Játaðu opinberlega til hjálpræðis
„Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun hólpinn verða.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 10:13.
1. Hvaða viðvaranir hafa verið gefnar í aldanna rás?
MANNKYNSSAGAN segir frá nokkrum ‚dögum Jehóva.‘ Flóðið á dögum Nóa, eyðing Sódómu og Gómorru og eyðing Jerúsalem árið 607 f.o.t. og árið 70, voru miklir og ógurlegir dagar Jehóva. Þetta voru refsingardagar þeirra sem gerðu uppreisn gegn Jehóva. (Malakí 4:5; Lúkas 21:22) Á þessum dögum fórust margir vegna illsku sinnar. En sumir björguðust. Jehóva lét vara menn við svo að hinir illu vissu af yfirvofandi hamförum og réttsinnaðir menn fengju tækifæri til að bjargast.
2, 3. (a) Í hvaða spádómlega viðvörun var vitnað á hvítasunnunni? (b) Hvað þurfti til að ákalla nafn Jehóva frá og með hvítasunnunni árið 33?
2 Eyðing Jerúsalem árið 70 er einstakt dæmi um þetta. Spámaðurinn Jóel spáði henni næstum 900 árum áður og skrifaði: „Ég mun láta tákn verða á himni og á jörðu: blóð, eld og reykjarstróka. Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður en hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva] kemur.“ Hvernig gat nokkur maður lifað af þennan hörmungatíma? Jóel skrifaði vegna innblásturs: „Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast. Því að á Síonfjalli og í Jerúsalem mun frelsun verða, eins og [Jehóva] hefir sagt, meðal flóttamannanna, sem [Jehóva] kallar.“ — Jóel 3:3-5.
3 Á hvítasunnunni árið 33 ávarpaði Pétur postuli hóp Gyðinga og trúskiptinga í Jerúsalem og vitnaði í spádóm Jóels. Hann sýndi fram á að áheyrendurnir mættu búast við að spádómurinn uppfylltist á þeirra dögum: „Ég mun láta undur verða á himnum uppi og tákn á jörðu niðri, blóð og eld og reykjarmökk. Sólin mun snúast í myrkur og tunglið í blóð, áður dagur [Jehóva] kemur, hinn mikli og dýrlegi. En hver sá, sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast.“ (Postulasagan 2:16-21) Fólkið, sem hlýddi á Pétur, var allt undir Móselögmálinu svo að það þekkti nafn Jehóva. Pétur útskýrði að þaðan í frá myndi það fela eitthvað meira í sér að ákalla nafn Jehóva. Það fæli sérstaklega í sér að láta skírast í nafni Jesú, hans sem hafði verið drepinn og síðan reistur upp til ódauðleika á himnum. — Postulasagan 2:37, 38.
4. Hvaða boðskap boðuðu kristnir menn?
4 Frá og með hvítasunnunni útbreiddu kristnir menn orðið um hinn upprisna Jesú. (1. Korintubréf 1:23) Þeir kunngerðu að menn gætu orðið andlegir kjörsynir Jehóva Guðs og orðið hluti af nýjum „Ísrael Guðs,“ andlegri þjóð sem myndi „víðfrægja dáðir hans.“ (Galatabréfið 6:16; 1. Pétursbréf 2:9) Þeir sem væru trúfastir til dauða myndu erfa ódauðleika á himnum sem samerfingjar Jesú í himnesku ríki hans. (Matteus 24:13; Rómverjabréfið 8:15, 16; 1. Korintubréf 15:50-54) Þessir kristnu menn áttu enn fremur að boða komu hins mikla og ógurlega dags Jehóva. Þeir urðu að vara gyðingaheiminn við því að hann yrði fyrir meiri þrengingu en nokkurri sem komið hefði yfir Jerúsalem og gyðingaþjóðina fram til þessa. En sumir myndu komast af. Hverjir? Þeir sem ákölluðu nafn Jehóva.
„Á síðustu dögum“
5. Hvaða spádómar hafa uppfyllst á okkar dög- um?
5 Að mörgu leyti var ástandið á þeim tíma fyrirboði þess sem við sjáum núna. Frá 1914 hefur mannkynið lifað sérstaka tíma sem Biblían kallar ‚endalokin,‘ ‚endalok veraldar‘ og ‚síðustu daga.‘ (Daníel 12:1, 4; Matteus 24:3-8; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Á okkar öld hafa grimmileg stríð, taumlaust ofbeldi, þjóðfélagshrun og umhverfiseyðing uppfyllt spádóma Biblíunnar með einstökum hætti. Allt er þetta hluti táknsins sem Jesús spáði og gefur til kynna að mannkynið sé í þann mund að finna fyrir hinum endanlega, ógurlega degi Jehóva. Hann nær hámarki í stríðinu við Harmagedón, hástigi ‚þeirrar miklu þrengingar sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða aftur.‘ — Matteus 24:21; Opinberunarbókin 16:16.
