Öldungar, dæmið með réttvísi
„Hlýðið á mál bræðra yðar og dæmið réttlátlega.“ — 5. MÓSEBÓK 1:16.
1. Hvaða valdaframsal hefur átt sér stað í sambandi við dómsmál og hvað felur það í sér fyrir mennska dómara?
SEM hinn æðsti dómari hefur Jehóva falið syni sínum dómsvald. (Jóhannes 5:27) Kristur, sem höfuð kristna safnaðarins, notar síðan trúa og hyggna þjónshópinn og stjórnandi ráð hans til að útnefna öldunga er verða stundum að gegna hlutverki dómara. (Matteus 24:45-47; 1. Korintubréf 5:12, 13; Títusarbréfið 1:5, 9) Sem staðgenglar Krists í dómarasæti eru þeir skuldbundnir að fylgja náið fordæmi himnesku dómaranna, Jehóva og Jesú Krists.
Kristur — fyrirmyndardómarinn
2, 3. (a) Hvaða spádómur um Messías opinberar eiginleika Krists sem dómara? (b) Hvaða atriði eru sérstaklega athyglisverð?
2 Um Krist sem dómara var skrifað í spádómi: „Yfir honum mun hvíla andi [Jehóva]: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta [Jehóva]. Unun hans mun vera að óttast [Jehóva]. Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra. Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu.“ — Jesaja 11:2-4.
3 Taktu eftir þeim eiginleikum sem nefndir eru í spádóminum og gera Kristi kleift að „dæma heimsbyggðina með réttvísi.“ (Postulasagan 17:31) Hann dæmir í samræmi við anda Jehóva, visku hans, skilning, ráðspeki og þekkingu. Taktu líka eftir að hann dæmir í ótta Jehóva. ‚Dómstóll Krists‘ stendur því fyrir „dómstól Guðs.“ (2. Korintubréf 5:10; Rómverjabréfið 14:10) Hann gætir þess að dæma mál á sama hátt og Guð dæmir þau. (Jóhannes 8:16) Hann dæmir ekki einfaldlega eftir útliti eða tómum sögusögnum. Með réttsýni kveður hann upp dóma í þágu hinna nauðstöddu. Hann er dásamlegur dómari og stórkostlegt fordæmi fyrir ófullkomna menn sem er falið að annast dómsmál nú á dögum.
Jarðneskir dómarar
4. (a) Hvert verður eitt hlutverka hinna 144.000 meðan þúsundáraríki Krists stendur? (b) Hvaða spádómur sýnir að sumir smurðir kristnir menn yrðu útnefndir dómarar meðan þeir væru enn á jörðinni?
4 Ritningarnar gefa til kynna að hinn hlutfallslega smái hópur smurðra kristinna manna, en postularnir 12 voru þeir fyrstu í þeim hópi, muni verða meðdómarar Krists Jesú í þúsundáraríkinu. (Lúkas 22:28-30; 1. Korintubréf 6:2; Opinberunarbókin 20:4) Leifar smurðra meðlima hins andlega Ísraels voru sjálfar dæmdar og endurreistar á árunum 1918-19. (Malakí 3:2-4) Um þessa endurreisn hins andlega Ísraels hafði verið spáð: „Ég skal fá þér aftur slíka dómendur sem í öndverðu og aðra eins ráðgjafa og í upphafi.“ (Jesaja 1:26) Jehóva hefur því, rétt eins og hann gerði „í upphafi“ hins holdlega Ísraels, gefið endurreistu leifunum réttláta dómara og ráðgjafa.
5. (a) Hverjir voru ‚kvaddir að dómurum‘ eftir endurreisn hins andlega Ísraels og hvaða mynd er dregin upp af þeim í Opinberunarbókinni? (b) Aðstoð hverra fá smurðir umsjónarmenn nú við dómsstarfið og hvernig eru þeir þjálfaðir til að verða betri dómarar?
