Metum bræður okkar að verðleikum
„Berið hræsnislausa bróðurelsku í brjósti. Elskið . . . hver annan af heilu hjarta.“ — 1. PÉTURSBRÉF 1:22.
1. Hvað hefur sannfært marga um að vottar Jehóva iðki sanna kristni?
KÆRLEIKUR er aðalsmerki sannrar kristni. Jesús undirstrikaði það þegar hann neytti síðustu máltíðarinnar með postulum sínum. Hann sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:34, 35) Margir sannfærðust fyrst um að vottar Jehóva iðkuðu sanna kristni þegar þeir sóttu samkomu í Ríkissalnum eða mót. Þar sáu þeir kærleikann að verki og vissu af því að þeir væru meðal sannra lærisveina Krists.
2. Hvað sagði Páll postuli um þann kærleika sem er auðkenni kristninnar?
2 Það er okkur öllum gleðiefni að þetta kennimerki sannrar kristni skuli vera auðsætt meðal þjóna Jehóva nú á tímum. Eigi að síður gerum við okkur ljóst, líkt og frumkristnir menn, að við ættum að leggja okkur stöðugt fram við að sýna betur og betur að við metum bræður okkar að verðleikum. Páll skrifaði söfnuðinum í Þessaloníku: „Drottinn efli yður og auðgi að kærleika hvern til annars.“ (1. Þessaloníkubréf 3:12) Hvernig getum við látið kærleik okkar hver til annars vaxa?
Kærleikur og bróðurelska
3. Hvað sagði Pétur postuli vera nauðsynlegt fyrir kristna menn, auk þess að vera hreinlífir?
3 Í almennu bréfi til kristnu safnaðanna í Litlu-Asíu sagði Pétur postuli: „Þér hafið hreinsað yður með því að hlýða sannleikanum og berið hræsnislausa bróðurelsku [fíladelfía] í brjósti. Elskið [beygingarmynd af agapao] því hver annan af heilu hjarta.“ (1. Pétursbréf 1:22) Pétur bendir hér á að ekki sé nóg að hreinsa líf okkar. Hlýðni okkar við sannleikann, meðal annars við nýja boðorðið, ætti að birtast í hræsnislausri bróðurelsku og brennandi kærleika hver til annars.
4. Hvaða spurninga ættum við að spyrja og hvað sagði Jesús í því sambandi?
4 Höfum við tilhneigingu til að láta kærleika okkar og jákvætt mat á bræðrunum birtast aðeins gagnvart þeim sem okkur geðjast sértaklega vel að? Höfum við tilhneigingu til að vera örlátir við þá, loka augunum fyrir göllum þeirra en vera aftur á móti skjótir til að veita athygli ávirðingum og göllum annarra sem við höfum ekki sjálfkrafa neinar sérstakar mætur á? Jesús sagði: „Þótt þér elskið [beygingarmynd af agapao] þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama?“ — Matteus 5:46.
5. Hvaða greinarmun gerir biblíufræðingur á grísku orðunum sem merkja „kærleikur“ og „ástúð“?
5 Í bók sinni New Testament Words gefur prófessor William Barcley eftirfarandi athugasemd um grísku orðin fíladelfía og agape: „Þessi orð [filia sem merkir „ástúð, hlýhugur“ og skyld sögn, fileo] bera með sér unaðslega hlýju. Þau lýsa þeirri hugmynd að horfa á einhvern með hlýhug og kærleiksþeli. . . . Langsamlega algengustu orðin í Nýjatestamentinu fyrir kærleika eru nafnorðið agape og sögnin agapan. . . . Filia er orð sem lýsir kærleika, hlýju, ástúð og innileik. . . . Agape er tengt skynseminni: það er ekki aðeins tilfinning sem skýtur óbeðinni upp í hjörtum okkar; það er meginregla sem við lifum eftir að yfirlögðu ráði. Agape er bundin viljanum. Það lýsir árangri sem hefur náðst, sigri. Enginn hefur nokkurn tíma elskað óvini sína sjálfkrafa. Að elska óvini sína lýsir sigri yfir öllum náttúrlegum tilhneigingum og tilfinningum okkar. Agape . . . er í raun hæfileikinn til að elska það sem ekki er auðvelt að elska, að elska fólk sem okkur geðjast ekki að.“
6. (a) Hvaða gagnrýninna spurninga ættum við að spyrja okkur? (b) Hvers vegna getum við ekki, að sögn Péturs, látið bróðurást okkar takmarkast við þá sem okkur finnst sjálfkrafa vænt um?