6. (a) Hvernig hefur Jehóva unnið að björgun auðmjúkra manna? (b) Hvar finnum við leiðbeiningar Páls um það hvernig megi bjargast?
6 Um leið og eyðingardagurinn nálgast vinnur Jehóva að hjálpræði og björgun auðmjúkra manna. Núna á ‚endalokatímanum‘ hefur hann safnað saman þeim síðustu af hinum andlega Ísrael Guðs, og frá fjórða áratugnum hefur hann beint athygli jarðneskra þjóna sinna að því að safna saman ‚miklum múgi, sem enginn getur tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.‘ Sem hópur koma þeir lifandi úr „þrengingunni miklu.“ (Opinberunarbókin 7:9, 14) En hvernig getur hver og einn gert björgun sína vissa? Páll postuli svarar þeirri spurningu. Í Rómverjabréfinu 10. kafla gefur hann góð ráð um björgun — ráð sem áttu við á hans dögum og eiga aftur við á okkar tímum.
Bæn um björgun
7. (a) Hvaða von er bent á í Rómverjabréfinu 10:1, 2? (b) Af hverju gat Jehóva nú látið boða „fagnaðarerindið“ enn víðar?
7 Þegar Páll skrifaði Rómverjabréfið var Jehóva búinn að hafna Ísrael sem þjóð. Engu að síður sagði postulinn: „Það er hjartans ósk mín og bæn til Guðs, að þeir megi hólpnir verða.“ Hann vonaðist til að einstakir Gyðingar kæmust til nákvæmrar þekkingar á vilja Guðs sem leiddi til þess að þeir björguðust. (Rómverjabréfið 10:1, 2) Auk þess vildi Jehóva að allur mannheimurinn, sem iðkaði trú, bjargaðist eins og fram kemur í Jóhannesi 3:16: „Svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ Lausnarfórn Jesú opnaði þessa stórkostlegu hjálpræðisleið. Eins og á dögum Nóa og á öðrum dómsdögum, sem komu í kjölfarið, lætur Jehóva boða ‚fagnaðarerindi‘ sem vísar veginn til hjálpræðis. — Markús 13:10, 19, 20.
8. Hverjum sýna sannkristnir menn velvild nú á dögum eftir fyrirmynd Páls og hvernig?
8 Páll sýndi bæði Gyðingum og heiðingjum velvild og prédikaði við hvert tækifæri. Hann „reyndi að sannfæra bæði Gyðinga og Grikki.“ Hann sagði öldungunum í Efesus: „Ég dró ekkert undan, sem yður mátti að gagni verða, heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum og vitnaði bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú.“ (Postulasagan 18:4; 20:20, 21) Vottar Jehóva nú á tímum leggja sig á líkan hátt fram við að prédika, bæði fyrir þeim sem kalla sig kristna og öllum öðrum, „allt til endimarka jarðarinnar.“ — Postulasagan 1:8; 18:5.
Að játa „orð trúarinnar“
9. (a) Til hvers konar trúar hvetur Rómverjabréfið 10:8, 9? (b) Hvenær og hvernig ættum við að játa trú okkar?
9 Sterk trú er forsenda hjálpræðis. Páll vitnaði í 5. Mósebók 30:14 og sagði: „‚Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu.‘ Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum.“ (Rómverjabréfið 10:8) Þegar við prédikum „orð trúarinnar“ festir það æ dýpri rætur í hjörtum okkar. Þannig var það hjá Páli og orð hans í framhaldinu geta styrkt ásetning okkar að vera eins og hann í því að koma trúnni á framfæri við aðra: „Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn — og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða.“ (Rómverjabréfið 10:9) Þessi játning er gerð í annarra áheyrn við skírnina og verður að halda áfram með kostgæfilegum vitnisburði meðal almennings um alla hina stórfenglegu þætti sannleikans. Þessi sannleikur fjallar um hið dýrmæta nafn alvalds Drottins Jehóva, um Messíasarkonung okkar og lausnara, Drottin Jesú Krist og um hin stórkostlegu guðsríkisfyrirheit.
10. Hvernig verðum við að fara með „orð trúarinnar“ í samræmi við Rómverjabréfið 10:10, 11?
10 Sá sem tekur ekki við þessu ‚orði trúarinnar‘ og fer eftir því á ekkert hjálpræði í vændum eins og postulinn segir: „Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis. Ritningin segir: ‚Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða.‘“ (Rómverjabréfið 10:10, 11) Við verðum að fá nákvæma þekkingu á þessu ‚orði trúarinnar‘ og halda áfram að hlúa að því í hjörtum okkar þannig að við finnum hjá okkur hvöt til að segja öðrum frá því. Jesús sjálfur minnir okkur á: „Þann sem blygðast sín fyrir mig og mín orð hjá þessari ótrúu, syndugu kynslóð, mun Mannssonurinn blygðast sín fyrir, er hann kemur í dýrð föður síns með heilögum englum.“ — Markús 8:38.
