NÁMSGREIN 40
Mörgum beint til réttlætis
„Þeir sem beina mörgum til réttlætis verða sem stjörnur um aldur og ævi.“ – DAN. 12:3.
SÖNGUR 151 Hann mun kalla
YFIRLITa
1. Hvaða spennandi atburðir bíða okkar í þúsundáraríkinu?
ÞAÐ verður stórkostlegt þegar upprisan byrjar hér á jörð í þúsundáraríki Krists! Allir sem hafa misst ástvini þrá að sjá þá aftur. Jehóva þráir það líka. (Job. 14:15) Hugsa sér hve ánægðir allir á jörðinni verða þegar þeir hitta ástvini sína aftur í upprisunni. Eins og við skoðuðum í námsgreininni á undan munu hinir réttlátu, sem hafa nöfn sín skrifuð í bók lífsins, „rísa upp til lífs“. (Post. 24:15; Jóh. 5:29) Kannski verða margir af ástvinum okkar meðal þeirra sem rísa upp rétt eftir Harmagedón.b Auk þess munu hinir ranglátu, þar á meðal þeir sem höfðu ekki nægilegt tækifæri til að kynnast Jehóva og þjóna honum trúfastir áður en þeir dóu, „rísa upp til dóms“.
2, 3. (a) Hvert er mesta fræðsluátak allrar mannkynssögunnar samkvæmt Jesaja 11:9, 10? (b) Hvað verður fjallað um í þessari námsgrein?
2 Allir sem rísa upp þurfa að fá kennslu. (Jes. 26:9; 61:11) Það verður því þörf á mesta fræðsluátaki allrar mannkynssögunnar. (Lestu Jesaja 11:9, 10.) Hvers vegna? Hinir ranglátu sem fá upprisu þurfa til dæmis að læra um Jesú Krist, Guðsríki, lausnarfórnina og alheimsdeilumálið varðandi nafn Jehóva og drottinvald. Hinir réttlátu þurfa jafnvel að fá nýjustu upplýsingar um það sem Jehóva hefur kennt þjónum sínum stig af stigi varðandi tilgang sinn með jörðina. Sumir þessara trúföstu einstaklinga dóu löngu áður en ritun Biblíunnar var lokið. Bæði ranglátir og réttlátir eiga margt ólært.
3 Í þessari námsgrein fjöllum við um eftirfarandi spurningar: Hvernig fer þetta mikla fræðsluátak fram? Hvaða áhrif hafa viðbrögð fólks við fræðslunni á það hvort nöfn þeirra verði skrifuð varanlega í bók lífsins eða ekki? Þetta eru mikilvægar spurningar. Eins og við munum sjá geta hrífandi spádómar í Daníelsbók og Opinberunarbókinni hjálpað okkur að skilja betur hvað mun gerast þegar dánir verða reistir upp. Við skoðum fyrst spennandi atburði sem eru sagðir fyrir í spádómi í Daníel 12:1, 2.
ÞEIR SEM „HVÍLA Í DUFTI … MUNU UPP VAKNA“
4, 5. Hvað segir um tíma endalokanna í Daníel 12:1?
4 Lestu Daníel 12:1. Daníelsbók segir frá röð spennandi atburða á tíma endalokanna. Í Daníel 12:1 er til dæmis sagt fyrir að Mikael, sem er Jesús Kristur, ,verndi syni þjóðar‘c Guðs. Þessi hluti spádómsins byrjaði að fá uppfyllingu árið 1914 þegar Jesús var skipaður konungur í Guðsríki á himnum.
5 En Daníel var líka sagt að Jesús myndi „birtast“ á ,slíkum hörmungatímum að eigi verður við jafnað frá því að þjóðin varð til‘. Þessir „hörmungatímar“ eru þrengingin mikla sem er talað um í Matteusi 24:21. Jesús birtist, eða kemur þjónum Guðs til varnar, í lok þessara hörmungatíma, það er að segja í Harmagedón. Opinberunarbókin nefnir þennan hóp mikinn múg og segir að hann komi „úr þrengingunni miklu“. – Opinb. 7:9, 14.
6. Hvað gerist eftir að múgurinn mikli lifir af þrenginguna miklu? Skýrðu svarið. (Sjá einnig „Spurningar frá lesendum“ í þessu blaði varðandi upprisu til lífs á jörð.)
6 Lestu Daníel 12:2. Hvað gerist eftir að múgurinn mikli kemst í gegnum þessa hörmungatíma? Í þessum spádómi er ekki átt við táknræna upprisu, andlega endurlífgun þjóna Guðs á síðustu dögum, eins og við skildum hann áður.d Hann fjallar um upprisu hinna dánu í hinum komandi nýja heimi. Hvers vegna komumst við að þeirri niðurstöðu? Orðin „í dufti“, eða mold, samsvara orðinu „gröf“ í Job 17:16. Þetta gefur til kynna að í Daníel 12:2 sé átt við bókstaflega upprisu sem á sér stað eftir hina síðustu daga og eftir Harmagedónstríðið.
