,Hvílíkt djúp speki Guðs!‘
„Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs! Hversu órannsakandi dómar hans og órekjandi vegir hans!“ — RÓMV. 11:33.
1. Hver er mesti heiður sem skírðir kristnir menn geta hlotið?
HVER er mesti heiður sem þér hefur hlotnast? Í fyrstu dettur þér kannski í hug eitthvert verkefni sem þú hefur fengið eða virðing sem þér hefur veist. En mesti heiður, sem skírðir kristnir menn geta hlotið, er þó sá að fá að eiga náið samband við hinn eina sanna Guð, Jehóva. Sá sem á þannig samband við hann er „þekktur af honum“. — 1. Kor. 8:3; Gal. 4:9.
2. Hvers vegna er það mikill heiður að þekkja Jehóva og vera þekktur af honum?
2 Hvers vegna er það svona mikill heiður að þekkja Jehóva og vera þekktur af honum? Ekki aðeins vegna þess að hann er æðsta tignarpersóna alheimsins heldur einnig vegna þess að hann verndar þá sem hann elskar. Nahúm spámanni var innblásið að skrifa: „Drottinn er góður, athvarf á degi neyðarinnar, hann annast þá sem leita hælis hjá honum.“ (Nah. 1:7; Sálm. 1:6) Vonin um eilíft líf er meira að segja háð því að við þekkjum hinn eina sanna Guð og son hans, Jesú Krist. — Jóh. 17:3.
3. Hvað er fólgið í því að kynnast Guði?
3 Að kynnast Guði er meira en að vita bara hvað hann heitir. Við þurfum líka að kynnast honum sem vini og skilja hvað honum líkar og hvað honum mislíkar. Með því að lifa í samræmi við þá vitneskju sýnum við að við höfum kynnst Guði náið. (1. Jóh. 2:4) En ef við viljum þekkja Jehóva þarf meira að koma til. Það er ekki nóg að vita hvað hann hefur gert heldur þurfum við líka að vita hvernig hann gerði það og hvers vegna. Því betur sem við skiljum fyrirætlanir Jehóva því meira dáumst við að djúpri speki hans. — Rómv. 11:33.
Fyrirætlun Guðs
4, 5. (a) Hvernig er orðið „fyrirætlun“ notað í Biblíunni? (b) Lýstu með dæmi hvernig hægt er að ná ákveðnu markmiði á fleiri en einn veg.
4 Í Biblíunni er talað um ,eilífa fyrirætlun Guðs‘. (Ef. 3:10, 11) Hvað er átt við með því? Þegar talað er um „fyrirætlun“ í Biblíunni er átt við sérstakt takmark eða ákveðið markmið sem hægt er að ná á fleiri en einn veg.
5 Lýsum þessu með dæmi: Segjum að þú ætlir að ferðast til ákveðins staðar. Að komast þangað er eins og takmark eða markmið sem þú hefur sett þér. Hægt er að velja um ólík farartæki og fleiri en eina leið til að komast á áfangastað. Þú ert lagður af stað en óvæntar veðurbreytingar, umferðaröngþveiti eða lokaður vegur verður til þess að þú þarft að velja aðra leið en þú hafðir áformað. En það skiptir ekki máli hvernig þú breytir ferðaáætluninni vegna þess að þú nærð samt sem áður því markmiði að komast á áfangastað.
6. Hvað hefur Jehóva þurft að gera til að hrinda fyrirætlun sinni í framkvæmd?
6 Jehóva hefur sömuleiðis þurft að gera ýmsar breytingar til að hrinda eilífri fyrirætlun sinni í framkvæmd. Hann tekur tillit til þess að viti bornar sköpunarverur hans hafa frjálsan vilja og er því sveigjanlegur þegar hann stefnir að markmiði sínu. Tökum sem dæmi hvernig hann lætur fyrirætlun sína með hinn fyrirheitna niðja ná fram að ganga. Jehóva sagði fyrstu hjónunum: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna.“ (1. Mós. 1:28) Varð yfirlýst fyrirætlun Jehóva að engu með uppreisninni í Eden? Auðvitað ekki. Jehóva brást þegar í stað við breyttum aðstæðum og valdi aðra leið til að ná markmiði sínu. Hann sagði fyrir að það myndi koma fram ,niðji‘ sem myndi gera að engu allt það tjón sem uppreisnarseggirnir ollu. — 1. Mós. 3:15; Hebr. 2:14-17; 1. Jóh. 3:8.
