Þolgæði sem leiðir til sigurs
„Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið.“ — HEBREABRÉFIÐ 10:36.
1. Hvers vegna er þolgæði ómissandi fyrir alla sem þjóna Jehóva Guði nú á dögum?
ALLUR heimurinn er á valdi uppreisnarguðs. Ósýnilegur stjórnandi hans, Satan djöfullinn, rær því nú öllum árum að standa gegn Jehóva og berjast gegn réttlætingu drottinvalds hans yfir alheiminum fyrir tilstilli messíasarríkisins. Það er því óhjákvæmilegt að hver sá sem vígir sig Guði og tekur hans málstað í deilumálinu um alheimsyfirráðin mæti stöðugri andstöðu frá þessum heimi. (Jóhannes 15:18-20; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Þar af leiðandi verðum við eitt og sérhvert að styrkja okkur til að halda út þar til þessi heimur bíður algeran ósigur í Harmagedón. Til að vera meðal þeirra sem Guð gefur sigur yfir heiminum vegna trúar sinnar og ráðvendni, verðum við að vera þrautseig allt til enda. (1. Jóhannesarbréf 5:4) Hvernig förum við að því?
2, 3. Hvernig eru Jehóva Guð og Jesús Kristur bestu fyrirmyndirnar í þolgæði?
2 Við getum meðal annars sótt uppörvun í tvær framúrskarandi fyrirmyndir í þolgæði. Hverjar eru þær? Önnur þeirra er Jesús Kristur, „frumburður allrar sköpunar,“ sem hefur haldið trúfastur áfram að þjóna Guði allt frá því hann var skapaður einhvern tíma fyrir ævalöngu. Með þrautseigju í trúfastri þjónustu sinni við Guð setti Jesús fordæmi öllum skynsemigæddum sköpunarverum sem voru síðar skapaðar á himni og jörð. (Kólossubréfið 1:15, 16) Besta fyrirmyndin í þolgæði er samt sem áður Jehóva Guð, sem hefur lengi þolað uppreisn gegn alheimsyfirráðum sínum og mun halda því áfram þar til hann lætur til skarar skríða að útkljá endanlega deilumálið um réttinn til að stjórna.
3 Jehóva hefur sýnt þolgæði á eftirbreytniverðan hátt í atriðum sem snerta bæði tign hans og dýpstu tilfinningar. Hann hefur haldið aftur af sér frammi fyrir gífurlegri ögrun og látið vera að grípa til aðgerða gegn þeim sem hafa smánað hann — þeirra á meðal Satan djöflinum. Við erum þakklát fyrir þolgæði Guðs og miskunn hans því án þessara eiginleika hefðum við ekki einu sinni orðið til. Þolgæði Jehóva Guðs á svo sannarlega engan sinn líka.
4, 5. (a) Hvernig sýnir dæmið, sem Páll tekur um leirkerasmið, þolgæði Guðs og miskunn? (b) Hvernig mun það sýna sig að miskunn Guðs hefur ekki verið illa varið?
4 Páll postuli beinir athyglinni bæði að þolgæði og miskunn Guðs þegar hann segir: „Eða hefur ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu, svo að hann megi gjöra úr sama deiginu ker til sæmdar og annað til vansæmdar? En ef nú Guð, sem vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefur með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar, og ef hann hefur gjört það til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar, sem hann hafði fyrirfram búið til dýrðar? Slík ker erum vér, sem hann hefur kallað, ekki aðeins úr flokki Gyðinga, heldur og úr flokki heiðingja.“ — Rómverjabréfið 9:21-24.
5 Eins og þessi orð sýna heldur Jehóva áfram að framfylgja dýrlegum tilgangi sínum og sýnir miskunn tilteknum mannlegum kerum á þessum tíma þolgæðis síns. Hann býr þessi ker undir eilífa dýrð og ónýtir þannig ill markmið andstæðingsins mikla, Satans djöfulsins, og alls liðsafla hans. Ekki hefur allt mannkynið reynst vera ker reiðinnar sem verðskulda tortímingu. Það ber þolinmæði og þolgæði hins almáttuga Guðs gott vitni. Miskunn hans verður ekki til einskis. Hún mun leiða af sér (1) dýrlega konungsfjölskyldu á himnum undir stjórn ástkærs sonar Jehóva, Jesú krists, og (2) endurreist og fullkomnað mannkyn á paradísarjörð þar sem allir hafa erft eilíft líf.
