Boðun hús úr húsi — af hverju mikilvæg núna?
„Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um að Jesús sé Kristur.“ — POST. 5:42.
1, 2. (a) Fyrir hvaða boðunaraðferð eru vottar Jehóva þekktir? (b) Um hvað verður fjallað í þessari grein?
TVEIR snyrtilega klæddir einstaklingar ganga að húsi og reyna að segja húsráðanda í stuttu máli frá ríki Guðs. Ef hann sýnir áhuga á boðskap Biblíunnar bjóða þeir honum ef til vill biblíutengd rit og ókeypis biblíunámskeið. Síðan ganga þeir sem leið liggur að næsta húsi. Þetta er kunnugleg sjón nánast hvar sem er í heiminum. Ef þú tekur þátt í þessu starfi hefurðu sennilega tekið eftir að margir vita að þú ert vottur Jehóva áður en þú segir nokkuð. Það má með sanni segja að boðun fagnaðarerindisins hús úr húsi sé næstum eins og „vörumerki“ okkar.
2 Jesús fól fylgjendum sínum að prédika og gera fólk að lærisveinum og við notum ýmsar aðferðir til þess. (Matt. 28:19, 20) Við boðum trúna á markaðstorgum, gatnamótum og víða annars staðar á almannafæri. (Post. 17:17) Við höfum samband við fólk símleiðis og bréfleiðis. Við tölum um boðskap Biblíunnar við þá sem við hittum í dagsins önn. Við erum meira að segja með vefsetur þar sem fólk hefur aðgang að biblíutengdum upplýsingum á meira en 300 tungumálum.a Allar þessar aðferðir skila góðum árangri. En víðast hvar er boðun hús úr húsi þó helsta aðferðin til að útbreiða fagnaðarerindið. Á hvaða grunni er þessi boðunaraðferð byggð? Af hverju nota þjónar Guðs á okkar tímum þessa aðferð jafn mikið og raun ber vitni? Og af hverju er hún mikilvæg núna?
Aðferð postulanna
3. Hvaða leiðbeiningar gaf Jesús postulunum um boðunarstarfið og hvernig áttu þeir að prédika samkvæmt því?
3 Sú aðferð að boða trúna hús úr húsi er byggð á biblíulegum grunni. Þegar Jesús sendi postulana út til að prédika sagði hann þeim: „Hvar sem þér komið í borg eða þorp, spyrjist þá fyrir um hver þar sé verðugur.“ Hvernig áttu þeir að spyrjast fyrir um hverjir væru verðugir? Jesús sagði þeim að fara á heimili fólks: „Þegar þér komið í hús þá árnið því góðs og sé það verðugt skal friður yðar koma yfir það.“ Áttu þeir að fara óboðnir til fólks? Jesús hélt áfram: „Taki einhver ekki við yður né hlýði á orð yðar, farið þá úr því húsi eða þeirri borg og hristið dustið af fótum yðar.“ (Matt. 10:11-14) Af þessum fyrirmælum er ljóst að þegar postularnir „fóru um þorpin [og] fluttu fagnaðarerindið“ áttu þeir að eiga frumkvæðið að því að heimsækja fólk. — Lúk. 9:6.
4. Hvar er talað um boðunarstarf hús úr húsi í Biblíunni?
4 Í Biblíunni kemur skýrt fram að postularnir hafi farið hús úr húsi til að boða trúna. Til dæmis segir um þá í Postulasögunni 5:42: „Létu þeir eigi af að kenna dag hvern í helgidóminum og í heimahúsum og boða fagnaðarerindið um að Jesús sé Kristur.“ Um 20 árum síðar minnti Páll postuli öldungana í söfnuðinum í Efesus á hvernig hann hefði starfað: „Ég dró ekkert undan sem ykkur mátti að gagni verða heldur boðaði ykkur það og kenndi opinberlega og í heimahúsum.“ Heimsótti Páll þessa öldunga áður en þeir tóku trú? Svo er að sjá vegna þess að hann brýndi meðal annars fyrir þeim að „snúa sér til Guðs og trúa á Drottin vorn Jesú“. (Post. 20:20, 21) Í bókinni Word Pictures in the New Testament segir um Postulasöguna 20:20: „Rétt er að veita athygli að þessi mikli prédikari boðaði trúna hús úr húsi.“
