Kristur leiðir söfnuð sinn
„Guð Drottins vors Jesú Krists . . . hefir . . . gefið hann söfnuðinum svo sem höfuðið yfir öllu.“ — EFESUSBRÉFIÐ 1:17, 22, Ísl. bi. 1912.
1. Hvernig myndu sumir í kirkjufélögum kristna heimsins trúlega svara spurningunni: „Hver er leiðtogi þinn?“ en hverju svara vottar Jehóva?
VOTTAR Jehóva viðurkenna engan mann sem leiðtoga. Páfi rómversk-kaþólsku kirkjunnar, patríarkar grísk-kaþólsku kirknanna eða leiðtogar annarra kirkjudeilda og sértrúarhópa kristna heimsins eiga sér enga hliðstæðu í þeirra skipulagi. Þeirra leiðtogi er Jesús Kristur, höfuð kristna safnaðarins, sem sagði: „Einn er leiðtogi yðar, Kristur.“ — Matteus 23:10.
2. Hvers vegna viðurkenna vottar Jehóva Krist sem höfuð kristna safnaðarins, en hvaða spurninga mætti spyrja?
2 Á hvítasunnudeginum bar Pétur postuli svo vitni: „Ekki steig Davíð upp til himna, en hann segir: [Jehóva] sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni. Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt, að þennan Jesú, sem þér krossfestuð, hefur Guð gjört bæði að Drottni og Kristi.“ (Postulasagan 2:34-36) Við viðurkennum vafalaust öll að Jesús var gerður að Drottni og höfði safnaðarins árið 33, en höfum við tilhneigingu til að líta svo á að hann hafi setið aðgerðarlaus við hægri hönd Jehóva þar til hann var gerður konungur árið 1914? Gerum við okkur fulla grein fyrir að allt frá byrjun hefur Kristur veitt söfnuði sínum virka forystu?
Hvernig söfnuðinum er stjórnað
3. Hvað hét Jesús að senda lærisveinum sínum og hvernig vitum við að hann var ekki að tala um persónu?
3 Kvöldið fyrir dauða sinn sagði Jesús trúföstum postulum sínum: „Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar.“ (Jóhannes 16:7) Hann ætlaði að senda þeim starfskraft, ekki persónu. Það sagði hann berum orðum rétt áður en hann steig upp til himna. Hann sagði við lærisveinana sem saman voru komnir: „Sjá, ég sendi fyrirheit föður míns yfir yður, en verið þér kyrrir í borginni, uns þér íklæðist krafti frá hæðum.“ — Lúkas 24:49.
4. Hvernig var heilagur andi notaður frá og með hvítasunnunni?
4 Trúfastir lærisveinar Jesú dvöldust í Jerúsalem og næsta nágrenni fram að hvítasunnu. Þann dag ‚fylltust þeir allir heilögum anda‘ eins og heitið hafði verið. Pétur bar vitni: „Nú er hann [Jesús] upp hafinn til Guðs hægri handar og hefur af föðurnum tekið við heilögum anda, sem fyrirheitið var, og úthellt honum, eins og þér sjáið og heyrið.“ (Postulasagan 2:4, 33) Með þessum hætti gat Jehóva þessa frumkristnu menn sem andlega syni sína. (Galatabréfið 4:6) Auk þess fékk Jesús andann frá föður sínum sem eins konar verkfæri til að leiða söfnuð sinn á jörðinni úr hárri stöðu sinni við hægri hönd Guðs á himnum.
5, 6. (a) Nefndu aðra leið sem Kristur hefur til að stjórna söfnuði sínum á jörðinni. (b) Nefndu ákveðin dæmi um hvernig Jesús notaði það verkfæri í þágu lærisveina sinna og til stuðnings prédikunarstarfinu.
5 Pétur postuli skrifaði einnig um Jesú: „Uppstiginn til himna, situr [hann] Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.“ (1. Pétursbréf 3:22) Jehóva hefur einnig gefið Kristi forráð yfir englunum í því skyni að veita kristna söfnuðinum virka forystu.
