Kafbátar og köfunartæki náttúrunnar
„Stolt okkar vegna nýjustu uppgötvana mannsins þarf að tempra með þeirri vitneskju að önnur dýr kunni að hafa notað þær frá örófi alda.“ — Scientific American, júlí 1960.
„Hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ (Rómverjabréfið 1:20) Svo sannarlega birtist stefnuföst viska Jehóva Guðs í flotbúnaði þessara sjávardýra.
● PERLUSNEKKJAN. Perlusnekkjan var búin að stunda köfun um þúsundir ára áður en maðurinn var orðinn til og gat látið sig dreyma um slíkt undur. Frá barnæsku býr hún sér til sitt eigið hús og bætir við stærri herbergjum eftir því sem hún stækkar. Hún hólfar af þau sem hún flytur úr þar til hin fagra, gormundna skel er orðin um 25 sentimetrar í þvermál. Stærstur hluti hennar er skreyttur skínandi, brúnum röndum líkt og sebrahestur, og það er nýjasta og stærsta herbergið sem opnast til hafs og dýrið býr í. Á ævinni hefur það skilið eftir 30 hólf eða fleiri sem það bjó í meðan það var yngra. Hvenær sem það flutti í nýrri og stærri híbýli skildi það hins vegar eftir ögn af sjálfu sér — örlitla pípu. Í hvert sinn sem perlusnekkjan lokaði af nýju hólfi skildi hún eftir örlítið gat í skilveggnum. Í gegnum þessi göt þræðir dýrið litla pípu sem nær um öll hólfin, allt út í það fyrsta og minnsta. Það eru þessi hólf og pípan, sem liggur í þau, sem gerir perlusnekkjuna að eins konar kafbát. Hólfin þjóna perlusnekkjunni sem flottankar. Þau eru fyllt gasi og með pípulögninni getur dýrið bætt í þau sjó eða dælt úr þeim. Það getur breytt hlutfalli gass og sjávar til að breyta flotvægi sínu. Þannig getur perlusnekkjan siglt nálægt yfirborði sjávar, niðri á 600 metra dýpi eða einhvers staðar þar á milli.
● TÍARMA SMOKKFISKURINN. Tíarma smokkfiskurinn á heimkynni í Miðjarðarhafi og austurhluta Atlantshafs. Stór smokkfiskur getur verið meira en hálfur metri á lengd, armarnir átta verið 25 til 30 cm í viðbót og löngu armarnir tveir teygt sig enn lengra til að grípa fæðuna. Til að komast úr stað notar hann langa ugga meðfram bolnum beggja megin, auk pípu sem hann notar sem spýtihreyfil. Líkt og perlusnekkjan er hann með köfunarbúnað til að breyta flotvægi sínu. Flotbúnaður smokkfisksins er hins vegar úr beini og ólíkur hólfum perlusnekkjunnar. Þetta bein, nefnt kolkrabbabein, liggur grunnt undir húðinni eftir endilöngu baki smokkfisksins. Beinið er mjúkt, kalkkennt með allt að hundrað þunnum skífum. Á milli þeirra eru stoðir og skilveggir sem hólfa bilið milli beinanna niður líkt og vaxkökur hunangsflugunnar. Það er þetta bein sem er flottankur smokkfisksins. Eftir því sem hann stækkar og þyngist er fleiri holrúmum bætt við til að auka flothæfnina. (Þetta kolkrabbabein er stundum haft í fuglabúrum.) Með svonefndu gegnflæði getur smokkfiskurinn dælt vatni út úr beininu eða hleypt því inn. Þar með breytir hann flotvægi sínu til að færa sig ofar eða neðar í sjónum. Í meginatriðum verka holrúmin í kolkrabbabeininu líkt og vatnstankarnir í kafbáti. Tíarma smokkfiskurinn heldur sig yfirleitt á 30 til 75 metra dýpi, en getur farið niður á 180 metra dýpi.
