Hve sterk er trú þín á upprisuna?
„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“ — JÓHANNES 11:25.
1, 2. Af hverju þarf tilbiðjandi Jehóva að treysta á upprisuvonina?
HVE sterk er trú þín á upprisuna? Brynjar hún þig gegn óttanum við dauðann og hughreystir þig þegar þú missir ástvin í dauðann? (Matteus 10:28; 1. Þessaloníkubréf 4:13) Ert þú eins og margir þjónar Guðs til forna sem þoldu húðstrýkingar, háð, pyndingar og fjötra, styrktir af upprisuvoninni? — Hebreabréfið 11:35-38.
2 Já, einlægur tilbiðjandi Jehóva ætti alls ekki að efast um upprisu dauðra og traust hans ætti að hafa áhrif á það hvernig hann lifir. Það er stórkostlegt að hugleiða þá staðreynd að í fyllingu tímans skuli hafið, dauðinn og helja skila hinum dánu sem þar eru, og að hinir upprisnu eigi þá í vændum að lifa eilíflega í paradís á jörð. — Opinberunarbókin 20:13; 21:4, 5.
Efasemdir um framtíðarlíf
3, 4. Hverju trúa margir enn um líf eftir dauðann?
3 Kristni heimurinn hefur lengi boðað líf eftir dauðann. Í grein í tímaritinu U.S. Catholic mátti lesa: „Í aldanna rás hafa kristnir menn reynt sitt besta til að sætta sig við vonbrigði og þjáningar þessa lífs með því að hlakka til framtíðarlífs í friði og fullnægju, gleði og hamingju.“ Enda þótt veraldarhyggja hafi tekið völdin í mörgum af löndum kristna heimsins og fólk sé orðið tortryggið gagnvart trúarbrögðunum finnst mörgum samt að eitthvað hljóti að taka við eftir dauðann. En um margt eru menn óvissir.
4 Í grein í tímaritinu Time sagði: „Fólk trúir enn á [framhaldslíf]. Hins vegar eru hugmyndir manna orðnar óljósari um hvað það nákvæmlega sé, og þeir heyra prestinn miklu sjaldnar minnast á það.“ Af hverju tala prestar minna um framhaldslíf nú en áður? Trúfræðingurinn Jeffrey Burton Russell segir: „Ég held að [kennimenn] forðist efnið af því að þeim finnst þeir þurfa að yfirstíga almenna vantrú.“
5. Hvernig líta margir á helvítiskenninguna nú orðið?
5 Í mörgum kirkjudeildum er framhaldslíf tengt himni og helvíti. Og séu klerkar tregir til að tala um himininn eru þeir enn tregari til að tala um helvíti. Í grein í dagblaði sagði: „Jafnvel kirkjudeildir, sem trúa á eilífa refsingu í bókstaflegu víti . . . , gera sem minnst úr því nú orðið.“ Fæstir nútímaguðfræðingar trúa reyndar að helvíti sé bókstaflegur kvalastaður eins og kennt var á miðöldum. Þeir aðhyllast „mannúðlegri“ útgáfu helvítis. Nýguðfræðingar halda því gjarnan fram að syndarar í helvíti séu ekki kvaldir bókstaflega heldur þjáist vegna „andlegs aðskilnaðar við Guð.“
6. Hvernig reynist trú sumra þegar harmleik ber að garði?
6 Sú leið að mýkja kenningar kirkjunnar til að særa ekki fínustu tilfinningar manna forðar sumum kannski frá óvinsældum. Hins vegar vita milljónir einlægra kirkjugesta ekki hverju þær eiga að trúa. Þegar dauðinn blasir við þessu fólki uppgötvar það oft að trúna vantar. Það hugsar gjarnan eins og konan sem missti nokkra úr fjölskyldunni í hörmulegu slysi. Aðspurð hvort trúin hefði hughreyst hana svaraði hún hikandi: „Ég hugsa það.“ En jafnvel þótt hún hefði svarað með sannfæringu að trúin hefði hjálpað sér má spyrja hvaða gagn trúin hefði gert henni til langframa ef hún var ekki á rökum reist. Þetta skiptir miklu máli því að flestar kirkjudeildir tala um framtíðarlíf sem er mjög ólíkt því sem Biblían boðar.
Afstaða kristna heimsins til lífs eftir dauðann
7. (a) Hvaða kenning er flestum kirkjudeildum sameiginleg? (b) Hvernig lýsti guðfræðingur kenningunni um ódauðlega sál?