5 Fyrst í stað voru hinir ‚vitru,‘ sem voru ‚kvaddir að dómurum,‘ allir smurðir öldungar. (1. Korintubréf 6:4, 5) Í Opinberunarbókinni er dregin sú mynd af trúföstum, virtum, smurðum umsjónarmönnum að Jesús haldi á þeim í hægri hendi sinni, það er að segja að þeir séu undir stjórn hans og leiðsögn. (Opinberunarbókin 1:16, 20; 2:1) Frá árinu 1935 hafa hinir smurðu fengið trúfastan stuðning ört stækkandi ‚mikils múgs‘ manna sem hafa þá von að lifa af ‚þrenginguna miklu‘ og lifa að eilífu í paradís á jörðu. (Opinberunarbókin 7:9, 10, 14-17) Er ‚brúðkaup lambsins‘ nálgast útnefnir hið stjórnandi ráð enn fleiri af þessum hópi til að þjóna sem öldungar og dómarar í hinum rúmlega 66.000 söfnuðum votta Jehóva um alla jörðina.a (Opinberunarbókin 19:7-9) Með tilstilli sérstakra skóla fá þeir þjálfun til að annast ábyrgðarstörf í samfélagi ‚nýju jarðarinnar.‘ (2. Pétursbréf 3:13) Ríkisþjónustuskólinn, sem haldinn var í mörgum löndum í lok ársins 1991, lagði áherslu á viðeigandi meðhöndlun dómsmála. Öldungar er þjóna sem dómarar eru bundnir þeirri kvöð að líkja eftir Jehóva og Jesú Kristi en dómar þeirra eru sannir og réttlátir. — Jóhannes 5:30; 8:16; Opinberunarbókin 19:1, 2.
Dómarar sem ‚ganga fram í guðsótta‘
6. Hvers vegna ættu öldungar, sem þjóna í dómnefndum, að ‚ganga fram í guðsótta‘?
6 Fyrst Kristur sjálfur dæmir í ótta Jehóva og með hjálp anda hans, hversu miklu fremur ættu þá ófullkomnir öldungar að gera það. Fái þeir það verkefni að sitja í dómsnefnd þurfa þeir að ‚ganga fram í guðsótta‘ og biðja þann „föður, er dæmir án manngreinarálits“ að hjálpa þeim að dæma réttlátlega. (1. Pétursbréf 1:17) Þeir ættu að muna að þeir eru að fást við líf fólks, ‚sálir‘ þess, og „eiga að lúka reikning fyrir þær.“ (Hebreabréfið 13:17) Með þetta í huga er ljóst að þeir eru einnig ábyrgir frammi fyrir Jehóva fyrir hver þau mistök sem þeir hefðu getað forðast í dómsmálum. Í skýringum sínum við Hebreabréfið 13:17 skrifaði J. H. A. Ebrard: „Það er skylda hirðisins að vaka yfir þeim sálum sem eru faldar í hans umsjá, og . . . hann verður að lúka reikning fyrir þær allar, líka þær sem glötuðust vegna mistaka hans. Yfir þessu orði hvílir alvöruþungi. Hver einasti þjónn orðsins ætti að hugleiða að hann hefur sjálfviljugur tekist á hendur þetta [gríðarlega] ábyrgðarfulla starf.“ — Samanber Jóhannes 17:12; Jakobsbréfið 3:1.
7. (a) Hvað ættu dómarar nútímans að muna og hvert ætti að vera markmið þeirra? (b) Hvaða lærdóm ættu öldungar að draga af Matteusi 18:18-20?