7. Hvernig lýsir Jehóva sjálfum sér í 2. Mósebók 3:14 og hvað má læra af því?
7 Að Jehóva skuli geta lagað sig að breyttum aðstæðum til að ná markmiði sínu kemur heim og saman við lýsingu sem hann gaf á sjálfum sér. Þegar Móse fékk verkefni frá Jehóva sá hann ýmsa annmarka á að hann gæti gert því skil. Jehóva hughreysti hann og sagði: „,Ég er sá sem ég er [„Ég verð sá sem ég verð“, NW].‘ Og hann bætti við: ,Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: „Ég er“ sendi mig til ykkar.‘“ (2. Mós. 3:14) Já, Jehóva getur orðið hvaðeina sem þarf til að láta fyrirætlun sína ná fram að ganga. Í 11. kafla Rómverjabréfsins bregður Páll postuli upp fallegri líkingu til að sýna fram á það. Hann talar þar um táknrænt olíutré. Með því að skoða þessa líkingu fáum við góða innsýn í djúpstæða visku Jehóva, hvort heldur við eigum þá von að fara til himna eða hljóta eilíft líf hér á jörð.
Fyrirætlun Jehóva um niðjann
8, 9. (a) Hvaða fjórar staðreyndir hjálpa okkur að skilja líkinguna um olíutréð? (b) Hvaða spurning vaknar varðandi fyrirætlun Jehóva og hvað leiðir svarið í ljós?
8 Til að skilja líkinguna um olíutréð þurfum við að vita fernt varðandi fyrirætlun Jehóva um niðjann. Í fyrsta lagi lofaði Jehóva Abraham að ,allar þjóðir heims myndu blessun hljóta‘ af niðjum hans eða afkomendum. (1. Mós. 22:17, 18) Í öðru lagi bauðst Ísraelsmönnum, sem voru afkomendur Abrahams, að verða „konungsríki presta“. (2. Mós. 19:5, 6) Í þriðja lagi gerði Jehóva aðrar ráðstafanir til að mynda „konungsríki presta“ þegar Ísraelsmenn upp til hópa tóku ekki við Messíasi. (Matt. 21:43; Rómv. 9:27-29) Að síðustu er öðrum gefið tækifæri til að verða niðjar Abrahams, þó svo að Jesús sé mikilvægasti niðjinn. — Gal. 3:16, 29.
9 Í ljósi þessara fjögurra staðreynda og því sem segir í Opinberunarbókinni 14:1-4 sjáum við að alls 144.000 einstaklingar eiga að ríkja með Jesú sem konungar og prestar á himnum. Þeir eru einnig kallaðir,Ísraelsmenn‘. (Opinb. 7:4-8) En eru allir þessir 144.000 einstaklingar bókstaflegir Ísraelsmenn eða Gyðingar? Svarið við þessari spurningu sýnir hve sveigjanlegur Jehóva er þegar hann hrindir fyrirætlun sinni í framkvæmd. Við skulum nú kanna hvernig Rómverjabréfið svarar spurningunni.
„Konungsríki presta“
10. Hvaða einstaka tækifæri hafði Ísraelsþjóðin?
10 Eins og áður hefur verið nefnt bauðst engum nema Ísraelsmönnum að leggja til þá einstaklinga sem áttu að verða „konungsríki presta og heilög þjóð“. (Lestu Rómverjabréfið 9:4, 5.) En hvað gerðist þegar hinn fyrirheitni niðji kom fram? Lagði Ísraelsþjóðin til alla þá 144.000 andlegu Ísraelsmenn sem áttu einnig að verða niðjar Abrahams?
11, 12. (a) Hvenær var byrjað að velja þá sem áttu að mynda stjórnina á himnum og hvernig brugðust Gyðingar við upp til hópa? (b) Hvernig bætti Jehóva við þeim sem vantaði upp á til að niðjar Abrahams kæmu „allir með tölu“?
11 Lestu Rómverjabréfið 11:7-10. Sem þjóð höfnuðu Gyðingar Jesú þegar hann kom fram. Þeir glötuðu því tækifærinu til að fá einir að verða niðjar Abrahams. Nokkur þúsund hjartahreinir Gyðingar þáðu þó boðið á hvítasunnu árið 33 þegar byrjað var að velja þá sem áttu að mynda „konungsríki presta“ á himnum. En í samanburði við Gyðingaþjóðina alla var þessi fámenni hópur rétt eins og litlar „leifar“. — Rómv. 11:5.