7. (a) Hvað þýðir að sumir verða reistir upp „til eilífs lífs“? (b) Í hvaða skilningi er þetta betri upprisa?
7 En hvað er átt við í Daníel 12:2 þegar sagt er að sumir verði reistir upp „til eilífs lífs“? Það merkir að þeir sem verða reistir upp og kynnast Jehóva og Jesú og halda áfram að kynnast þeim og hlýða á þúsundáratímabilinu munu að lokum fá eilíft líf. (Jóh. 17:3) Þetta verður ,betri upprisa‘ en sumir fengu áður fyrr. (Hebr. 11:35) Hvers vegna? Vegna þess að ófullkomið fólk sem fékk upprisu áður dó aftur.
8. Í hvaða skilningi fá aðrir upprisu „til lasts og ævarandi smánar“?
8 En það munu ekki allir sem fá upprisu bregðast vel við fræðslunni sem verður veitt. Spádómur Daníels segir að sumir verði reistir upp „til lasts og ævarandi smánar“. Þar sem þeir sýna uppreisnaranda verða nöfn þeirra ekki skrifuð í bók lífsins. Þeir hljóta ekki eilíft líf heldur ,ævarandi smán‘, þeim verður eytt. Daníel 12:2 talar því um endanlegt hlutskipti þeirra sem fá upprisu en það er háð því sem þeir gera eftir upprisu sína.e (Opinb. 20:12) Sumir hljóta eilíft líf en aðrir ekki.
MÖRGUM BEINT TIL RÉTTLÆTIS
9, 10. Hvað fleira gerist eftir þrenginguna miklu og hverjir munu „skína eins og björt himinhvelfing“?
9 Lestu Daníel 12:3. Hvað fleira mun gerast eftir þessa hörmungatíma? Í Daníel 12:3 er fjallað um það sem gerist eftir þrenginguna miklu, eins og í versinu á undan.
10 Hverjir munu „skína eins og björt himinhvelfing“? Það sem Jesús segir í Matteusi 13:43 gefur okkur vísbendingu um það. Þar segir: „Þá munu hinir réttlátu skína eins skært og sólin í ríki föður þeirra.“ Samhengið sýnir að Jesús var að tala um ,syni ríkisins‘, andasmurða bræður sína, sem munu þjóna með honum í ríkinu á himnum. (Matt. 13:38) Daníel 12:3 hlýtur því að eiga við hina andasmurðu og starf þeirra í þúsundáraríkinu.
11, 12. Í hvaða verki munu hinar 144.000 taka þátt á 1.000 ára tímabilinu?
11 Hvernig munu hinir andasmurðu „beina mörgum til réttlætis“? Þeir vinna náið með Jesú Kristi í að hafa umsjón með fræðsluátakinu sem fer fram á jörðinni á 1.000 ára tímabilinu. Hinar 144.000 munu ekki aðeins ríkja sem konungar heldur líka sem prestar. (Opinb. 1:6; 5:10; 20:6) Þær munu aðstoða við ,lækningu þjóðanna‘ – hjálpa mannkyninu að ná smám saman fullkomleika. (Opinb. 22:1, 2; Esek. 47:12) Það er mikið tilhlökkunarefni fyrir hina andasmurðu.
12 Hverjir verða meðal hinna mörgu sem ,verður beint til réttlætis‘? Það verða til dæmis þeir sem fá upprisu og þeir sem lifa í gegnum Harmagedón ásamt þeim börnum sem kunna að fæðast í nýja heiminum. Við lok 1.000 áranna hafa allir sem lifa á jörðinni náð fullkomleika. Hvenær verða nöfn þeirra skrifuð varanlega með bleki í stað blýants í bók lífsins?
LOKAPRÓFIÐ
13, 14. Hvað þarf allt fullkomið fólk á jörð að sýna fram á áður en það fær eilíft líf?
13 Við megum ekki gleyma því að enginn fær sjálfkrafa eilíft líf þótt hann sé fullkominn. Adam og Eva voru fullkomin en þau þurftu að sýna Jehóva Guði hlýðni áður en þau fengju eilíft líf. Og því miður hlýddu þau honum ekki. – Rómv. 5:12.
14 Hver verður staða þeirra sem verða á jörðinni við lok 1.000 áranna? Allir munu hafa öðlast fullkomleika. Mun allt þetta fullkomna fólk sýna Jehóva stuðning um alla framtíð? Eða munu sumir feta í fótspor Adams og Evu sem reyndust ótrú þótt þau væru fullkomin? Við þurfum að fá svör við þessum spurningum.
15, 16. (a) Hvenær fær allt mannkyn tækifæri til að sýna Jehóva hollustu? (b) Hver verður endanleg útkoma úr prófinu?