7 Öldungar sem fara með dómsvald ættu að muna að hinir raunverulegu dómarar hvers máls eru Jehóva og Jesús Kristur. Rifjum upp það sem dómurunum í Ísrael var sagt: „Eigi dæmið þér í umboði manna, heldur [Jehóva], og hann er með yður í dómum. Veri þá ótti [Jehóva] yfir yður, . . . Svo skuluð þér breyta, að þér verðið ekki sekir.“ (2. Kroníkubók 19:6-10) Með lotningarfullum ótta ættu öldungar, sem dæma í máli, að gera sitt ýtrasta til að vera vissir um að Jehóva sé raunverulega ‚með þeim í dómum.‘ Ákvörðun þeirra ætti að endurspegla nákvæmlega hvernig Jehóva og Kristur líta á málið. Það sem þeir á táknrænan hátt ‚binda‘ (sakfella) eða ‚leysa‘ (sýkna) á jörðu ætti að vera það sem hefur þá þegar verið bundið eða leyst á himnum — eins og fram kemur af því sem ritað er í innblásnu orði Guðs. Biðji þeir til Jehóva í nafni Jesú verður Jesús „mitt á meðal þeirra“ þeim til aðstoðar. (Matteus 18:18-20, NW, neðanmáls; Varðturninn (í enskri útgáfu), 15. febrúar 1988, bls. 9) Andrúmsloftið á fundum með dómnefnd ætti að sýna að Kristur er sannarlega mitt á meðal þeirra.
Hirðar í fullu starfi
8. Hver er meginábyrgð öldunga gagnvart hjörðinni eins og fordæmi Jehóva og Jesú Krists sýnir? (Jesaja 40:10, 11; Jóhannes 10:11, 27-29)
8 Öldungar eru ekki í fullu starfi sem dómarar. Hins vegar eru þeir hirðar í fullu starfi. Þeirra verk er að græða, ekki refsa. (Jakobsbréfið 5:13-16) Frumhugmyndin að baki gríska orðinu yfir umsjónarmann (episkopos) felur í sér verndandi umhyggju. Í ritinu The Theological Dictionary of the New Testament segir: „Auk þess að þýða hirðir [í 1. Pétursbréfi 2:25], gefur orðið [episkopos] í skyn það starf hirðisins að vaka yfir eða vernda.“ Já, aðalábyrgð þeirra er að vaka yfir sauðunum, vernda þá og halda þeim innan hjarðarinnar.
9, 10. (a) Hvernig lagði Páll áherslu á aðalskyldu öldunga og hvaða spurningu mætti því alveg bera fram? (b) Hvað fela orð Páls í Postulasögunni 20:29 í sér og hvernig gætu öldungar því reynt að fækka dómsmálum?
9 Páll postuli lagði áhersluna á réttu atriðin er hann talaði við öldungana í Efesus: „Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði.“ (Postulasagan 20:28) Páll beinir athyglinni að hirðastarfi, ekki refsingum. Sumir öldungar gætu vel íhugað vandlega eftirfarandi spurningu: ‚Gætum við sparað okkur þann verulega tíma sem fer í að rannsaka og meðhöndla dómsmál ef við eyddum meiri tíma og kröftum til hirðastarfsins?‘
10 Að vísu varar Páll við ‚skæðum vörgum‘ en átaldi þá ekki fyrir að ‚koma ekki blíðlega fram við hjörðina‘? (Postulasagan 20:29, NW) Og þó að hann hafi gefið til kynna að trúfastir umsjónarmenn ættu að reka burt slíka ‚varga,‘ sýna þessi orð ekki að öldungar ættu að fara „blíðlega“ með aðra meðlimi hjarðarinnar? Er sauður verður andlega máttfarinn og heltist úr lestinni, hvers þarfnast hann þá — barsmíða eða lækningar, refsingar eða umönnunar hirðis? (Jakobsbréfið 5:14, 15) Þess vegna ættu öldungar reglulega að taka sér tíma til hirðastarfs. Það gæti haft þær ánægjulegu afleiðingar að minni tíma væri eytti í tímafrek dómsmál þar sem í hlut eiga kristnir menn sem syndin hefur klófest. Öldungum ætti vissulega fyrst og fremst að vera umhugað um að hjálpa og uppörva og stuðla þannig að friði, ró og öryggi meðal fólks Jehóva. — Jesaja 32:1, 2.
