10. KAFLI
Notaðu mátt þinn eftir fyrirmynd Guðs
1. Hvaða lúmska hætta fylgir hvers kyns valdi?
„ÆTÍÐ vill valdið sinn vilja hafa,“ segir máltækið. Hér er vakin athygli á lúmskri hættu sem fylgir hvers kyns valdi og mætti. Ófullkomnum mönnum hættir því miður til að misbeita valdi sínu. Mannkynssagan vitnar um hvernig ‚einn maður hefur drottnað yfir öðrum honum til tjóns‘. (Prédikarinn 8:9) Frá örófi alda hefur meðferð valds án kærleika valdið mannkyni ómældum þjáningum.
2, 3. (a) Hvað er einstakt við það hvernig Jehóva beitir valdi sínu og mætti? (b) Hvaða vald og mátt getum við haft og hvernig ættum við að nota það?
2 En það er óneitanlega einstakt að Jehóva Guð skuli aldrei misbeita takmarkalausu valdi sínu og óendanlegum mætti. Eins og fram kemur í köflunum á undan notar hann mátt sinn alltaf í samræmi við ástríka fyrirætlun sína – hvort sem það er mátturinn til að skapa, eyða, vernda eða endurnýja. Þegar við íhugum hvernig Guð beitir mætti sínum og valdi getum við ekki annað en laðast að honum. Það getur síðan verið okkur hvöt til að ‚líkja eftir Guði‘ þegar við sjálf förum með vald af einhverju tagi. (Efesusbréfið 5:1) En hvaða vald og mátt höfum við, smáir mennirnir?
3 Maðurinn var skapaður „eftir Guðs mynd“ og líkur honum. (1. Mósebók 1:26, 27) Þess vegna höfum við mennirnir ákveðið vald og vissan mátt. Þetta getur verið máttur eða kraftur til að vinna og áorka einhverju, mannaforráð, áhrif sem við getum haft á aðra, einkum þá sem elska okkur, líkamlegur kraftur eða fjárhagslegt bolmagn. „Þú ert uppspretta lífsins,“ segir sálmaskáldið um Jehóva. (Sálmur 36:9) Guð er því beint eða óbeint uppsprettan að mætti okkar og öllu lögmætu valdi sem við höfum á hendi. Við viljum nota það eins og hann vill að við gerum. Hvernig förum við að því?
Kærleikur er nauðsynlegur
4, 5. (a) Hvað er nauðsynlegt til að fara rétt með vald og mátt og hvernig er fordæmi Guðs til vitnis um það? (b) Hvernig hjálpar kærleikurinn okkur að fara rétt með vald okkar?
4 Kærleikur er nauðsynlegur til að fara rétt með vald og mátt. Er ekki fordæmi Guðs til vitnis um það? Rifjaðu upp fyrir þér umfjöllunina í 1. kafla bókarinnar um fjóra höfuðeiginleika Jehóva – mátt, réttlæti, visku og kærleika. Hver þessara eiginleika ber hæst? Það er kærleikurinn. „Guð er kærleikur,“ segir í 1. Jóhannesarbréfi 4:8. Já, Jehóva er kærleikurinn sjálfur því að kærleikurinn hefur sterk áhrif á allt sem hann gerir. Í hvert sinn sem hann birtir mátt sinn og vald býr kærleikurinn að baki þannig að allt sem hann gerir er að lokum til góðs fyrir þá sem elska hann.
5 Kærleikurinn hjálpar okkur líka að fara rétt með vald okkar, enda segir Biblían að kærleikurinn sé „góðviljaður“ og ‚hugsi ekki um eigin hag‘. (1. Korintubréf 13:4, 5) Kærleikurinn leyfir okkur því ekki að vera hranaleg eða miskunnarlaus við þá sem við höfum eitthvert vald yfir heldur sýnum við öðrum virðingu og setjum þarfir þeirra og tilfinningar ofar okkar eigin. – Filippíbréfið 2:3, 4.
6, 7. (a) Hvað er guðsótti og hvernig hjálpar hann okkur að misbeita ekki valdi okkar? (b) Lýstu með dæmi hvernig óttinn við að gera Guði á móti skapi er tengdur því að elska hann.