7 Þrátt fyrir skoðanamun eru nálega allar kirkjudeildir kristna heimsins sammála um að maðurinn hafi ódauðlega sál sem lifi af líkamsdauðann. Flestir trúa að sálin geti farið til himna þegar maðurinn deyr. Sumir óttast að sál sín geti farið í logandi víti eða hreinsunareld. En ódauðleg sál er kjarninn í hugmyndum þeirra um líf í framtíðinni. Guðfræðingurinn Oscar Cullmann fjallaði um þetta í ritgerð sem birtist í bókinni Immortality and Resurrection. Hann skrifaði: „Ef við spyrðum venjulegan kristinn nútímamann . . . hvað hann álíti að Nýja testamentið kenni um örlög mannsins eftir dauðann yrði svarið með fáum undantekningum: ‚Að sálin sé ódauðleg.‘“ En Cullmann bætti við: „Þessi almennt viðurkennda hugmynd er einn mesti misskilningur kristninnar.“ Hann segist hafa valdið miklu fjaðrafoki þegar hann sagði þetta fyrst, en hann hafði engu að síður rétt fyrir sér.
8. Hvaða von gaf Jehóva fyrsta manninum og konunni?
8 Jehóva Guð skapaði ekki manninn til að fara til himna eftir dauðann. Það var ekki ætlun hans í upphafi að maðurinn dæi yfirleitt. Adam og Eva voru sköpuð fullkomin og gefið tækifæri til að uppfylla jörðina réttlátum afkomendum sínum. (1. Mósebók 1:28; 5. Mósebók 32:4) Fyrstu foreldrum okkar var sagt að þau myndu deyja aðeins ef þau óhlýðnuðust Guði. (1. Mósebók 2:17) Ef þau hefðu verið hlýðin himneskum föður sínum hefðu þau haldið áfram að lifa eilíflega.
9. (a) Hver er sannleikurinn um mannssálina? (b) Hvað verður um sálina þegar hún deyr?
9 Því miður hlýddu Adam og Eva ekki Guði. (1. Mósebók 3:6, 7) Páll postuli lýsir hörmulegum afleiðingum þess: „Syndin kom inn í heiminn fyrir einn mann og dauðinn fyrir syndina, og þannig er dauðinn runninn til allra manna, af því að allir hafa syndgað.“ (Rómverjabréfið 5:12) Adam og Eva dóu í stað þess að lifa eilíflega á jörðinni. Hvað gerðist þá? Höfðu þau ódauðlega sál sem nú var hægt að senda í logandi helvíti vegna syndar þeirra? Nei, Biblían segir að Adam hafi ‚orðið lifandi sál‘ þegar hann var skapaður. (1. Mósebók 2:7) Manninum var ekki gefin sál heldur varð hann sál, lifandi persóna. (1. Korintubréf 15:45) Það var ekki bara Adam sem var „lifandi sál“ heldur voru hin óæðri dýr einnig „lifandi sálir“ eins og hebreskan, sem 1. Mósebók var skrifuð á, sýnir. (1. Mósebók 1:24, NW) Adam og Eva urðu dauðar sálir þegar þau dóu. Það fór fyrir þeim eins og Jehóva hafði sagt Adam: „Í sveita andlitis þíns skalt þú neyta brauðs þíns, þangað til þú hverfur aftur til jarðarinnar, því að af henni ert þú tekinn. Því að mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ — 1. Mósebók 3:19.
10, 11. Hvað viðurkennir alfræðibókin New Catholic Encyclopedia að Biblían kenni um sálina og hvað segir Biblían sjálf?
10 Efnislega tekur alfræðibókin New Catholic Encyclopedia undir þetta. Í greininni „sál (í Biblíunni)“ segir hún: „Það er engin tvískipting líkama og sálar í Gt [Gamla testamentinu, Hebresku ritningunum].“ Hún bætir við að orðið „sál“ í Biblíunni „merki aldrei sál aðgreinda frá líkamanum eða persónunni.“ Sál merkir oft „hina einstöku veru, hvort heldur hún er maður eða dýr.“ Slík hreinskilni er hressandi en manni hlýtur að vera spurn hvers vegna kirkjugestum almennt hefur ekki verið sagt frá þessu.
11 Hægt hefði verið að hlífa kirkjuræknu fólki við miklum áhyggjum og ótta ef það hefði þekkt hinn einfalda sannleika Biblíunnar: „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja,“ ekki kveljast í helvíti! (Esekíel 18:4) Enda þótt þetta sé gerólíkt kenningu kristna heimsins er það í fullkomnu samræmi við innblásin orð spekingsins Salómons: „Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar [í þessu lífi], því að minning þeirra gleymist. Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum [sameiginlegri gröf mannkynsins], þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ — Prédikarinn 9:5, 10.