Þjónusta góðgerðasamra hirða og dómara
11. Hvers vegna þurfa öldungar, sem starfa í dómnefndum, að hafa til að bera óhlutdrægni og þá „speki, sem að ofan er“?
11 Rækilegra hirðastarf, áður en kristinn maður misstígur sig, gæti vel dregið úr fjölda dómsmála meðal fólks Jehóva. (Samanber Galatabréfið 6:1.) Kristnir umsjónarmenn þurfa engu að síður, vegna syndar mannsins og ófullkomleika, af og til að takast á við mál þar sem rangsleitni hefur átt sér stað. Hvaða meginreglur ættu að leiðbeina þeim? Þær hafa ekki breyst frá dögum Móse eða frumkristninnar. Orð Móse til dómaranna í Ísrael eru enn í gildi: „Hlýðið á mál bræðra yðar og dæmið réttlátlega, . . . Gjörið yður eigi mannamun í dómum.“ (5. Mósebók 1:16, 17) Óhlutdrægni er einkenni þeirrar „speki, sem að ofan er,“ speki sem er svo bráðnauðsynleg fyrir öldunga sem sitja í dómnefndum. (Jakobsbréfið 3:17; Orðskviðirnir 24:23) Slík speki hjálpar þeim að sjá muninn á veikleika og vonsku.
12. Í hvaða skilningi þurfa dómarar að vera ekki aðeins réttlátir heldur einnig góðir menn?
12 Öldungar verða að ‚dæma réttlátlega‘ í samræmi við staðla Jehóva um rétt og rangt. (Sálmur 19:10) Þó að þeir kappkosti að vera réttlátir menn ættu þeir jafnframt að reyna að vera góðir menn í ljósi þess greinarmunar sem Páll gerir í Rómverjabréfinu 5:7, 8. Í athugasemd um þessi vers í greininni um „Réttlæti“ segir í ritinu Insight on the Scriptures: „Notkun gríska orðsins sýnir að einstaklingur, sem er eftirtektarverður fyrir eða nafntogaður vegna góðsemi, er maður sem er góðgjarn (fús að gera gott eða gera öðrum gagn) og góðgerðasamur (sýnir slíka góðsemi í verki). Honum er ekki aðeins umhugað um að gera það sem réttlætið krefst af honum heldur gengur hann lengra, hvattur af heilnæmri hugulsemi við aðra og lönguninni til að gera öðrum gagn og hjálpa þeim.“ (2. bindi, bls. 809) Öldungar, sem eru ekki aðeins réttlátir heldur einnig góðir, munu meðhöndla misgerðamann með vingjarnlegri tillitssemi. (Rómverjabréfið 2:4) Þeir ættu að vilja sýna miskunn og hluttekningarsemi. Þeir ættu að gera hvað þeir geta til að hjálpa þeim sem brotið hefur af sér að sjá nauðsyn þess að iðrast, jafnvel þó hann virðist í fyrstu sýna lítil viðbrögð við viðleitni þeirra.
Viðeigandi viðhorf á dómnefndarfundum
13. (a) Hvað hættir öldungur ekki að vera þegar hann gegnir hlutverki dómara? (b) Hvaða ráðleggingar Páls eiga einnig við á dómnefndarfundum?
13 Krefjist aðstæður þess að dómnefnd yfirheyri málsaðila ættu umsjónarmennirnir ekki að gleyma að þeir eru enn þá hirðar að eiga við sauði Jehóva og settir undir ‚góða hirðinn.‘ (Jóhannes 10:11) Ráðleggingarnar, sem Páll gaf um reglulega hjálp til þeirra sauða sem eiga í erfiðleikum, eiga við af jafnmiklum þunga á fundum sem dómnefnd heldur með málsaðilum. Hann skrifaði: „Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka. Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ — Galatabréfið 6:1, 2.b