6 Kærleikurinn er tengdur öðru sem getur komið í veg fyrir að við misnotum vald okkar. Það er guðsóttinn. Hvaða gildi hefur hann? „Sá sem óttast Jehóva forðast hið illa,“ segja Orðskviðirnir 16:6. Misnotkun valds er einmitt eitt af því illa sem við eigum að forðast. Guðsótti forðar okkur frá því að fara illa með þá sem við höfum forræði fyrir. Hvers vegna? Meðal annars vegna þess að við vitum að við þurfum að standa Guði skil á því hvernig við komum fram við þá sem eru undir okkur settir. (Nehemíabók 5:1–7, 15) En guðsótti er meira en það. Frummálsorðin, sem þýdd eru „ótti“, lýsa oft djúpstæðri virðingu og lotningu fyrir Guði. Þannig setur Biblían ótta í samband við kærleikann til Guðs. (5. Mósebók 10:12, 13) Þessi lotning og aðdáun felur í sér heilbrigðan ótta við að gera Guði á móti skapi – ekki aðeins af því að við óttumst afleiðingarnar heldur af því að við elskum hann í alvöru.
7 Lýsum þessu með dæmi: Hugsaðu þér heilnæmt samband milli lítils drengs og pabba hans. Drengurinn skynjar áhuga, hlýju og umhyggju pabba síns en veit jafnframt hvaða kröfur pabbi hans gerir til hans. Og hann veit að pabbi agar hann ef hann er óþekkur. En drengurinn er ekki sjúklega hræddur við pabba sinn heldur þykir honum innilega vænt um hann. Hann hefur yndi af því að gera hvaðeina sem veitir honum velþóknun pabba síns. Eins er það með guðsóttann. Við elskum Jehóva, föður okkar á himnum, þannig að við hræðumst að gera nokkuð til að honum sárni í hjarta sínu. (1. Mósebók 6:6) Við þráum að gleðja hjarta hans. (Orðskviðirnir 27:11) Þess vegna viljum við fara rétt með vald okkar. Skoðum nánar hvernig við getum gert það.
Í fjölskyldunni
8. (a) Hvaða vald hefur eiginmaður í fjölskyldunni og hvernig á hann að fara með það? (b) Hvernig getur eiginmaður sýnt að hann veiti konunni sinni virðingu?
8 Snúum okkur fyrst að fjölskyldunni. „Maðurinn er höfuð konu sinnar,“ segir Efesusbréfið 5:23. Hvernig á eiginmaður að fara með þetta vald sem Guð hefur gefið honum? Biblían segir eiginmönnum að „vera skynsamir í sambúðinni“ við konur sínar og ‚virða þær sem veikara ker‘. (1. Pétursbréf 3:7) Gríska nafnorðið, sem þýtt er ‚virðing‘, merkir meðal annars „verðmæti og gildi“ og aðrar myndir þess eru þýddar „gjafir“ og „dýrmætur“. (Postulasagan 28:10; 1. Pétursbréf 2:7) Maður, sem sýnir konu sinni virðingu, beitir hana aldrei ofbeldi, og hann hvorki auðmýkir hana né niðrar henni svo að henni finnist hún einskis virði. Hann viðurkennir mannkosti hennar og metur hana mikils. Hann sýnir í orði og verki – bæði í einkalífinu og meðal fólks – að hún sé honum hjartfólgin. (Orðskviðirnir 31:28) Slíkur maður ávinnur sér bæði ást og virðingu eiginkonu sinnar en líka það sem mikilvægara er, velþóknun Guðs.
9. (a) Hvaða vald hefur eiginkonan í fjölskyldunni? (b) Hvað getur auðveldað eiginkonu að nota hæfileika sína til að styðja manninn sinn, og með hvaða árangri?