6 Að vísu gerir Biblían ráð fyrir að við getum borið hlýrri tilfinningar til sumra bræðra en annarra, en notfærum við okkur það til að réttlæta tilfinningar okkar? (Jóhannes 19:26; 20:2) Hugsum við sem svo að við getum látið okkur nægja að sýna kuldalegan, skammtaðan „kærleika“ þeim sem við verðum að elska en geymt hina ósviknu bróðurelsku handa þeim sem við hænumst að? Ef svo er höfum við ekki skilið kjarnann í hvatningarorðum Péturs. Þá höfum við ekki hreinsað okkur nægilega með hlýðni við sannleikann, því að Pétur segir: „Núna, þegar þið hafið með hlýðni við sannleikann hreinsað sálir ykkar í slíkum mæli að þið finnið fyrir einlægri ástúð til kristinna bræðra ykkar, elskið þá hver annan af öllu hjarta og öllum mætti.“ — 1. Pétursbréf 1:22, The New English Bible.
‚Hræsnislaus bróðurelska‘
7, 8. Hver er uppruni orðsins sem þýddur er ‚hræsnislaus‘ og hvers vegna notar Pétur þetta orð?
7 Pétur postuli gengur enn lengra. Hann segir að bróðurelska okkar verði að vera hræsnislaus. Orðið, sem þýtt er ‚hræsnislaus,‘ kemur af neitandi mynd grísks orðs sem notað var um sviðsleikara er báru grímur við leik sinn. Með þeim hætti gátu þeir leikið nokkur hlutverk í sama leikverki. Orðið tók síðan á sig hina táknrænu merkingu hræsni, uppgerð, yfirskin.
8 Hvað finnst okkur innst inni um suma af bræðrum okkar og systrum í söfnuðinum? Þurfum við að kreista fram bros þegar við heilsum þeim á samkomum en lítum síðan sem fljótast undan eða flýtum okkur einhvert annað? Eða, það sem verra er, reynum við að forðast það að þurfa að heilsa þeim? Ef svo er, hvað er þá hægt að segja um ‚hlýðni okkar við sannleikann‘ sem á að vera búin að hreinsa sálir okkar að því marki að við berum í brjósti innilega bróðurelsku til kristinna bræðra okkar og systra? Með því að nota orðið ‚hræsnislaus‘ er Pétur að segja að bróðurelska okkar megi ekki vera yfirskinið eitt. Hún verður að vera ósvikin og koma frá hjartanu.
„Innilega af hjarta“
9, 10. Hvað átti Pétur við þegar hann sagði að við ættum að elska hver annan „innilega“?
9 Pétur bætir við: „Elskið hver annan innilega af hjarta.“ (Ísl. bi. 1912) Orðið „innilega“ er hér þýtt af grísku orði sem merkir bókstaflega „útteygður.“ Það felur í sér þá hugsun að ‚teygja sig‘ til að gera eitthvað umfram það sem venjulegt er. Við þurfum ekki að teygja hjartað neitt til að sýna kærleika þeim sem okkur geðjast sérstaklega vel að og endurgjalda kærleika okkar. En Pétur segir okkur að ‚teygja okkur‘ sérstaklega í því að sýna hver öðrum kærleika. Meðal kristinna manna er agape-kærleikurinn ekki aðeins byggður á rökhugsun og skynsemi eins og sá kærleikur sem okkur ber að sýna óvinum okkar. (Matteus 5:44) Þetta er innilegur kærleikur sem krefst ákveðinnar áreynslu. Til að sýna hann þurfum við að teygja hjörtu okkar og gera rúmgott í þeim til að þar sé rúm fyrir þá sem við löðumst ekki sjálfkrafa að.