6 Þegar við því lesum í Postulasögunni að ‚engill Jehóva‘ eða „engill Drottins“ hafi látið til sín taka til stuðnings prédikun kristinna manna, eða skorist í leikinn þeim til hjálpar, þá er full ástæða til að ætla að þessir englar hafi starfað eftir fyrirmælum Krists Jesú. (Postulasagan 5:19; 8:26; 10:3-7, 22; 12:7-11; 27:23, 24) Sem „höfuðengillinn Míkael“ hefur Kristur umráð yfir öðrum englum og notaði þá í tengslum við forystu sína fyrir kristna söfnuðinum á fyrstu öldinni. — Júdasarbréfið 9; 1. Þessaloníkubréf 4:16.
Sýnilegt stjórnandi ráð
7. Hvaða aðra aðferð notaði Kristur til að veita söfnuði sínum forystu, og hvaða ritningarstaðir tala um þetta „embætti“?
7 Ritningin gefur líka til kynna að Jesús Kristur hafi notað hóp manna sem stjórnandi ráð til að gefa söfnuði sínum á jörðinni leiðbeiningar og fyrirmæli. Í byrjun virðast aðeins postularnir ellefu hafa setið í þessu stjórnandi ráði. Þegar þeir leituðu vilja Jehóva um val á nýjum postula í stað Júdasar Ískaríots vitnaði Pétur í Sálm 109:8 þar sem stendur: „Annar hljóti embætti hans.“ Síðan báðu Pétur og félagar hans Guð um að velja mann „til að taka þessa þjónustu og postuladóm, sem Júdas vék frá.“ Mattías var valinn til að þjóna „með þeim ellefu.“ — Postulasagan 1:20, 24-26.
8. Hvaða tvö dæmi sýna hvernig Kristur notaði meðlimi hins sýnilega stjórnandi ráðs?
8 Fyrsta skráða dæmið um að postularnir tólf hafi gegnt „embætti“ sínu sem stjórnandi ráð var það þegar þeir völdu andlega hæfa karlmenn til að þjóna bræðrum sínum í frumkristna söfnuðinum. (Postulasagan 6:1-6) Annað dæmið var þegar Filippus tók að prédika Krist fyrir Samverjum. Af því leiddi að „postularnir í Jerúsalem . . . sendu . . . til þeirra þá Pétur og Jóhannes.“ Samverjar byrjuðu ekki að ‚fá heilagan anda‘ fyrr en þessir fulltrúar hins stjórnandi ráðs höfðu lagt hendur yfir þá. — Postulasagan 8:5, 14-17.
Persónuleg forysta Krists
9. Lét Kristur alltaf til sín taka fyrir milligöngu engla eða hins stjórnandi ráðs? Nefndu dæmi.
9 Allt frá því að kristni söfnuðurinn var stofnsettur hafði Kristur því til umráða heilagan anda, engla og sýnilegt stjórnandi ráð til að leiða og stjórna lærisveinum sínum á jörðinni. Fyrir kom að hann lét jafnvel persónulega til sín taka. Til dæmis var það Kristur sjálfur sem sneri Sál frá Tarsus til trúar. (Postulasagan 9:3-6) Þrem dögum síðar talaði Jesús beint til ‚lærisveins nokkurs‘ sem hét Ananías. Jesús sagði honum frá hinu þríþætta hlutverki sem hann ætlaði Sál og sagði: „Þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels.“ (Postulasagan 9:10-15) Kristur kallaði Sál til sérstakra starfa. Sál varð þannig postuli, sá sem sendur er út, betur þekktur sem Páll postuli.