Engisprettuher nú á dögum
5. Hvernig er boðunarstarfinu lýst í spádómsbók Jóels?
5 Boðunin, sem fór fram á fyrstu öld, var aðeins forsmekkur af miklu meira starfi sem átti að vinna á okkar dögum. Jóel spámaður líkti boðunarstarfi andasmurðra kristinna manna við ógurlega skordýraplágu, þar á meðal engisprettuplágu. (Jóel 1:4) Engispretturnar sækja fram eins og óstöðvandi her, flæða inn í hús og éta allt sem verður á vegi þeirra. (Lestu Jóel 2:2, 7-9.) Þetta er mögnuð lýsing á því hve þjónar Guðs hafa boðað fagnaðarerindið rækilega á okkar tímum og hve þrautseigir þeir hafa verið. Andasmurðir kristnir menn og félagar þeirra af hópi ‚annarra sauða‘ hafa öðru fremur uppfyllt spádóminn, sem er fólginn í þessari lýsingu, með því að boða trúna hús úr húsi. (Jóh. 10:16) Hvernig kom það til að við, vottar Jehóva, tókum upp þessa boðunaraðferð postulanna?
6. Hvernig var hvatt til þess árið 1922 að boða trúna hús úr húsi en hvernig brugðust sumir við því?
6 Frá 1919 hefur verið lögð áhersla á að það sé skylda allra kristinna manna að boða trúna. Til dæmis birtist grein í Varðturninum 15. ágúst 1922 sem hét „Þjónusta er nauðsynleg“. Þar voru andasmurðir kristnir menn minntir á hve mikilvægt væri að „flytja hinn prentaða boðskap til fólksins, tala við það við dyrnar og segja því frá að himnaríkið sé í nánd“. Ítarlegar kynningar voru birtar í fréttabréfinu Bulletin (sem nú heitir Ríkisþjónusta okkar). En í fyrstu tóku þó ekki margir þátt í að prédika hús úr húsi. Sumir héldu að sér höndum. Þeir komu með ýmsar mótbárur en vandamálið var aðallega það að sumum fannst það ekki samboðið virðingu sinni að fara hús úr húsi og prédika. Eftir því sem lögð var meiri áhersla á boðunarstarfið hættu margir þeirra smám saman að vera í sambandi við söfnuð Jehóva.
7. Hvaða þörf sýndi sig á sjötta áratugnum?
7 Boðunarstarfið færðist í aukana á næstu áratugum. Það sýndi sig hins vegar að safnaðarmenn þurftu að fá meiri kennslu til að boða trúna hús úr húsi. Lítum á Bandaríkin sem dæmi. Upp úr 1950 var boðunarstarf 28 prósenta votta þar í landi eingöngu fólgið í því að bera út dreifimiða eða standa með blöðin á götum úti. Meira en 40 prósent boðbera tóku ekki reglulega þátt í boðunarstarfinu og oft liðu mánuðir milli þess að þeir boðuðu trúna. Hvað var hægt að gera til að hjálpa öllum vígðum kristnum mönnum að prédika hús úr húsi?
8, 9. Hvaða fræðsluáætlun var sett af stað árið 1953 og með hvaða árangri?
8 Á alþjóðamóti, sem haldið var í New York-borg árið 1953, var athyglinni beint sérstaklega að boðunarstarfinu hús úr húsi. Bróðir Nathan H. Knorr sagði að meginverkefni allra kristinna umsjónarmanna ætti að vera að hjálpa hverjum einasta votti að fara reglulega hús úr húsi og boða trúna. „Allir ættu að vera færir um að boða fagnaðarerindið hús úr húsi,“ sagði hann. Sett var af stað fræðsluáætlun út um allan heim til að ná þessu markmiði. Þeim sem voru ekki enn þá byrjaðir að prédika hús úr húsi var kennt hvernig ætti að hefja samræður við dyrnar, rökræða við fólk með hjálp Biblíunnar og svara spurningum þess.
