Sjón er sögu ríkari
„Efahyggjumaður telur ógerlegt að vita sannleikann um mál eins og Guð og framhaldslíf, en það eru viðfangsefni kristinnar trúar og annarra trúarbragða. Og ef ekki ógerlegt um aldur og ævi þá að minnsta kosti ógerlegt enn sem komið er.“ — HEIMSPEKINGURINN BERTRAND RUSSELL, 1953.
DÝRAFRÆÐINGURINN Thomas Huxley leit á sig sem efahyggjumann. Hann fæddist árið 1825 og var samtíða Charles Darwin. Hann var baráttumaður fyrir þróunarkenningunni og skrifaði árið 1863 að hann sæi engar sannanir fyrir því að til væri Guð sem „elskar okkur og annast eins og kristnin heldur fram“.
Margir nú á dögum eru sammála orðum þessara áhrifamiklu manna. Þeir segjast aðeins trúa því sem þeir geta séð. Þeir halda því kannski fram að það sé hrein trúgirni að trúa á einhvern eða eitthvað sem engin sönnun er fyrir.
En erum við hvött í Biblíunni til þess að trúa á Guð í blindni? Nei, alls ekki. Biblían segir að það sé barnalegt — jafnvel heimskulegt — að trúa á fullyrðingar sem engin rök eru fyrir. „Einfaldur maður trúir öllu en hygginn maður kann fótum sínum forráð,“ segir í Biblíunni. — Orðskviðirnir 14:15.
En hvað er þá hægt að segja um trú á Guð? Er einhver sönnun fyrir því að Guð sé til, hvað þá að hann elski okkur og annist?
Hvernig birtast eiginleikar Guðs?
Þegar biblíuritarinn Páll ræddi við hóp menntamanna í Aþenu fullyrti hann að Guð hefði skapað „heiminn og allt sem í honum er“. Páll benti efagjörnum áheyrendum sínum á að Guð hefði áhuga á mannkyninu og sagði: „Eigi er hann langt frá neinum af okkur.“ — Postulasagan 17:24-27.
Af hverju var Páll sannfærður um að Guð væri til og hefði áhuga á mönnunum sem hann skapaði? Páll benti á eina ástæðu fyrir því þegar hann skrifaði trúsystkinum sínum í Róm. Hann sagði að það mætti „skynja og sjá“ ósýnilega eiginleika Guðs „af verkum hans allt frá sköpun heimsins“. — Rómverjabréfið 1:20.
Á næstu blaðsíðum er fjallað um þrjá eiginleika Guðs sem má skynja og sjá af sköpunarverki hans. Þegar þú skoðar þessi dæmi skaltu spyrja sjálfan þig: Hvaða áhrif hefur það á mig að læra um þessa eiginleika Guðs?
[Innskot á blaðsíðu 3]
Við erum ekki hvött í Biblíunni til að trúa á Guð í blindni.