9 Eiginkonan fer líka með ákveðið vald í fjölskyldunni. Biblían segir frá guðhræddum konum sem beittu sér þannig að þær höfðu jákvæð áhrif á eiginmenn sína eða forðuðu þeim frá því að taka rangar ákvarðanir, án þess þó að ögra forræði þeirra. (1. Mósebók 21:9–12; 27:46–28:2) Konan er kannski skarpari en maðurinn hennar eða býr yfir öðrum hæfileikum sem hann skortir. Hún á þó að bera „djúpa virðingu“ fyrir honum og ‚vera undirgefin honum eins og hún er undirgefin Drottni‘. (Efesusbréfið 5:22, 33) Ef konan lætur sér annt um að þóknast Guði auðveldar það henni að nota hæfileika sína til að styðja manninn sinn í stað þess að gera lítið úr honum eða reyna að ráða yfir honum. „Vitur kona“ tekur höndum saman við eiginmann sinn um að uppbyggja fjölskylduna, og þannig heldur hún frið við Guð. – Orðskviðirnir 14:1.
10. (a) Hvaða vald hefur Guð veitt foreldrum? (b) Hvað merkir orðið „agi“ og hvernig ætti að aga? (Sjá neðanmálsgrein.)
10 Foreldrar hafa einnig fengið ákveðið vald frá Guði. „Feður, ergið ekki börnin ykkar heldur alið þau upp með því að aga þau og leiðbeina þeim eins og Jehóva vill,“ segir Biblían. (Efesusbréfið 6:4) Í Biblíunni getur orðið ‚agi‘ þýtt „uppeldi, þjálfun, tilsögn“. Börn þurfa að fá aga. Þau blómstra ef þau fá skýrar leiðbeiningar, ef þeim eru settar ákveðnar hömlur og er gert að halda sig innan vel skilgreindra marka. Biblían setur slíkan aga eða tilsögn í beint samband við kærleika. (Orðskviðirnir 13:24) Orðalagið „vöndur agans“, sem Biblían notar, merkir ekki að agi megi vera harðneskjulegur, líkamlega eða tilfinningalega.a (Orðskviðirnir 22:15, neðanmáls; 29:15, neðanmáls) Ef foreldrar beita ströngum eða ósveigjanlegum aga og sýna börnunum ekki ást eru þeir að misbeita foreldravaldinu, og þá er hætta á að börnin bíði skaða af. (Kólossubréfið 3:21) Sé ögunin hins vegar hófleg og skynsamleg flytur hún börnunum þau skilaboð að foreldrarnir elski þau og láti sér annt um að þau verði góðar manneskjur.
11. Hvernig geta börn notað kraft sinn á réttan hátt?
11 Hvað um börnin? Hvernig geta þau farið rétt með þann kraft sem þau búa yfir? „Kraftur ungra manna er prýði þeirra,“ segja Orðskviðirnir 20:29. Það besta sem unga fólkið getur gert er að nota krafta sína og æskufjör í þjónustu okkar „mikla skapara“. (Prédikarinn 12:1) Það er hollt fyrir börn að hafa hugfast að þau geta haft áhrif á tilfinningar foreldranna með breytni sinni. (Orðskviðirnir 23:24, 25) Börn gleðja hjörtu guðhræddra foreldra með því að hlýða þeim og halda sig á réttri braut. (Efesusbréfið 6:1) Slík hegðun „gleður Drottin“. – Kólossubréfið 3:20.
Í söfnuðinum
12, 13. (a) Hvernig ættu öldungar að líta á það vald sem þeir hafa í söfnuðinum? (b) Lýstu með dæmi hvers vegna öldungarnir ættu að koma mildilega fram við hjörðina.
12 Jehóva hefur skipað hæfa umsjónarmenn til að fara með forystu í kristna söfnuðinum. (Hebreabréfið 13:17) Þeir eiga að nota það vald, sem Guð hefur falið þeim, til að aðstoða hjörðina og stuðla sem best þeir geta að velferð hennar. Mega þeir drottna yfir trúsystkinum sínum úr því að þeir eru skipaðir öldungar? Nei, öldungarnir þurfa að vera hógværir og sjá hlutverk sitt í söfnuðinum í réttu ljósi. (1. Pétursbréf 5:2, 3) Biblían segir umsjónarmönnum að vera „hirðar safnaðar Guðs sem hann keypti með blóði síns eigin sonar“. (Postulasagan 20:28) Hér kemur fram sterk ástæða fyrir því að koma mildilega fram við hvern og einn í söfnuðinum.