11. Hve umfangsmikil þarf prédikun fagnaðarerindisins að vera og hvers vegna?
11 Eins og spámaðurinn Daníel sagði fyrir skína „hinir vitru . . . eins og ljómi himinhvelfingarinnar“ þegar vitnisburðurinn um Guðsríki breiðist út til endimarka jarðar. Þeir ‚leiða marga til réttlætis‘ og sönn þekking vex því að Jehóva varpar æ skærara ljósi á spádómana um endalokatímann. (Daníel 12:3, 4) Þetta er hjálpræðisboðskapur sem er nauðsynlegur til að allir sem unna sannleika og réttlæti bjargist.
12. Hvernig tengist Rómverjabréfið 10:12 verkefni engilsins sem lýst er í Opinberunarbókinni 14:6?
12 Páll postuli heldur áfram: „Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann.“ (Rómverjabréfið 10:12) Það þarf að prédika „fagnaðarerindið“ enn víðar nú á dögum — fyrir öllum þjóðum til ystu endimarka jarðarinnar. Engillinn í Opinberunarbókinni 14:6 heldur áfram að fljúga um háhvolf himins og trúir okkur fyrir „eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“ Hvernig er það til gagns þeim sem heyra?
Að ákalla nafn Jehóva
13. (a) Hver er árstextinn 1998? (b) Af hverju er þessi árstexti mjög viðeigandi núna?
13 Páll vitnar í Jóel 3:5 og lýsir yfir: ‚Hver sem ákallar nafn Jehóva mun hólpinn verða.‘ (Rómverjabréfið 10:13) Það er sannarlega viðeigandi að þessi orð skuli hafa verið valin sem árstexti votta Jehóva árið 1998! Aldrei hefur verið jafnmikilvægt að sækja fram í trausti til Jehóva og kunngera nafn hans og hinn stórkostlega tilgang sem það stendur fyrir! Á síðustu dögum hins núverandi, spillta heimskerfis ómar kallið eins og það gerði á fyrstu öld: „Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð.“ (Postulasagan 2:40) Þetta er sterk hvatning til allra guðhræddra manna um víða veröld um að ákalla Jehóva um eigið hjálpræði eða björgun og þeirra sem hlusta á þá boða fagnaðarerindið meðal almennings. — 1. Tímóteusarbréf 4:16.
14. Hvaða bjarg verðum við að ákalla til hjálpræðis?
14 Hvað gerist þegar hinn mikli dagur Jehóva rennur upp hér á jörð? Fæstir munu leita hjálpræðis hjá Jehóva. Mannkynið í heild mun „segja við fjöllin og hamrana: ‚Hrynjið yfir oss og felið oss fyrir ásjónu hans, sem í hásætinu situr, og fyrir reiði lambsins.‘“ (Opinberunarbókin 6:15, 16) Það treystir á stofnanir og samtök þessa heimskerfis sem fjöllin tákna. En það væri miklu betra fyrir það að treysta á stærsta og mesta bjargið, Jehóva Guð! (5. Mósebók 32:3, 4) Davíð konungur ávarpaði hann: „[Jehóva], bjarg mitt og vígi og frelsari minn.“ Jehóva er ‚klettur hjálpræðis okkar.‘ (Sálmur 18:3; 95:1) Nafn hans er „sterkur turn,“ eini ‚turninn‘ sem er nógu sterkur til að vernda okkur í hinni komandi kreppu. (Orðskviðirnir 18:10) Þess vegna er lífsnauðsynlegt að eins margir og hægt er af næstum sex milljörðum jarðarbúa ákalli nafn Jehóva í trúfesti og einlægni.
15. Hvað gefur Rómverjabréfið 10:14 til kynna í sambandi við trúna?
15 Páll postuli spyr því næst viðeigandi spurningar: „Hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á?“ (Rómverjabréfið 10:14) Enn kann að vera hægt að hjálpa miklum fjölda að tileinka sér „orð trúarinnar“ til að ákalla Jehóva til hjálpræðis. Trú er lífsnauðsynleg. Páll segir í öðru bréfi: „Án trúar er ógerlegt að þóknast [Guði], því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) En hvernig eiga milljónir manna til viðbótar eftir að taka trú á Guð? Páll spyr í bréfinu til Rómverja: „Hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um?“ (Rómverjabréfið 10:14) Sér Jehóva til þess að þeir geti heyrt? Það gerir hann sannarlega! Páll heldur áfram: „Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?“