10 Í ritverki sínu Linguistic Key to the New Testament fjallar Fritz Rienecker um orðið sem þýtt er „innilega“ í 1. Pétursbréfi 1:22. Hann segir: „Grunnmerking orðsins er einlægni, kostgæfni (að gera hlutina ekki léttilega . . . heldur eins og með áreynslu) (Hort).“ Áreynsla felur í sér fyrirhöfn og erfiði, að gera sitt ýtrasta. Að elska hver annan innilega af hjarta merkir því að leggja sig fram til hins ýtrasta við að bera bróðurelsku til allra kristinna félaga okkar. Eiga sumir af bræðrum okkar og systrum takmarkað rúm í hjörtum okkar? Ef svo er þurfum við að gefa þeim meira rúm.
Gefðu meira rúm
11, 12. (a) Hvað ráðlagði Páll postuli kristnum mönnum í Korintu? (b) Hvernig gaf Páll gott fordæmi í því efni?
11 Páli postula fannst greinilega þörf á því í söfnuðinum í Korintu. Hann skrifaði kristnum mönnum þar: „Frjálslega tölum vér við yður, Korintumenn. Rúmt er um yður í hjarta voru. Ekki er þröngt um yður hjá oss, en í hjörtum yðar er þröngt. En svo að sama komi á móti, — ég tala eins og við börn mín —,þá látið þér líka vera rúmgott hjá yður.“ — 2. Korintubréf 6:11-13.
12 Hvernig getum við ‚rýmkað‘ í hjörtum okkar þannig að rúm sé fyrir alla bræður okkar og systur? Páll gaf gott fordæmi í því. Hann gaf greinilega gaum að því besta í fari bræðra sinna og minntist þeirra, ekki fyrir mistök þeirra, heldur fyrir góða eiginleika. Lokakafli bréfs hans til kristinna manna í Róm sýnir það glögglega. Við skulum athuga saman 16. kafla Rómverjabréfsins til að kanna hvernig hann endurspeglar jákvæð viðhorf Páls til bræðra sinna og systra.
Jákvætt mat
13. Hvernig lét Páll í ljós að hann kynni að meta Föbe og hvers vegna?
13 Páll skrifaði bréf sitt til Rómverja frá Korintu í kringum árið 56, meðan hann var á þriðju trúboðsferð sinni. Greinilegt er að hann treysti kristinni konu að nafni Föbe fyrir handriti bréfsins, en hún tilheyrði söfnuðinum í Kenkreu þar í grenndinni og var á leið til Rómar. (Lestu vers 1 og 2.) Veittu því athygli hve hlýlega hann mælir með henni við bræðurna í Róm. Með einum eða öðrum hætti hafði hún reynst bjargvættur margra kristinna manna, meðal annars Páls, ef til vill á ferðum þeirra um hina fjölförnu hafnarborg Kenkreu. Föbe var ófullkominn syndari eins og allir aðrir menn og hafði vafalaust sína veikleika. En í stað þess að vara söfnuðinn í Róm við veikleikum hennar bauð Páll honum að ‚veita henni viðtöku í Drottni eins og heilögum hæfir.‘ Þetta eru góð og jákvæð viðhorf!