12 En hvernig ætlaði Jehóva að bæta við þeim sem vantaði upp á til að niðjar Abrahams kæmu „allir með tölu“? (Rómv. 11:12, 25) Tökum eftir hvernig Páll postuli svarar því: „Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist. Því að ekki eru allir þeir [andlegir] Ísraelsmenn sem af Ísrael eru komnir. Ekki eru heldur allir [andleg] börn Abrahams þótt þeir séu niðjar hans . . . Það merkir: Ekki eru líkamlegir afkomendur Abrahams börn Guðs heldur þeir sem fyrirheitið hljóðar um.“ (Rómv. 9:6-8) Þannig að Jehóva krafðist þess ekki að menn væru bókstaflegir afkomendur Abrahams til að teljast niðjar hans.
Hið táknræna olíutré
13. Hvað táknar (a) olíutréð, (b) rótin, (c) stofninn og (d) greinarnar?
13 Páll postuli líkir þeim sem verða niðjar Abrahams við greinar á olíutré.a (Rómv. 11:21) Þetta ræktaða olíutré táknar það hvernig fyrirætlun Guðs varðandi Abrahamssáttmálann nær fram að ganga. Rót trésins er heilög og táknar Jehóva því að það er hann sem gefur andlegu Ísraelsþjóðinni líf. (Jes. 10:20; Rómv. 11:16) Stofninn táknar Jesú því að hann er mikilvægasti niðji Abrahams. Greinarnar tákna síðan aðra niðja Abrahams ,alla með tölu‘.
14, 15. Hverjir voru ,brotnir af‘ ræktaða olíutrénu og hverjir voru græddir á það?
14 Í líkingunni um olíutréð er Gyðingum, sem höfnuðu Jesú, líkt við greinar sem voru „brotnar af“. (Rómv. 11:17) Þeir glötuðu þar með tækifærinu til að verða niðjar Abrahams. En hverjir áttu að koma í staðinn? Gyðingar, sem voru hreyknir af því að vera bókstaflegir afkomendur Abrahams, gátu engan veginn gert sér það í hugarlund. Jóhannes skírari hafði hins vegar varað þá við að Jehóva gæti vakið Abraham börn af steinum ef hann vildi. — Lúk. 3:8.
15 Hvað gerði Jehóva þá til að fyrirætlun hans gengi eftir? Páll segir að greinar af villiolíuviði hafi verið græddar á ræktaða olíutréð í stað þeirra sem voru brotnar af. (Lestu Rómverjabréfið 11:17, 18.) Það var því eins og andasmurðir kristnir menn af þjóðunum væru græddir á þetta táknræna olíutré. Það átti við um suma í söfnuðinum í Róm. Þannig urðu þeir niðjar Abrahams. Í fyrstu voru þeir eins og greinar á villiolíuviði og áttu engan möguleika á að fá aðild að þessum sérstaka sáttmála. En Jehóva opnaði leiðina til að þeir gætu orðið andlegir Gyðingar. — Rómv. 2:28, 29.
16. Hvernig lýsti Pétur postuli tilkomu hinnar nýju andlegu þjóðar?
16 Pétur postuli skýrir málið með eftirfarandi hætti: „Yður sem trúið [andlegum Ísraelsmönnum, meðal annars kristnum mönnum af þjóðunum] er hann [Jesús Kristur] dýrmætur en hinum vantrúuðu er steinninn, sem smiðirnir höfnuðu, orðinn að hyrningarsteini og: ásteytingarsteini og hrösunarhellu . . . En þið eruð,útvalin kynslóð, konunglegur prestdómur, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þið skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði ykkur frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss. Þið sem áður voruð ekki lýður eruð nú orðin,Guðs lýður‘. Þið sem ,ekki nutuð miskunnar‘ hafið nú,miskunn hlotið‘.“ — 1. Pét. 2:7-10.
17. Hvernig var það sem Jehóva gerði „gagnstætt eðli náttúrunnar“?
17 Það sem Jehóva gerði kom mörgum algerlega á óvart. Páll sagði það vera „gagnstætt eðli náttúrunnar“. (Rómv. 11:24) Að hvaða leyti? Í fljótu bragði virðist það óvenjulegt eða jafnvel óeðlilegt að græða grein af villtu tré á ræktað tré. Þetta var þó siður sumra bænda á fyrstu öld.b Jehóva gerði líka óvenjulegan hlut. Frá sjónarhóli Gyðinga var fólk af þjóðunum ófært um að bera boðlegan ávöxt. Jehóva veitti þessu fólki hins vegar aðild að „þjóð“ sem bar ávexti Guðsríkis. (Matt. 21:43) Kornelíus var fyrsti óumskorni trúskiptingurinn af þjóðunum sem var smurður heilögum anda. Það var árið 36. Þar með opnaði Jehóva leiðina til að græða óumskorna menn, sem voru ekki Gyðingar, á þetta táknræna olíutré. — Post. 10:44-48.c