12. Hvert sótti kristni heimurinn kenningu sína um ódauðlega sál?
12 Af hverju er kenning kristna heimsins svona gerólík kenningu Biblíunnar? Alfræðibókin New Catholic Encyclopedia segir undir flettunni „sál, ódauðleiki mannssálarinnar“ að elstu kirkjufeðurnir hafi ekki fundið stuðning í Biblíunni fyrir trú sinni á ódauðlega sál heldur hjá „skáldum og heimspekingum og í hugarheimi Grikkja . . . Síðar kusu guðfræðingar og heimspekingar að styðjast við Platón eða lífsskoðanir Aristótelesar.“ Bókin segir að „áhrif platónskrar og nýplatónskrar hugsunar“ — þar á meðal trúin á ódauðlega sál — hafi um síðir sett mark sitt „á sjálfan kjarna kristinnar guðfræði.“
13, 14. Af hverju er óeðlilegt að reikna með upplýsingu frá heiðnum grískum heimspekingum?
13 Hefðu þeir sem kölluðu sig kristna átt að leita til heiðinna grískra heimspekinga til að fræðast um grundvallaratriði á borð við vonina um líf eftir dauðann? Auðvitað ekki. Þegar Páll skrifaði kristnum mönnum í Korintu í Grikklandi sagði hann: „Speki þessa heims er heimska hjá Guði. Ritað er: Hann er sá, sem grípur hina vitru í slægð þeirra. Og aftur: [Jehóva] þekkir hugsanir vitringanna, að þær eru hégómlegar.“ (1. Korintubréf 3:19, 20) Forn-Grikkir voru skurðgoðadýrkendur. Hvernig var þá hægt að leita sannleikans hjá þeim? Páll spurði Korintumenn: „Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð? Vér erum musteri lifanda Guðs, eins og Guð hefur sagt: Ég mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn.“ — 2. Korintubréf 6:16.
14 Heilög sannindi voru fyrst opinberuð fyrir milligöngu Ísraelsþjóðarinnar. (Rómverjabréfið 3:1, 2) Eftir árið 33 var þeim miðlað fyrir atbeina hins smurða kristna safnaðar á fyrstu öld. Páll sagði í bréfi til frumkristinna manna: „Oss hefur Guð opinberað [það sem er fyrirbúið þeim sem elska hann] fyrir andann.“ (1. Korintubréf 2:10; sjá einnig Opinberunarbókina 1:1, 2.) Kenning kristna heimsins um ódauðleika sálarinnar er sótt í gríska heimspeki. Henni var ekki komið á framfæri með opinberunum Guðs til Ísraels eða til safnaðar smurðra kristinna manna á fyrstu öld.
Raunveruleg von um látna
15. Hvaða von er raunverulega um látna að sögn Jesú?
15 Hvaða von er raunverulega um látna fyrst ekki er til ódauðleg sál? Það er auðvitað upprisan, stórkostlegt fyrirheit Guðs sem er ein aðalkenning Biblíunnar. Jesús benti á upprisuvonina þegar hann sagði Mörtu, vinkonu sinni: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“ (Jóhannes 11:25) Að trúa á Jesú merkir að trúa á upprisu, ekki ódauðlega sál.
16. Af hverju er skynsamlegt að trúa á upprisu?
16 Jesús hafði talað um upprisuna áður þegar hann sagði nokkrum Gyðingum: „Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Það sem Jesús lýsir hérna er mjög ólíkt hugmyndinni um ódauðlega sál sem lifir af líkamsdauðann og fer beint til himna. Upprisuvonin felst í því að fólk ‚gengur fram‘ sem legið hefur í gröfinni, sumt um aldir eða jafnvel árþúsundir. Dánar sálir lifna á ný. Ógerlegt? Ekki fyrir Guð „sem lífgar dauða og kallar fram það, sem ekki er til eins og það væri til.“ (Rómverjabréfið 4:17) Efasemdarmenn hæðast kannski að hugmyndinni um að fólk rísi upp frá dauðum, en það kemur fullkomlega heim við þá staðreynd að ‚Guð sé kærleikur‘ og að hann „umbuni þeim, er hans leita.“ — 1. Jóhannesarbréf 4:16; Hebreabréfið 11:6.
17. Hverju áorkar Guð með upprisunni?
17 Hvernig átti Guð að umbuna þeim sem reyndust ‚trúir allt til dauða‘ ef hann lífgaði þá ekki á nýjan leik? (Opinberunarbókin 2:10) Upprisan gerir honum líka kleift að koma því til leiðar sem Jóhannes postuli skrifar um: „Til þess birtist Guðs sonur, að hann skyldi brjóta niður verk djöfulsins.“ (1. Jóhannesarbréf 3:8) Satan varð morðingi alls mannkyns þegar hann leiddi fyrstu foreldra okkar út í synd og dauða í Edengarðinum á sínum tíma. (1. Mósebók 3:1-6; Jóhannes 8:44) Jesús byrjaði að brjóta niður verk Satans þegar hann gaf fullkomið líf sitt sem samsvarandi lausnargjald og opnaði mannkyni leiðina til að losna úr fjötrum erfðasyndarinnar sem stafaði af vísvitandi óhlýðni Adams. (Rómverjabréfið 5:18) Með upprisu þeirra sem deyja vegna Adamssyndarinnar er haldið áfram að brjóta niður verk djöfulsins.
