Láttu þér annt um boðunarstarfið
1. Hvernig líta margir í heiminum á boðunarstarfið?
1 Mörgum í heimi Satans finnst boðunarstarf okkar vera „heimska“. (1. Kor. 1:18-21) Ef við erum ekki varkár gæti þetta brenglaða viðhorf dregið úr okkur kjark og áhuga. (Orðskv. 24:10; Jes. 5:20) Hvers vegna ættum við að láta okkur annt um þann heiður að fá að vera þjónar Jehóva? – Jes. 43:10.
2. Hvers vegna er boðunarstarfið kallað,heilög þjónusta‘?
2 Heilög þjónusta: Páll postuli talaði um boðunarstarfið sem,heilaga þjónustu‘. (Rómv. 15:15, 16) En af hverju má segja það um boðunarstarfið? Þegar við tökum þátt í því erum við „samverkamenn Guðs“ og stuðlum þannig að því að helga nafn hans. (1. Kor. 3:9; 1. Pét. 1:15) Jehóva lítur á boðunarstarf okkar sem „lofgjörðarfórn“ og því má með sanni segja að starfið sé mikilvægur þáttur í tilbeiðslu okkar. – Hebr. 13:15.
3. Hvers vegna er það mikill heiður að fá að boða fagnaðarerindið?
3 Það er mikill heiður að fá að prédika fagnaðarerindið og tiltölulega fáum veitist sá heiður. Englarnir væru án efa fúsir til að prédika og þeir myndu gera það einstaklega vel. (1. Pét. 1:12) En Jehóva hefur valið ófullkomna menn, sem líkt er við,leirker‘, til að hljóta þennan stórkostlega heiður. – 2. Kor. 4:7.
4. Hvernig getum við sýnt að okkur er annt um boðunarstarfið?
4 Forgangsatriði: Þar sem við metum að verðleikum þennan heiður lítum við á boðunarstarfið sem eitt það mikilvægasta í lífi okkar. (Fil. 1:10) Þess vegna tökum við frá tíma í hverri viku til að taka þátt í því. Tónlistarmaður, sem kann að meta þann heiður að spila með nafntogaðri sinfóníuhljómsveit, undirbýr sig fyrir alla tónleika og ræktar hæfileika sína. Að sama skapi undirbúum við okkur áður en við förum í starfið svo að við getum farið „rétt með orð sannleikans“ og reynum stöðugt að bæta kennsluaðferðir okkar. – 2. Tím. 2:15; 4:2.
5. Hverjir kunna að meta boðunarstarf okkar?
5 Láttu ekki neikvætt viðhorf fólks draga úr þér kjarkinn. Mundu að það eru enn þá margir á svæðinu sem eru þakklátir fyrir heimsóknir okkar. En það er samt ekki velþóknun manna sem við sækjumst eftir. Álit Jehóva er það sem skiptir máli og hann metur mikils hversu iðin við erum. – Jes. 52:7.