9 Þessi fræðsluáætlun skilaði ótrúlegum árangri. Á innan við áratug fjölgaði boðberum í heiminum um 100 prósent, endurheimsóknum um 126 prósent og biblíunámskeiðum um 150 prósent. Núna boða næstum sjö milljónir boðbera fagnaðarerindið um allan heim. Þessi mikli vöxtur er eitt merki þess að Jehóva hafi blessað boðunarstarfið hús úr húsi. — Jes. 60:22.
Að merkja fólk til björgunar
10, 11. (a) Hvaða sýn sá Esekíel sem sagt er frá í 9. kafla bókar hans? (b) Hvernig rætist þessi sýn á okkar dögum?
10 Af sýn, sem Esekíel spámaður sá, er ljóst hve mikilvægt það er að fara hús úr húsi og boða fagnaðarerindið. Í sýninni sér Esekíel sex menn með vopn í hönd ásamt þeim sjöunda sem er línklæddur og með skriffæri við mjöðm sér. Sjöunda manninum er sagt að ganga „gegnum miðja borgina“ og skrifa „tákn á enni þeirra manna sem andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum sem framdar eru í borginni“. Þegar hann er búinn að því er mönnunum sex með eyðingarvopnin sagt að lífláta alla sem eru ekki með merki á enni sér. — Lestu Esekíel 9:1-6.
11 Við skiljum að í uppfyllingu þessa spádóms táknar ‚maðurinn í línklæðunum‘ þá sem eftir eru af hinum andasmurðu. Með því að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum setja þeir táknrænt merki á enni þeirra sem verða ‚aðrir sauðir‘ Jesú. (Jóh. 10:16) Merkið blasir við eins og það sé skrifað á enni þessara ‚sauða‘ og það sýnir að þeir eru vígðir og skírðir lærisveinar Jesú Krists og hafa íklæðst nýja persónuleikanum. (Ef. 4:20-24) Þetta auðmjúka fólk myndar eina hjörð ásamt hinum andasmurðu og aðstoðar þá við það mikilvæga verkefni að setja merki á enn fleiri. — Opinb. 22:17.
12. Hvernig kemur fram í sýn Esekíels að það sé afar áríðandi að halda áfram að leita að auðmjúku fólki?
12 Í sýn Esekíels kemur fram ein ástæða fyrir því að það er afar áríðandi að halda áfram að leita að þeim sem „andvarpa og kveina“. Mannslíf eru í húfi. Innan skamms munu himneskar aftökusveitir Jehóva, sem vopnuðu mennirnir sex tákna, eyða þeim sem hafa ekki hið táknræna merki. Páll postuli skrifaði um þennan yfirvofandi dóm og sagði að Drottinn Jesús komi „með máttugum englum sínum“ og ‚hegni þeim sem þekkja ekki Guð og þeim sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú‘. (2. Þess. 1:7, 8) Við tökum eftir að fólk er dæmt eftir því hvernig það bregst við fagnaðarerindinu. Þess vegna verður að halda áfram að boða boðskap Guðs af fullum krafti allt til enda. (Opinb. 14:6, 7) Það leggur öllum vígðum þjónum Jehóva alvarlega ábyrgð á herðar. — Lestu Esekíel 3:17-19.
13. (a) Til hvaða ábyrgðar fann Páll postuli og af hverju? (b) Til hvaða ábyrgðar finnur þú gagnvart fólki á starfssvæði þínu?
13 Páll postuli leit á það sem persónulega ábyrgð sína að segja öðrum frá fagnaðarerindinu. Hann skrifaði: „Ég er í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa. Því fýsir mig að boða fagnaðarerindið einnig ykkur í Róm.“ (Rómv. 1:14, 15) Páll var svo þakklátur fyrir þá miskunn sem honum hafði verið sýnd að hann fann sig knúinn til að reyna að hjálpa öðrum að njóta einnig góðs af óverðskuldaðri góðvild Guðs. (1. Tím. 1:12-16) Það var rétt eins og hann væri skuldugur hverjum einasta manni sem hann hitti, og skuldina var aðeins hægt að greiða með því að segja þessum manni frá fagnaðarerindinu. Finnst þér þú skuldugur fólkinu á starfssvæði þínu? — Lestu Postulasöguna 20:26, 27.
