til. Guð hefur gefið okkur lífið. Við mennirnir höfum líf í víðari skilningi en til dæmis tré. Við, og flest dýr, erum þannig úr garði gerð að geta flutt okkur stað úr stað. Erum við ekki þakklát fyrir það? En Páll gengur skrefi lengra. Við erum til sem vitsmunaverur hver með sinn persónuleika. Heilinn, sem Guð hefur gefið okkur, gerir okkur fært að hugsa, bera skynbragð á óhlutlægar meginreglur (svo sem sanna réttvísi) og að vona — já, að horfa til þess hvernig vilja Guðs vindur fram. Eins og þú getur ímyndað þér hlýtur Páll að hafa gert sér ljóst að nokkuð þyrfti til að Epíkúringar og Stóuspekingar meðtækju þetta. Til að auðvelda þeim það vitnaði hann í eitthvert grískt skáld, sem þeir þekktu og virtu, og hafði sagt eitthvað svipað: „Því að vér erum líka hans ættar.“
21. Hvernig ætti það að við skulum vera Guðs ættar að snerta okkur?
21 Ef fólk gerir sér grein fyrir að það sé Guðs ættar eða smíð hins hæsta er einungis eðlilegt að það leiti leiðsagnar hjá honum um hvernig það skuli lifa lífinu. Við hljótum að dást að dirfsku Páls þar sem hann stóð nánast í skugga Akrópólishæðar. Hugrakkur leiddi hann rök að því að skapari okkar hljóti að vera miklu mikilfenglegri en styttur gerðar af manna höndum, meira að segja styttan úr gulli og fílabeini í Meyjarhofinu. Við öll, sem erum sammála orðum Páls, hljótum líka að fallast á að Guð líkist ekki neinum af hinum lífvana skurðgoðum sem margir nútímamenn dýrka. — Jesaja 40:18-26.
22. Hver eru tengsl iðrunar og réttlætis?
22 Þessi sannleikur er ekki aðeins tæknilegt atriði sem okkur ber að samþykkja í huga okkar án þess að breyta í nokkru lífi okkar frá því sem áður var. Páll tók það fram í 30. versi: „Guð, sem hefur umborið tíðir vanviskunnar, [þeirrar að ímynda sér að Guð sé eins og lítilmótlegt skurðgoð eða þiggi tilbeiðslu fyrir milligöngu þess], boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum.“ Þegar Páll nálgaðist hið kraftmikla niðurlag ræðu sinnar sló hann fram atriði sem gerði áheyrendum hverft við — að taka sinnaskiptum! Ef við væntum ósvikins réttlætis frá Guði verðum við að iðrast og taka sinnaskiptum. Hvers krefst það af okkur? Og hvernig ætlar Guð að tryggja öllum réttlæti?
[Neðanmáls]
a Eins og margir nútímamenn veitti Huxley athygli ranglætinu innan kristna heimsins. Í ritgerð um efasemdastefnu í trúmálum sagði hann: „Ef við einungis gætum séð . . . hræsnina og grimmdina, lygarnar, manndrápin og brotin á sérhverri skyldu mannsins, sem hafa runnið í stríðum straumum frá þeim [kirkjunum] alla sögu kristinna þjóða, þá myndu svæsnustu hugmyndir okkar um helvíti blikna í samanburði við þær.“
Veistu svarið?
◻ Hvaða trúarlegar aðstæður voru í Aþenu á dögum Páls og hvaða líkar aðstæður ríkja núna?
◻ Á hvaða vegu er Guð meiri en allir þeir falsguðir sem dýrkaðir voru í Aþenu á dögum Páls?
◻ Hvaða undirstöðusannindi um uppruna mannsins hafa í för með sér að allir ættu að fá að njóta réttlætis?
◻ Hvernig ættu menn að bregðast við vitneskjunni um mikilleik Guðs?