14. Hvaða vingjarnleg orð lét Páll falla um Prisku og Akvílas?
14 Frá 3. til 15. versi sendir Páll kveðjur liðlega 20 kristnum mönnum sem hann nafngreinir, auk fjölmargra annarra einstaklinga eða hópa. (Lestu vers 3 og 4.) Tekur þú eftir bróðurelskunni sem Páll bar til Prisku (eða Priskillu; sjá Postulasöguna 18:2) og Akvílasar? Þau hjónin höfðu stofnað sér í hættu vegna Páls. Núna sendi hann þessum samverkamönnum þakkir og kveðjur fyrir hönd safnaðanna af þjóðunum. Þessar hjartanlegu kveðjur hafa áreiðanlega glatt og uppörvað Akvílas og Priskillu.
15. Hvernig sýndi Páll stórhug og auðmýkt þegar hann heilsaði Andróníkusi og Júníasi?
15 Páll varð kostgæfur kristinn maður sennilega einu eða tveim árum eftir dauða Krists. Þegar hann skrifaði bréfið til Rómverjanna hafði Kristur notað hann um langt árabil sem einn af helstu postulum þjóðanna. (Postulasagan 9:15; Rómverjabréfið 1:1; 11:13) Taktu samt eftir göfuglyndi hans og auðmýkt. (Lestu vers 7.) Hann sendi kveðju Andróníkusi og Júníasi og sagði þá „skara fram úr meðal postulanna [hinna sendu]“ og viðurkenni að þeir hefðu þjónað Kristi lengur en hann. Þarna vottar ekki fyrir smásmygli eða öfund.
16. (a) Hvaða ástúðlegum orðum fór Páll um aðra kristna menn í Róm? (b) Hvers vegna megum við vera viss um að þessar kveðjur hafa verið dæmi um ‚hræsnislausa bróðurelsku‘?
16 Við vitum lítið eða ekkert um Epænetus, Amplíatus og Stakkýs. (Lestu vers 5, 8 og 9.) En af því einu hvernig Páll heilsaði þeim öllum þrem má sjá að þeir hljóta að hafa verið trúfastir menn. Svo vænt þótti Páli um þá að hann kallaði sérhvern þeirra ‚sinn elskaða.‘ Páll fer einnig kærleiksorðum um Apelles og Rúfus sem hann kallar annan ‚hæfan í þjónustu Krists‘ og hinn ‚hinn útvalda í Drottni.‘ (Lestu vers 10 og 13.) Það var mikið hrós sem þessir kristnu menn fengu. Og þegar við þekkjum hreinskilni Páls vitum við með vissu að þetta var ekki sagt aðeins í kurteisisskyni. (Samanber 2. Korintubréf 10:18.) Páll gleymdi ekki heldur að senda móður Rúfusar kveðju.
17. Hvernig lét Páll í ljós að hann mæti systur sínar mikils?
17 Það minnir okkur á að Páll kunni einnig að meta kristnar systur sínar. Fyrir utan móður Rúfusar nafngreindi hann sex aðrar kristnar konur. Við höfum þegar lesið hve hlýlega hann talaði um Föbe og Prisku en taktu eftir með hve innilegri bróðurást hann heilsaði Maríu, Trýfænu, Trýfósu og Persis. (Lestu vers 6 og 12.) Við skynjum hvernig hann fann til með þessum ötulu systrum sem höfðu „lagt hart á sig“ fyrir bræður sína. Það er uppbyggjandi að sjá hve innilega Páll mat bræður sína og systur að verðleikum þrátt fyrir ófullkomleika þeirra!
Vertu ekki tortrygginn á hvatir bræðra þinna
18. Hvernig getum við reynt að líkja eftir Páli en hvað kann að vera nauðsynlegt?
18 Hví ekki að líkja eftir Páli og reyna að finna eitthvað jákvætt til að segja um hvern einasta bróður og systur í söfnuðinum? Sumum munt þú ekki eiga erfitt með að hrósa en hjá öðrum þarft þú ef til vill að leita örlítið. Hví ekki að eyða einhverjum tíma með þeim til að kynnast þeim betur? Þá munt þú kynnast góðum eiginleikum í fari þeirra, og hver veit nema þeir læri að meta þig meir en þeir áður gerðu.