Þolgóðir allt til enda
6. (a) Hvers vegna geta kristnir menn ekki umflúið prófraun á þolgæði sitt? (b) Hvaða merkingu hefur gríska orðið fyrir „þolgæði“ venjulega?
6 Með svo stórkostlega von fyrir augum ættu þessi styrkjandi orð Jesú stöðugt að hljóma í eyrum okkar: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ (Matteus 24:13) Það er mikilvægt að við byrjum feril okkar sem kristnir lærisveinar vel. En þegar upp er staðið skiptir þrautseigja okkar mestu máli, hvernig við ljúkum ferlinum. Páll postuli lagði áherslu á þetta er hann sagði: „Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið.“ (Hebreabréfið 10:36) Gríska orðið, sem er hér þýtt ‚þolgæði,‘ er hypomone. Það merkir venjulega þolgæði í mynd hugrekkis, staðfestu eða þolinmæði sem glatar ekki voninni frammi fyrir hindrunum, ofsóknum, prófraunum og freistingum. Ef við vonumst til að öðlast hjálpræði verðum við að gangast undir þolgæðispróf sem hluta af nauðsynlegum undirbúningi þess hjálpræðis.
7. Hvaða sjálfsblekkingu verðum við að forðast og fordæmi hverra munu hjálpa okkur að vera þolgóð?
7 Við ættum ekki að blekkja okkur með því að ímynda okkur í þægindaskyni að við getum drifið prófið af í fljótheitum. Til að deilan um alheimsyfirráðin og ráðvendni mannsins gæti fengið afgerandi svar hlífði Jehóva ekki sjálfum sér. Hann hefur þolað óþægindi jafnvel þótt hann hefði getað losað sig við þau á augabragði. Jesús Kristur var einnig fyrirmynd í þolgæði. (1. Pétursbréf 2:21; samanber Rómverjabréfið 15:3-5.) Við hljótum líka að vera fús til að sýna þolgæði allt til enda þar sem við höfum þessi frábæru fordæmi fyrir augum okkar. — Hebreabréfið 12:2, 3.
Nauðsynlegur eiginleiki
8. Hvaða eiginleika, sem við þurfum öll að hafa, sýndi Páll postuli?
8 Enginn þjónn Guðs, jafnvel frá fyrstu tímum, hefur verið undanþeginn því að þurfa að sanna ráðvendni sína með þolgæði. Mjög áberandi einstaklingar í biblíusögunni, sem stóðu trúfastir allt til dauða og sýndu sig hæfa til eilífs lífs á himnum, þurftu að sanna staðfestu sína. Til dæmis sagði fyrrverandi farísei, Sál frá Tarsus, Korintumönnum: „Í engu stóð ég hinum stórmiklu postulum að baki, enda þótt ég sé ekki neitt. Postulatákn voru gjörð á meðal yðar af mikilli þrautseigju, tákn, undur og kraftaverk.“ (2. Korintubréf 12:11, 12) Þrátt fyrir byrði starfsins mat Páll þjónustu sína svo mikils að hann þoldi margt og reyndi í einlægni að láta engan smánarblett falla á hana. — 2. Korintubréf 6:3, 4, 9.
9. (a) Hvernig hafa hinar smurðu leifar sýnt þolgæði og með hvaða árangri? (b) Hvað hvetur okkur til að halda trúföst áfram þjónustunni við Guð?