10. Hvernig hafði Kristur persónulega umsjón með prédikunarstarfinu?
10 Kristur hafði persónulega umsjón með prédikunarstarfinu. Hann beitti heilögum anda, sem hann hafði fengið frá Jehóva föður sínum, til að koma trúboðsferðum Páls af stað og sýndi þeim persónulegan áhuga. Við lesum: „Sagði heilagur andi: ‚Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til.‘ . . . Þeir fóru nú, sendir af heilögum anda, til Selevkíu og sigldu þaðan“ af stað í fyrstu trúboðsferðina. (Postulasagan 13:2-4) Af sjálfsögðu gat heilagur andi, starfskraftur Jehóva, hvorki ‚sagt‘ nokkuð eða ‚sent‘ einhvern af eigin rammleik. Það var augsýnilega Kristur, höfuð safnaðarins, sem beitti andanum til að stýra gangi mála.
11. Hvað gerðist á annarri trúboðsferð Páls og hvernig sýnir það glögglega að Jesús notaði heilagan anda til að stýra prédikunarstarfinu?
11 Frásögnin af annarri trúboðsferð Páls er glöggt dæmi um að Jesús hafi beitt heilögum anda til að leiða frumkristna menn. Eftir að Páll og ferðafélagar hans höfðu heimsótt aftur söfnuðina í Líkóníu (hérað í Litlu-Asíu), sem höfðu verið stofnaðir í fyrstu trúboðsferðinni, ætluðu þeir sér að fara vestur á bóginn í gegnum rómverska skattlandið Asíu. Hvers vegna breyttu þeir um áætlun? Vegna þess að „heilagur andi varnaði þeim að boða orðið í Asíu.“ (Postulasagan 15:36, 40, 41; 16:1-6) En hver beitti heilögum anda Jehóva þeim til leiðbeiningar? Versið á eftir svarar því. Þar segir að þegar þeir héldu til norðurs, í því skyni að prédika í Biþiníu, leyfði „andi Jesú“ þeim það ekki. (Postulasagan 16:7) Já, Jesús Kristur notaði heilagan anda, sem hann hafði fengið frá föður sínum, til að stýra prédikunarstarfinu. Hann og faðir hans, Jehóva, vildu að fagnaðarerindið bærist til Evrópu, og Páll fékk sýn þar að lútandi. — Postulasagan 16:9, 10.
Kristur studdi meðlimi hins stjórnandi ráðs
12, 13. Hvað gerðist þegar að Páll kom fyrst til Jerúsalem eftir kristnitöku sína, og hvernig sýndi það sig að Kristur studdi ákvörðun hinna ábyrgu bræðra þar í borg?
12 Þegar Páll postuli hafði fyrst samband við lærisveinana í Jerúsalem voru þeir af eðlilegum ástæðum hikandi við að hitta hann. „En Barnabas tók hann að sér, fór með hann til postulanna.“ (Postulasagan 9:26, 27) Páll var 15 daga með Pétri postula. Hann hitti einnig hálfbróður Jesú, Jakob, sem þá var öldungur í söfnuðinum í Jerúsalem. (Galatabréfið 1:18, 19) Síðar í Postulasögunni kemur fram að öldungarnir í Jerúsalem hafi orðið hluti hins stjórnandi ráðs frumkristna safnaðarins, ásamt postulunum tólf. — Postulasagan 15:2; 21:18.
13 Þann hálfan mánuð, sem Páll dvaldist í Jerúsalem, bar hann vitni fyrir grískumælandi Gyðingum en „þeir leituðust við að ráða hann af dögum.“ Lúkas bætir því við að ‚þegar bræðurnir hafi orðið þessa vísir hafi þeir farið með hann til Sesareu og sent hann áfram til Tarsus.‘ (Postulasagan 9:28-30) Hver stóð að baki þessari viturlegu ávörðun? Mörgum árum síðar, þegar Páll greinir frá þessum atburðum, segir hann að Jesús hafi birst sér og gefið sér fyrirmæli um að fara í skyndingu frá Jerúsalem. Þegar Páll maldaði í móinn bætti Jesús við: „Far þú, því að ég mun senda þig til heiðingja langt í burtu.“ (Postulasagan 22:17-21) Úr hæðum fylgdist Kristur gaumgæfilega með gangi mála og greip inn í atburðarásina bæði fyrir milligöngu ábyrgðra bræðra í Jerúsalem og með því að tala beint til Páls.