16. Af hverju eru prédikarar nauðsynlegir í ráðstöfun Guðs?
16 Af rökfærslu Páls er deginum ljósara að það er þörf á prédikurum. Jesús gaf í skyn að sú yrði raunin „allt til enda veraldar.“ (Matteus 24:14; 28:18-20) Prédikun er nauðsynlegur þáttur í ráðstöfun Jehóva til að hjálpa fólki að ákalla nafn hans svo að það bjargist. Jafnvel í kristna heiminum gerir þorri manna ekkert til að heiðra dýrmætt nafn Guðs. Margir rugla Jehóva saman við tvo aðra í óskýranlegri þrenningarkenningu. Og margir falla líka í þann flokk sem talað er um í Sálmi 14:1 og 53:2: „Heimskinginn segir í hjarta sínu: ‚[Jehóva] er ekki til.‘“ Þeir þurfa að fá að vita að Jehóva er hinn lifandi Guð og þeir verða að skilja allt sem nafn hans stendur fyrir til að bjargast í þrengingunni miklu sem er yfirvofandi.
‚Fagurt fótatak‘ prédikarans
17. (a) Hvers vegna er viðeigandi að Páll skuli vitna í endurreisnarspádóm? (b) Hvað er fólgið í ‚fögru fótataki‘?
17 Páll postuli ber fram eina mikilvæga spurningu í viðbót: „Hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: ‚Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu.‘“ (Rómverjabréfið 10:15) Páll vitnar hér í Jesaja 52:7 sem er hluti endurreisnarspádóms er ræst hefur frá 1919. Eins og áður sendir Jehóva ‚fagnaðarboðann sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur og hjálpræðið boðar.‘ Hlýðnir boðinu æpa smurðir „varðmenn“ Guðs og félagar þeirra fagnaðaróp. (Jesaja 52:7, 8) Fætur þeirra sem boða hjálpræðið þreytast stundum og verða jafnvel rykugir er þeir ganga frá einu húsinu til annars, en andlitin ljóma af gleði. Þeir vita að Jehóva hefur falið þeim að boða fagnaðarboðskap friðarins og hugga sorgmædda og hjálpa þeim að ákalla nafn hans til hjálpræðis.
18. Hvað segir Rómverjabréfið 10:16-18 um endanlegan árangur þess að boða fagnaðarerindið?
18 Hvort sem fólk ‚trúir því sem boðað er‘ eða kýs að óhlýðnast því eru orð Páls dagsönn: „Hafa þeir ekki heyrt? Jú, vissulega, ‚raust þeirra hefur borist út um alla jörðina og orð þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar.‘“ (Rómverjabréfið 10:16-18) Alveg eins og „himnarnir segja frá Guðs dýrð“ er birtist í sköpunarverki hans, eins verða vottar hans að boða „náðarár [Jehóva] og hefndardag Guðs vors, til að hugga alla hrellda.“ — Sálmur 19:2-5; Jesaja 61:2.
19. Hvað verður um þá sem ‚ákalla nafn Jehóva‘ nú á dögum?
19 Hinn mikli og ógurlegi dagur Jehóva nálgast óðfluga. „Æ, sá dagur! Því að dagur [Jehóva] er nálægur, og hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.“ (Jóel 1:15; 3:4) Það er bæn okkar að enn eigi mikill fjöldi manna eftir að taka fljótt við fagnaðarerindinu og flykkjast inn í skipulag Jehóva. (Jesaja 60:8; Habakkuk 2:3) Mundu hvernig dagar Jehóva áður fyrr höfðu eyðingu í för með sér fyrir hina óguðlegu — á dögum Nóa, á dögum Lots og á dögum hins fráhverfa Ísraels og Júda. Við stöndum núna á þröskuldi mestu þrengingar sögunnar þegar stormur Jehóva sópar illskunni burt af yfirborði jarðar svo að þar geti risið eilíf friðarparadís. Verður þú einn þeirra sem „ákallar nafn [Jehóva]“ í trúfesti? Ef svo er skaltu fagna! Þú hefur loforð Guðs sjálfs fyrir því að þú verðir hólpinn og bjargist. — Rómverjabréfið 10:13.
Hvert er svarið?
◻ Hvað nýtt var boðað eftir hvítasunnuna árið 33?
◻ Hvernig ættu kristnir menn að gefa gaum að ‚orði trúarinnar‘?
◻ Hvað er átt við með því að ‚ákalla nafn Jehóva‘?
◻ Í hvaða skilningi hafa boðberar Guðsríkis ‚fagurt fótatak‘?
[Myndir á blaðsíðu 26]
Fólk Guðs kunngerir dáðir hans á Púertóríkó, í Senegal, Perú og Papúa Nýju-Gíneu — já um allan hnöttinn.