9 Svo við tökum nútímalegra dæmi vissu smurðir kristnir menn, sem þjónuðu Guði fyrir fyrri heimsstyrjöldina, að árið 1914 myndu tímar heiðingjanna enda og margir þeirra bjuggust við að hljóta himnesk laun sín á því eftirminnilega ári. En það gerðist ekki. Staðreyndirnar sýna að margir áratugir voru eftir. Á þessari óvæntu framlengingu á jarðnesku æviskeiði þeirra fágaði Jehóva Guð þá. (Sakaría 13:9; Malakí 3:2, 3) Þolgæðið varð þeim til góðs. Sem þjónar Jehóva fögnuðu þeir því að vera tilnefndir sem fólk er bar nafn hans. (Jesaja 43:10-12; Postulasagan 15:14) Núna, eftir að hafa lifað tvær heimsstyrjaldir og fjöldan allan af smærri átökum, er þeim fagnaðarefni að njóta aðstoðar vaxandi mikils múgs annarra sauða, sem nú telja yfir fjórar milljónir, við að útbreiða fagnaðarerindið. Hin andlega paradís, sem þeir njóta, hefur breiðst út um alla jörð, allt til ystu eyja hafsins. Þessi forréttindi, sem við kunnum betur að meta því lengur sem við lifum, hafa reynst okkur hvatning til að halda trúföst áfram þjónustunni við Jehóva þar til vilji og tilgangur hans er fullkomnaður.
10. Hvers þörfnumst við reglulega til veiklast ekki?
10 Þar sem umbunin er háð staðfestu okkar þurfum við á stöðugri áminningu að halda í þessu mikilvæga máli. (1. Korintubréf 15:58; Kólossubréfið 1:23) Til að engin veiklun verði meðal fólks Jehóva verðum við reglulega að fá uppörvun til að halda fast í sannleikann og þau dýrmætu sérréttindi að útbreiða hann, rétt eins og hinir nýstofnuðu söfnuðir á fyrstu öldinni fengu af heimsóknum Páls og Barnabasar. (Postulasagan 14:21, 22) Látum það vera fastan ásetning okkar og ákvörðun að sannleikurinn verði stöðugur í okkur, eins og Jóhannes postuli orðaði það, ‚og muni vera hjá oss til eilífðar.‘ — 2. Jóhannesarbréf 2.
Að bíða með óbifanlegu þolgæði
11. Hver virðist vera sú regla sem Guð gefur þjónum sínum og hvernig sýndi hún sig í sambandi við Jósef?
11 Það tekur tíma að fullna prófið sem við þurfum að gangast undir. (Jakobsbréfið 1:2-4) Bíðið! Bíðið! Bíðið! virðist hafa verið sú regla sem Guð gaf þjónum sínum fyrr á tímum þegar ákvörðun þeirra að halda áfram í trúnni var prófreynd. En biðin reyndist alltaf vera þessum trúföstu þjónum umbunarrík að lokum. Jósef þurfti til dæmis að bíða í 13 ár sem þræll og fangi en sú reynsla fágaði persónuleika hans. — Sálmur 105:17-19.
12, 13. (a) Hvernig var Abraham fyrirmynd í trúfesti og þolgæði? (b) Á hvaða hátt er trú og þolgæði Abrahams haldið á lofti sem fyrirmynd?
12 Abraham var orðinn 75 ára gamall þegar Guð kallaði hann frá Úr í Kaldeu til að fara til fyrirheitna landsins. Hann var um 125 ára þegar hann fékk eiðbundna staðfestingu á loforði Guðs — en það átti sér stað strax eftir að hann hafði sýnt hversu sterk trú hans var með því nánast að fórna ástkærum syni sínum Ísak. Hann hætti við einungis af því að engill Jehóva stöðvaði hann og kom í veg fyrir fórnina. (1. Mósebók 22:1-18) Fimmtíu ár voru langur tími fyrir Abraham að bíða sem aðkomumaður í ókunnu landi, en hann hélt út í önnur 50 ár þar til hann lést 175 ára að aldri. Allan þennan tíma var Abraham trúfastur vottur og spámaður Jehóva Guðs. — Sálmur 105:9-15.