● DJÚPSJÁVARKOLKRABBINN. Þessi risakolkrabbi kann að vera tilefni fornra munnmæla um sæskrímsli sem hafi gómað skip með gripörmum sínum. Fundist hafa dýr með meira en þriggja metra löngum bol — allt upp í 19 metra löng með gripörmum! Hann hefur stærstu augu sem vitað er um hjá dýrum — um 35 cm í þvermál! Hann hreyfir sig skjótlega með þrýstivatnsafli. Hann getur, eins og perlusnekkjan og tíarma smokkfiskurinn, haldið sig á mismunandi dýpi í sjónum en notar til þess aðra aðferð. Efstu tveir þriðju hlutar bolsins eru eitt stórt holrúm, nefnt líkamshol eða lífhol. Það er fyllt vökva. Ef vökvinn er tæmdur úr lífholinu sekkur kolkrabbinn. Vökvinn gefur dýrinu sömu eðlisþyngd og sjór. Rannsóknir hafa sýnt að þessi vökvi hefur mjög hátt amoníakshlutfall, yfir 9 ml í lítra. Hvers vegna er það? Ólíkt spendýrum losar kolkrabbinn sig við köfnunarefnisúrgang sem ammoníak í stað þvagefnis. Þetta ammoníak flæðir úr blóðinu yfir í lífholsvökvann þar sem það breytist í ammoníumjónir. Þessar jónir eru léttar og gera vökvann léttari en sjó og gefa kolkrabbanum þar með flotvægi. Tímaritið Scientific American líkir þessu við köfunartæki Augustes Piccards sem fer djúpt niður í hafdjúpið. Hinn stóri tankur köfunartækisins er fylltur bensíni sem er léttara en sjór, og neðan í honum hangir skoðunarkúlan. Lífholsvökvi djúpsjávarkolkrabbans þjónar honum með svipuðum hætti sem flotbúnaður. En kolbrabbinn varð fyrri til því að skaparinn fann þetta upp fyrst.
● SUNDMAGAFISKURINN. Margir fiskar hafa gasfylltan sundmaga. Þegar fiskurinn dýpkar sundið þjappar sjávarþrýstingurinn gasinu saman svo að sundmaginn minnkar. Þegar fiskurinn hækkar sundið dregur úr sjávarþrýstingnum og gasið þenst út ásamt sundmaganum. Þegar sundmaginn þenst út eða dregst saman gerir fiskurinn það líka. Þegar hann dýpkar sundið þjappar þrýstingurinn fisknum sjálfum saman sem hefur í för með sér að meðaleðlisþyngd hans eykst og flotvægið minnkar. Þegar hann stígur eykst rúmmálið, meðaleðlisþyngdin minnkar og flotvægið eykst. Þannig heldur sundmaginn eðlisþyngd fisksins hinni sömu og sjávarins umhverfis þannig að fiskurinn getur haldið sig á hvaða dýpi sem verkast vill. En það er ekki alltaf svona einfalt. Á 2000 metra dýpi er þrýstingur sjávarins slíkur að sundmaginn er kominn niður í tvöhundraðasta hluta rúmmáls síns við yfirborð, gasið í honum er 200 sinnum þéttara og flotvægið nánast horfið. Samt sem áður getur fiskur legið hreyfingarlaus á tvöföldu því dýpi og gasið í sundmaganum þrýst á móti sjónum sem nemur 490 kílógrömmum á hvern fersentimetra! En hvernig heldur fiskurinn flotvægi sínu? Ofurhægt getur hann bætt gasi í sundmagann þegar hann færir sig á meira dýpi og tekið það út aftur þegar hann hækkar sundið. En hvernig getur fiskur bætt gasi í sundmagann á slíku dýpi sem áður greinir þegar þrýstingur sjávarins er orðinn gífurlegur? Enginn veit það. Loftdæla fisksins er mönnum enn ráðgáta.