14. Hvernig má sjá af samanburði Galatabréfsins og Postulasögunnar að Kristur stjórnaði því að hið stjórnandi ráð skyldi halda fund um umskurnina?
14 Gaumgæfilegur lestur Ritningarinnar sýnir einnig glöggt að Kristur stóð að baki hinum þýðingarmikla fundi hins stjórnandi ráðs, sem haldinn var til að skera úr um hvort kristnir menn af heiðnum þjóðum yrðu að umskerast og lúta lögmáli Móse eða ekki. Postulasagan segir um það þegar þessi deila kom upp: „Réðu menn [vafalaust þeir bræður sem ábyrgðina báru, öldungarnir í söfnuðinum í Antíokkíu] af, að Páll og Barnabas og nokkrir þeirra aðrir færu á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings.“ (Postulasagan 15:1, 2) En þegar Páll greinir síðar frá þeim aðstæðum sem leiddu til þess að hann fór til Jerúsalem til að fá skorið úr deilunni um umskurnina, segir hann: „Ég fór þangað eftir opinberun.“ (Galatabréfið 2:1-3; samanber 1:12.) Sem höfuð safnaðarins vildi Kristur að allt hið sýnilega stjórnandi ráð kæmi saman til að skera úr um þetta alvarlega kenningaratriði. Með heilögum anda leiddi hann hugsanir þessara guðræknu manna svo að þeir kæmust að réttri niðurstöðu. — Postulasagan 15:28, 29.
Óvenjuleg ákvörðun
15, 16. (a) Hvaða fyrirmæli gaf hið stjórnandi ráð Páli eftir heimkomu sína úr þriðju trúboðsferðinni? (b) Hvers vegna geta þessi fyrirmæli virst undarleg og hvers vegna fór Páll eftir þeim? (c) Hvaða spurning vaknar?
15 Annað athyglisvert dæmi um að Kristur hafi stjórnað atburðarásinni af himnum ofan kemur í ljós þegar við skoðum hvað gerðist eftir þriðju trúboðsferð Páls. Lúkas greinir frá því að eftir komu sína til Jerúsalem hafi Páll skýrt þeim úr hinu stjórnandi ráði, sem viðstaddir voru, frá öllu sem gerst hafði. Lúkas skrifar: „Næsta dag gekk Páll með oss til Jakobs, og allir öldungarnir komu þangað. Páll heilsaði þeim og lýsti síðan nákvæmlega öllu, sem Guð hafði gjört meðal heiðingjanna með þjónustu hans.“ (Postulasagan 21:17-19) Eftir að hafa hlýtt á Pál gaf ráðið honum skýr fyrirmæli og sagði: „Gjör því þetta, sem vér nú segjum þér.“ Fyrirmælin voru á þá lund að hann skyldi fara í musterið og láta opinberlega í ljós að hann væri ekki ‚að kenna öllum Gyðingum, sem eru meðal heiðingja, að hverfa frá Móse og segja að þeir skyldu hvorki umskera börn sín né fylgja siðum þeirra.‘ — Postulasagan 21:20-24.
16 Sumir gætu efast um að þessi ákvörðun hafi verið viturleg. Eins og fram hefur komið höfðu Jakob, og kannski fleiri öldungar sem höfðu verið viðstaddir í bæði skiptin, mörgum árum fyrr sent Pál frá Jerúsalem vegna þess að ‚grískumælandi Gyðingar‘ ógnuðu lífi hans. (Postulasagan 9:29) Þrátt fyrir það fylgdi Páll fyrirmælum þeirra í samræmi við það sem hann hafði skrifað í 1. Korintubréfi 9:20. En líkar orsakir hafa líkar afleiðingar. „Gyðingar frá [rómverska skattlandinu] Asíu“ stofnuðu til uppþots og reyndu að ráða Pál af dögum. Aðeins með skjótum viðbrögðum rómverskra hermanna var komið í veg fyrir að hann yrði tekinn af lífi án dóms og laga. (Postulasagan 21:26-32) En hvers vegna lét Kristur, höfuð safnaðarins, hið stjórnandi ráð gefa Páli fyrirmæli um að fara inn í musterið?