13 Við getum skýrt þetta með dæmi. Náinn vinur biður þig að gæta einhvers hlutar sem honum þykir sérlega vænt um. Þú veist að vinurinn keypti hann dýru verði. Þú myndir örugglega fara varlega með hlutinn og gæta hans vel. Eins hefur Guð falið öldungunum þá ábyrgð að gæta mjög verðmætrar eignar: safnaðarins sem hann líkir við sauðahjörð. (Jóhannes 21:16, 17) Jehóva þykir ákaflega vænt um sauðina – svo mjög að hann keypti þá með dýrmætu blóði einkasonar síns, Jesú Krists. Hann gat ekki greitt hærra verð fyrir þá. Auðmjúkir öldungar hafa þetta hugfast og meðhöndla sauði Jehóva samkvæmt því.
‚Vald tungunnar‘
14. Yfir hvaða valdi býr tungan?
14 „Dauði og líf eru á valdi tungunnar,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 18:21) Það er hægt að vinna mikið tjón með tungunni. Alla hefur einhvern tíma kennt til undan hugsunarlausum eða niðrandi orðum annarra. En tungan getur líka læknað. Orðskviðirnir 12:18 segja að ‚tunga hinna vitru græði‘. Já, uppbyggileg og heilnæm orð geta virkað á hjartað eins og mýkjandi og græðandi smyrsl. Lítum á dæmi.
15, 16. Hvernig getum við notað tunguna til að uppörva aðra?
15 Í 1. Þessaloníkubréfi 5:14 erum við hvött til að „hughreysta niðurdregna“. Dyggustu þjónar Jehóva geta stöku sinnum orðið niðurdregnir eða þunglyndir. Hvernig getum við hjálpað þeim? Hrósum þeim einlæglega fyrir eitthvað ákveðið, til að minna þá á hvers virði þeir séu í augum Jehóva. Bendum þeim á máttug ritningarorð sem sýna fram á að Jehóva lætur sér mjög annt um þá „sorgbitnu“ og þá sem „eru niðurbrotnir“. (Sálmur 34:18) Með því að nota tunguna til að hughreysta aðra erum við að líkja eftir hinum umhyggjusama Guði „sem hughreystir niðurdregna“. – 2. Korintubréf 7:6.
16 Við getum líka notað tunguna til að uppörva þá sem eru uppörvunar þurfi. Hefur trúbróðir misst ástvin í dauðann? Nokkur samúðarorð geta sagt honum að okkur sé annt um hann, og það getur verið hughreystandi fyrir hann. Finnst öldruðum bróður eða systur sér vera ofaukið? Hugulsöm orð geta fullvissað þá sem komnir eru á efri ár um að aðrir virði þá og meti mikils. Á einhver við þrálát veikindi að stríða? Vingjarnleg orð í síma, í bréfi eða í eigin persónu geta verið mjög uppörvandi fyrir þann sem er sjúkur. Við hljótum að gleðja skaparann þegar við notum vald tungunnar til að tala það sem er „gott og uppbyggilegt“. – Efesusbréfið 4:29.
17. Á hvaða mikilvægan hátt getum við notað tunguna til góðs fyrir aðra og hvers vegna ættum við að gera það?
17 Mikilvægasta leiðin til að nota vald tungunnar er að segja öðrum frá fagnaðarboðskapnum um ríki Guðs. „Neitaðu þeim ekki um hjálp sem þarfnast hennar ef það er á þínu færi að gera þeim gott,“ segja Orðskviðirnir 3:27. Okkur er hreinlega skylt að segja fólki frá fagnaðarboðskapnum sem getur bjargað lífi þess. Það væri ekki rétt af okkur að lúra á hinum áríðandi boðskap sem Jehóva hefur gefið okkur af örlæti sínu. (1. Korintubréf 9:16, 22) En hversu mikinn þátt ætlast Jehóva til að við tökum í þessu starfi?