15 Satan verður fangelsaður í 1.000 ár. Á því tímabili mun hann ekki geta afvegaleitt neinn. En í lok 1.000 áranna verður hann leystur úr haldi. Hann reynir þá að afvegaleiða fullkomið mannkyn. Það fær tækifæri í þessu prófi til að sýna hvernig það lítur á nafn Guðs og hvar það stendur í deilumálinu um drottinvald hans. (Opinb. 20:7–10) Viðbrögð hvers og eins við tilraunum Satans ráða síðan hvort nafn hans verði skrifað varanlega í bók lífsins.
16 Ótiltekinn fjöldi fólks mun hafna stjórn Jehóva eins og Adam og Eva. Hvað verður um þetta fólk? Opinberunarbókin 20:15 segir: ,Öllum sem voru ekki skráðir í bók lífsins var kastað í eldhafið.‘ Þeim sem gerir uppreisn verður algerlega eytt. En meirihluti fullkomins mannkyns mun standast þetta lokapróf. Nöfn þessa fólks verða skrifuð varanlega í bók lífsins.
Á TÍMA ENDALOKANNA
17. Hvað var Daníel sagt að myndi gerast á okkar tíma? (Daníel 12:4, 8–10)
17 Það er sannarlega spennandi að hugsa um þessa ókomnu atburði. En Daníel fékk líka mikilvægar upplýsingar hjá engli varðandi okkar tíma, tíma endalokanna. (Lestu Daníel 12:4, 8–10; 2. Tím. 3:1–5) Engillinn sagði við Daníel: „Skilningur [manna] mun aukast.“ Já, fólk Guðs myndi fá gleggri skilning á spádómsorðum þessarar bókar. Engillinn sagði líka að á þessum tíma myndu ,illmennin fremja ranglæti‘ og „enginn hinna ranglátu“ hafa skilning.
18. Hvað verður fljótlega um illmenni?
18 Nú á dögum virðast illmenni komast upp með illskuverk sín. (Mal. 3:14, 15) En fljótlega dæmir Jesús þá sem líkjast geitum og aðgreinir þá frá þeim sem líkjast sauðum. (Matt. 25:31–33) Þeir lifa ekki af þrenginguna miklu og fá ekki upprisu til að lifa í nýjum heimi. Nöfn þeirra munu ekki standa í bókinni „til að minna á“ sem nefnd er í Malakí 3:16 (Biblían 2010).
19. Hvað ættum við að gera og hvers vegna? (Malakí 3:16–18)
19 Nú er rétti tíminn til að sýna að við séum ekki meðal hinna ranglátu. (Lestu Malakí 3:16–18.) Jehóva er að safna þeim saman sem hann álítur sérstaka eða dýrmæta eign sína. Við viljum auðvitað vera meðal þeirra.
20. Hvaða loforð fékk Daníel að lokum og hvers vegna hlakkarðu til að sjá það rætast?
20 Við lifum á mjög spennandi tímum. En fljótlega gerast enn stórkostlegri atburðir. Bráðlega verður allri illsku eytt. Og í kjölfar þess munum við sjá uppfyllingu á loforði Jehóva til Daníels: „Þú munt rísa upp og taka við hlut þínum við endalok daganna.“ (Dan. 12:13) Þráir þú þann dag þegar Daníel og ástvinir þínir rísa upp til lífs? Ef svo er skaltu gera þitt besta til að vera trúfastur. Þá geturðu verið viss um að nafn þitt mun standa áfram í bók Jehóva, bók lífsins.
SÖNGUR 80 Finnið og sjáið að Jehóva er góður
a Í þessari námsgrein verður fjallað um leiðréttan skilning okkar varðandi það mikla fræðsluátak sem er lýst í Daníel 12:2, 3. Við skoðum hvenær það á sér stað og hverjir taka þátt í því. Við skoðum einnig hvernig þetta fræðsluátak mun undirbúa þá sem verða á jörðinni fyrir lokaprófið í lok þúsundáraríkisins.
b Upprisan hefst mögulega þannig að þeir sem dóu trúfastir á síðustu dögum verði fyrst reistir upp, því næst þeir sem dóu þar á undan og síðan hver kynslóðin koll af kolli. Ef þetta reynist rétt mun hver kynslóð hafa tækifæri til að bjóða þá sem hún þekkti persónulega velkomna. Hvernig sem þetta verður segir Biblían að fólk verði reist upp í „sinni röð“ þegar hún talar um himneska upprisu og við getum einnig treyst því að upprisan á jörð eigi sömuleiðis eftir að fara fram með skipulegum hætti. – 1. Kor. 14:33; 15:23.
c Í þessari námsgrein eru tilvitnanir í Daníelsbók úr Biblíunni 2010.
d Þetta er leiðréttur skilningur á því sem kemur fram í bókinni Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar, 17. kafla og í Varðturninum 1. nóvember 1987 bls. 28–32.
e Þegar talað er um „réttláta og rangláta“ í Postulasögunni 24:15 og þá „sem gerðu hið góða“ og þá „sem ástunduðu hið illa“ í Jóhannesi 5:29 er átt við breytni þeirra sem fá upprisu áður en þeir dóu.