-
Lærðu kristið siðferði og kenndu öðrumVarðturninn – 2002 | 1. ágúst
-
-
6, 7. (a) Hvers vegna verðum við að byrja á því að fræða sjálf okkur? (b) Í hvaða skilningi höfðu Gyðingar fyrstu aldar brugðist sem kennarar?
6 Hvers vegna þurfum við að byrja á því að fræða sjálf okkur? Vegna þess að við getum ekki kennt öðrum almennilega nema við höfum frætt sjálf okkur fyrst. Páll lagði áherslu á þetta í athyglisverðri ritningargrein sem hafði umtalsvert gildi fyrir Gyðinga á þeim tíma, ekki síður en fyrir kristna menn nú á dögum. Páll spurði: „Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Prédikar þú, að ekki skuli stela, og stelur þó? Segir þú, að ekki skuli drýgja hór, og drýgir þó hór? Hefur þú andstyggð á skurðgoðum og rænir þó helgidóma? Hrósar þú þér af lögmáli, og óvirðir þó Guð með því að brjóta lögmálið?“ — Rómverjabréfið 2:21-23.
7 Páll vakti athygli á tveim syndum sem teknar voru sérstaklega fyrir í boðorðunum tíu: Þú skalt ekki stela og þú skalt ekki drýgja hór. (2. Mósebók 20:14, 15) Gyðingar á dögum Páls voru gjarnan stoltir af því að hafa lögmál Guðs. Þeir ‚voru fræddir í lögmálinu og treystu sér til að vera leiðtogar blindra, ljós þeirra sem voru í myrkri og fræðarar óvita.‘ (Rómverjabréfið 2:17-20) En sumir voru hræsnarar vegna þess að þeir stálu og drýgðu hór í laumi. Þannig óvirtu þeir bæði lögmálið og himneskan höfund þess. Þeir voru allsendis óhæfir til að kenna öðrum því að þeir höfðu ekki einu sinni frætt sjálfa sig.
8. Hvernig kunna sumir Gyðingar á dögum Páls að hafa ‚rænt helgidóma‘?
8 Páll talaði um að ræna helgidóma. Gerðu sumir Gyðingar það bókstaflega? Hvað hafði Páll í huga? Í ljósi þess hve takmarkaðar upplýsingar eru gefnar í þessari ritningargrein getum við ekkert sagt um það með vissu hvernig sumir Gyðingar ‚rændu helgidóma.‘ Borgarritarinn í Efesus hafði einhvern tíma sagt að félagar Páls hefðu ekki „framið helgispjöll“ sem bendir til þess að sumir, í það minnsta, hafi talið mega ásaka Gyðinga um það. (Postulasagan 19:29-37) Seldu þeir eða notuðu sjálfir dýra muni sem sigurvegarar eða trúarofstækismenn höfðu rænt úr heiðnum helgidómum? Samkvæmt lögmáli Guðs átti að eyðileggja silfur og gull af skurðgoðum en ekki taka það sér til einkanota. (5. Mósebók 7:25)a Hugsanlegt er að Páll sé að vísa til Gyðinga sem hunsuðu boð Guðs og notuðu muni sem komnir voru úr heiðnum helgidómum eða högnuðust á þeim.
9. Hvað kann að hafa jafnast á við að ræna musterið í Jerúsalem?
9 Hins vegar greinir Jósefus frá hneyksli sem fjórir Gyðingar ollu í Róm. Forsprakkinn var lögmálskennari nokkur. Fjórmenningarnir töldu rómverska konu, sem tekið hafði gyðingatrú, á að afhenda sér gull og önnur verðmæti sem framlag til musterisins í Jerúsalem. Eftir að þeir höfðu komist yfir auðinn notuðu þeir hann sjálfir, sem kalla má að ræna honum frá musterinu.b Aðrir rændu musteri Guðs í vissum skilningi með því að færa fram gallaðar fórnir og standa fyrir ágjarnri kaupmennsku á musterissvæðinu. Þannig breyttu þeir musterinu í „ræningjabæli.“ — Matteus 21:12, 13; Malakí 1:12-14; 3:8, 9.
-
-
Lærðu kristið siðferði og kenndu öðrumVarðturninn – 2002 | 1. ágúst
-
-
a Jósefus lýsir Gyðingum þannig að þeir hafi ekki gert sig seka um helgispjöll en ítrekaði lög Guðs með þessum orðum: „Enginn lastmæli guðum sem aðrar borgir dýrka, né ræni erlenda helgidóma né taki fjársjóð sem helgaður hefur verið nafni nokkurs guðs.“ (Leturbreyting okkar.) — Jewish Antiquities, 4. bók, 8. kafli, 10. grein.
-