Boðunin er frábær leið til að nota krafta sína.
Þjónaðu Jehóva af „öllum mætti þínum“
18. Til hvers ætlast Jehóva af okkur?
18 Kærleikurinn til Jehóva er okkur hvöt til að taka sem mestan þátt í að boða fagnaðarboðskapinn. Hvers væntir Jehóva af okkur í boðuninni? Að við gerum okkar besta miðað við aðstæður okkar í lífinu: „Hvað sem þið gerið, þá vinnið af allri sál eins og fyrir Jehóva en ekki menn.“ (Kólossubréfið 3:23) Aðspurður hvert væri mesta boðorðið sagði Jesús: „Þú skalt elska Jehóva Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sál þinni, öllum huga þínum og öllum mætti þínum.“ (Markús 12:30) Já, Jehóva væntir þess að hvert og eitt okkar elski hann og þjóni honum af allri sál.
19, 20. (a) Hvers vegna er minnst á hjarta, huga og mátt í Markúsi 12:30 fyrst það er allt innifalið í sálinni? (b) Hvað þýðir það að þjóna Jehóva af allri sál?
19 Hvað merkir það að þjóna Jehóva af allri sál? Sálin er maðurinn allur, með öllum hæfileikum hugar og líkama. Hvers vegna er þá verið að nefna hjarta, huga og mátt í Markúsi 12:30 fyrst það er allt innifalið í sálinni? Lítum á dæmi til skýringar. Á biblíutímanum var hægt að selja sig (sál sína) í þrælkun. En kannski þjónaði þrællinn ekki húsbóndanum af öllu hjarta. Kannski þjónaði hann ekki hagsmunum húsbóndans af öllum kröftum eða heilum huga. (Kólossubréfið 3:22) Jesús nefnir þetta allt saman til að leggja áherslu á að við megum ekki hlífa okkur í þjónustunni við Guð. Til að þjóna Guði af allri sál verðum við að gefa okkur í verkið og nota krafta okkar og styrk eins og best við getum í þjónustu hans.
20 Þýðir þetta að við verðum öll að nota jafnmikinn tíma og jafnmikla krafta í þjónustunni við Jehóva? Það getur varla verið því að aðstæður manna eru ólíkar og hæfileikar mismunandi. Ung, hraust og þróttmikil manneskja ætti að geta notað meiri tíma til að boða fagnaðarboðskapinn en sú sem er farin að reskjast og tapa kröftum. Einhleyp manneskja, sem hefur ekki fyrir fjölskyldu að sjá, ætti að geta gert meira en sú sem hefur fjölskyldu að annast. Við ættum að vera þakklát ef við höfum krafta og kringumstæður til að leggja mikið af mörkum í boðuninni. En auðvitað viljum við gæta þess að vera ekki gagnrýnin og bera okkur ekki saman við aðra. (Rómverjabréfið 14:10–12) Það er miklu betra að nota krafta sína öðrum til hvatningar og uppörvunar.
21. Hver er besta og mikilvægasta leiðin til að nota vald sitt og mátt?
21 Jehóva er fullkomið fordæmi um að nota mátt og vald á réttan hátt. Við viljum líkja eftir honum sem best við getum, þótt ófullkomin séum. Við getum notað vald okkar rétt með því að virða þá sem við höfum eitthvað yfir að segja. Og við viljum sinna boðuninni af allri sál, björgunarstarfinu sem Jehóva hefur falið okkur að vinna. (Rómverjabréfið 10:13, 14) Mundu að Jehóva er ánægður þegar þú gefur honum það besta sem þú – sál þín – getur gefið. Finnurðu ekki löngun í hjarta þér til að gera allt sem þú getur til að þjóna þessum skilningsríka og ástríka Guði? Það er besta og mikilvægasta leiðin til að nota vald sitt og mátt.
a Hebreska biblíuorðið, sem þýtt er „vöndur“, merkir stafur eða prik eins og fjárhirðir notaði er hann gætti sauða. (Sálmur 23:4) „Vöndur“ foreldravaldsins er á sama hátt tákn um ástríka leiðsögn en ekki stranga eða harkalega refsingu.