14. Hvernig ættu umsjónarmenn að líta á dómnefndarfundi og hvert ætti að vera viðhorf þeirra til misgerðamanns?
14 Frekar en að líta á sjálfa sig sem æðri dómara saman komna til að útbýta refsingu ættu öldungar, sem sitja í dómnefndum, að líta á yfirheyrslurnar sem annan flöt á hirðastarfi sínu. Einn af sauðum Jehóva á í vandræðum. Hvað geta þeir gert til að bjarga honum? Er of seint að hjálpa þessum sauði sem hefur villst frá hjörðinni? Við skulum vona að svo sé ekki. Öldungar ættu að hafa jákvætt viðhorf gagnvart því að sýna miskunn þar sem hún á við. Það er ekki svo að þeir eigi að lækka staðla Jehóva ef alvarleg synd hefur verið drýgð. En séu þeir vakandi fyrir hverjum þeim aðstæðum sem eru til málsbóta mun það hjálpa þeim að sýna miskunn þar sem það er mögulegt. (Sálmur 103:8-10; 130:3) Því miður eru sumir misgerðamenn svo forhertir í viðhorfum sínum að öldungunum ber skylda til að sýna festu, en þó aldrei hörku. — 1. Korintubréf 5:13.
Tilgangur dómnefndarfunda
15. Hvað ætti fyrst að kanna þegar alvarleg vandamál koma upp milli einstaklinga?
15 Þegar alvarleg vandamál koma upp milli einstaklinga munu vitrir öldungar fyrst finna út hvort þeir sem í hlut eiga hafa reynt að útkljá málið sjálfir í anda leiðbeininganna í Matteusi 5:23, 24 eða Matteusi 18:15. Hafi það ekki borið árangur gætu ráðleggingar frá einum eða tveimur öldungum ef til vill dugað til. Dómsmeðferð er því aðeins nauðsynleg að um alvarlega synd sé að ræða sem gæti leitt til brottreksturs. (Matteus 18:17; 1. Korintubréf 5:11) Það verða að vera ótvíræð biblíuleg rök fyrir því að skipa dómnefnd. (Sjá Varðturninn, 1. apríl 1990, bls. 25, 26.) Sé dómnefnd skipuð ætti að velja þá öldunga sem hæfastir eru til að taka á því sérstaka máli.
16. Hverju reyna öldungar að ná fram með dómnefndarfundum?
16 Hverju reyna öldungar að koma til leiðar með fundum með málsaðilum? Í fyrsta lagi er ómögulegt að dæma með réttvísi án þess að vita hver sannleikurinn er. Eins og í Ísrael þarf að „rækilega rannsaka“ alvarleg mál. (5. Mósebók 13:14; 17:4) Þannig er eitt af markmiðum dómnefndarfunda að komast að staðreyndum málsins. En það er hægt að gera og það ætti að gera með kærleika. (1. Korintubréf 13:4, 6, 7) Þegar staðreyndirnar eru komnar fram munu öldungarnir gera hvaðeina sem nauðsynlegt er til að vernda söfnuðinn og viðhalda innan hans háleitum stöðlum Jehóva og frjálsu flæði anda hans. (1. Korintubréf 5:7, 8) Tilgangur fundanna er samt sem áður einnig að bjarga hætt komnum syndara sé þess nokkur kostur. — Samanber Lúkas 15:8-10.
17. (a) Hvernig skyldi sakborningur meðhöndlaður á dómnefndarfundum og í hvaða tilgangi? (b) Hvers krefst það af meðlimum dómnefndarinnar?
17 Ákærðan mann ætti aldrei að meðhöndla öðruvísi en einn af sauðum Guðs. Hann skyldi meðhöndlaður blíðlega. Hafi synd (eða syndir) verið drýgð er það tilgangur réttlátra dómara að hjálpa syndaranum að komast aftur á rétta braut, skilja hvað sé rangt við hegðun hans, iðrast og vera þannig hrifsaður úr „snöru djöfulsins.“ Það kallar á áhrifaríka „fræðslu“ og ‚hógværa ögun‘ eða mildilegar leiðbeiningar. (2. Tímóteusarbréf 2:24-26; 4:2) Hvað ef syndarinn viðurkennir þá að hann hafi syndgað, finnur sárt til í hjarta sínu og biður Jehóva fyrirgefningar? (Samanber Postulasöguna 2:37.) Sé nefndin sannfærð um að hann vilji einlæglega fá hjálp ætti að öllu jöfnu ekki að vera þörf á að gera hann rækan. — Sjá Varðturninn, 1. ágúst 1983, bls. 31, grein 1.