19. Hvers vegna ættum við ekki að tortryggja hvatir bræðra okkar og hvernig gefur Jehóva okkur gott fordæmi í að sýna kærleika?
19 Við ættum aldrei að tortryggja hvatir bræðra okkar. Þeir elska allir Jehóva; að öðrum kosti hefðu þeir ekki vígt honum líf sitt. Hvað er það sem kemur í veg fyrir að þeir fari aftur út í heiminn og kæruleysislega lífshætti hans? Það er kærleikur þeirra til Jehóva, réttlætis hans og ríkis í höndum Krists. (Matteus 6:33) En allir þurfa þeir með einhverjum hætti að heyja harða baráttu til að varðveita trúfesti. Jehóva elskar þá fyrir það. (Orðskviðirnir 27:11) Hann viðurkennir þá fyrir þjóna sína þrátt fyrir galla þeirra og mistök. Hvernig erum við þá þess umkomin að neita þeim um bróðurelsku okkar? — Rómverjabréfið 12:9, 10; 14:4.
20. (a) Hverja eina eigum við að tortryggja samkvæmt bréfi Páls til Rómverja og forystu hverra getum við óhikað fylgt í því efni? (b) Hvernig ættum við að líta á alla bræður okkar?
20 Þeir einu, sem Páll varar okkur við og hvetur til að tortryggja, eru þeir „er valda sundurþykkju og tæla frá þeirri kenningu, sem þér hafið numið.“ Páll segir okkur að hafa augun opin fyrir slíkum einstaklingum og forðast þá. (Rómverjabréfið 16:17) Öldungar safnaðarins hafa reynt að hjálpa þeim. (Júdasarbréfið 22, 23) Við getum því treyst að öldungarnir upplýsi okkur um það ef forðast þarf einhverja í söfnuðinum. Við ættum því að líta svo á alla bræður okkar að þeir verðskuldi hræsnislausa bróðurelsku og við ættum að læra að elska þá innilega af hjarta.
21, 22. (a) Hvað er framundan? (b) Hvaða aðstæður geta komið upp og hvað er því áríðandi? (c) Hvað verður skoðað í greininni á eftir?
21 Satan, illir andar hans og heimskerfi eru á móti okkur. Harmagedónstríðið er framundan og brýst út þegar Góg af Magóglandi gerir árás. (Esekíel 38. og 39. kafli) Þá munum við þarfnast bræðra okkar meir en nokkru sinni fyrr. Kannski stöndum við skyndilega í þeim sporum að þarfnast hjálpar þeirra sem við mátum ekki sérstaklega að verðleikum. Kannski eru það þeir sem þarnast sárlega okkar hjálpar. Núna er rétti tíminn til að gera rúmt í hjörtum okkar og læra að meta bræður okkar enn meir en fyrr.
22 Jákvætt mat á bræðrum okkar felur auðvitað í sér tilhlýðilega virðingu fyrir öldungum safnaðarins. Öldungarnir þurfa sjálfir að setja gott fordæmi í þessu efni með því að meta að verðleikum bæði bræður sína og samöldunga. Það er viðfangsefni greinarinnar á eftir.
Upprifjun
◻ Hvert er kennimerki sannrar kristni?
◻ Hvers vegna er nauðsynlegt að sýna bæði kærleika og bróðurelsku?
◻ Hvernig getum við elskað hvert annað „innilega“?
◻ Hvernig lét Páll í ljós í 16. kafla Rómverjabréfsins að hann kynni að meta bræður sína og systur?
◻ Hvers vegna ættum við ekki að tortryggja hvatir bræðra okkar?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Reyndu að finna elskuverða eiginleika í fari þeirra sem þér þykir ekki sjálfkrafa vænt um.