14. Hver er mikilvægasta ástæðan til að prédika opinberlega og hús úr húsi?
14 En þótt það sé mikilvægt að bjarga mannslífum höfum við margfalt mikilvægari ástæðu til að prédika hús úr húsi. Jehóva segir í spádóminum í Malakí 1:11: „Frá sólarupprás til sólarlags er nafn mitt mikilsvirt meðal þjóðanna, nafni mínu er alls staðar færð . . . hrein fórnargjöf. Því að nafn mitt er mikið meðal þjóðanna.“ Þessi spádómur uppfyllist þannig að vígðir þjónar Jehóva lofa nafn hans meðal almennings þegar þeir boða fagnaðarerindið út um alla jörðina. (Sálm. 109:30; Matt. 24:14) Mikilvægasta ástæðan til að prédika opinberlega og hús úr húsi er sú að „færa Guði lofgjörðarfórn“. — Hebr. 13:15.
Miklir atburðir fram undan
15. (a) Hvað áttu Ísraelsmenn að gera sjöunda daginn sem þeir gengu umhverfis Jeríkó? (b) Hvaða vísbendingu gefur það um boðunarstarfið?
15 Hvað er fram undan í boðunarstarfinu? Umsátrið um Jeríkó, sem sagt er frá í Jósúabók, gæti gefið okkur vísbendingu um það. Við munum að rétt áður en Jehóva eyddi Jeríkó áttu Ísraelsmenn að ganga fylktu liði kringum borgina einu sinni á dag í sex daga. En á sjöunda deginum áttu þeir að gera mun meira. Jehóva sagði Jósúa: „Sjöunda daginn skuluð þið fara sjö sinnum umhverfis borgina og þá eiga prestarnir að þeyta hafurshornin. Þegar hafurshornið kveður við . . . skal allt fólkið æpa mikið heróp. Þá mun borgarmúrinn hrynja til grunna.“ (Jós. 6:2-5) Hugsanlegt er að boðunarstarf okkar eigi eftir að aukast með svipuðum hætti. Þegar núverandi heimskerfi verður eytt höfum við eflaust séð nafn Guðs og ríki boðað meir en nokkru sinni fyrr í sögu mannkyns.
16, 17. (a) Hverju verður búið að áorka áður en ‚þrengingunni miklu‘ lýkur? (b) Um hvað verður fjallað í greininni á eftir?
16 Með tíð og tíma gæti boðskapurinn, sem við boðum, orðið eins og „mikið heróp“. Í Opinberunarbókinni er kröftugum dómsboðskap líkt við „stór högl, vættarþung“.b Og í Opinberunarbókinni 16:21 segir: „Sú plága var mikil.“ Við vitum ekki enn hvaða hlutverk boðunarstarfið hús úr húsi mun hafa þegar þessi mikli dómsboðskapur verður boðaður. Eitt er þó víst. Áður en ‚þrengingin mikla‘ er afstaðin hefur nafn Jehóva verið kunngert meir en nokkru sinni fyrr í sögu mannkyns. — Opinb. 7:14; Esek. 38:23.
17 Höldum áfram að boða fagnaðarerindið um ríkið af kappi meðan við bíðum þeirra stórviðburða sem eru fram undan. En hvaða erfiðleikar mæta okkur í boðunarstarfinu hús úr húsi og hvernig getum við sigrast á þeim? Fjallað verður um það í greininni á eftir.
[Neðanmáls]
a Vefsetur Votta Jehóva er www.watchtower.org.
b Ef átt er við gríska vætt hefur hvert hagl vegið um 20 kílógrömm.
Hvert er svarið?
• Hvaða grundvöllur er fyrir því í Biblíunni að boða trúna hús úr húsi?
• Hvernig hefur verið lögð áhersla á boðunarstarf hús úr húsi á okkar dögum?
• Af hverju hvílir sú skylda á vígðum þjónum Jehóva að prédika?
• Hvaða miklu atburðir eru fram undan?
[Myndir á blaðsíðu 4]
Finnur þú til þeirrar ábyrgðar að prédika fyrir öðrum, líkt og Páll postuli gerði?
[Mynd á blaðsíðu 5]
Bróðir Knorr árið 1953.