17. Hvernig sýndi það sig að þessi óvenjulega ákvörðun kom til vegna handleiðslu Krists?
17 Svarið birtist í því sem gerðist aðra nóttina eftir að Páll var handtekinn. Hann hafði gefið góðan vitnisburð þeim mannfjölda, sem hafði reynt að drepa hann, og síðan æðstaráðinu daginn eftir. (Postulasagan 22:1-21; 23:1-6) Aftur lá við að hann yrði tekinn af lífi án dóms og laga. En þessa nótt birtist Jesús honum og sagði: „Vertu hughraustur! Svo sem þú hefur vitnað um mig í Jerúsalem eins ber þér og að vitna í Róm.“ (Postulasagan 23:11) Við skulum muna eftir hinu þríþætta hlutverki sem Kristur hafði sagt að Páll skyldi gegna. (Postulasagan 9:15) Páll hafði borið nafni Krists vitni ‚fyrir heiðingjum‘ og ‚börnum Ísraels‘ en nú var kominn tími til að hann bæri honum vitni ‚fyrir konungum.‘ Sökum þessarar ákvörðunar hins stjórnandi ráðs fékk Páll tækifæri til að bera vitni fyrir hinum rómversku landstjórum Felix og Festusi, Heródesi Agrippa konungi öðrum, og að síðustu Neró Rómarkeisara. (Postulasagan 24. til 26. kafli; 27:24) Hver getur dregið í efa að Kristur hafi staðið að baki öllu þessu?
Kristur veitir enn söfnuði sínum forystu
18. Hvað sagði Jesús Kristur áður en hann steig upp til himna?
18 Áður en Kristur yfirgaf lærisveina sína og steig upp til himna til að setjast við hægri hönd föður síns sagði hann: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar, og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ — Matteus 28:18-20.
19. Hvernig beitti Kristur því valdi, sem Guð gaf honum, á fyrstu öldinni, og hvað verður skoðað í greininni sem fylgir?
19 Í Postulasögunni, sem segir sögu fyrstu ára kristninnar, kemur glögglega fram að Kristur beitti valdi sínu til að leiða söfnuð sinn á jörðinni. Til þess notaði hann heilagan anda, englana og hið stjórnandi ráð myndað af postulunum tólf og öldungum safnaðarins í Jerúsalem. Jesús sagði að hann myndi vera með lærisveinum sínum allt til enda veraldar. Það tímabil stendur núna yfir. Í greininni á eftir munum við komast að raun um með hvaða hætti hann er enn höfuð kristna safnaðarins og ræða um hvernig hann leiðir ‚sauði‘ sína nú á dögum.
Minnisatriði
◻ Hvers vegna viðurkenna vottar Jehóva engan mann sem leiðtoga sinn?
◻ Hvernig notaði Kristur heilagan anda til að leiða frumkristna söfnuðinn?
◻ Hvernig notaði Kristur engla til að leiða frumkristna menn?
◻ Hvernig notaði Kristur sýnilegt stjórnandi ráð til að stýra söfnuði sínum á jörð?
◻ Hvernig greip Kristur stundum persónulega inn í gang mála?
[Kort á blaðsíðu 21]
(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)
Önnur trúboðsferð Páls
Antíokkía
Selevkía
KILIKÍA
Tarsus
Derbe
KAPPADOKÍA
PAMFÍLÍA
GALATÍA
Lýstra
Íkóníum
Antíokkía
LÝKÍA
ASÍA
BIÞINÍA OG PONTUS
Tróas
MAKEDÓNÍA
Filippí
Þessaloníka
[Mynd á blaðsíðu 19]
Kristur leiddi söfnuð sinn meðal annars fyrir milligöngu sýnilegs stjórnandi ráðs.