Spurningar frá lesendum
Páll postuli sagði að ‚allur Ísrael myndi frelsast‘. (Rómv. 11:26) Átti hann við að allir Gyðingar myndu einhvern tíma snúast til kristni?
Nei, það var ekki það sem Páll átti við. Sem heild viðurkenndu afkomendur Abrahams ekki að Jesús væri Messías. Og á árunum eftir dauða Jesú varð ljóst að Gyðingar upp til hópa myndu ekki snúast til kristni. Fullyrðing Páls um að ‚allur Ísrael myndi frelsast‘ var engu að síður rétt. Hvernig þá?
Jesús sagði við trúarleiðtoga Gyðinga síns tíma: „Guðs ríki verður tekið frá ykkur og gefið þeirri þjóð sem ber ávexti þess.“ (Matt. 21:43) Sem hópur hafnaði Ísraelsþjóðin Jesú og þess vegna ákvað Jehóva að beina athyglinni að nýrri þjóð. Sú þjóð var mynduð af einstaklingum sem smurðir voru með anda Guðs. Páll kallaði þessa þjóð „Ísrael Guðs“. — Gal. 6:16.
Á öðrum stöðum í Grísku ritningunum er sýnt fram á að „Ísrael Guðs“ samanstendur af 144.000 andasmurðum kristnum einstaklingum. (Rómv. 8:15-17; Opinb. 7:4) Í þessum hópi eru ekki aðeins Gyðingar því að í Opinberunarbókinni 5:9,10 kemur fram að andasmurðir kristnir menn séu „af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð“. Þeir sem tilheyra Ísrael Guðs voru valdir sérstaklega til að vera ‚konungar og prestar‘ og þeir eiga að ríkja yfir jörðinni. Þó að Jehóva hafi ekki lengur litið á Ísrael sem útvalda þjóð sína gátu einstaklingar samt eignast gott samband við hann. Postularnir og fleiri frumkristnir menn eru dæmi um það. Að sjálfsögðu þurftu þeir, eins og allir aðrir menn, að vera endurleystir með blóði Jesú. — 1. Tím. 2:5, 6; Hebr. 2:9; 1. Pét. 1:17-19.
Þótt flestallir Gyðingar á fyrstu öld hafi glatað tækifærinu til að ríkja með Jesú kom það ekki í veg fyrir að ætlun Guðs næði fram að ganga. Ekkert getur komið í veg fyrir það vegna þess að Jehóva sagði fyrir munn Jesaja spámanns: „Eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum, það hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast og framkvæmir það sem ég fel því.“ — Jes. 55:11.
Þetta á meðal annars við um þá fyrirætlun Guðs að skipa 144.000 meðstjórnendur til að ríkja með syni sínum á himnum. Í Biblíunni kemur skýrt fram að hinir útvöldu yrðu nákvæmlega 144.000 talsins. — Opinb. 14:1-5.
Þegar Páll skrifaði að ‚allur Ísrael myndi frelsast‘ var hann þess vegna ekki að spá því að allir Gyðingar myndu snúast til kristni. Hann var öllu heldur að tala um að sú fyrirætlun Guðs að láta 144.000 andasmurða menn ríkja með Jesú Kristi á himni myndi ná fram að ganga. Á tilsettum tíma myndu allir hinir útvöldu — „allur Ísrael“ — verða hólpnir og ríkja síðan sem konungar og prestar í Messíasarríkinu. — Ef. 2:8.
[Mynd á blaðsíðu 28]
Hinir andasmurðu eru „af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð“.