13 Trú og þolgæði Abrahams er haldið á lofti sem fyrirmynd fyrir alla þjóna Guðs sem vilja öðlast hinar fyrirheitnu blessanir fyrir milligöngu Jesú Krists, sæðis Abrahams. (Hebreabréfið 11:8-10, 17-19) Um hann lesum við í Hebreabréfinu 6:11-15: „Vér óskum, að sérhver yðar sýni sömu ástundan allt til enda, þar til von yðar fullkomnast. Gjörist ekki sljóir. Breytið heldur eftir þeim, sem vegna trúar og stöðuglyndis erfa fyrirheitin. Þegar Guð gaf Abraham fyrirheitið, þá ‚sór hann við sjálfan sig,‘ þar sem hann hafði við engan æðri að sverja, og sagði: ‚Sannlega mun ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt.‘ Og Abraham öðlaðist það, sem Guð hafði heitið honum er hann hafði beðið þess með stöðuglyndi.“
14. Hvers vegna ættum við ekki að hugsa sem svo að prófraunin á þolgæði okkar taki aldrei enda og erfitt sé að henda reiður á launin?
14 Hinar smurðu leifar hafa nú þegar séð rúm 77 ár líða síðan tímar heiðingjanna enduðu árið 1914 þegar hluti þeirra bjóst við upphafningu sannkristna safnaðarins til himna. Við vitum ekki hversu lengi leifarnar þurfa enn að bíða. Ættum við þá að verða hikandi og hugsa sem svo að biðin sé endalaus og að launin séu bara tálvon? Nei! Það myndi aldrei upphefja drottinvald Guðs eða heiðra nafn hans. Hann yrði ekki réttlættur frammi fyrir heiminum er hann veitti okkur sigur og eilíft líf sem eru launin sem fylgja honum. Leifarnar eru, ásamt hinum sauðumlíku félögum sínum, staðráðnar að bíða þess að Jehóva grípi inn í á sínum tíma, óháð því hversu langt er þangað til. Með því að sýna slíka eftirbreytniverða þrautseigju fylgja þeir fordæmi Abrahams. — Rómverjabréfið 8:23-25.
15. (a) Hver eru kjörorð okkar og gegnum hvaða prófraunir hefur Guð stutt okkur til sigurs? (b) Hvaða áminning Páls á enn við nú á dögum?
15 Óbifanlegt þolgæði í að gera vilja Guðs eru því enn þá kjörorð okkar. (Rómverjabréfið 2:6, 7) Guð hefur áður stutt okkur gegnum alvarlegar raunir, þar á meðal fangelsis- og fangabúðavist, og hann hefur sigursæll leitt okkur gegnum þær til dýrðar nafni sínu og tilgangi.a Og þann tíma sem eftir er til að ljúka prófraun okkar mun Jehóva halda því áfram. Áminning Páls á vel við enn í dag: „Því að þið hafið þörf fyrir staðfasta þolinmæði og þolgæði svo að þið getið gert vilja Guðs til fullnustu og þannig öðlast og notið til fulls þess sem lofað er.“ — Hebreabréfið 10:36, The Amplified Bible; Rómverjabréfið 8:37.
16. Hvers vegna ættum við ekki að líta á vígslu okkar til Jehóva sem takmarkaða eða háða skilyrðum?
16 Eins lengi og Jehóva hefur verk fyrir okkur að vinna í þessum illa heimi viljum við fylgja fordæmi Jesú og vera upptekin af því starfi þar til því er lokið. (Jóhannes 17:4) Við vígðum okkur ekki Jehóva með því skilyrði að við þjónuðum honum aðeins stuttan tíma og svo kæmi Harmagedón. Vígsla okkar var til eilífðar. Það verk sem Guð felur okkur að vinna mun ekki taka enda í Harmagedónstríðinu. Það er samt sem áður ekki fyrr en við höfum fullnað það starf sem á að framkvæma fyrir Harmagedón sem við munum sjá þá stórkostlegu viðburði sem eiga að verða eftir það mikla stríð. Þá mun okkur, auk hinna ánægjulegu sérréttinda að halda áfram að vinna verk Guðs, verða umbunað með þeim blessunum sem hann hefur lofað og við höfum vonast svo lengi eftir. — Rómverjabréfið 8:32.
Kærleikur til Guðs hjálpar okkur að vera þolgóð
17, 18. (a) Hvað mun hjálpa okkur að vera þolgóð og hafa velþóknun Guðs þegar við erum undir miklu álagi? (b) Hvað hjálpar okkur að sigra og hvað segjum við ekki um þann tíma sem eftir er?