18. (a) Hvenær ætti dómnefnd að sýna festu í að vísa misgerðamanni úr söfnuðinum? (b) Með hvaða hryggilega staðreynd í huga ættu öldungar að leggja sig fram í þágu villuráfandi sauða?
18 Standi meðlimir dómnefndar á hinn bóginn frammi fyrir dæmi um iðrunarlaust fráhvarf, viljandi uppreisn gegn lögum Jehóva eða hreinni vonsku, ber þeim skylda til að vernda hina meðlimi safnaðarins með því að gera þann rækan sem er brotlegur og iðrunarlaus. Dómnefndinni er ekki skylt að halda fundi oftsinnis með syndaranum eða leggja honum orð í munn, reyna að þvinga hann til að iðrast sé það augljóst að hann skortir eftirsjá Guði að skapi.c Á síðustu árum hefur um 1 af hundraði boðbera verið gerður rækur á ári hverju um heim allan. Það þýðir að af um það bil hverjum hundrað sauðum, sem haldast innan hjarðarinnar, tapast einn — að minnsta kosti um tíma. Ef haft er í huga hve mikinn tíma og erfiði það kostar að leiða einstakling inn í hjörðina, er þá ekki hryggilegt að vita að tugir þúsunda eru ‚seldir aftur Satan á vald‘ á hverju ári? — 1. Korintubréf 5:5.
19. Hverju ættu öldungar, sem sitja í dómnefnd, aldrei að gleyma og hvert verður þá markmið þeirra?
19 Öldungar sem hefja athugun á dómsmáli ættu að muna að flest dæmi um synd í söfnuðinum eru vegna veikleika, ekki vonsku. Þeir ættu aldrei að gleyma dæmisögu Jesú um týnda sauðinn sem hann lauk með orðunum: „Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem gjörir iðrun, en yfir níutíu og níu réttlátum, er ekki hafa iðrunar þörf.“ (Lúkas 15:7) Svo sannarlega „vill [Jehóva] ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:9) Megi dómnefndir um allan heim gera sitt ýtrasta með hjálp Jehóva til að valda gleði á himni með því að hjálpa misgerðamönnum að sjá nauðsyn þess að iðrast og snúa fótum sínum aftur inn á mjóa veginn sem liggur til eilífs lífs. — Matteus 7:13, 14.
[Neðanmáls]
a Varðandi afstöðu öldunga af hinum öðrum sauðum til hægri handar Krists, sjá bókina Revelation — Its Grand Climax At Hand!, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc., bls. 136, neðanmáls.
c Sjá Varðturninn, 1. janúar 1982, bls. 16, grein 24.
Upprifjunarspurningar
◻ Hvert ætti að vera aðaláhugamál öldunga er þeir fylgja fordæmi hirðisins mikla og góða hirðisins?
◻ Á hvaða vegu geta öldungar leitast við að draga úr fjölda dómsmála?
◻ Í hvaða skilningi þurfa dómarar að vera ekki aðeins réttlátir heldur líka góðir?
◻ Hvernig ætti að meðhöndla misgerðamann á fundi með dómnefnd og í hvaða tilgangi?
◻ Hvers vegna er það örþrifaráð að gera einhvern rækan?
[Mynd á blaðsíðu 16]
Sé hirðastarfi sinnt í tíma má koma í veg fyrir mörg dómsmál.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Jafnvel meðan á dómnefndarfundi stendur ættu öldungar að reyna í mildum anda að koma misgerðamanni inn á rétta braut.