[Rammi á blaðsíðu 6]
Réttlæti handa öllum — Postulasagan 17. kafli
16 Meðan Páll beið þeirra í Aþenu, var honum mikil skapraun að sjá, að borgin var full af skurðgoðum. 17 Hann ræddi þá í samkundunni við Gyðinga og guðrækna menn, og hvern dag á torginu við þá, sem urðu á vegi hans. 18 En nokkrir heimspekingar, Epíkúringar og Stóumenn, áttu og í orðakasti við hann. Sögðu sumir: „Hvað mun skraffinnur sá hafa að flytja?“
Aðrir sögðu: „Hann virðist boða ókennda guði,“ — því að hann flutti fagnaðarerindið um Jesú og upprisuna. 19 Og þeir tóku hann og fóru með hann á Aresarhæð og sögðu: „Getum vér fengið að vita, hver þessi nýja kenning er, sem þú ferð með? 20 Því að eitthvað nýstárlegt flytur þú oss til eyrna, og oss fýsir að vita, hvað þetta er.“ 21 En allir Aþeningar og aðkomumenn þar gáfu sér ekki tóm til annars fremur en að segja eða heyra einhver nýmæli.
22 Þá sté Páll fram á miðri Aresarhæð og tók til máls: „Aþeningar, þér komið mér svo fyrir sjónir, að þér séuð í öllum greinum miklir trúmenn, 23 því að ég gekk hér um og hugði að helgidómum yðar og fann þá meðal annars altari, sem á er ritað: ‚Ókunnum guði‘. Þetta, sem þér nú dýrkið og þekkið ekki, það boða ég yður. 24 Guð, sem skóp heiminn og allt, sem í honum er, hann, sem er herra himins og jarðar, býr ekki í musterum, sem með höndum eru gjörð. 25 Ekki verður honum heldur þjónað með höndum manna, eins og hann þyrfti nokkurs við, þar sem hann sjálfur gefur öllum líf og anda og alla hluti. 26 Hann skóp og af einum allar þjóðir manna og lét þær byggja allt yfirborð jarðar, er hann hafði ákveðið setta tíma og mörk bólstaða þeirra. 27 Hann vildi, að þær leituðu Guðs, ef verða mætti þær þreifuðu sig til hans og fyndu hann. En eigi er hann langt frá neinum af oss. 28 Í honum lifum, hrærumst og erum vér. Svo hafa og sum skáld yðar sagt: ‚Því að vér erum líka hans ættar.‘ 29 Fyrst vér erum nú Guðs ættar, megum vér eigi ætla, að guðdómurinn sé líkur smíði af gulli, silfri eða steini, gjörðri með hagleik og hugviti manna. 30 Guð, sem hefur umborið tíðir vanviskunnar, boðar nú mönnunum, að þeir skuli allir hvarvetna taka sinnaskiptum, 31 því að hann hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.“
[Rammi á blaðsíðu 7]
Alheimurinn var skapaður
Árið 1980 skrifaði dr. John A. O’Keefe við bandarísku geimferðastofnunina: „Ég aðhyllist viðhorf Jastrows þess efnis að nútímastjarnfræði hafi fundið trúverðug sönnunargögn fyrir því að alheimurinn hafi verið skapaður fyrir 15 til 20 milljörðum ára.“ „Mér finnst það mjög hrífandi að sjá hvernig sönnunargögnin fyrir sköpuninni . . . eru greinilega stimpluð á allt sem er í kringum okkur: klettana, himininn, útvarpsbylgjurnar og undirstöðulögmál eðlisfræðinnar.“
[Rammi á blaðsíðu 9]
„Leitin að Adam og Evu“
Undir þessari yfirskrift í tímaritinu Newsweek þann 11. janúar 1988 stóð meðal annars: „Hinn gamalreyndi fornmenjagrafari Richard Leakey sagði árið 1977: ‚Það er enginn einn miðpunktur til þar sem nútímamaðurinn fæddist.‘ En núna hafa erfðafræðingar tilhneigingu til að vera á öðru máli . . . ‚Ef þetta er rétt, og ég væri tilbúinn að leggja eigur mínar að veði fyrir því, er þessi hugmynd geysilega þýðingarmikil,‘ segir Stephen Jay Gould, steingervingafræðingur við Harvardháskóla og ritgerðahöfundur. ‚Hún kemur okkur til að átta okkur á því að allir menn eru, þrátt fyrir mismunandi útlit, hluti af einni heild sem varð til mjög nýlega á einum stað. Það er miklu djúptækara, líffræðilegt bræðralag með okkur en við höfum gert okkur grein fyrir áður.‘“