18. Hvað stóð Gyðingum til boða frá og með árinu 36?
18 Ber að skilja þetta svo að Gyðingar hafi ekki átt þess kost eftir árið 36 að verða niðjar Abrahams? Nei. Páll segir: „Hinir [Gyðingar] verða og græddir við, ef þeir láta af vantrú sinni, því að megnugur er Guð þess að græða þá við á ný. Þú varst höggvinn af þeim villta olíuviði sem þú ert að eðli til sprottinn af og varst gagnstætt eðli náttúrunnar græddur við ræktaðan olíuvið. Hve miklu fremur munu þá þessar náttúrulegu greinar verða græddar við sinn eigin olíuvið?“d — Rómv. 11:23, 24.
„Allur Ísrael frelsast“
19, 20. Hverju kemur Jehóva til vegar eins og sjá má af líkingunni um olíutréð?
19 Fyrirætlun Jehóva varðandi „Ísrael Guðs“ rætist með stórfenglegum hætti. (Gal. 6:16) Eins og Páll sagði „mun allur Ísrael frelsast“. (Rómv. 11:26) Í fyllingu tímans mun „allur Ísrael“ þjóna sem konungar og prestar á himnum, það er að segja allir andlegir Ísraelsmenn með tölu. Ekkert getur komið í veg fyrir að fyrirætlun Jehóva nái fram að ganga.
20 Eins og spáð var munu ,niðjar‘ Abrahams, það er Jesús Kristur ásamt þeim 144.000, verða þjóðunum til blessunar. (Rómv. 11:12; 1. Mós. 22:18) Allir þjónar Guðs njóta góðs af þessari ráðstöfun. Þegar við íhugum hvernig Jehóva hefur hrint eilífri fyrirætlun sinni í framkvæmd getum við ekki annað en dáðst að ,djúpi ríkdóms, speki og þekkingar hans‘. — Rómv. 11:33.
[Neðanmáls]
a Ljóst er að olíutréð á sér ekki fyrirmynd í Ísraelsþjóðinni til forna. Þó svo að konungar og prestar hafi komið af Ísraelsþjóðinni varð hún aldrei konungsríki presta. Lögum samkvæmt máttu konungar Ísraels ekki vera prestar. Ísraelsþjóðin fyrirmyndaði því ekki hið táknræna olíutré. Páll bregður hér upp líkingu til að skýra hvernig sú fyrirætlun Guðs að mynda „konungsríki presta“ verður að veruleika með hinum andlega Ísrael. Þessi skýring kemur í stað þeirrar sem birtist í Varðturninum, 1. mars 1984, bls. 18-22.
b Sjá rammann „Af hverju voru villtar greinar græddar á?“
c Þar með lauk þriggja og hálfs árs tímabili þegar Gyðingum bauðst aðild að nýju andlegu þjóðinni. Þetta hafði verið sagt fyrir í spádóminum um áravikurnar 70. — Dan. 9:27.
d Gríski forliðurinn, sem er þýddur ,ræktaður‘ í Rómverjabréfinu 11:24, er dreginn af orði sem merkir „góður, ágætur“ eða „hentar markmiði sínu“. Hann er einkum notaður um hluti sem þjóna tilgangi sínum vel.
Manstu?
• Hvað má læra af því hvernig Jehóva hrindir fyrirætlun sinni í framkvæmd?
• Hvað táknar eftirfarandi í Rómverjabréfinu 11. kafla:
Olíutréð?
Rótin?
Stofninn?
Greinarnar?
• Af hverju var ágræðslan ,gagnstæð eðli náttúrunnar‘?
[Rammi/mynd á bls. 24]
Af hverju voru villtar greinar græddar á?
▪ Lucius Junius Moderatus Columella var rómverskur hermaður og bóndi á fyrstu öld. Þekktastur er hann fyrir 12 bækur sem hann skrifaði um búskap og lífið til sveita.
Í fimmtu bókinni vitnar hann í fornan málshátt sem hljóðar svo: „Sá sem plægir olíuviðarlundinn biður um ávöxt, sá sem ber á hann sárbænir um ávöxt, sá sem grisjar hann neyðir hann til að bera ávöxt.“
Hann lýsir trjám sem dafna vel en bera ekki ávöxt og mælir með eftirfarandi: „Gott er að bora í þau með nafri og reka grænan græðling af villiolíuviði fastan í holuna. Árangurinn er sá að tréð gefur meira af sér, rétt eins og það sé frjóvgað með frjósömu afkvæmi.“
[Mynd á bls. 23]
Skilurðu líkinguna um olíutréð?