Líkami og sál
18. Hvernig brugðust sumir grískir heimspekingar við þeim orðum Páls að Jesús hefði verið reistur upp, og hvers vegna?
18 Páll postuli prédikaði fagnaðarerindið fyrir hópi manna þegar hann var í Aþenu, þeirra á meðal nokkrum grískum heimspekingum. Þeir hlýddu á ræðu hans um hinn eina sanna Guð og iðrunarhvatningu hans. En hvað gerðist svo? Páll lauk ræðu sinni þannig: „[Guð] hefur sett dag, er hann mun láta mann, sem hann hefur fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi. Þetta hefur hann sannað öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.“ Þessi orð ollu nokkru uppnámi. „Þegar þeir heyrðu nefnda upprisu dauðra, gjörðu sumir gys að.“ (Postulasagan 17:22-32) Guðfræðingurinn Oscar Cullmann segir: „Grikkjum, sem trúðu á ódauðleika sálarinnar, kann að hafa þótt erfiðara en öðrum að meðtaka upprisuprédikun kristninnar. . . . Ógerlegt er að samræma kenningu hinna miklu heimspekinga Sókratesar og Platóns og kenningu Nýja testamentisins.“
19. Hvernig reyndu guðfræðingar kristna heimsins að samræma upprisukenninguna kenningunni um ódauðlega sál?
19 Í kjölfar fráhvarfsins mikla eftir að postularnir dóu lögðu guðfræðingar sig engu að síður í líma við að steypa saman hinni kristnu upprisukenningu og trú Platóns á ódauðlega sál. Um síðir féllust sumir á frumlega lausn: Við dauðann er sálin aðskilin („frelsuð“ að mati sumra) frá líkamanum. Síðan gerist það á dómsdegi, að sögn ritsins Outlines of the Doctrine of the Resurrection eftir R. J. Cooke, að „hver líkami sameinast sinni eigin sál á ný og hver sál sínum eigin líkama.“ Þessi væntanlega endursameining líkamans og ódauðlegrar sálar hans er sögð vera upprisan.
20, 21. Hverjir hafa alltaf kennt sannleikann um upprisuna og hvernig hefur það verið þeim til gagns?
20 Þetta er enn opinber kenning hinna stóru kirkjudeilda. Enda þótt guðfræðingi geti þótt þessi hugmynd rökrétt er hún framandi flestum kirkjugestum. Þeir trúa hreinlega að þeir fari rakleiðis til himna við dauðann. Þess vegna segir John Garvey í ásökunartón í tímaritinu Commonweal hinn 5. maí 1995: „Trú flestra kristinna manna [varðandi líf eftir dauðann] virðist miklu nær nýplatónisma en nokkru sannkristnu, og á sér engan biblíulegan grundvöll.“ Með því að skipta á Biblíunni og Platón hafa klerkar kristna heimsins kæft biblíulega upprisuvon sóknarbarna sinna.
21 Vottar Jehóva hafna hins vegar heiðinni heimspeki og halda sig við upprisukenningu Biblíunnar. Þeim finnst þessi kenning uppbyggjandi, fullnægjandi og hughreystandi. Í greinunum á eftir könnum við hve vel grundvölluð og rökrétt upprisukenning Biblíunnar er, bæði fyrir þá sem eiga von um líf á jörð og þá sem eiga í vændum að rísa upp til lífs á himnum. Við hvetjum þig til að búa þig undir lestur greinanna með því að lesa vandlega 15. kafla 1. Korintubréfs.
Manstu?
◻ Af hverju ættum við að byggja upp sterka trú á upprisuna?
◻ Hvaða framtíðarvon veitti Jehóva þeim Adam og Evu?
◻ Hvers vegna er órökrétt að leita sannleikans í grískri heimspeki?
◻ Af hverju er upprisuvonin skynsamleg von?
[Mynd á blaðsíðu 18]
Fyrstu foreldrar okkar glötuðu voninni um eilíft líf á jörð þegar þeir syndguðu.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Fræðimenn kirkjunnar urðu fyrir áhrifum af trú Platóns á ódauðleika sálarinnar.
[Rétthafi]
Musei Capitolini, Roma