17 Við spyrjum ef til vill þegar við erum undir miklu álagi: ‚Hvernig getum við haldið þetta út lengur?‘ Svarið er: Með því að elska Guð af öllu hjarta okkar, huga, sálu og mætti. „Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.“ (1. Korintubréf 13:4, 7, 8) Ef þolgæði okkar er ekki sprottið af kærleika til Guðs er það gagnslaust. En ef við þolum álag vegna vígslu okkar til Jehóva mun þolgæðið dýpka kærleika okkar til hans. Það var kærleikur til Guðs, föður hans, sem hjálpaði Jesú að vera þolgóður. (Jóhannes 14:30, 31; Hebreabréfið 12:2) Ef raunverulegt tilefni okkar er kærleikur til Guðs, föður okkar, hvað getum við þá ekki þolað?
18 Það er óbifanlegur kærleikur okkar til Jehóva Guðs sem hefur hjálpað okkur að halda áfram að sigra heiminn á þessum viðsjárverða prófraunatíma. Og Jehóva mun, fyrir milligöngu Jesú Krists, halda áfram að láta okkur í té þá hjálp sem við þurfum, óháð því hve lengi þetta gamla heimskerfi fær að standa. (1. Pétursbréf 5:10) Að sjálfsögðu spáum við engu um það hversu langur tími er enn eftir og við erum ekki að tiltaka einhverja ákveðna dagsetningu. Við látum hinn mikla tímavörð, Jehóva Guð, um það. — Sálmur 31:16.
19, 20. (a) Hvernig ættum við að líta á hvern dag sem við þolgóð lifum? (b) Hvaða heimsku viljum við forðast og hvers vegna?
19 Samt sem áður er kynslóðin, sem sagt var fyrir að myndi verða vitni að og upplifa ‚endalok heimskerfisins,‘ nú komin vel til ára sinna. (Matteus 24:3, 32-35, NW) Við skulum þess vegna aldrei gleyma því að með hverjum degi sem líður, þó að hann reyni á þolgæði okkar, er einum degi færra fyrir Satan og ára hans til að menga alheiminn með tilveru sinni og einum degi nær þeim tíma er Jehóva mun ekki lengur umbera „ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar.“ (Rómverjabréfið 9:22) Bráðlega, þegar langlyndi Jehóva tekur enda, gefur hann reiði sinni lausan tauminn gegn óguðlegum körlum og konum. Þannig mun hann opinbera guðlega vanþóknun sína á þeim verkum sem þau hafa iðkað, þó svo að hann hafi leyft þeim að halda áfram allan þennan tíma.
20 Það væri afskaplega heimskulegt af okkur að hætta kærleiksríkri viðleitni okkar til að öðlast hin dýrlegu verðlaun sem okkur eru boðin fyrir milligöngu Jesú Krists. Verum heldur staðráðin í að halda trúföst áfram að vera vottar um Jehóva á þessum mikilvægu tímum þegar hann er í þann mund að upphefja sjálfan sig sem alheimsdrottnara.
[Neðanmáls]
a Til dæmis skrifaði Christine Elizabeth King: „Aðeins gegn vottunum tókst stjórnvöldum [nasista] ekki það sem þau ætluðu sér, því að enda þótt þau hefðu drepið þúsundir þeirra hélt starfið áfram og í maí 1945 var hreyfing votta Jehóva enn á lífi en nasisminn ekki. Vottunum hafði fjölgað og þeir höfðu í engu látið undan. Hreyfingin hafði eignast píslarvotta og háð enn einn sigursælan bardaga í stríði Jehóva Guðs.“ — The Nazi State and the New Religions: Five Case Studies in Non-Conformity, bls. 193.
Hverju svarar þú?
◻ Hvers vegna komumst við ekki hjá því að þolgæði okkar sé prófreynt?
◻ Hvaða sjálfsblekkingu viljum við forðast?
◻ Hvað er nauðsynlegt til að forðast veiklun af nokkru tagi?
◻ Hver eru kjörorð okkar?
◻ Hvað hjálpar okkur að halda út undir álagi?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Fólk Guðs hefur alltaf verið fúst til að bíða Jehóva eins og þessir vottar í Port of Spain á Trínidad